Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 4/2012: Dómur frá 29. mars 2012

Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Iceland Express ehf. gegn Alþýðusambandi Íslands vegna Flugfreyjufélags Íslands.

Árið 2012, fimmtudaginn 29. mars, er í Félagsdómi í málinu nr. 4/2012.

Samtök atvinnulífsins

f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar

vegna Iceland Express ehf.

gegn

Alþýðusambandi Íslands

vegna Flugfreyjufélags Íslands

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

 

Mál þetta var dómtekið 27. mars 2012.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Gylfi Knudsen, Ásmundur Helgason, Valgeir Pálsson og Bryndís Hlöðversdóttir.

 

Stefnandi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Iceland Express ehf., kt. 7004-97-2919, Ármúla 7, Reykjavík.

 

Stefndi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, vegna Flugfreyjufélags Íslands, kt. 550169-5099, Borgartúni 22, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að verkfall það, sem Flugfreyjufélag Íslands boðaði með bréfi, dagsettu 22. mars 2012, vegna starfsmanna Iceland Express ehf., og koma á til framkvæmda 30. mars 2012, verði dæmt ólögmætt.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að milli Iceland Express ehf. og Flugfreyjufélags Íslands sé í gildi kjarasamningur um kaup og kjör flugliða hjá fyrrnefndu félagi. Í janúar sl. hafi stefndi, f.h. Flugfreyjufélags Íslands, höfðað mál fyrir Félagsdómi á hendur stefnanda, f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Iceland Express ehf. Í stefnu, sem gefin hafi verið út 9. janúar 2012, hafi stefnandi krafist þess í fyrri lið kröfugerðar að viðurkennt yrði að Iceland Express ehf. hefði brotið gegn ákvæðum gr. 01.12 í 1. kafla framangreinds kjarasamnings um forgangsrétt félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands til vinnu í flugvélum á vegum Iceland Express ehf. Í seinni kröfulið krafðist stefnandi þess að viðurkennt yrði að með því að hafa erlenda flugfreyju/flugþjón hefðu ákvæði 01-6, 01-7, 01-9 og 01-10 í 1. kafla kjarasamningsins verið brotin. Þá krafðist stefndi málskostnaðar. Undir rekstri málsins hefði stefnandi fallið frá síðari kröfuliðnum. Stefndi hafi krafist sýknu af kröfum stefnanda.

Félagsdómur hafi kveðið upp dóm í málinu 1. mars 2012 og fallist á kröfu stefnda með svohljóðandi dómsorði:

Viðurkennt er að stefndi, Iceland Express, braut gegn ákvæðum gr. 01-12 í kafla kjarasamnings aðila um forgangsrétt félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands til starfa um borð í flugvélum félagsins, með því að ákveða að einungis þrír félagsmenn stefnanda, Flugfreyjufélags Íslands, verði starfandi í hverju flugi á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2012 í flugvélum sem stefndi hefur tekið á leigu frá flugrekstraraðilanum CSA Holidays af gerðinni Airbus 320. 

Fulltrúar aðila hafi hist á fundi í húsnæði Samtaka atvinnulífsins 6. mars 2012.  Daginn eftir, 7. mars 2012, hafi lögmaður stefnda sent stefnanda bréf þar sem segi:

Í ofangreindum dómi kemur fram sú niðurstaða að með því að hafa erlendar flugfreyjur/flugliða við störf í vélum á vegum Iceland Express, hafi félagið brotið gegn forgangsréttarákvæði kjarasamnings á milli aðila. Þetta er óumdeild niðurstaða dómsins. Eins og lýst var á fundinum í gær, er umbjóðandi minn tilbúinn til að gera ekki frekari kröfur en þær á hendur Iceland Express, til að fullnægja dóminum, að starfandi verði 4 flugfreyjur/flugliðar sem er lágmarksfjöldi samkvæmt reglum, þ.e. 4 íslenskar flugfreyjur/flugliðar sem eru félagsmenn umbjóðanda míns, í hverju flugi. Umbjóðandi minn mun ekki gera athugasemdir við það þó að einnig verði við störf í hverju flugi, „auka“-flugfreyja/flugliði umfram lágmarksfjölda (4 flugfreyjur/flugliðar) og að sá „auka“ einstaklingur verði frá hinu erlenda flugfélagi og ekki félagsmaður umbjóðanda míns.

Umbjóðandi minn gefur umbjóðanda þínum frest til fimmtudagsins 15. mars n.k. til að fallast á tillögur umbjóðanda míns sbr. hér að ofan. Ef ekki er fallist á ofangreindar tillögur, mun umbjóðandi minn áskilja sér rétt til að framfylgja dómi Félagsdóms frá 1. mars sl. eins og lög heimila.

Iceland Express ehf. hafi svarað með bréfi lögmanns félagsins, dagsettu 15. mars 2012, þar sem dómsorð Félagsdóms sé tekið orðrétt upp. Í framhaldi segi þar um dómsorðið:

Dómurinn hefur því skorið úr um að starfandi flugliðar um borð í ofangreindum flugvélum skuli vera félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands. Með vísan til þess lýsir Iceland Express því hér með yfir að frá og með dómsuppkvaðningu mun verða skilað fullu félagsgjaldi vegna þeirra fjögurra flugliða sem eru í hverju flugi í flugvélum sem Iceland Express hefur tekið á leigu frá flugrekstraraðilanum CSA Holidays af gerðinni Airbus 320, samkvæmt núverandi fyrirkomulagi þar á. Er þar meðtalin starfandi fyrsta freyja hverju sinni, þ.e. sú sem uppfyllir skilyrði flugrekstrarhandbókar flugrekstraraðilans, eins og útskýrt hefur verið. Þannig telur umbjóðandi minn að dómi Félagsdóms sé fullnægt.

Í tilvísuðu bréfi þín fh. FFÍ er því lýst að FFÍ sætti sig við að starfandi verði fjórar flugfreyjur/flugliðar og að FFÍ muni ekki gera athugasemdir þó að í hverju flugi verði við störf „auka“ flugfreyja/flugliði og að sá „auka einstaklingur“ verði frá hinu erlenda flugfélagi. Það er skoðun Iceland Express að það þjóni engum hagsmunum og sé ekki skynsamleg ráðstöfun að ofmanna vélarnar, enda er ekki hægt að lesa þá niðurstöðu úr dómi Félagsdóms. Auk þess er ekki hægt að fallast á að niðurstaða Félagsdóms feli í sér að störf erlendra flugfreyja/flugliða um borð í vélum á vegum Iceland Express sé samningsbrot enda óheimilt að mismuna starfsmönnum á grundvelli þjóðernis, sbr. 4. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið.

Iceland Express ehf. óskar eftir að FFÍ taki tillit til ofanritaðs og væntir góðs samstarfs.

Formaður Flugfreyjufélags Íslands hafi brugðist illa við þessari lausn og lýst því yfir á félagsfundi 15. mars sl. að hún myndi ekki samþykkja inngöngu erlendra flugfreyja í félagið á þann hátt sem Iceland Express ehf. hefði væntingar um. Hafi Flugfreyjufélag Íslands ekki svarað framangreindu bréfi Iceland Express ehf. með formlegum hætti. Stéttarfélagið hafi hins vegar boðað til félagsfundar sem haldinn hafi verið þennan sama dag. Í fundarboði segi um fundarefnið: 

Rædd verður niðurstaða Félagsdóms og hugsanlegar aðgerðir hlíti Iceland Express ekki dómsorði.

Á fundinum hafi verið ákveðið að boða til leynilegrar atkvæðagreiðslu 20.-21. mars um verkfall. Hinn 22. mars sl. hafi borist tilkynning Flugfreyjufélags Íslands um boðun verkfalls, sem koma ætti til framkvæmda kl. 00:01 föstudaginn 30. mars 2012 og vera ótímabundið. Komi fram í bréfinu að 81 félagsmaður hafi verið á kjörskrá en 47 kosið. Atkvæði hafi fallið þannig að 33 hefðu sagt já, 13 hefðu sagt nei og eitt atkvæði hefði verið ógilt og hefði verkfallsboðunin því verið samþykkt. Segi síðan að samkvæmt þessu boði Flugfreyjufélag Íslands ótímabundið verkfall allra félagsmanna í félaginu hjá Iceland Express ehf. frá og með kl. 00:01 föstudaginn 30. mars 2012. Enn fremur komi fram í bréfinu að verkfallsboðunin sé tilkynnt Iceland Express ehf., Samtökum atvinnulífsins og Ríkissáttasemjara.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að verkfall það, sem Flugfreyjufélag Íslands hefur boðað og ætlað er að koma til framkvæmda 30. mars 2012 sé ólögmætt. Í gildi sé kjarasamningur milli málsaðila og þeir séu bundnir friðarskyldu. Friðarskyldan sé meginregla í vinnurétti sem grundvallist á því meginsjónarmiði að samninga beri að halda. Sé þjóðhagslega brýnt að kjarasamningar séu haldnir allan gildistíma sinn. Frá meginreglunni sé undantekning, sem eigi við í því tilviki þegar kveðinn hafi verið upp dómur í Félagsdómi. Sé þá heimilt að knýja samningsaðila til efnda með vinnustöðvun. Stefnandi byggir á því að þessi þrönga undantekning geti ekki átt við um hið boðaða verkfall Flugfreyjufélags Íslands.

Í þessu sambandi sé grundvallaratriði að dómsorð Félagsdóms í máli nr. 1/2012, sem hér sé um að ræða, hafi verið viðurkenningardómur þess efnis að stefndi hefði brotið gegn kjarasamningsákvæði með tiltekinni ákvörðun, er lotið hafi að því að einungis þrír félagsmenn stefnanda yrðu starfandi í hverju flugi á vegum Iceland Express ehf. Félagið hafi hins vegar leitast við að bregðast við dómsorðinu á þann hátt sem hann telur rétt, eins og áður sé lýst. Stefnandi virðist vera annarrar skoðunar um það hvað felist í dómsorðinu og um það sé óleystur réttarágreiningur, sem heyri undir lögsögu Félagsdóms.

Stefnandi byggir á að viðurkenningardómur, eins og hér um ræðir, sé ekki lögmætur grundvöllur vinnustöðvunar en í dómsorðinu sé ekki kveðið á um tiltekna skyldu stefnanda. Séu því engar forsendur til að knýja fram efndir á skyldu samkvæmt dómsorðinu. Lögð sé áhersla á að hvers kyns undantekningar frá friðarskyldu beri að túlka þröngt og það sé einnig í samræmi við meginreglur réttarfars. Viðurkenningardómar eru almennt ekki aðfararhæfir, andstætt dómum, þar sem kveðið er á um skyldu málsaðila til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert.

Stefnandi byggir á að túlkun stefnda á dómi Félagsdóms í máli nr. 1/2012 sé röng og að markmiðið með hinni boðuðu vinnustöðvun sé að knýja stefnda til einhvers annars en dómurinn felur í sér. Forgangsréttarákvæði kjarasamnings Iceland Express ehf. og Flugfreyjufélags Íslands sé fullnægt með félagsaðild svonefndrar fyrstu freyju um borð í vélum félagsins í Flugfreyjufélagi Íslands en Iceland Express ehf. hefur tilkynnt að öll félagsgjöld verði greidd. Með því að félagsgjaldi verði skilað, verði þær félagsmenn í Flugfreyjufélaginu og félagið beri fullar skyldur gagnvart þeim, hvort sem þær teljist fullgildir félagsmenn eða aukafélagar samkvæmt 5. gr. laga Flugfreyjufélags Íslands. Umræddar fyrstu freyjur séu tékkneskar og séu þær jafnframt meðlimir í stéttarfélagi flugfreyja í Tékklandi og hafi þar ríkisfang og/eða búseturétt. Ekkert sé því til fyrirstöðu hjá Flugfreyjufélagi Íslands að gera þær að aukafélögum á grundvelli 5. gr. laga stéttarfélagsins, enda sé þar beinlínis gert ráð fyrir inngöngu aukafélaga við þessar aðstæður. Aukafélagar greiði þá félagsgjald eins og aðrir félagsmenn og Flugfreyjufélagið beri sömu skyldur gagnvart þeim og gagnvart aðalfélögum. Með þessu sé dómi Félagsdóms fullnægt. Sé Flugfreyjufélagi Íslands skylt, samkvæmt 2. gr. laga nr. 80/1938, að veita erlendum flugfreyjum inngöngu í félagið. Stefnandi vísar einnig til félagafrelsisákvæðis 74. gr. stjórnarskrárinnar og réttar manna til að standa utan stéttarfélaga samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Það væri andstætt þessum reglum ef aukafélagar nytu ekki forgangsréttar til jafns við aðalfélaga.  

Stefnandi áréttar að umræddar fyrstu freyjur um borð í vélum félagsins, samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, séu starfsmenn tékkneska flugrekandans, HCA. Forsenda starfa þeirra um borð sé sú, að þær uppfylli skilyrði flugrekstrarhandbókar flugrekandans um að hafa flogið að lágmarki 500 flugtíma með flugrekandanum. Engin starfandi flugfreyja hjá Iceland Express ehf. uppfylli þetta skilyrði. Eins og útlistað hafi verið, hafi flugrekstrarhandbókin að geyma lagalega bindandi fyrirmæli um flugreksturinn, sem flugrekandanum sé óheimilt að víkja frá, samkvæmt tékkneskum lögum sem hann sé bundinn af.   

Til enn frekari stuðnings þessari málsástæðu bendir stefnandi á að það væri andstætt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, ef Flugfreyjufélag Íslands neitaði erlendum flugfreyjum um aukaaðild að félaginu á grundvelli þjóðernis. Jafnframt væri brotið gegn meginreglum samningsins um evrópska efnahagssvæðið, sem hafi lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 2/1993,  ef flugfreyjur með tékkneskt ríkisfang og/eða búseturétt hefðu ekki sama rétt og Íslendingar til inngöngu í Flugfreyjufélag Íslands, hvort sem væri sem aðalfélagar eða aukafélagar. Vísist til 4. gr. samningsins þar sem fram komi að hvers kyns mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á gildissviði samningsins, nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans. Einnig vísist til ákvæða laga nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt 1. gr. laganna skuli ákvæði reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan evrópska efnahagssvæðisins nr. 1612/68/EBE, sbr. reglugerðir nr. 312/76/EBE og nr. 2434/92/EBE og tilskipun 2004/38/EB, eins og henni hafi verið breytt með ákvæðum samningsins um evrópskt efnahagssvæði, hafa lagagildi hér á landi. Í reglugerðinni komi fram meginreglan um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins. 

Stefnandi bendir á að hugmynd, sem fram komi í bréfi lögmanns Flugfreyjufélags Íslands frá 6. mars 2012, um að starfandi fyrsta freyja verði einhvers konar „aukamanneskja“ um borð í vélum Iceland Express ehf., sé órökrétt. Í fyrsta lagi fullnægi slíkt fyrirkomulag ekki forgangsréttarákvæðinu, sem um hafi verið deilt, og í öðru lagi sé ekki kveðið á um slíkt fyrirkomulag í áðurgreindu dómsorði Félagsdóms í málinu nr. 1/2012. Í þriðja lagi fái það ekki staðist að forgangsréttarákvæði í kjarasamningi leiði til þess að atvinnurekanda sé skylt að ráða til sín nýjan starfsmann, sem sannanlega sé engin þörf fyrir og umfram það sem kveðið sé á um í mönnunarreglum kjarasamnings og flugreglum.

Stefnandi byggir enn fremur á því að forsendur hafi breyst frá því að framangreindur dómur Félagsdóms var kveðinn upp að því leyti að Flugfreyjufélag Íslands hafi í verki viðurkennt að ekki verði hjá því komist að í hverju flugi verði starfandi um borð fyrsta freyja sem hinn erlendi flugrekandi útvegi vegna ófrávíkjanlegrar kröfu þar um í flugrekstrarhandbók hans. Við þá aðstöðu sé stefnanda ómögulegt, auk þess sem það væri andstætt gildandi lögum, að efna forgangsréttarákvæðið á þann hátt sem stefndi geri kröfu um. Stefnandi byggir á að vinnustöðvun við þessar aðstæður sé óheimil eðli máls samkvæmt.

Stefnandi bendir á að Flugfreyjufélag Íslands hafi ekki fylgt þeirri málsmeðferð, sem mælt sé fyrir um í 14. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, áður en boðað var til verkfallsins. Í 3. mgr. 15. gr. laganna segi að það sé „skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara“. Engar raunverulegar viðræðutilraunir málsaðala hafi átt sér stað. Flugfreyjufélag Íslands hafi ekki svarað bréfi Iceland Express ehf. frá 15. mars sl., það hafi ekki lagt fram formlegar kröfur og enn hafi ekki verið óskað eftir milligöngu sáttasemjara. Þá sé óljóst hvert markmiðið sé með hinu boðaða verkfalli. Ekki hafi verið gætt meðalhófs og Iceland Express ehf. hafi ekki verið veitt svigrúm til þess að bregðast við dóminum. Verkfallsboðunin sé því andstæð tilvitnuðum lagafyrirmælum og þar með ekki tímabær. Hver ofangreindra málsástæðna fyrir sig dugi til þess að fallast beri á kröfu stefnanda.

Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 80/1936 sé heimilt á miðju samningstímabili að hefja vinnustöðvun til fullnægingar úrskurðum og dómum Félagsdóms. Í ákvæðinu felist því undantekning frá þeirri meginreglu um friðarskyldu, að ekki megi hefja vinnustöðvun út af atriðum sem Félagsdómur eigi úrskurðarvald um.

Í framangreindu lagaákvæði felist heimild til handa stéttarfélögum til að boða verkföll ef atvinnurekandi, sem dæmdur hefur verið í Félagsdómi, fer ekki eftir dóminum. Sá dómur, sem byggt sé á við boðun slíks verkfalls, þurfi að vera skýr og fjalla beint og skýlaust um skyldu þess aðila, sem vinnustöðvunin beinist gegn. Í dómi Félagsdóms í máli nr. 1/2012 segi að Iceland Express ehf. sé skylt að hafa starfandi fjóra flugliða um borð í hverju flugi, sem séu félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands. Stefndi byggi á því að þessi niðurstaða Félagsdóms sé nægilega skýr til að unnt sé að framfylgja henni með verkfallsboðun.

Stefndi vísar til þess að áður en komið hafi til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun til að framfylgja niðurstöðu Félagsdóms, hafi málsaðilar hist á fundum. Fundir hafi verið haldnir 6. og 23. mars sl. án árangurs. Þá hafi gengið bréf milli aðila 7. og 15. mars sl. Ekki hafi verið leitað til Ríkissáttasemjara, enda engin ákvæði í lögum nr. 80/1938 sem bendi til þess að það hefði átt að gera áður en boðað var til verkfallsins. Til grundvallar hafi legið skýr dómur Félagsdóms um brot stefnanda á forgangsréttarákvæði kjarasamnings.

Í 15. gr. laga nr. 80/1938 sé fjallað um ferli samningaviðræðna og aðdraganda þess að unnt sé að boða til verkfalls þegar ekki hefur tekist að ná saman kjarasamningi. Þar sé gert ráð fyrir samningaferli og aðkomu ríkissáttasemjara. Í 17. gr. laganna sé hins vegar sérstakt ákvæði þar sem fram komi heimild til verkfallsboðunar til að framfylgja dómi Félagsdóms. Í slíkum tilvikum sé enginn ágreiningur til staðar sem þurfi að fylgja eftir með samningaferli á þann hátt sem tiltekið sé í 15. gr. laganna.

Í bréfi sínu til stefnda hinn 15. mars sl. hafi stefnandi staðfest að hann skilji dóm Félagsdóms í máli nr. 1/2012 þannig að kveðið sé á um að allir starfandi flugliðar um borð í flugvélum á vegum félagsins skuli vera félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands. Með vísan til þess hafi stefnandi lýst því yfir að fyrirtækið hygðist skila félagsgjöldum af hinum erlendu flugliðum, sem starfi um borð í flugvélum á hans vegum, til Flugfreyjufélags Íslands. Með því hafi stefnandi talið að hann hafi fullnægt dóminum. Engar umsóknir eða greiðslur hafi hins vegar borist Flugfreyjufélagi Íslands vegna slíkra starfandi flugliða.

Stefndi tekur fram að það sé afar mikilvægt fyrir Flugfreyjufélag Íslands að niðurstaða Félagsdóms í máli nr. 1/2012 nái fram að ganga. Þar sem stefnandi hafi lýst því yfir að hann ætli ekki að fara eftir niðurstöðunni, eigi stefndi ekki önnur ráð en að boða til verkfalls til að framfylgjan dóminum með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 80/1938. Þegar tekin hafi verið ákvörðun um það, hvort boða ætti til verkfallsins, hafi verið farið eftir ákvæðum 2. og 3. gr. 15. gr. laganna þar sem segi að fara skuli fram leynileg atkvæðagreiðsla með þátttöku að minnsta kosti fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna. Hafi verið miðað við þennan tiltekna fjölda félagsmanna sem séu starfsmenn Iceland Express ehf. Verkfallsboðunin sé tímabær en miklu skipti fyrir Flugfreyjufélag Íslands að Iceland Express ehf. fari eftir dóminum strax, enda ekkert sem komi í veg fyrir að fyrirtækinu sé það mögulegt. Stefndi sé með þessu að verja störf félagsmanna sinna og slík rök liggi einmitt að baki forgangsréttarákvæðum kjarasamnings.

Málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til ákvæða 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ágreiningsefni málsins lýtur að lögmæti ótímabundins verkfalls sem stefndi, Flugfreyjufélag Íslands, boðaði stefnanda, Iceland Express ehf., með bréfi, dagsettu 22. mars 2012, og koma á til framkvæmda kl. 00:01 föstudaginn 30. mars 2012. Krefst stefnandi þess að verkfall þetta verði dæmt ólögmætt. Af hálfu stefnda er krafist sýknu af þeirri kröfu.

Samkvæmt því, sem fram kemur í málinu, eru tildrög þess ágreiningur málsaðila um það hvort dómi Félagsdóms í máli þeirra, sem kveðinn var upp hinn 1. mars 2012 í málinu nr. 1/2012, hafi verið fullnægt með réttum hætti af hálfu stefnanda sem var stefndi í hinu fyrra máli. Með umræddum dómi var tekin til greina dómkrafa stefnanda í því máli, sem er stefndi í því máli sem er hér til meðferðar, svo sem dómkrafan var orðuð samkvæmt breyttri kröfugerð. Er dómsorðið svohljóðandi:

 

„Viðurkennt er að stefndi, Iceland Express, braut gegn ákvæðum gr. 01-12 í 1. kafla kjarasamnings aðila um forgangsrétt félagsmanna í Flugfreyjufélagi Íslands til starfa um borð í flugvélum félagsins, með því að ákveða að einungis þrír félagsmenna stefnanda, Flugfreyjufélags Íslands, verði starfandi í hverju flugi á tímabilinu 1. janúar-30. júní 2012 í flugvélum sem stefndi hefur tekið á leigu frá flugrekstraraðilanum CSA Holidays af gerðinni Airbus 320.“

 

Fram kemur í málinu að í kjölfar greinds dóms Félagsdóms frá 1. mars 2012 fóru fram viðræður milli málsaðila hinn 6. mars 2012 um viðbrögð við niðurstöðu dómsins. Í framhaldi af fundi þessum urðu bréfaskipti milli málsaðila, sbr. bréf stefnda, dagsett 7. mars 2012, og svarbréf stefnanda, dagsett 15. mars 2012, sem liggja fyrir í málinu. Í bréfi stefnda var lögð áhersla á að fyrir lægi sú óumdeilda niðurstaða dómsins frá 1. mars 2012 að stefnandi hefði brotið gegn forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila. Til fullnægingar dóminum yrðu ekki gerðar frekari kröfur á hendur stefnanda en að starfandi yrðu fjórar flugfreyjur/flugliðar, þ.e. íslenskar flugfreyjur/flugliðar, sem væru félagsmenn í stefnda, í hverju flugi. Ekki yrði amast við því þótt einnig væri aukaflugfreyja/flugliði umfram lágmarksfjölda í hverju flugi. Í svarbréfi stefnanda var ekki fallist á þessa úrlausn en tekið fram „að frá og með dómsuppkvaðningu mun verða skilað fullu félagsgjaldi vegna þeirra fjögurra flugliða sem eru í hverju flugi í flugvélum sem Iceland Express hefur tekið á leigu frá flugrekstraraðilanum CSA Holidays af gerðinni Airbus 320, samkvæmt núverandi fyrirkomulagi þar á. Er þar meðtalin starfandi fyrsta flugfreyja hverju sinni, þ.e. sú sem uppfyllir skilyrði flugrekstrarhandbókar flugrekstraraðilans, eins og útskýrt hefur verið“. Kemur fram í bréfinu að þannig telji stefnandi dómi Félagsdóms fullnægt.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 80/1938 er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum. Vegna svonefndrar friðarskyldu, sem leidd verður af 14. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og 1. tölul. 17. gr. laganna og dómaframkvæmd, verður vinnustöðvun ekki beitt á gildistíma kjarasamnings nema í sérstökum undantekningartilvikum. Slík undantekning felst í niðurlagi 1. tölul. 17. gr. laga nr. 80/1938, en samkvæmt þessum tölulið lagagreinarinnar er óheimilt að hefja vinnustöðvun ef ágreiningur er einungis um atriði sem Félagsdómur á úrskurðarvald um nema til fullnægingar úrskurðum dómsins. Milli málsaðila í máli þessu er í gildi kjarasamningur, sem að stofni til er frá 14. apríl 2005, og reynir því á þessa undantekningu í málinu, enda byggist hið boðaða verkfall á henni. Hafi verið kveðinn upp dómur í Félagsdómi er samkvæmt framansögðu heimilt að knýja samningsaðila til efnda hvort sem kjarasamningur er í gildi eða ekki. Hins vegar verður að gera þá almennu kröfu að dómur, sem þannig á að knýja fram með verkfalli, fjalli beint og skýlaust um skyldu þess sem vinnustöðvun á að beinast gegn, sbr. Fd. 1963, V:127.

Eins og fram er komið var með dómi Félagsdóms frá 1. mars 2012 tekin til greina viðurkenningarkrafa Flugfreyjufélags Íslands, eins og hún var fram sett samkvæmt breyttri kröfugerð, sbr. tilvitnað dómsorð hér að framan. Var viðurkennt að stefndi í því máli, Iceland Express ehf., hefði brotið gegn ákvæðum gr. 01-12 í 1. kafla kjarasamnings aðila um forgangsrétt félagsmanna stéttarfélagsins til starfa um borð í flugvélum félagsins „með því að ákveða að einungis þrír félagsmenn stefnanda, Flugfreyjufélags Íslands, verði starfandi í hverju flugi á tímabilinu 1. janúar – 30. júní 2012 í flugvélum sem stefndi hefur tekið á leigu frá flugrekstraraðilanum CSA Holidays af gerðinni Airbus 320“. Samkvæmt þessu fer ekki á milli mála að með greindum dómi Félagsdóms var einungis skorið úr um það að Iceland Express ehf., stefnda í umræddu máli, bæri að fullmanna umræddar flugvélar á greindum tíma flugfreyjum er væru félagsmenn stéttarfélagsins. Um annað var ekki dæmt, þar á meðal hvorki áskilnað um þjóðerni, rétt til félagsaðildar að Flugfreyjufélagi Íslands né annað sem gat orðið þrætuefni á milli málsaðila.

Af gögnum málsins verður ráðið að í kjölfar dómsins hafi komið fram skilningur á dóminum af hálfu stefnda um atriði sem ekki voru til úrlausnar í dóminum, sbr. bréf stéttarfélagsins, dagsett 7. mars 2012, þar sem fram kemur að samkvæmt niðurstöðu dómsins hafi stefnandi brotið gegn forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila „með því að hafa erlendar flugfreyjur/flugliða við störf í vélum á vegum Iceland Express...“, sbr. og þá áréttingu í bréfinu að í hverju flugi verði starfandi fjórar „íslenskar“ flugfreyjur, auk þess sem viðruð er tiltekin lausn á ágreiningsefni málsaðila með „aukaflugfreyjur“ sem nánar er lýst. Í svarbréfi stefnanda, dagsettu 15. mars 2012, var hugmyndum stefnda hafnað, en í þess stað sett fram lausn sem í meginatriðum virðist byggjast á einhvers konar félagsaðild hinna tékknesku flugfreyja að Flugfreyjufélagi Íslands.

Samkvæmt framansögðu hefur af hálfu stefnda komið fram túlkun á niðurstöðu umrædds dóms sem á sér ekki beina stoð í dómsorði, auk þess sem réttur til félagsaðildar að stefnda hefur dregist inn í málið sem engri úrlausn sætti með dóminum, en það atriði kann að hafa þýðingu í deilu málsaðila um efndir dómsins og vera sjálfstætt úrlausnarefni.

Við þær aðstæður, sem hér hefur verið lýst, þar sem berlega kemur fram að ákvörðun um vinnustöðvun hefur um veigamikil atriði verið byggð á skilningi á umræddum dómi, sem ekki á sér stoð í skýlausu og ótvíræðu dómsorði, auk þess sem ljóst er að uppi er ágreiningur um hvort dóminum verði fullnægt með félagsaðild að stefnda eða möguleikum á henni, verður ekki talið, í ljósi þeirra krafna sem gera verður til vinnustöðvunar á þeim grundvelli sem hér um ræðir, sbr. 1. tölul. 17. gr. laga nr. 80/1938, sem að framan er lýst, að stefndi hafi fullnægt lögmæltum skilyrðum til vinnustöðvunar.

Samkvæmt framansögðu ber að fallast á það með stefnanda að hið boðaða verkfall sé ólögmætt. Er þá ekki þörf á að fjalla frekar um aðrar málsástæður stefnanda fyrir dómkröfu sinni. Er krafa stefnanda því tekin til greina, eins og í dómsorði segir. Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

 

D ó m s o r ð:

Verkfall stefnda, Flugfreyjufélags Íslands, sem boðað var með bréfi, dagsettu 22. mars 2012, vegna starfsmanna Iceland Express ehf., og koma á til framkvæmda 30. mars 2012, er ólögmætt.

Stefndi, Alþýðusamband Íslands vegna Flugfreyjufélags Íslands, greiði stefnanda, Samtökum atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Iceland Express ehf., 250.000 krónur í málskostnað.

 

 

Arnfríður Einarsdóttir

            Ásmundur Helgason

Gylfi Knudsen

Bryndís Hlöðversdóttir

Valgeir Pálsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira