Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 19/2019 - Úrskurður

Ofgreiddar bætur

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 19/2019

Miðvikudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. janúar 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. nóvember 2018 um að synja kæranda um breytingu á endurreikningi tekjutengdra greiðslna ársins 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2017. Með bréfi, dags. 22. maí 2018, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum greiðslum ársins 2017 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Með tölvupósti 27. ágúst 2018 andmælti umboðsmaður kæranda niðurstöðunni. Andmælum kæranda var svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 25. september 2018, og var veittur frestur til að leggja fram gögn til 15. október 2018, ella myndi endurreikningurinn standa óbreyttur. Umboðsmaður kæranda sendi frekari gögn með tölvupósti 17. október 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. nóvember 2018, var beiðni kæranda um breytingu á endurreikningi vegna greiðslna ársins 2017 synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. janúar 2019. Með bréfi, dags. 16. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 11. mars 2019, bárust athugasemdir umboðsmanns kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. mars 2019. Með bréfi, dags. 3. apríl 2019, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að fjármagnstekjur samkvæmt skattframtali fyrrverandi eiginmanns hennar vegna ársins 2017 verði undanskildar við endurútreikning ársins. Til vara er gerð sú krafa að til frádráttar fjármagnstekjunum komi þær arðgreiðslur fyrrverandi eiginmanns kæranda sem greiddar voru á tímabilinu X 2017 til X 2017.

Kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi slitið samvistir X 2017 þegar maðurinn hafi flutt út af sameiginlegu heimili þeirra. Fullnægjandi gögn sem staðfesti búsetu mannsins á öðrum stöðum hafi verið lögð fyrir Þjóðskrá Íslands sem hafi breytt lögheimilisskráningu hans frá og með X 2017.

Þann X 2017 hafi kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar undirritað fjárskiptasamning sem staðfestur hafi verið af sýslumanni en samningurinn hafi einnig verið vottaður af tveimur lögmönnum. Leyfi til skilnaðar að borði og sæng hafi hins vegar ekki verið gefið út fyrr en X 2017.

Skattframtöl beri með sér að hvort þeirra fyrir sig, þ.e. annars vegar kærandi og hins vegar fyrrverandi eiginmaður hennar, hafi talið fram allar tekjur sínar á árinu 2017 hvort í sínu lagi. Hjónum sem slíti hjúskap eða samvistum á árinu sé heimilt að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi, samkvæmt 6. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé það og í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. sömu laga sem kveði á um að hjón, sem séu í samvistum, skuli telja fram tekjur sínar og leggja saman tekjur samkvæmt C-lið 7. gr. Hjón sem hafi slitið samvistir telji því ekki fjármagnstekjur sínar saman.

Þar sem kærandi hafi búið ein, hafði slitið samvistum og samið um fjárskipti X 2017, sem staðfest hafi verið af tveimur lögmönnum og fulltrúa sýslumanns, þá telji hún rétt að líta svo á að hjúskaparstaða hennar hafi í raun breyst þegar fyrrverandi eiginmaður hafi flutt út eða í allra síðasta lagi þegar fjárskiptasamningur hafi verið undirritaður.

Kærandi telji að opinberri stofnun sé ekki stætt á því að túlka orðalag reglugerðarinnar um að hjúskaparstaða breytist með íþyngjandi hætti á þann veg að hún geti ekki breyst nema Þjóðskrá breyti skráningu. Útgáfa sýslumanns á leyfi til skilnaðar að borði og sæng, sem sé undanfari breytingar Þjóðskrár Íslands, geti tafist af ýmsum orsökum, s.s. vegna vinnuálags og biðtíma hjá embættinu, verkfalls lögfræðinga hjá embættinu, misskilnings hjóna, ágreinings á milli hjóna eða annars sem einstaklingur sem óski skilnaðar geti enga stjórn haft á. Það sé staðreynd að hjón sem óski eftir tíma hjá sýslumanni vegna skilnaðar þurfi að bíða í að minnsta kosti einn mánuð vegna manneklu embættisins. Kærandi telji að Tryggingastofnun beri að rannsaka málið út frá þeim gögnum sem fyrir stofnunina hafi verið lögð og meta það sjálfstætt hvort hjúskaparstaða kæranda hafi breyst, enda sé í b. lið 2. málsl. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 hvergi vísað til skráningar hjá Þjóðskrá Íslands sem hinnar einu og endanlegu sönnunar á breyttri hjúskaparstöðu. Þá hafi Þjóðskrá Íslands tekið til greina gögn sem hafi staðfest samvistarslit kæranda við fyrrverandi eiginmann. Af þessum sökum neyðist Tryggingastofnun til þess að leggja sjálfstætt mat á það hvort hjúskaparstaða hafi breyst eða ekki og þá, eftir þeim gögnum sem hafi verið lögð fram, hvenær hún hafi breyst.

Túlkun Tryggingastofnunar sé í andstöðu við tilgang ákvæðisins sem sé sá að miða bótagreiðslur við þær tekjur sem bótaþegi hafi haft. Kærandi hafi samkvæmt lögum skyldu til þess að gefa upp tekjur sínar og skattyfirvöld taki tillit til þess að tekjur hennar á árinu 2017 séu eingöngu hennar tekjur og taldar fram án tekna fyrrverandi maka á því ári, samkvæmt 6. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003. Arðgreiðslur til fyrrverandi maka kæranda séu þannig samkvæmt lagaheimild ekki skattlagðar hjá kæranda og ætti íþyngjandi ákvörðun Tryggingastofnunar ekki að vera í andstöðu við þann löggjafarvilja að tekjur maka á skilnaðarári teljist eingöngu þeim maka til tekna en ekki hinum. Þannig sé tilgangur löggjafans með lögum nr. 90/2003 og með lögum nr. 100/2007 sá að líta til tekna einstaklingsins, sem komi úr sambúð eða hjúskap, en ekki til tekna fyrrverandi maka. Ætti ákvörðun Tryggingastofnunar um endurútreikning því að endurspegla þennan tilgang og vera í samræmi við hann, enda yrði önnur ákvörðun í andstöðu við andmælarétt kæranda sem hafi engar upplýsingar um tekjur fyrrverandi maka á árinu 2017 nema þær sem fram komi í töflum frá Tryggingastofnun.

Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi til úrskurða nefndarinnar nr. 142/2007 og nr. 9 frá 9. mars 2006.

Í athugasemdum umboðmanns kæranda, dags. 11. mars 2019, er því mótmælt að úrskurður í máli nr. 17/2012 varði sambærilegar aðstæður. Í málinu hafi ekki verið gerður fjárskiptasamningur á milli hjónanna, auk þess sem skattframtal bótaþegans hafi verið leiðrétt, fjármagnstekjur hafi verið færðar inn og hafi sú fjárhæð verið lögð til grundvallar endurreikningi. Þá hafi verið óumdeilt að helmingur fjármagnsteknanna hafi komið í hlut bótaþegans. Í engu máli sem Tryggingastofnun hafi vísað til hafi fjárskiptasamningur verið undirritaður átta mánuðum fyrir útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng eins og í tilviki kæranda.

Vakin sé athygli á því að samkvæmt hjúskaparlögum sé öðrum maka í hjúskap unnt að draga útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng um þó nokkurn tíma. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laganna veitir sýslumaður eingöngu leyfi til skilnaðar þegar hjón eru sammála. Þó svo að hjón séu sammála geti annar maki samt sem áður dregið mætingu til sýslumanns til þess að lýsa afstöðu sinni og sé þannig uppi sú staða að fólk sem slitið hafi samvistum og njóti ekki tekna hvors annars sé opinberlega skráð í hjúskap.

Löggjafinn hafi komið til móts við aðstæður fólks í þessari stöðu hvað tekjuskráningu og skattskyldu varðar, sbr. 6. málsl. 1. mgr. 63. gr., og beri þess vegna að túlka önnur ákvæði laga sem byggi á tekjuupplýsingum einstaklinga í framtölum til samræmis við þennan vilja löggjafans. Það sé óumdeilt og sannað að kærandi hafi búið ein, þau hafi slitið samvistum, hún hafi ekki notið fjármagnstekna fyrrverandi maka og fjárskiptasamningur hafi verið gerður. Það geti ekki verið í samræmi við vilja löggjafans að tekjur bótaþega séu skertar vegna tekna sem fyrrverandi maki hafi aflað eftir sönnuð og óumdeild samvistarslit, enda hafi leyfi til skilnaðar verið gefið út og fjárskiptasamningur frá X 2017 hafi verið lagður til grundvallar þeirri útgáfu. Löggjafinn geri ráð fyrir því að bótaþegi eigi að hafa allar tekjuupplýsingar til þess að geta veitt þær í tekjuáætlun, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 100/2007. Varhugavert sé þannig að túlka það sem fjármagnstekjur bótaþega þegar hann hafi engin úrræði til þess að afla upplýsinga um fjármagnstekjurnar og færa þær í tekjuáætlun. Löggjafinn ætlist til þess að bótaþegi hafi upplýsingar um fjármagnstekjur sem færa skuli í tekjuáætlun og eðli málsins samkvæmt séu það tekjur hans sjálfs og eftir atvikum maka sem deili fjárhag með bótaþeganum. Þess vegna verði bætur ekki skertar vegna fjármagnstekna fyrrverandi maka sem hvorki hafi sameiginlegan fjárhag né sé samskattaður með bótaþeganum, enda eigi hann ekki úrræði til að veita þessar upplýsingar. 

Á því sé byggt að fjármagnstekjur fyrrverandi maka kæranda hafi fallið til á þeim tíma sem hún hafi ekki verið í hjúskap með honum. Samkvæmt 73. gr. laga um einkahlutafélög sé óheimilt að úthluta af fjármunum félags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Einungis sé heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum. Samkvæmt 76. gr. taki hluthafafundur ákvörðun um úthlutun arðs eftir að félagsstjórn hafi lagt fram tillögur um það efni. Gjalddagi arðs skuli ekki vera síðar en sex mánuðum eftir að ákvörðun um úthlutun hans hafi verið tekin. Tryggingastofnun hafi engar upplýsingar lagt fram um það hvenær ákvörðun um úthlutun arðs hafi verið tekin en samkvæmt 2. mgr. 59. gr. skuli á aðalfundi taka ákvörðun um það hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu. Aðalfundur í einkahlutafélagi fyrrverandi eiginmanns kæranda, sem hafi tekið ákvörðun um úthlutun arðs vegna reikningsársins 2017, hafi farið fram X 2018. Verði arðgreiðslur þess félags þess vegna ekki færðar kæranda til tekna á árinu 2017, enda hafi á tímabili skráðs hjúskapar engin ákvörðun verið tekin um arðgreiðslur og enginn arður hafi verið greiddur.

Vegna athugasemda um greiðslur til kæranda samkvæmt fjárskiptasamningi sé vakin athygli á því að framfærslueyrir til fyrrverandi maka teljist ekki til tekna hjá móttakanda hafi hjónin slitið samvistum samkvæmt 2. tölul. A. liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2017.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um fjármagnstekjur og þar komi fram að sé um hjón að ræða skiptist tekjur samkvæmt 1. málsl. til helminga á milli hjóna við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.

Í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar séu hjón skilgreind sem einstaklingar í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2017 hafi kærandi fengið örorkulífeyri og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til X kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2018 vegna tekjuársins 2017, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtali bótaþega.

Kærandi hafi sent inn tillögu að tekjuáætlun þann X 2017. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að kærandi og maki hennar væru með sameiginlegar X kr. í fjármagnstekjur á árinu 2017. Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum tekjum. Sú tekjuáætlun hafi verið samþykkt með bréfi stofnunarinnar, dags. X 2017. Kærandi hafi fengið greitt miðað við hana frá X til X 2017.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun þann X 2017 þar sem X kr. í lífeyrissjóðstekjur hafi verið bætt við í tekjuáætlunina. Að öðru leyti hafi hún verið óbreytt. Tryggingastofnun hafi samþykkt þá áætlun með bréfi, dags. X 2017. Kærandi hafi fengið greitt á grundvelli þeirrar áætlunar frá X til X 2017.

Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar þann X 2017 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK. Tekjuáætluninni hafi því verið leiðrétt af stofnuninni. Í nýrri tekjuætlun hafi verið gert ráð fyrir X kr. í lífeyrissjóðstekjur og sömu fjármagnstekjum og áður hafi verið gert ráð fyrir. Kærandi hafi fengið greitt á grundvelli þessarar áætlunar frá X til X 2017.

Rétt sé að taka fram að kærandi hafi sent inn nýja tekjuáætlun þann X 2017 þar sem búið hafi verið að taka út allar fjármagnstekjur. Þeirri tekjuáætlun hafi verið hafnað með bréfi Tryggingastofnunar þann X 2017 þar sem hún hafi þótt of seint fram komin á árinu.

Bótauppgjör ársins 2017 hafi verið tvískipt vegna breyttrar hjúskaparstöðu kæranda í X 2017. Við bótauppgjör ársins 2017 hafi komið í ljós að á tímabilinu X til X 2017 hafi kærandi verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið X kr. í arð og X kr. í vexti og verðbætur. Í desembermánuði hafi kærandi verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum örorkulífeyri, aldurstengdri örorkuuppbót, tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót, sjá nánari útlistun í meðfylgjandi gögnum.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2017 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu X kr. en hafi átt að fá greitt X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Kærandi hafi sent inn andmæli þann 27. ágúst 2018 sem hafi verið synjað með bréfi stofnunarinnar þann 25. september 2018. Umboðsmaður kæranda hafi sent inn frekari gögn og hafi því erindi verið synjað með bréfi stofnunarinnar þann 12. nóvember 2018.

Ágreiningur þessarar kæru varði eingöngu áhrif arðgreiðslna úr fyrirtækjum sem nú tilheyri fyrrverandi maka kæranda. Í kæru sé gerð sú krafa að miða skuli við samvistarslit þeirra hjóna, þ.e. frá X eða frá dagsetningu fjárskiptasamnings, dags. X.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar séu hjón samkvæmt lögunum einstaklingar í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum. Kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið í hjúskap til X og því teljist fjármagnstekjur maka til tekna sem hafi áhrif á lífeyrisréttindi í samræmi við 16. gr. laga um almannatryggingar það tímabil, sbr. og b. lið 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Skráning samvistaraðila eða samsköttun skipti ekki máli í því sambandi. Þrátt fyrir að kærandi hafi talið fram sem einstaklingur á árinu 2017 og þrátt fyrir ákvörðun skattsins um meðhöndlun fjármagnsteknanna, breyti það ekki þeirri staðreynd að viðkomandi hafi sannarlega verið í hjúskap á umræddu tímabili, fjármagnstekjur hafi myndast og lögum samkvæmt hafi fjármagnstekjur maka áhrif á tekjutengdar bætur eins og komið hafi verið að hér að framan. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjum lögum samkvæmt.

Þessi túlkun Tryggingastofnunar hafi ítrekað verið staðfest af úrskurðarnefnd og í þessu samhengi sé vísað til úrskurða úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 17/2012 og 286/2013. Einnig sé rétt að vísa til úrskurðar nr. 274/2014 þar sem komi skýrt og greinilega fram sú afstaða úrskurðarnefndar að miða skuli við dagsetningu við skilnað að borði og sæng.

Rétt sé að taka fram að með lögum nr. 88/2015, um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum (markmið, stjórnsýsla og almenn ákvæði), þá hafi verið bætt við lögin skilgreiningu á orðinu hjón. Í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar sé nú kveðið á um það að hjón séu einstaklingar í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum. Tryggingastofnun telji augljóst, miðað við orðalag hins nýja ákvæðis, að ekki sé hægt að horfa fram hjá hjúskaparstöðu bótaþega. Strangt til tekið mætti líta svo á að þessi skilgreining í lögum um almannatryggingar geri kröfu um lögskilnað svo að hægt sé að líta svo á að viðkomandi sé ekki lengur í hjúskap. Tryggingastofnun hafi þó haldið sig við fyrri framkvæmd, þ.e. að miða við skilnað að borði og sæng og sé því um að ræða ívilnandi túlkun gagnvart kæranda. Ekki sé hægt að ganga lengra miðað við orðlag ákvæðisins.

Rétt sé að taka fram að meginforsenda kæranda í þessu máli sé sú að þar sem hún hafi ekki notið arðgreiðslna vegna fyrirtækja sem tilheyri fyrrum maka þá eigi þær ekki að hafa áhrif á rétt hennar til greiðslna Tryggingastofnunar. Vakin sé athygli á því að í fjárskiptasamningi, dags. X, sé komið sérstaklega inn á þetta atriði í 4. gr. samningsins. Þar segir meðal annars að fyrrum maki kæranda skuli greiða henni mánaðarlega X kr. á þessu tímabili vegna [...]. Einnig komi fram að fyrirtæki í eigu fyrrum maka kæranda muni greiða ýmsan kostnað kæranda. Sérstaklega sé vísað til þess að vegna arðgreiðslna á tímabilinu hafi kærandi misst hluta af réttindum sínum hjá Tryggingastofnun. Sérstaklega sé vakin athygli á því að þessar greiðslur til kæranda séu hærri en hennar hluti af arðgreiðslum sem hér um ræði, að teknu tilliti til skatta af fjármagnstekjum. Einnig beri að vekja athygli á því að þessar greiðslur séu skattskyldar og komi ekki fram á skattframtali kæranda.

Að lokum sé rétt að taka það fram að í erindum kæranda til Tryggingastofnunar hafi meðal annars verið haldið fram þeirri málsástæðu að fjármagnstekjur fyrrum maka kæranda hafi verið tilkomnar eftir að þau skildu að borði og sæng. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að skila inn gögnum sem staðfesti það en þau gögn sem skilað hafi verið inn hafi ekki verið metin fullnægjandi, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. X 2018. Þar sem þetta atriði komi ekki fram í kæru hafi Tryggingastofnun ekki talið ástæðu til þess að reifa sérstaklega sjónarmið stofnunarinnar hvað varði þetta atriði í þessari greinargerð. Telji úrskurðarnefnd hins vegar ástæðu til þess að taka þetta atriði sérstaklega fyrir þá óski stofnunin eftir því að fá að koma að sjónarmiðum sínum þar að lútandi áður en úrskurðarnefnd taki ákvörðun í málinu.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 3. apríl 2019, segi að stofnunin telji ástæðu til þess að koma með athugasemdir varðandi fullyrðingu í viðbótargögnum kæranda um að ákvörðun um úthlutun arðs vegna reikningsársins 2017 hafi farið fram þann X 2018 og eigi því ekki að hafa áhrif á rétt kæranda þar sem hún hafi þá ekki verið í hjúskap. Tryggingastofnun vilji í þessu samhengi benda á þrjú atriði. Tryggingastofnun sé bundin við þær upplýsingar sem hún fái frá skattyfirvöldum um fjármagnstekjur kæranda og maka hennar tekjuárið 2017. Eins og kæranda sé kunnugt um þá hafi uppgjör kæranda verið gert þann X 2018 á grundvelli upplýsinga frá skattyfirvöldum, þær upplýsingar hafi ekki breyst og byggist því augljóslega ekki á ákvörðun sem tekin hafi verið í ágústmánuði sama ár. Einnig hafi kæranda verið gefið sérstakt færi á því, í samræmi við gildandi lög og reglur, að skila inn gögnum sem staðfesti að fjármagnstekjur þær sem hér um ræði hafi fallið til eftir að hjúskaparstaða hafi breyst. Þau gögn sem skilað hafi verið hafi verið ófullnægjandi. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2017.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tengingu fjármagnstekna við bætur almannatrygginga:

„Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 18.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar er meginreglan sú að Tryggingastofnun ber að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 6. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar er hugtakið hjón skilgreint sem einstaklingar sem eru í hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum. Samkvæmt 5. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 lýkur hjúskap við andlát maka, vegna ógildingar hjúskapar eða lögskilnaðar.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Kærandi fékk tekjutengdar bætur á árinu 2017. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til vanáætlaðra tekna í tekjuætlun kæranda vegna ársins 2017. Ágreiningur máls þessa varðar einungis meðhöndlun Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum fyrrverandi maka kæranda.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að Tryggingastofnun telji kæranda ekki til tekna fjármagnstekjur fyrrverandi eiginmanns hennar á árinu 2017 í ljósi þess að þau voru ekki samsköttuð umrætt ár og áttu ekki sameiginlegt lögheimili eftir X það ár. Til vara er gerð sú krafa að fjármagnstekjur fyrrverandi eiginmanns kæranda verði eingöngu taldar henni til tekna fram að gerð fjárskiptasamnings, dags. X 2017.

Eins og áður hefur komið fram skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta samkvæmt 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og þá segir í 3. málsl. sömu greinar að ekki skipti máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Fyrir liggur að fjárskiptasamningur vegna fyrirhugaðs skilnaðar kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar var undirritaður X 2017, en þar kemur fram að ekki verði óskað eftir skilnaði strax en samningurinn tilgreini út frá hverju verði gengið við endanleg fjárskipti milli aðila. Einnig er óumdeilt að leyfi til skilnaðar að borði og sæng var gefið út X 2017.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að 2. og 3. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar taki til þeirra bótaþega sem eru skráðir í hjúskap samkvæmt opinberri skráningu og að engu skipti lögum samkvæmt hvort hjón séu samsköttuð eða ekki. Með hliðsjón af 5. gr. hjúskaparlaga telur úrskurðarnefndin að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið hjón í skilningi 6. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar á árinu 2017 þar til skilnaðarleyfið var gefið út og því skiptust fjármagnstekjur ársins til helminga á milli þeirra við útreikning bóta, sbr. 49. gr. og a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, á því tímabili. Þá breytir gerð fjárskiptasamnings eða skráning lögheimilis ekki hjúskaparstöðu kæranda.

Kæranda var gefinn kostur á að leggja fram gögn sem sýndu fram á það hvenær nákvæmlega fjármagnstekjurnar féllu til þar sem því hafði verið haldið fram að það hafi verið eftir útgáfu skilnaðarleyfisins. Kærandi lagði fram til Tryggingastofnunar upplýsingar um greiðslur og millifærslur af ótilgreindum reikningum í X og X 2017. Ekkert í þeim gögnum gefur til kynna hvenær fjármagnstekjur fyrrverandi eiginmanns kæranda féllu til á því ári.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið skylt lögum samkvæmt að láta fjármagnstekjur fyrrverandi eiginmanns kæranda hafa áhrif á tekjutengdar greiðslur kæranda við endurreikning og uppgjör ársins 2017. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að fjármagnstekjur fyrrverandi eiginmanns hennar hafi fallið til eftir að leyfi til skilnaðar að borði og sæng var útgefið af C í X 2017. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá X 2018 um að synja kæranda um breytingu á endurreikningi tekjutengdra greiðslna ársins 2017 er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. nóvember 2018 um að synja A, um breytingu á endurreikningi og uppgjöri á tekjutengdum bótum ársins 2017, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira