Hoppa yfir valmynd

Nr. 148/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 148/2019

Miðvikudaginn 3. júlí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. febrúar 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 13. desember 2018. Með bréfi, dags. 16. janúar 2019, var kæranda bent á að ef hún vildi að tekið væri tillit til bakvanda hennar, þyrfti að leggja fram læknisvottorð þar sem fram kæmu upplýsingar um þann vanda. Með tölvupósti 19. febrúar 2019 greindi kærandi frá því að hún óskaði þess að ekki væri tekið tillit til bakverkja hennar þar sem þeir væru ekki að há henni það mikið. Með örorkumati, dags. X 2019, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X 2019 til X. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar með tölvupósti 4. mars 2019 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 6. mars 2019. Tryggingastofnun veitti breyttan rökstuðning með bréfi, dags. 9. apríl 2019, þar sem ekki var tekið með í örorkumatið líkamleg færniskerðing kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. apríl 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. maí 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru er greint frá því að vegna veikinda kæranda hafi hún aldrei unnið lengur en X í senn og að hún geti ekki unnið 100% starf. Matslisti sem Tryggingastofnun notist við til að meta ástand hennar sé ófullnægjandi. Kærandi sé að mestu veik andlega en þessi staðlaði listi sé alls ekki gerður fyrir fólk með andleg veikindi. Kærandi hafi verið mjög veik andlega […] sé búin að reyna að bjarga sér sjálf í gegnum árin þar sem hún vilji ekki lifa á örorkubótum. Kærandi geti ekki meira, sjúkdómurinn hamli henni virkilega mikið í daglegu lífi og hún sé orðin ansi þreytt á þessu streði.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögunum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 13. desember 2018, og með örorkumati, dags. 26. febrúar 2019, hafi verið samþykktur örorkustyrkur.

Við örorkumat lífeyristrygginga hafi legið fyrir umsókn, dags. 13. desember 2019, læknisvottorð B, dags. X 2018, svör kæranda við spurningalista, móttekin X 2018, og skýrsla skoðunarlæknis, dags. X 2019.

Í læknisvottorði, dags. X 2018, komi fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu aðrar tvíhverfar lyndisraskanir, persónuröskun, ótilgreind, attention deficit disorder without hyperactivity, almenn kvíðaröskun og ríkjandi þráhyggjuathafnir (áráttusiðir).

Í svörum við spurningalista hafi kærandi lýst heilsuvanda sínum þannig að hún þjáist af miklum geðrænum veikindum, til dæmis miklum kvíða, tilfinningalegum óstöðugleika, hvatvísi og almennu hömluleysi auk stoðverkja, einkum í baki. Í líkamlega hluta staðalsins hafi kærandi lýst færniskerðingu í liðunum að beygja sig eða krjúpa, að standa, að ganga á jafnsléttu, að ganga upp og niður stiga, að teygja sig eftir hlutum og að lyfta og bera. Í andlega hlutanum segi: „Ég hef átt við mikil geðræn vandamál að stríða  og er í reglulegum viðtölum hjá Geðlækni. Ég er tilfinningalega óstöðug og þjáist af miklum kvíða, endist illa í vinnu, vegna kvíða og félagsfælni. Ég er mjög hvatvís, með ranghugmyndir og hömlulaus. Ég flakka stöðugt á milli [tilfinninga], þar að segja ég verð ofsaglöð, mjög reið, sár, þunglynd ofl. hef enga stjórn á [tilfinningum].“

Í skýrslu skoðunarlæknis hafi kærandi í líkamlega hluta staðalsins fengið þrjú stig fyrir að sitja á stól og þrjú stig fyrir að standa eða samtals sex stig. Í andlega hluta staðalsins hafi hún fengið tvö stig fyrir að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra, tvö stig fyrir að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að hún lagði niður starf, eitt stig fyrir að hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, eitt stig fyrir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, eitt stig fyrir að hún geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt eða samtals sjö stig. Samtals hafi kærandi fengið sex stig í líkamlega hluta staðalsins og sjö stig í andlega hlutanum.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2019, hafi verið óskað eftir viðbótargögnum frá kæranda þar sem að í skoðunarskýrslu og í svörum við spurningalista hafi komið fram upplýsingar um bakvanda sem ekki hafi verið getið um í læknisvottorði. Kæranda hafi verið bent á að ef hún óskaði eftir að tekið yrði tillit til bakvanda við örorkumat, þyrftu að berast upplýsingar um hann í læknisvottorði. Í tölvupóstum kæranda frá 13. og 19. febrúar 2019 hafi komið fram að hún óskaði eftir því að upplýsingar um bakvanda yrðu teknar út.

Í örorkumati, dags. 26. febrúar 2019, hafi verið samþykktur örorkustyrkur fyrir tímabilið X 2019 til X. Með tölvupósti 4. mars 2019 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í bréfi, dags. 6. mars 2019, hafi ákvörðun um örorkumat verið rökstudd á grundvelli skoðunarskýrslu án þess að fram hafi komið upplýsingar um að óskað hefði verið eftir gögnum um líkamlega færniskerðingu og að kærandi hafi óskað eftir að ekki væri litið til bakvanda við mat á örorku. Í bréfi, dags. 9. apríl 2019, hafi ákvörðun um örorkumat verið rökstudd á grundvelli þess að kærandi hafði óskað eftir að ekki yrði tekið tillit til bakvanda við örorkumat.

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri og samþykkja örorkustyrk, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. febrúar 2019, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. X 2018. Í vottorðinu segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Aðrar tvíhverfar lyndisraskanir

Persónuröskun, ótilgreind

Attention deficit disorder without hyperactivity

Almenn kvíðaröskun

Ríkjandi þráhyggjuathafnir [áráttusiðir]]“

Um fyrra heilsufar segir í vottorðinu:

„Um er að ræða X ára gamla konu […] Hún leitaði nýlega til undirritaðs vegna þessa vanda sem hún hefur verið að takast á við frá X og óskar eftir því að komast í reglulegra eftirlit en hún hefur verið í síðustu árin. […] Hún hefur vegna veikleika sinna ekki verið í stakk búin til að vinna á almennum forsendum Hefur alltaf leitað sjálf eftir vinnu en átt erfitt með að stíga það skref, erfitt með að hringja, verður mjög kvíðin. Segist jafnvel verða kvíðin fyrir því að hringja […] Á heimilinu kemur fram mjög áráttubundin hegðun þar sem hún ýmist eirir ekki við þar til hún hefur lokið einhverju ætlunarverki sínu eða hún liggur eins og slitti upp í sófa. Á það til að áfellast sig af slíkum þunga sem kallast sjúklegar þunglyndisraskanir. Félagsfærninni er mjög ábótavant og sömuleiðis getunni til að fara inn um margmenni, […] Undirritaður hefur þekkt [kæranda] frá […] hún er með vanda sem er samrýmanlegur alvarlegri persónuleikaröskun af þyngri endanum. Þegar vandinn er af þeim þunga sem raunin er hjá [kæranda] er um að ræða vanda á sama alvarleikastigi og um ræðir í þyngri geðrofssjúkdómum. Flestir svona einstaklingar eru ekki búnir að ná jafnvægi fyrr […] Það er engum vafa undirorpið fyrir undirritaðan að [kærandi] er mjög hömluð af vanda sínum sem hefur staðið í vegi fyrir allri lífsaðlögun hennar. Hún er að mati undirritaðs algjörlega óvinnufær og ekki boðlegt að ætlast til þess að hún haldi áfram sama ferli  með að leita sér vinnu á almennum vinnumarkaði. […]“

Í lýsingu B læknis um álit hans á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„[Kærandi] er að takast á við [...]. Hún er með vanda á fötlunarstigi og ekki við því að búast að stöðugleiki náist næstu árin. Ef hún fer í hlutavinnu á vinnumarkaði, innan fyrirsjáanlegs tíma, er nauðsynlegt að það gerist með viðeigandi stuðningi og umgjörð á vegum AMS. Ljóst er að hún getur ekki innt af hendi almennilega þær kröfur sem vinnumarkaðurinn. […]“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún þjáist af miklum geðrænum veikindum, til dæmis miklum kvíða, tilfinningarlegum óstöðugleika, hvatvísi og almennu hömluleysi. Þá sé hún einnig með stoðverki, einkum í baki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún fái mikla bakverki og verki í liði. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún fái verki í hné og bak ef hún standi mjög lengi. Kærandi svarar spurningu um það hvort að hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að bakverkir geri oft vart við sig. Kærandi svarar spurningu það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að bakverkir geri oft vart við sig. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að bakverkir geri oft vart við sig. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún geti hvorki borið þunga hluti né lyft þungu, hún fái þá rosalega verki í bakið. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi. Í nánari lýsingu segir að kærandi hafi átt við mikil geðræn vandamál að stríða […] sé í reglulegum viðtölum hjá geðlækni. Hún sé tilfinningalega óstöðug og þjáist af miklum kvíða, hún endist illa í vinnu vegna kvíða og félagsfælni. Hún sé mjög hvatvís, með ranghugmyndir og hömlulaus. Hún flakki stöðugt á milli tilfinninga þ.e.a.s. hún verði ofsaglöð, mjög reið, sár þunglynd o.fl.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar þann X 2019. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund með þeim rökstuðningi að kærandi segist ekki geta setið lengur vegna óþæginda frá baki. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um með þeim rökstuðningi að kærandi segist þreytast við lengri stöður. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðræn vandamál valdi henni erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Andlegt álag hafi valdið því að kærandi lagði niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Göngulag og hreyfingar óhindraðar. Ekki áberandi verkjahegðun. Eðlil. hreyfiferlar á höndum, öxlum, hálsi og baki. Sest niður á hækjur sér og reisir upp aftur á erfiðleika. Væg eymsli á vöðvum á herðum og mjóbaki.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Grunnvandi virðist vera erfiðleikar og óöryggi í samskiptum. Segist oft sveiflast mikið og hefur tilhneygingu til að oftúlka viðbrögð annara og bregðast of sterkt við […] Virðist almennt kvíðin og óörugg með sig, forðast samskipti. Á erfitt með að meta viðbrögð eða afstöðu annara. Ekki áberandi depurð eða svartsýni. Saaga um þráhyggjueinkenni og athyglisbrest.“

Um atferli kæranda í viðtali segir í skoðunarskýrslu:

„Snyrtileg og kemur vel fyrir. Nokkuð kvíðin og spennt í byrjun viðtals, en síðan slakari. Svarar spurningum í góðu samhengi, ágæt samvinna í viðtali og skoðun. Engar ranghugmyndir eða geðrofseikenni.“

Um mat á hve lengi færni kæranda hafi verið svipuð og nú er segir:

„Persónuleika rösku og kvíðaröskun […] virðist vera […] að ná betri stjórn á viðbrögðum sínum“.

Í athugasemdum skoðunarlæknis segir:

„Skert starfsgeta sem hefur fylgt henni vegna [ofangreindra] þátta. Verið að reyna nú lyfjameðferð af geðlækni. Hvíta Bandið ?“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Samkvæmt skoðunarskýrslu er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir telur að andlegt álag hafi átt þátt í að umsækjandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda henni of milli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til sjö stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund með þeim rökstuðningi að kærandi segist ekki geta setið meira en eina klukkustund vegna óþæginda frá baki. Þá tilgreinir skoðunarlæknir að kærandi hafi setið í viðtali í 40 mínútur án þess að standa upp. Samkvæmt skoðunarskýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um með þeim rökstuðningi að kærandi segist þreytast við lengri stöður. Samkvæmt gögnum málsins hefur Tryggingastofnun bent kæranda á að ef taka eigi tillit til líkamlegrar færniskerðingar eins og henni sé lýst í skýrslu skoðunarlæknis verði kærandi að leggja fram læknisfræðileg gögn sem staðfesti færniskerðingu hennar. Kærandi hefur í erindi til Tryggingastofnunar upplýst að bakvandi hennar sé ekki það hamlandi að hún hafi ekki í hyggju að leggja fram frekari gögn vegna hans.

Ekki er fallist á það með Tryggingastofnun að líta beri fram hjá framangreindu mati skoðunarlæknis á líkamsfærni kæranda þegar af þeirri ástæðu að kærandi hafi ekki lagt fram frekari gögn um bakvanda. Að mati úrskurðarnefndar ber Tryggingastofnun að taka læknisfræðilega afstöðu til mats skoðunarlæknis. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að í beiðni Tryggingastofnunar til kæranda um frekari gögn vegna bakvanda upplýsti stofnunin kæranda ekki um hvaða afleiðingar það gæti haft ef hún legði ekki fram umbeðin gögn.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira