Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 3/2017: Dómur frá 26. júní 2017

Kennarasamband Íslands gegn Menntaskóla Borgarfjarðar ehf.

Ár 2017, mánudaginn 26. júní, er í Félagsdómi í málinu nr. 3/2017

                                                                

Kennarasamband Íslands

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Menntaskóla Borgarfjarðar ehf.

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 29. maí sl.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Bergþóra Ingólfsdóttir og Trausti Fannar Valsson.

 

Stefnandi er Kennarasamband Íslands, Laufásvegi 81, Reykjavík.

Stefndi er Menntaskóli Borgarfjarðar ehf., Borgarbraut 54, Borgarnesi.

                                                                                                                                   

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að samkomulag Kennarasambands Íslands og Menntaskóla Borgarfjarðar um atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma, dagsett 24. júní 2015, sé skuldbindandi.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

                                                                       

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati Félagsdóms.

 

Málavextir

Stefndi er einkarekinn framhaldsskóli. Stefndi gerði þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dagsettan 23. janúar 2013, um rekstur framhaldsskóla á grundvelli heimildar í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla.

Í málinu liggur frammi samkomulag fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Kennarasambands Íslands, dagsett 4. apríl 2014, um breytingar og framlengingu á kjarsamningi þeirra frá 1. mars 2014 til 31. október 2016. Í aðfararorðum samkomulagsins kemur fram að kjarasamningnum sé ætlað að skapa innan framhaldsskóla þau starfsskilyrði sem nauðsynleg eru til að markmið nýrra laga um skólastarf nái fram að ganga. Enn fremur að leitast sé við að skapa nýja og bætta umgjörð um kennarastarfið og færa laun kennara þannig til betri vegar um leið og skólum verði gert auðveldara að rækja hlutverk sitt. Þá segir að leitast sé við að gera þetta fyrst og fremst með því að aðlaga kjarasamninginn að breyttum viðmiðum laga um framhaldsskóla um námseiningar og færa útfærslur faglegs starfs skóla og kennara frá samningsaðilum til fagfólks í skólamálum.  Það sé gert með áætlun um samningu nýs vinnumats og innleiðingu þess sem fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins og kennara muni leiða í samstarfi sín á milli með þátttöku fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Í 7. gr. samkomulagsins er fjallað um viðmið um vinnumat kennara. Þar segir að mat á vinnu kennara vegna námsáfanga sé byggt á áfangalýsingu viðkomandi áfanga sem unnið sé af kennurum og skólastjórnendum. Mælt er fyrir um að vinnumatið skuli byggja á hlutlægum viðmiðum og málefnalegum tilefnum og þá eru taldir upp þeir þættir, sem meta skal, eftir því sem við á, en tekið fram að fleiri þættir komi einnig til greina. Í 3. efnisgrein 7. gr. er fjallað um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga. Þar segir að verði meginbreytingar gerðar á útfærslu skóla á leiðum til námsloka, svo sem á tímalengd náms eða öðru ytra skipulagi sem hefur áhrif á kennslufyrirkomulag innan skólans, skuli endurmeta vinnumat áfanga sem tilheyri slíkri breytingu. Við slíkt endurmat skuli meðal annars taka tillit til þess hvort aukið álag fylgi nýju fyrirkomulagi svo sem vegna hraðari yfirferðar námsefnis en í venjulegu skólahaldi eða annars sem áhrif kunni að hafa á vinnu kennara. Loks segir að slíkt mat verði unnið á sama hátt og almennt vinnumat og ráðist af þeim breytingum sem gera eigi.

Í bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins til skólameistara í framhaldsskólum, dagsettu 7. október 2014, segir að ráðuneytið leggi áherslu á að framhaldsskólar starfi eftir staðfestum námsbrautum frá og með hausti 2015. Þangað til sé mikilvægt að skólar vinni að því að stytta stúdentsbrautir í þrjú ár. Ráðuneytið fylgdi þessu bréfi eftir með öðru bréfi, dagsettu 16. október 2014, þar sem segir að frá gildistöku aðalnámskrár á árinu 2011 hafi legið fyrir að gert sé ráð fyrir að framhaldsskólar starfi eftir staðfestum námsbrautum frá og með haustinu 2015. Í lok bréfsins er tekið fram að eftir sem áður sé stefnt að því að skólar taki upp þriggja ára námsbrautir í áföngum á næstu árum.

Hinn 9. maí 2014 undirrituðu stefnandi og stefndi samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi. Með því samkomulagi var gildandi kjarasamningur aðila framlengdur til 31. október 2016 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samkomulaginu er mælt fyrir um. Þá voru laun hækkuð með tilteknum hætti með vísan til nefndra greina í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Í 4. grein samkomulagsins er mælt fyrir um að kennarar við stefnda gegni 100% starfi með því að kenna að hámarki 21 stund (40 mínútna kennslustund) á viku í mest 184 daga á starfstíma skólans. Jafnframt eru í greininni fyrirmæli um greiðslu yfirvinnu en þess er síðan getið að 2. kafli kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs gildi að öðru leyti um vinnutíma kennara. Í 5. gr. samkomulagsins segir að öll ákvæði gildandi kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs um laun og starfskjör félagsmanna í stefnanda í opinberum framhaldsskólum skuli gilda, að breyttu breytanda, sem lágmarkskjör fyrir félagsmenn stefnanda við stefnda. Um starfskjör og önnur réttindi þessara félagsmanna stefnanda er vísað til laga og reglugerða, sem gilda á hverjum tíma fyrir félagsmenn stefnanda í opinberum framhaldsskólum, og þeirra samninga sem málsaðilar hafi gert með sér. Loks er í samkomulaginu að finna sérstaka bókun þess efnis að samningsaðilar séu sammála um að taka til umræðu atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma stefnda í samræmi við 4. grein samkomulagsins og mælt fyrir um að niðurstaða skuli liggja fyrir áður en atkvæðagreiðsla um nýtt vinnumat fari fram snemma árs 2015. Óumdeilt er að ekki náðist niðurstaða um atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma fyrir gerð nýs vinnumats.

Hinn 24. júní 2015 undirrituðu stefnandi og stefndi samkomulag um atriði er varða starfsfyrirkomulag og starfstíma á grundvelli bókunar með samkomulagi aðila frá 9. maí 2014. Í 1. grein samkomulagsins er mælt fyrir um að fyrsta málsgrein 4. gr. samkomulagsins frá 9. maí 2014 falli brott og að í hennar stað komi fjórar nýjar málsgreinar sem séu svohljóðandi:

Starfstími Menntaskóla Borgarfjarðar verður frá upphafi skólaársins 2015-16, 180 dagar til kennslu og námsmats. Starfstíminn skal vera samfelldur og honum skal komið fyrir á tímabilinu milli 18. ágúst og 31. maí ár hvers. Öll ákvæði kjarasamnings KÍ og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs um vinnutíma og vinnumat gilda einnig sem lágmarkskjör fyrir félagsmenn KÍ í MB. Með skírskotun til 7. greinar, ríkiskjarasamnings, undirkafla um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga skulu ekki færri en 58 klst. á ári eða 29 klst. á önn bætast við vinnumat kennara í fullu starfi en hlutfallslega vegna kennara í hlutastarfi. Þessi viðbót gildir eins fyrir alla kennara óháð öðrum kjarasamningsbundnum kjörum þeirra og er ætlað að mæta auknu álagi og hraðari yfirferð námsefnis vegna þjöppunar námstíma í þriggja ára námi til stúdentsprófs og aukinnar ábyrgðar á framkvæmd og viðhaldi skólanámskrár.

 

Þá segir í 2. grein samkomulagsins að skólameistari stefnda hafi gert Kennarasambandi Íslands grein fyrir þeirri fyrirætlan sinni, í samráði við kennara, að aukinn tími gefist frá og með næsta skólaári innan dagvinnustarfs kennara til þess að meta nám nemenda án þess að kennslu sé á sama tíma haldið uppi samkvæmt stundaskrá.

Síðast í samkomulaginu er eftirfarandi bókun:

Bókunin hefur við framkvæmd vinnumats í MB fyrirupphaf skólaársins 2015-16 sömu stöðu og gildandi kjarasamningsákvæði fyrir félagsmenn KÍ í MB. Bókunin er hluti af kjarasamningi fyrir félagsmenn KÍ í MB, hún er ótímabundin og tekur ekki breytingum nema aðilar hennar verði sammála um það eða annar hvor aðilinn óski breytinga. Efni bókunarinnar kemur ekki í stað neins efnis er snýr að vinnumati og kann nú að vera bundi í stofnanasamning. Efni bókunarinnar skal kynnt á kennarafundi að undangengnu samráði við trúnaðarmann og bókunin verður skráð í fundargerð.

 

Með tölvubréfi skólameistara stefnda til deildarstjóra í mennta- og menningarráðuneytinu, dagsettu 30. júní 2015, var ráðuneytið upplýst um að stefndi og stefnandi þessa máls hefðu lokið vinnu við endurskoðun atriða, sem fjallað er um í 4. grein kjarasamnings þeirra frá 9. maí 2014 með vísan til þess að þeir hefðu skuldbundið sig til þess með bókun sem fylgdi þeim kjarasamningi. Í bréfinu er gerð grein fyrir þeim breytingum, sem samkomulag málsaðila frá 24. júní 2015 mælti fyrir um á 4. grein kjarasamningsins, m.a. hvað varðaði fækkun starfsdaga úr 184 í 180 og fækkun eininga úr 220 í 200. Þá var gerð grein fyrir samkomulagi stefnda við stefnanda með skírskotun í 7. grein kjarsamnings Kennarasambands Íslands og íslenska ríkisins, undirkafla um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga og afleiðingum þess fyrir kennara hjá stefnda. Í bréfi frá ráðuneytinu sama dag kvað deildarstjóri ráðuneytisins þetta samkomulag vera ráðuneytinu óviðkomandi.

Í bréfi sínu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dagsettu 2. september 2015, fór skólameistari stefnda formlega fram á aukið fjárframlag til stefnda til að standa straum af kostnaði sem hlytist af samkomulaginu frá 24. júní 2015. Erindinu var hafnað 10. september 2015.

Með bréfi til stefnanda, dagsettu 9. september 2015, fór skólameistari stefnda með formlegum hætti fram á breytingu á núgildandi samkomulagi málsaðila frá 24. júní 2015 „og þar með segja upp núgildandi samkomulagi“. Stefndi teldi forsendur þess brostnar og þá segir í bréfinu að bókunin sé ótímabundin og því ekki fastbundin kjarasamningi, auk þess sem aðilar að henni geti óskað breytinga. Jafnframt var gerð grein fyrir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið myndi ekki láta stefnda í té aukið fjármagn vegna samkomulagsins. Loks segir í bréfinu:

Skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar undirritaði umrætt samkomulag en telur, eftir að hafa farið ítarlega ofan í kjölinn á vinnu kennara, að sú málsgrein í fyrsta lið samkomulagsins sem vísar í 7. grein ríkiskjarasamnings um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga eigi ekki við. MB hefur verið þriggja ára skóli til stúdentsprófs frá upphafi. Aukið álag og hraðari yfirferð námsefnis vegna þjöppunar námstíma í þriggja ára námi til stúdentsprófs er ekki til staðar þar sem verið er að kenna efni í samræmi við fjölda feininga og verkefnaálagið er einnig sniðið að fjölda feininga. Starfstími kennara til kennslu og námsmats eru nú 180 dagar í stað 184 auk þess sem búið er að veita kennurum aukið svigrúm til námsmats og þar af leiðandi er álagið minna.

 

Þá liggur frammi í málinu skjal, dagsett 9. september 2015, sem ber yfirskriftina „Breytingar á samkomulagi milli Menntaskóla Borgarfjarðar, kt. 530606-0900 og Kennarasambands Íslands, 501299-3329 frá 24. júní 2015.“ Þar segir að Kennarasamband Íslands og Menntaskóli Borgarfjarðar séu sammála um að samkomulag frá 24. júní 2015 haldi sér að öðru leyti en því sem fjallað er um í þriðju og fjórðu málsgrein 1. grein þar sem skírskotað sé til 7. greinar kjarasamningsins milli Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins.

Bréfið og breytingartillöguna hugðist skólameistarinn afhenda á fundi með fulltrúum stefnanda 9. september 2015. Í skýrslu sinni fyrir Félagsdómi bar Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, hins vegar á þann veg að þessi skjöl hefðu aldrei verið afhent fulltrúum stefnanda á fundinum þar sem þeir hefðu neitað að taka við þeim. Þá hefði tillagan um breytingu á samkomulaginu heldur ekki verið send stefnanda síðar. Þetta staðfesti Elna Katrín Jónsdóttir, fyrrverandi sérfræðingur Kennarasambands Íslands í kjarasamningsmálum, í skýrslu sinni fyrir Félagsdómi. Hún kvaðst aldrei hafa séð framangreinda tillögu stefnda um breytingu á samkomulaginu en kannaðist við að hafa séð bréfið frá stefnda, þótt það hefði ekki verið lagt formlega fram fundinum.

Skólameistari stefnda ritaði stefnanda annað bréf 11. september 2015 þar sem því var lýst yfir að hún liti svo á að samkomulag aðila frá 24. júní 2015 væri ógilt. Samkomulagið hafi verið gert á röngum forsendum þar sem til staðar hafi verið kjarasamningur þar sem gert hafi verið ráð fyrir formlegum farvegi fyrir mál sem þetta, þ.e. að aðkomu sáttanefndar þurfi til að ákvarða hvort meginbreyting hafi átt sér stað. Síðan sagði að þar til niðurstaða lægi fyrir hjá sáttanefnd, myndu stjórnendur Menntaskóla Borgarfjarðar líta svo á að samkomulagið hefði ekkert gildi og kæmi ekki til framkvæmda. Þegar niðurstaða lægi fyrir, væru þeir hins vegar tilbúnir til að skoða forsendur að samkomulagi.

Í málinu liggur frammi bréf formanns Félags framhaldsskólakennara til skólameistara stefnda, dagsett 21. september 2015. Þar er hafnað einhliða yfirlýsingu skólameistarans í bréfi hans frá 11. sama mánaðar um að umrætt samkomulag frá 24. júlí 2015 sé ekki gilt með vísan til þess að samkomulagið sé grundvallað á kjarasamningi og undirritað af báðum aðilum þess. Þá er því hafnað að tilefni hafi verið til riftunar samkomulagsins og að slík riftun eigi sér ekki lagastoð. Því líti Kennarasamband Íslands svo á að samkomulagið sé í fullu gildi og muni leita réttar síns fyrir viðeigandi dómstólum verði það ekki efnt. 

Með bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 30. september 2015, var vísað til tilkynningar stefnda í bréfi hans frá 11. sama mánaðar um að hann liti svo á að samkomulagið frá 24. júní 2015 væri ógilt. Stefndi vísaði til þess að samkvæmt bókun í samkomulaginu gæti annar hvor samningsaðila óskað breytinga og því væri hann í fullum rétti að gera það. Þá var gerð grein fyrir þeirri afstöðu stefnda að tilvísun samkomulagsins til 7. gr. kjarasamnings stefnanda og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs ætti ekki við um stefnda. Í bréfinu var því lýst að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði hafnað ósk stefnda um frekara fjármagn til að efna samkomulag málsaðila og gerð grein fyrir afleiðingum þess. Stefndi vísaði jafnframt til ógildingarákvæða laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks var í bréfinu lýst þeirri afstöðu stefnda að yrði ekki fallist á sjónarmið stefnda um breytingar á umræddu samkomulagi aðila, myndi stefndi líta svo á að stefnandi hefði brotið gegn þeim fyrirmælum samkomulagsins.  

Fyrir liggur að stefnandi höfðaði á árinu 2016 mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Félagsdómi vegna ágreinings um túlkun á ákvæði 3. efnisgreinar 7. greinar kjarasamnings þeirra og gekk dómur í því máli 22. september 2016. Með bréfi formanns Félags framhaldsskólakennara til skólameistara stefnda, dagsettu 10. október 2016, var upplýst um niðurstöðu dómsins og þess krafist að samkomulagið frá 24. júní 2015 héldi gildi sínu frá þeim tíma sem það var undirritað.

      

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar um lögsögu Félagsdóms til 2. töluliðar 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á því að kjarasamningur málsaðila frá 9. maí 2014 sé formlega gildur kjarasamningur. Í 4. grein hans sé að finna sérstakt ákvæði um vinnutíma kennara við skólann en að öðru leyti gildi ákvæði 2. kafla kjarasamnings stefnanda og fjármálaráðherra frá 4. apríl 2014 um vinnutíma kennara, sbr. tilvísun í 5. grein kjarasamnings málsaðila til hans. Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt bókun með samningnum hafi átt að koma til frekari umræða um atriði sem varði starfsfyrirkomulag og starfstíma stefnda, sbr. 4. grein. Þá komi þar fram að niðurstaða um þau mál, sem aðilar nái saman um, skuli liggja fyrir áður en atkvæðagreiðsla um nýtt vinnumat  fari fram snemma árs 2015.

Stefnandi byggir á því að samkomulag málsaðila, dagsett 24. júní 2015, um atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma, sé fullgildur samningur milli sömu aðila og gert hafi kjarasamninginn frá 9. maí 2014. Engin lagastoð sé fyrir því að samningurinn hafi ekki skuldbindingargildi og vísar stefnandi að þessu leyti til meginreglu samninga- og vinnuréttar um að samninga skuli halda. Þá geti engar ógildingar- eða riftunarreglur átt hér við, auk þess sem stefnandi leggur áherslu á að öll frávik frá meginreglunni beri að túlka þröngri lögskýringu.

Stefnandi mótmælir þeirri málsástæðu stefnda að samkomulag aðila hafi verið gert á röngum forsendum og vísar til þess sem kemur fram í 5. grein kjarsamnings aðila um að gildandi kjarasamningur stefnanda og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 4. apríl 2014 skuli gilda um lágmarkskjör félagsmanna stefnanda við Menntaskóla Borgarfjarðar. Hins vegar sé ekkert því til fyrirstöðu að vikið sé frá miðlæga samningnum kennurum til hagsbóta. Teljist samkomulag aðila frá 24. júní 2015 fela í sér kjör, sem séu umfram lágmarkskjör, hafi það gildi sem slíkt. Stefnandi bendir jafnframt á að samkvæmt kjarasamningi sé óskylt að leggja mál fyrir sáttanefnd.

Stefnandi vísar til þess að í bréfi skólameistara stefnda til stefnanda, dagsettu 30. september 2015, sé vísað til niðurlags umrædds samkomulags frá 24. júní 2015. Þar segi að bókunnin sé hluti af kjarasamningi, hún sé ótímabundin og hún taki ekki breytingum nema aðilar hennar verði sammála um það eða annar hvor aðilinn óski breytinga. Stefnandi bendir á að einhliða ósk um breytingar jafngildi uppsögn en að vinnurétti sé litið svo á að eftir að kjarasamningi sé sagt upp, gildi hann eftir sem áður þar til nýr samningur hafi verið gerður eða verkfall skelli á. Þá beri að líta til þess að stefndi hafi ekki óskað eftir tilteknum breytingum, heldur lýst því yfir einhliða að samkomulagið gilti ekki, án þess að setja fram aðrar óskir.

Stefnandi byggir jafnframt á því að gildi framangreinds samkomulags málsaðila hafi ekki verið háð samþykki eða heimild ráðuneytis, auk þess sem hann telur að afstaða ráðuneytisins til málsins alls hafi verið reist á rangri samningstúlkun. Stefnandi vísar um það til dóms Félagsdóms í máli nr. 2/2016. Þá stoði ekki að bera fyrir sig fjárskort þegar um efndir samkvæmt kjarasamningi sé að ræða, svo sem stefndi hafi gert.

Stefnandi vísar til þess, sem fram kemur í bréfi skólameistara stefnda frá 30. september 2015 þar sem því sé lýst að eftir að hafa kynnt sér efni 7. greinar miðlæga kjarasamningsins ofan í kjölinn, sé það skoðun hans að ákvæði samkomulagsins um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga eigi ekki við um stefnda. Að því er varðar þá röksemd skólameistarans um að stúdentsnám við skólann hafi ávallt verið kennt á þremur árum og því hafi ekki verið um breytingu að ræða, bendir stefnandi á að málsaðilum hafi báðum verið ljós sérstaða stefnda varðandi námslengd. Af þeim sökum hafi verið samið sérstaklega um þau atriði, sem fram komi í 4. gr. kjarasamnings aðila frá 9. maí 2014, bæði í bókun með samningnum og í samkomulagi aðila frá 24. júní 2015, sem mál þetta lýtur að. Um túlkun 3. efnisgreinar 7. gr. miðlæga kjarasamningsins vísar stefnandi jafnframt til áðurgreinds dóms Félagsdóms í máli nr. 2/2016. Þegar tekið hafi verið upp nýtt vinnumatskerfi í nýjum miðlægum kjarasamningi við ríkið hafi verið augljóst tilefni fyrir aðila þessa máls að semja sérstaklega um vinnumat svo sem þeir hafi gert. Nýja vinnumatið hafi hlotið að miðast við að nám til stúdentsprófs við stefnda tók þrjú ár, líkt og áður.

Stefnandi vísar málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá krefst stefnandi þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu hans til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt vegna skattsins.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnanda byggist á því að hann sé óbundinn af þeim þætti samkomulags málsaðila frá 24. júní 2015 sem fram kemur í 1. grein samkomulagsins þar sem segi:

Með skírskotun til 7. greinar, ríkiskjarasamnings, undirkafla um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga skulu ekki færri en 58 klst. á ári eða 29 klst. á önn bætast við vinnumat kennara í fullu starfi en hlutfallslega vegna kennara í hlutastarfi. Þessi viðbót gildir eins fyrir alla kennara óháð öðrum kjarasamningsbundnum kjörum þeirra og er ætlað að mæta auknu álagi og hraðari yfirferð námsefnis vegna þjöppunar námstíma í þriggja ára námi til stúdentsprófs og aukinnar ábyrgðar á framkvæmd og viðhaldi skólanámskrár.

 

Stefndi bendir í fyrsta lagi á, að í niðurlagi samkomulagsins frá 24. júní 2015 segi að bókunin sé hluti af kjarasamningi, hún sé ótímabundin og taki ekki breytingum nema aðilar hennar verði sammála um það eða annar hvor aðilinn óski breytinga. Því hafi stefndi verið í fullum rétti til að óska slíkra breytinga, svo sem gert hafi verið bæði bréflega og á fundi með fulltrúum stefnanda 9. september 2015. Óskin hafi verið ítrekuð á fundi aðila í byrjun desember sama ár. Texti bókunarinnar verði ekki skilinn með öðrum hætti en að það eitt nægi að stefndi óski breytinga til þess að bókunin skuli ekki gilda milli aðila. Ef skilningur stefnanda á orðalagi bókunarinnar væri réttur, hefði orðalagið um að annar hvor aðilinn óskaði breytinga enga þýðingu. Þar sem ákvæðið hafi verið hluti samkomulagsins og stefndi hefði sett fram kröfu um breytingar, áður en kom að framkvæmd ákvæðisins, m.a. með þeim rökum að ekki fengist fjármögnun til þessara breytinga, verði hann ekki talinn bundinn af samningsákvæðinu.

Í öðru lagi vísar stefndi til þess að umrætt samkomulag hafi verið gert með skírskotun til 7. greinar ríkiskjarasamnings, undirkafla um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga, og hann hafi talið sig knúinn til að gera samkomulagið þar sem vísað hefði verið til þess í ríkissamningi að gera skyldi slíkt samkomulag. Það hafi þó ekki verið mat mennta- og menningarmálaráðuneytisins að ríkissamningurinn hafi knúið á um nýtt samkomulag. Við nánari yfirferð málsins og eftir að hafa farið ítarlegar ofan í kjölinn á vinnu kennara, hafi verið ljóst að ákvæðið, sem vísi til 7. greinar ríkiskjarasamningsins um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga, hafi ekki átt við um stefnda. Frá upphafi hefði stefndi boðið upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs og því hafihvorki verið um að ræða hraðari yfirferð námsefnis vegna þjöppunar námstíma né aukið álag. Starfstími kennara til kennslu og námsmats hafi verið 180 dagar í stað 184 á sama tíma og einingum til stúdentsprófs hefði verið fækkað úr 220 í 200. Þá hafi verið búið að veita kennurum aukið svigrúm til námsmats. Af þessum sökum hefði álag á kennara ekki aukist. Því hafi ekki staðið rök til þess að umbuna kennurum sérstaklega með vísan til aukins álags, svo sem samið hefði verið um 24. júní 2015. Þær forsendur, sem stefndi hafi miðað við, hefðu því ekki verið til staðar við gerð samkomulagsins. Strax og ljóst hafi verið að ekki var um að ræða aukið álag og því engar forsendur til launahækkana, hafi stefndi vísað til fyrirvarans í samkomulaginu, svo sem áður sé lýst.

Stefndi vísar jafnframt til þess að hann hafi strax óskað eftir því að málið yrði látið bíða niðurstöðu í sáttanefnd, enda hafi á þessum tíma verið rætt um að ágreiningur milli stefnanda og ríkisins um það, hvernig skyldi útfæra ákvæði í samningnum frá 2014, sem hafi verið víðar uppi, færi fyrir nefndina. Sáttanefndin starfi á grundvelli kjarasamnings stefnanda og fjármálaráðherra. Stefnandi hafi hins vegar mótmælt því að málið ætti undir sáttanefnd.

Stefndi bendir á að hann sé lítil skólaeining sem geri sérstakan kjarasamning við stefnanda en kjarasamningurinn hafi hins vegar tengingu við samning stefnanda við ríkið. Stefndi hafi ekki tekið þátt í samningagerð ríkisins við stefnanda árið áður og hafi ekki verið ljóst að þær breytingar, sem samið hafi verið um og ætti að umbuna kennurum fyrir, ættu ekki við um stefnda þar sem frá upphafi hefði verið tekið tillit til þessara þátta í launagreiðslum hans til kennara. Þetta hafi stefnanda mátt vera ljóst, enda hafi hann verið sá aðili sem hafi gert kjarasamninga og krafist leiðréttingar vegna breytinga ári fyrr.

Stefndi byggir sýknukröfuna í þriðja lagi á því að forsendur fyrir umræddu samkomulagi málsaðila hafi brostið þar sem stefnda hafi verið fjárhagslega ómögulegt að standa við það. Stefndi bendir á að hann sé sjálfstæð stofnun sem geri þjónustusamning um kennslu á framhaldsskólastigið við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Eftir að gengið hafi verið frá samkomulaginu 24. júní 2015, hafi verið leitað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og óskað eftir auknu fé til að hægt væri að fylgja samkomulaginu eftir. Ráðuneytið hafi hins vegar lýst því yfir í svari sínu til stefnda 30. sama mánaðar að samkomulagið væri því óviðkomandi og hafnað beiðninni í tölvubréfi 10. september sama ár. Ráðuneytið hafi m.a. vísað til bréfs síns til allra skólameistara framhaldsskóla þar sem fram kæmi að hafna bæri þeirri túlkun stefnanda að greiða þyrfti kennurum sérstsaklega fyrir það, að námsárum til stúdentsprófs fækkaði, umfram þær launahækkanir sem þegar hefðu verið staðfestar í samningi og að hluta í vinnumati. Stefndi sé háður mennta- og menningarmálaráðuneytinu um rekstrarfé og afstaða ráðuneytisins hafi því orðið þess valdandi að stefnda hafi verið ókleift að auka greiðslur til kennaranna. Stefnanda hafi verið tilkynnt um þetta.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fjórða lagi á því að krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis. Stefndi vísar til þess að ekkert hafi heyrst frá stefnanda vegna málsins í tæplega eitt og hálft ár, þ.e. frá desember 2015 til mars 2017 þegar drög að stefnu hafi borist. Allan þennan tíma hafi stefndi talið að málið lægi á borði stefnanda og hafi skilið þögn hans þannig að krafan hefði verið látin falla niður. Þá hefði aldrei komið til þess að stefnandi reyndi á þessum grunni að innheimta kröfur fyrir hönd félagsmanna sinna hjá stefnda á þessum tíma. Með hliðsjón af almennum reglum um tómlæti eigi þessi háttsemi stefnanda að leiða til þess að krafan sé fallin niður.   

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt ákvæðum 2. töluliðar 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Með málssókn sinni krefst stefnandi viðurkenningar á því að samkomulag hans og stefnda um atriði, sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma, dagsett 24. júní 2015, sé skuldbindandi. Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til þess að samkomulagið byggist á fyrirmælum í samkomulagi málsaðila frá 9. maí 2014 um breytingar og framlengingu á gildandi kjarasamningi þeirra í milli og sé skuldbindandi samkvæmt meginreglu saminga- og vinnuréttar um að samninga skuli halda. Þá byggir stefnandi á því að hvorki ógildingarreglur né riftunarreglur geti átt við um samkomulagið, auk þess sem líta beri til þess að hvers kyns frávik frá framangreindri meginreglu beri að túlka þröngri lögskýringu.

Samkvæmt yfirskrift áðurnefnds samkomulags málsaðila frá 24. júní 2015 fjallar það „um atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma á grundvelli bókunar með samkomulagi aðila frá 9. maí 2014“. Samkomulagið frá 9. maí 2014 lýtur að breytingum og framlengingu á kjarasamningi aðila og hafa helstu ákvæði þess verið rakin í málavaxtakafla hér að framan. Í tilvitnaðri bókun í síðarnefnda samkomulaginu segir að samningsaðilar séu sammála um að taka til umræðu atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma stefnda í samræmi við 4. grein samkomulagsins.

Aðilar gerðu samkomulagið frá 24. júní 2015 á grundvelli umræddrar bókunar. Í 1. grein þess kemur fram að fyrsta málsgrein 4. greinar samkomulagsins frá 9. maí 2014 falli brott en að í hennar stað komi fjórar nýjar málsgreinar, þ. á m. áðurgreind skírskotun til undirkafla um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga í 7. gr. kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Þá kemur fram í samkomulaginu að bókunin með samkomulagi aðila 9. maí 2014 sé hluti af kjarasamningi fyrir félagsmenn stefnanda í stefnda, hún sé ótímabundin og taki ekki breytingum nema aðilar hennar verði sammála um það eða að annar hvor aðilinn óski breytinga.

Stefndi telur sig óbundinn af samkomulaginu frá 24. júní 2015 þar sem í bókun með samkomulaginu segi að því verði breytt ef aðilar séu sammála um það eða annar hvor aðilinn óski breytinga. Stefndi hafi óskað breytinga á samkomulaginu og því hafi það ekkert gildi. Af bréfi skólameistara stefnda til stefnanda 9. september 2015, sem liggur frammi í málinu, verður ráðið að skólameistarinn hugðist með því fara formlega fram á breytingu á samkomulaginu og „þar með segja upp núgildandi samkomulagi“. Þá var þar vísað til þess að vegna mismunandi túlkunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins og stefnanda á 7. grein kjarasamnings milli Kennarasambands Íslands og ríkisins lægi fyrir að stefndi fengi ekki aukið fjármagn vegna umþrætts samkomulags frá 24. júní 2015. Auk þess var upplýst að stefndi liti svo á að ákvæði 7. greinar kjarasamningsins um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga ætti ekki við um stefnda þar sem ekki væri um að ræða samþjöppun námstíma úr fjórum árum í þrjú ár, enda hefði stefndi ávallt verið „þriggja ára skóli“. Ekki var hins vegar í bréfinu orðað með skýrum hætti í hverju umbeðin breyting á samkomulaginu ætti að felast.

Eins og áður er rakið, hugðist skólameistarinn afhenda bréf þetta á fundi með fulltrúum stefnanda 9. september 2015 ásamt tillögu stefnda, dagsetta sama dag, að breytingu á samkomulaginu frá 24. júní 2015. Fyrir liggur hins vegar að skjölin voru aldrei afhent fulltrúum stefnanda, hvorki þá né síðar.

Í öðru bréfi sínu til stefnanda 11. sama mánaðar lýsti stefndi því formlega yfir að þar til fyrir lægi niðurstaða sáttanefndar um ágreining aðila liti hann svo á að umrætt samkomulag aðila væri ógilt. Sú afstaða stefnda var ítrekuð í bréfi stefnda til stefnanda 30. sama mánaðar. Stefnandi mótmælti þessum skilningi stefnda í bréfi 21. september 2015.

Að framangreindu virtu og þegar litið er til þess, sem kemur fram með skýrum hætti í umþrættri bókun í samkomulaginu að hún er hluti af kjarasamningi fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands í Menntaskóla Borgarfjarðar, verður ekki fallist á það með stefnda að framkomin mótmæli hans og samskipti við stefnanda með þeim hætti sem lýst er hér að framan leiði til þess að samkomulagið teljist ógilt eða óskuldbindandi fyrir aðila málsins, hvorki í heild né að hluta. Þá verður ekki talið að afstaða stefnda í framangreindum bréfum hafi falið í sér yfirlýsingu um riftun á samkomulaginu. Með samkomulaginu frá 24. júní 2015 var ákvæði 4. greinar kjarasamnings aðila breytt að því er varðaði starfsfyrirkomulag og starfstíma kennara. Því verður að líta svo á að stefndi eigi þann kost að óska breytinga á samkomulaginu þegar næst kemur að gerð kjarasamnings milli aðila. Framlengdur kjarasamningur málsaðila gilti til 31. október 2016 en af bréfi formanns Félags framhaldsskólakennara til skólameistara stefnda 23. nóvember 2016 verður ráðið að vinna við gerð nýs kjarasamnings hafi þá ekki verið hafin.    

Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að skírskotun samkomulagsins frá 24. júní 2015 til ákvæða 7. greinar kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um sveigjanlegt mat vegna meginbreytinga sé byggð á röngum forsendum og því óskuldbindandi fyrir stefnda. Þessi ákvæði eigi ekki við um stefnda þar sem ekki sé um það að ræða að yfirferð námsefnis vegna þjöppunar námsefnis á þrjú ár í stað fjögurra sé hraðari þar sem nám til stúdentsprófs hjá stefnda hafi ávallt verið þriggja ára nám. Þar af leiðandi hafi álag á kennara í starfi hjá stefnda ekki aukist. Á því er byggt í greinargerð stefnda að honum hafi ekki orðið það ljóst að forsendur framangreinds ákvæðis kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins ættu ekki við um hann sjálfan fyrr en eftir að samkomulagið hafði verið undirritað.

Áður er rakið að með samkomulaginu frá 24. júní 2015 var ákvæði 4. greinar kjarasamnings aðila breytt með þeim hætti að mælt var fyrir um að ekki færri en 58 klst. á ári eða 29 klst. á önn skyldu bætast við vinnumat kennara í fullu starfi en hlutfallslega vegna kennara í hlutastarfi. Við gerð þess mátti stefndi gera sér grein fyrir því hvernig eigin starfsemi var háttað, m.a. að því er varðaði skipulag námsins og starfsfyrirkomulag og starfstíma kennara við skólann. Að þessu gættu og þar sem ekki verður gengið út frá öðru en því að málsaðilar séu jafnsettir samningsaðilar er það mat dómsins að ekki verði byggt á því að sjónarmið um rangar forsendur leiði til þess að samkomulag þeirra teljist ógilt.

Þá verður ekki fallist á það með stefnda að höfnun mennta- og menningarmálaráðuneytisins á erindi stefnda um viðbótarfjármögnun vegna kostnaðar af umræddu samkomulagi teljist fela í sér brostnar forsendur fyrir samningsgerð aðila þessa máls sem leiði til ógildis samkomulagsins. Þeirri málsástæðu stefnda er því hafnað. 

Gögn málsins bera með sér að málsaðilar áttu í samskiptum vegna ágreinings um samkomulagið frá hausti og fram í desember 2015. Þá liggur fyrir að stefnandi höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Félagsdómi á árinu 2016 sem laut að ágreiningi þeirra um túlkun á margnefndu ákvæði 7. greinar kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins. Dómur í því máli var kveðinn upp 22. september sama 2016 og var stefnda tilkynnt um niðurstöðu dómsins með bréfi Félags framhaldsskólakennara 10. október sama ár sem stefndi svaraði með bréfi til stefnanda 22. nóvember sama ár. Mál þetta var síðan þingfest í Félagsdómi 4. apríl 2017. Í þessu ljósi er það mat dómsins að hafna beri þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis.

Eftir öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllum málsástæðum stefnda í máli þessu. Því er fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda eins og hún er sett fram í stefnu.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð :        

Viðurkennt er að samkomulag Kennarasambands Íslands og Menntaskóla Borgarfjarðar um atriði sem varða starfsfyrirkomulag og starfstíma, dagsett 24. júní 2015, er skuldbindandi.

Stefndi, Menntaskóli Borgarfjarðar ehf., greiði stefnanda, Kennarasambandi Íslands, 500.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Ásmundur Helgason

Guðni Á. Haraldsson

Trausti Fannar Valsson

Bergþóra Ingólfsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira