Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 133/2019 - Úrskurður

Umönnunarbætur

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 133/2019

Miðvikudaginn 3. júlí 2019

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 1. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. mars 2019 þar sem umönnun sonar kæranda, B, var felld undir 3. flokk, 35% greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 6. mars 2019 sótti kærandi um umönnunargreiðslur með syni sínum. Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. mars 2019, var umönnun sonar kæranda felld undir 3. flokk, 35% greiðslur, frá X 2019 til X.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. apríl 2019. Með bréfi, dags. 3. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. apríl 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að umönnun vegna sonar hennar verði ákvörðuð frá X 2019.

Í kæru segir að kærandi vilji kæra niðurstöðu Tryggingastofnunar um að greiða henni umönnunargreiðslur aðeins frá X 2019 þar sem hún hafi sótt um frá og með X 2019. Henni finnist rétt að hún fái greitt fyrir X þar sem greiningar barnsins hafi vissulega verið til staðar fyrir X 2019. Kærandi hafi verið með þessar bætur áður og sé í raun aðeins að sækja þær aftur vegna flutnings aftur til landsins sem hafi verið X 2019. Tryggingastofnun ríkisins geti rukkað um allt til baka en geti ekki greitt það sem beri að greiða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími umönnunarmats vegna B.

Gerð hafi verið X umönnunarmöt vegna drengsins. Fyrst hafi verið mat, dags. X, samkvæmt 5. flokki. Með mati, dags. X, í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 6/2016, hafi verið ákvarðað afturvirkt umönnunarmat samkvæmt 3. flokki, 35%. Gildistíminn hafi verið frá X til X. Kærandi hafi flutt til C með syni sínum þann X og þá hafi gildandi umönnunarmat verið stytt til X. Kærandi hafi sótt um umönnunarmat þann X 2019. Í X umönnunarmatinu, dags. X 2019, hafi verið samþykkt umönnunarmat samkvæmt 3. flokki, 35% greiðslur, fyrir tímabilið X 2019 til X. Það umönnunarmat sé nú í gildi og hafi sá úrskurður verið kærður.

 

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum.

 

Í 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð sé kveðið á um það að bætur vegna félagslegrar aðstoðar greiðist eingöngu þeim sem eigi lögheimili hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar séu með stoð í þeim.

 

Samkvæmt 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. breytingalög nr. 88/2015, skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. breytingalög nr. 88/2015, skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Ákvæði 53. gr. laga um almannatryggingar gildi því einnig um upphafstíma bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, þ.e. réttur til umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð reiknist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi

 

Í þessu máli sé ekki deilt um hvort skilyrði umönnunarmats séu uppfyllt. Kærandi sé ósátt við upphafstíma umönnunarmatsins, þ.e. frá X 2019. Kærandi telji sig eiga rétt á umönnunargreiðslum frá X 2019. Ekki sé deilt um það að kærandi hafi verið búsett ásamt syni sínum í C frá X til X 2019. Það sé meðal annars í samræmi við skráningu í Þjóðskrá. Einnig sé vísað til úrskurðar nr. 419/2018 þar sem sami kærandi hafi kært stöðvun greiðslna vegna flutnings úr landi.

 

Eins og áður segi þá falli umönnunargreiðslur undir lög um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Samkvæmt 13. gr. og 14. gr. þeirra laga, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 88/2015 um breytingar á lögum um almannatryggingar, eigi félagslegar bætur einnig að fylgja 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sem segi meðal annars:„réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi.“

 

Réttur til umönnunargreiðslna og umönnunarmats myndist því frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að öll skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt. Samkvæmt 2. mgr. 1.gr. laga nr. 100/2007 um félagslega aðstoð, greiðist bætur eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi. Réttur á greiðslunum skuli því miðast við fyrsta dag næsta mánaðar frá þeim tíma sem kærandi flutti til Íslands, þ.e. frá og með X 2019.

 

Þessi túlkun Tryggingastofnunar sé í samræmi við skýran vilja löggjafans eins og hér hafi verið rakið. Hún sé einnig í samræmi við niðurstöður úrskurðarnefndar [velferðarmála] í málum sem snúi að félagslegri aðstoð frá gildistöku laga nr. 88/2015, eins og sjá megi meðal annars í úrskurðum nr. 409/2016 og 216/2017.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar upphafstíma umönnunargreiðslna með syni kæranda. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. mars 2019 var umönnun sonar kæranda metin í 3. flokk, 35% greiðslur, frá X 2019 til X. Í kæru er þess krafist að upphafstími umönnunargreiðslna verði X 2019.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. nefndrar 4. gr. segir að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sem er í VI. kafla laganna, er meðal annars fjallað um upphaf bótaréttar. Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar segir:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í loks þess mánaðar er bótarétti lýkur.“

Í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð segir að einnig skuli beita V. og VI. laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Ákvæði 53. gr. laga um almannatryggingar eiga  því einnig við um upphafstíma greiðslna á grundvelli laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð greiðast bætur félagslegrar aðstoðar eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Óumdeilt er í málinu að kærandi var búsett ásamt syni sínum í C frá X til X 2019. Samkvæmt skráningu í Þjóðskrá er skráð að sonur kæranda flutti úr landi til C X og flutti til landsins X 2019. Eins og áður hefur komið fram greiðast bætur félagslegrar aðstoðar eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð. Ljóst er að kærandi hafði ekki lögheimili hér á landi fyrr en hún flutti aftur til landsins frá C X 2019. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð, skulu umönnunargreiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Kærandi uppfyllti skilyrði til umönnunargreiðslna X 2019 og reiknast bætur því frá X 2019.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma umönnunargreiðslna vegna sonar kæranda.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um upphafstíma umönnunargreiðslna vegna sonar hennar, B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira