Hoppa yfir valmynd

6/2008

Mál nr. 6/2008. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Fyrir var tekið mál nr. 6/2008, Ómar Karlsson f.h. BBH útgerðar ehf., Melavegi 9, Hvammstanga hér eftir nefndur kærandi gegn Húnaþingi vestra, hér eftir nefnt kærði. Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. apríl 2008 kærði Ómar Karlsson f.h. BBH útgerðar aðferð Húnaþings vestra við álagningu og innheimtu sorpgjalds á hafnarsvæðinu. Farið er fram á úrskurð um eftirfarandi atriði er varða sorpmál útgerða í Húnaþingi vestra:

1. Hvort kærða sé stætt á að hafa engin sorpílát í Hvammstangahöfn, sbr. lög og reglugerð frá Siglingastofnun Íslands

2. Hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta hærra sorphirðugjald til útgerða í Húnaþingi vestra án þess að leggja til sorpílát í höfninni, m.v. heimilin.

3. Hvort kærða hafi verið heimilt að áætla sorpgjöld á útgerðina án þess að vega eða mæla það magn af sorpi sem kemur frá útgerðinni.

4. Hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta sorpgjöld af bátum sem hefur verið lagt og ekki í rekstri á þriðja ár, sbr. álagningareglur í sveitarfélaginu.

5. Hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta sorpgjöld af útgerðum án þess að leggja til sorpílát á hafnarsvæði.

Kærði gerir þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði að gjaldtaka sé heimil og byggð á lögmætum og málefnalegum grunni.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 09.04.2008 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 19.05.2008 ásamt fylgiskjölum.

3. Athugasemdir kæranda dags. 08.06.2008.2008.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð.

Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kærandi beindi kærunni til Samgönguráðuneytis sem sendi hana til umsagnar kærða. Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Að loknum umsögnum og með hliðsjón af gögnum málsins komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að málið ætti undir úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 7/1998. Málið barst nefndinni með bréfi Samgönguráðuneytisins dagsettu 19. júní 2008.

III. Málsatvik

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. apríl 2008 kærði kærandi til Samgönguráðuneytis aðferð Húnaþings vestra við álagningu og innheimtu sorpgjalds á hafnarsvæðinu. Kærða var með bréfi dags. 14.04.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 11.04.2008. Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 27.05.2008. Athugasemdir kæranda bárust 11.06.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda.

Kærandi segir málavexti vera þá að hann reki og eigi m.b. Hörpu HU 4 skr. 2150 og m.b. Hörpu HU 44 skr. 1081 sem ekki var í rekstri árið 2007 og lá bundin við bryggju. Í álagningarreglum hjá kærða komi fram að gjaldskrá af sorphirðugjöldum til fyrirtækja skuli reiknast frá áætluðu magni. Kærandi segir að sorp frá skipinu hafi hins vegar aldrei verið vegið né mælt. Miðað við álagningareglur frá Húnaþingi vestra hafi sú spurning vaknað hvort þeim hafi verið heimilt að innheimta hærra sorpgjald af útgerðum m.v. heimilin í sveitarfélaginu. Þá óskar kærandi eftir úrskurði um það hvort kærða sé heimilt að leggja sorphirðugjald á bát sem búið sé að leggja til framtíðar. Kærandi óskar jafnframt eftir úrskurði um það hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta sorpgjöld af útgerðum án þess að leggja til sorpílát á hafnarsvæði. Kærði tekur fram að engin sorpílát hafi verið á Hvammstangahöfn í gegn um tíðina. Gámasvæði fyrir almenning sé stutt frá hafnarsvæðinu og hafi því útgerðarmenn orðið að skila sínu sorpi sjálfir í þar til gerða gáma. Kærandi tekur fram að nú hafi orðið breyting á móttöku á sorpi í Húnaþingi vestra. Útgerðirnar eiga nú að skila sínu sorpi í móttökustöð og greiða eftir vikt.

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði gerir þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði að gjaldtaka sé byggð á lögmætum og málefnalegum grunni. Kærði segir að fram til ársins 2008 hafi sorpmálum verið þannig háttað í Húnaþingi vestra að innheimt hafi verið áætlað mánaðarlegt sorpgjald af bátum út frá stærð þeirra, sbr. 12. gr. gjaldskrár fyrir hafnarsjóð Húnaþings vestra. Í ársbyrjun 2008 voru gerðar breytingar á gjaldskránni á þann veg að sorpgjald var fellt út. Þess í stað hóf móttöku og flokkunarstöðin, sem staðsett hefur verið á hafnarsvæðinu að innheimta gjald út frá magni sorps sem komið var með á stöðina til flokkunar. Einnig var gerð sú breyting að farið var að vakta móttöku og flokkunarstöðina. Í stað þess að hún væri aðgengileg allan sólarhringinn var settur ákveðnn opnunartími þ.e. frá kl. 10-13. Var sú breyting gerð með það að markmiði að varna skemmdarverkum og til þess að stuðla að betri flokkun sorpsins. Komið var til móts við útgerðarmenn vegna hins nýja opnunartíma á gámasvæðinu og komið fyrir sorpílátum á bryggjunni í apríl sl. Í greinargerð sinni til nefndarinnar gerði kærði grein fyrir sjónarmiðum sínum til þeirra álitaefna sem kærandi setti fram. Kærði segir að fyrsta spurning kæranda lúti að því hvort kærða sé stætt á að hafa engin sorpílát í Hvammstangahöfn. Kærði segir að gámasvæði Húnaþings vestra hafi lengi verið staðsett á hafnarsvæðinu. Þá hafi sveitarfélagið einnig komið fyrir sorpílátum á bryggjunni þar sem útgerðirnar geta losað sig við sorp utan opnunartíma gámasvæðisins. Ekki hafi verið innheimt sérstakt gjald vegna þeirrar þjónustu. Kærði segir að önnur spurning kæranda lúti að því hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta hærra sorphirðugjald til útgerða Í Húnaþingi vestra án þess að leggja til sorpílát í höfninni, m.v. heimilin. Kærði tekur fram að sorpgjöld skiptist í tvo kostnaðarliði. Annars vegar er um að ræða sorphirðugjald sem greitt er fyrir það að sorp er sótt í heimilissorptunnur og hins vegar er um að ræða soreyðingargjald sem greitt er fyrir eyðingu sorpsins. Heimili í dreifbýli sem skila sorpi sínu í gáma greiða sorpeyðingargjald. Slík heimili greiddu á árinu 2006 kr. 7.200 í sorpeyðingargjald og á árinu 2007 kr. 7.500. Samkvæmt gjaldskrá hafnarsjóðs fyrir sama tíma voru sorpgjöld útgerðanna þau að bátar minni en 10 bt. greiddu kr. 3000 á ári, bátar 10-100 bt. greiddu kr. 10.800 á ári og bátar stærri en 100 bt. greiddu 24.000 á ári. Sorpeyðingargjald samkvæmt eldri gjaldskrá hafnarsjóðs var því miðað við umfang og eðli rekstrar útgerðanna. Með stærð báta megi ætla að magn sorps aukist og því kostnaður sveitarfélagsins við sorpeyðingu. Með breytingu á gjaldskrá hafnarinnar í ársbyrjun 2008 var sorpgjald afnumið og í stað þess innheimt gjald sem miðast við það magn sem skilað er inn. Nú borga því útgerðirnar nákvæmlega fyrir það sorp sem þær skila inn. Kærði segir að þriðja spurning kæranda lúti að því hvort kærða hafi verið heimilt að áætla sorpgjöld á útgerðina án þess að vega eða mæla það magn af sorpi sem kemur fá útgerðinni. Kærði lítur svo á að kærandi sé að spyrja um innheimtu gjalda fyrir 1. janúar 2008, þ.e. innheimtu samkvæmt eldri gjaldskrá hafnarinnar. Kærði telur að sér hafi verið heimilt að áætla þann kostnað sem hlaust af sorphirðu. Gjaldið hafi verið tengt við stærð og magn úrgangs áætlað út frá stærð skipanna. það sé viðurkennd aðferð í stjórnsýslurétti að áætla þann kostnað sem almennt hlýst af þvi að veita tiltekna þjónustu. Kærði segir að fjórða spurning kæranda lúti að því hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta sorpgjöld af bátum sem hafði verið lagt. Kærði taldi sér heimilt að innheimta sorpgjöld af öllum þeim bátum sem í höfninni lágu. Sorp geti komið frá bátum þótt þeir séu ekki að veiðum s.s. vegna viðhalds. fram til síðustu áramóta var um áætluð gjöld að ræða og ekki fylgst með því hvað kom frá hverjum. Frá og með síðustu áramótum greiða rekstraraðilar einungis fyrir það sorp sem þeir skila. Kærði segir að fimmta spurning kæranda lúti að því hvort kærða hafi verið heimilt að innheimta sorpgjöld af útgerðum án þess að leggja til sorpílát á hafnarsvæði. Kærði segir að með þessari spurningu sé átt við þá gjaldheimtu sem átti sér stað fyrir breytingu á gjaldskrá um sl. áramót þegar soprpgjöld voru tekin út úr gjaldskránni. Þetta álitaefni sé ekki lengur raunhæft. Með staðsetningu gámasvæðisins á hafnarsvæðinu og óheftan aðgan að því telji sveitarfélagið sig hins vegar hafa uppfyllt þessa skyldu fyrir síðustu áramót.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.

Skoðun nefndarinnar beinist að því hvort álagning gjalda hafi verið í samræmi við lögmæt sjónarmið fram til 1. janúar 2008 en þá tók gildi ný gjaldskrá. Gámasvæði Húnaþings vestra hefur verið staðsett á hafnarsvæðin og flokka íbúar, stofnanir og fyrirtæki þar sorp sem frá þeim kemur. Þar eru gámar fyrir timbur, brotamálma, gler, jarðveg, postulín, hjólbarða. kælitæki, ónýt húsgögn og almennan heimilisúrgang. Það er álit nefndarinnar að þessi aðferð við sorphirðu á hafnarsvæðinu sé fullnægjandi. Á þessu ári voru að auki sett upp sorpílát á hafnarsvæðinu. Um gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs er fjallað í 8. gr. reglugerðar nr. 792/2004. Þar kemur fram að hafnarstjórn sé heimilt að setja gjaldskrá og innheimta sérstakt úrgangsgjald fyrir móttöku úrgangs og farmleifa í höfnum sem standa á undir kostnaði við meðferð og förgun úrgangsins. Gjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur þeim rökstudda kostnaði sem fellur til við veitingu þjónustunnar. Gjöldin geta verið að hluta tengd tegund og magni úrgangs frá skipum og að hluta flokki, gerð, búnaði og stærð skips. Sorpeyðingargjald samkvæmt eldri gjaldskrá hafnarsjóðs var miðað við umfang og eðli útgerðanna. Það byggðist á gjaldskrá sem samþykkt var hinn 2. desember 2004 skv. hafnarlögum nr. 61/2003 og 37. gr. reglugerðar um hafnarmál nr. 326/2004. Telst það fullnægjandi lagastoð þó heimil fyrir gjaldtöku sé einnig að finna í 6-11. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda nr. 33/2004 sbr. 8. gr. rgl. nr. 492/2004. Sorpeyðingagjald tók mið af stærð báta og voru gjöldin innheimt af öllum bátum sem voru í höfninni hvort sem þeir voru í notkun eða ekki enda geti úrgangur stafað frá bátum sem bundnir eru við bryggju. Í stjórnsýslurétti er heimilt að áætla þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita tiltekna þjónustu. Ef ekki er hægt að sérgreina ákveðna kostnaðarliði er hægt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sorpi var skilað í söfnunargáma og því ómögulegt að staðreyna magn sorps frá hverjum og einum. Ekki er hægt að bera saman aðstæður kæranda við aðstæður annarra gjaldenda til að ganga úr skugga um hvort honum hafi verið mismunað. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimilt hafi verið að leggja jafnaðargjald á þá báta sem voru í höfninni út frá stærð þeirra. Skipulag sorphirðu er í föstum skorðum og fellur ekki niður þó einstaklingar og fyrirtæki nýti ekki sorpþjónustuna. Það er því niðurstaða nefndarinnar að heimilt hafi verið að leggja gjöld á þá báta sem voru í höfninni hvort sem þeir voru í notkun eða ekki. Að teknu tilliti til alls þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að gjaldtaka kærða er varðar sorpmál útgerða hafi verið byggð á lögmætum grundvelli.

Úrskurðarorð.

Gjaldtaka kærða er varðar sorpmál útgerða var byggð á lögmætum grundvelli.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal Guðrún

Helga Brynleifsdóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira