Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 113/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 113/2017

Föstudaginn 9. júní 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 14. mars 2017 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar til barnaverndarnefndarinnar. Kærandi er móðir drengs sem fæddur er 2013.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Barnavernd B bárust tilkynningar undir nafnleynd 7. mars og 18. október 2016. Efni beggja tilkynninga var hliðstætt, þ.e. að grunur væri um að kærandi væri í neyslu og seljandi fíkniefna. Í báðum tilvikum ákvað Barnavernd B að hefja könnun málsins samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Kærandi var boðuð í viðtöl vegna beggja kannana, annars vegar 27. apríl 2016 og hins vegar 17. janúar 2017. Í kjölfar beggja viðtala fór kærandi í fíkniefnapróf samdægurs sem bæði reyndust neikvæð. Í fyrra tilvikinu hafði barnavernd meðal annars samband við lögreglu og leikskóla drengsins. Lögregla upplýsti að engin afskipti hefðu verið af kæranda vegna sölu á fíkniefnum og að leikskóli hefði engar áhyggjur af drengnum. Báðum málunum var lokað þar sem ekki var talin þörf á frekari afskiptum.

Með beiðni kæranda til Barnaverndarnefndar B var þess óskað að nafnleynd yrði aflétt. Beiðni hennar var hafnað. Í bréfi Barnaverndar B frá 27. febrúar 2017 kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnavernd B ber að virða ósk tilkynnenda um nafnleynd nema sérstakar ástæður mæli gegn því sbr. 19. gr. barnaverndarlaga. Tilgangur nafnleyndar tilkynnenda er að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Jafnframt vísar löggjafinn til þess sjónarmiðs að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hag barna þó full þörf væri á afskiptum hennar.

Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé þér mikilvægt að vita hver tilkynnandi er verður ekki talið að fyrir hendi séu aðstæður til þess að aflétta megi nafnleynd, sérstaklega með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir barnaverndarstarf almennt. Þá er í þessu tilviki ekki grunur um að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningu[m] þannig að ástæða sé til þess að aflétta nafnleynd og ákæra með vísan til refsiákvæða barnaverndarlaga.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að fá að vita nöfn vegna tilkynninga sem borist hafi barnavernd vegna hennar en tilkynningarnar eigi ekki við rök að styðjast.

Í kæru kemur fram að tilkynnt hafi verið um hluti sem kærandi taki mjög persónulega og eigi ekki við hana. Henni finnist um að ræða meiðyrði og hrikalegar ásakanir, bæði í garð hennar og sonar hennar.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B 24. mars 2017 kemur fram að 7. mars 2016 hafi borist tilkynning undir nafnleynd um að kærandi væri talin í neyslu og seljandi fíkniefna. Kærandi hafi komið í viðtal vegna tilkynningarinnar 27. apríl 2016 þar sem hún hafi neitað neyslu vímuefna og verið undrandi á efni tilkynningar. Hafi kærandi talið barnsföður sinn tilkynnanda en þau hefðu átt í deilum. Kærandi kvaðst eiga sögu um neyslu en hafa verið edrú í lengri tíma. Kærandi hafi farið í fíkniefnaprufu sem reyndist neikvæð. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að ekki væru áhyggjur af drengnum á leikskóla og lögregla hefði engin afskipti haft af kæranda vegna sölu á fíkniefnum. Tilkynningarefni hafi því ekki verið staðfest og málinu lokað hjá barnavernd.

Önnur tilkynning undir nafnleynd hafi borist 18. október 2016. Tilkynningarefni hafi verið hið sama og í fyrri tilkynningu. Þar sem þessi tilkynning hafi komið frá öðrum aðila og tilkynningarefni verið hið sama hafi verið ákveðið að opna málið aftur. Kærandi hafi komið til viðtals 17. janúar 2017. Kvað hún ekkert hæft í efni tilkynningar og var ósátt við að tekið væri mark á nafnlausri tilkynningu sama efnis og fyrr þar sem þegar hefði verið staðfest að hún neytti ekki vímuefna. Kærandi kvaðst viss um að barnsfaðir sinn væri tilkynnandinn en samskipti þeirra á milli væru slæm. Kærandi hafi farið í vímuefnapróf samdægurs og hafi niðurstaða verið neikvæð. Hafi ekki verið talin þörf fyrir frekari afskipti barnaverndar og málinu lokað 14. febrúar 2017.

Kærandi hafi óskað eftir því að nafnleynd yrði létt af tilkynningunum. Því hafi verið hafnað með bréfi 27. febrúar 2017 með vísan til 19. gr. bvl. Í bréfinu hafi verið rakin sjónarmið Barnaverndarnefndar B en þau ættu stoð í frumvarpi til barnaverndarlaga. Um væri að ræða sjónarmið um að til þess að unnt væri að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi yrði að vera hægt að tryggja nafnleynd tilkynnanda. Nauðsynlegt væri að upplýsingar um aðbúnað barna bærust greiðlega til barnaverndarnefnda og að almenningi væri gert kleift að rækja skyldu sína samkvæmt 16. gr. bvl. Þegar tilkynningar um aðbúnað barns kæmu til barnaverndarnefnda væri talið réttlætanlegt að einstaklingshagsmunir vikju fyrir þeim ríku almannahagsmunum sem fyrir hendi væru.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt í tilefni af tveimur tilkynningum sem bárust nefndinni. Fyrir liggur að tilkynningarnar komu sitt frá hvorum aðilanum.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. Reglurnar tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á þeim að hefja ekki könnun máls nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl. Könnun í máli því, sem hér er til meðferðar hjá Barnavernd B, hófst í kjölfar tilkynningar er barst 7. mars 2016 um fíkniefnaneyslu og -sölu kæranda sem er móðir drengs sem fæddur er 2013. Aflað var upplýsinga um aðbúnað drengsins og viðtal tekið við kæranda. Einnig tók kærandi fíkniefnapróf sem reyndist neikvætt. Þá var rætt við lögreglu. Önnur tilkynning sama efnis barst 18. október 2016. Í tilefni af henni kom kærandi á fund barnaverndar og tók fíkniefnapróf á heilsugæslustöð sama dag. Fíkniefnaprófið reyndist neikvætt.

Með vísan til þess, sem fram hefur komið í málinu og hér að framan er rakið, verður ekki fullyrt að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum tilkynningum. Verður nafnleynd þar af leiðandi ekki aflétt með vísan til þess. Þá liggur heldur ekki fyrir í málinu að aðrar sérstakar ástæður séu fyrir því að aflétta beri nafnleyndinni. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B frá 27. febrúar 2017 um að synja kröfu kæranda, A, um að aflétta nafnleynd af tveimur tilkynningum um meinta fíkniefnaneyslu hennar og -sölu, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira