Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir vegna kosninga

Úrskurður í máli nr. DMR18090103

Árborg - kæra á úrskurði nefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 þar sem hafnað var kröfu um ógildingu almennrar atkvæðagreiðslu í Sveitarfélaginu Árborg sem fram fór laugardaginn 18. ágúst 2018.

Ár 2018, 31. október er í dómsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. DMR18090103

Kæra Aldísar Sigfúsdóttur

á úrskurði

nefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998

I.       Kröfur og kæruheimild

Þann 18. september 2018 móttók ráðuneytið kæru Aldísar Sigfúsdóttur, kt. […] (hér eftir kærandi), á úrskurði nefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 (hér eftir nefndin), uppkveðnum hinn 12. september 2018. Með hinum kærða úrskurði hafnaði nefndin kröfu um ógildingu almennrar atkvæðagreiðslu í Sveitarfélaginu Árborg sem fram fór laugardaginn 18. ágúst 2018.

Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að ráðuneytið felli úr gildi úrskurð nefndarinnar og úrskurði jafnframt ofangreinda atkvæðagreiðslu ógilda.

Úrskurðurinn er kærður til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt sama lagaákvæði.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Almennar íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, fóru fram í Sveitarfélaginu Árborg laugardaginn 18. ágúst 2018, en aðdraganda þess og málsatvikum er lýst ítarlega í hinum kærða úrskurði og vísast um það til þess sem þar er rakið.

Með bréfi til sýslumanns, dags. 23. ágúst 2018, kærði kærandi auk annars aðila framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Í kjölfarið eða þann 28. ágúst 2018 skipaði sýslumaðurinn á Suðurlandi, með vísan til 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, nefnd til að úrskurða um kæruna. Aflaði nefndin m.a. umsagnar og viðbótargagna frá yfirkjörstjórn Sveitarfélagsins Árborgar. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 12. september 2018, var kröfu kæranda um ógildingu kosninganna hafnað.

Þann 19. september 2018 móttók ráðuneytið kæru kæranda, ásamt fylgigögnum, á framangreindum úrskurði. Ráðuneytið óskaði í kjölfarið eftir því við sýslumann að hann hlutaðist til um að nefndin kæmi öllum gögnum málsins til ráðuneytisins. Bárust gögnin ráðuneytinu með tölvupósti dags. 21. september sl. Taldi ráðuneytið málið þá að fullu upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því ekki þörf á að afla frekari gagna eða umsagna.

III.       Hinn kærði úrskurður

Hinn 12. september 2018 kvað kjörnefnd samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórnar, upp svohljóðandi úrskurð:

Kæra og skipan kjörnefndar

I.

Með bréfi til Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 23. ágúst 2018, kærðu Magnús Karel Hannesson kt.[…] og Aldís Sigfúsdóttir kt. […] framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu í Sveitarfélaginu Árborg sem fram fór laugardaginn 18. ágúst 2018. Kæran, ásamt 14 fylgiskjölum, var móttekin af Sýslumanninum á Suðurlandi 23. ágúst 2018.

Í samræmi við 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna (hér eftir vísað til sem kosningalaga), skipaði Sýslumaðurinn á Suðurlandi hinn 28. ágúst 2018 þriggja manna nefnd til að úrskurða um kærunefnið, sbr. XIV. kafla nefndra laga.

Í nefndina voru skipuð Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Þóra Hallgrímsdóttir, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Ari Karlsson, lögmaður.

Um málsmeðferð nefndarinnar

II.

Kjörnefnd kom saman til fundar 29. ágúst 2018 og sendi sama dag bréf til yfirkjörstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar.  Með bréfinu gerði kjörnefnd yfirkjörstjórn grein fyrir fram kominni kæru og óskaði eftir umsögn kjörstjórnar um kæruna, sbr. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, sem skyldi berast eigi síðar en 5. september 2018. Með bréfinu fylgdu afrit gagna málsins, þ.e. kæran, ásamt fylgigögnum og afrit skipunarbréfa nefndarinnar.

Umsögn yfirkjörstjórnar, dags. 5. september 2018, ásamt 11 fylgiskjölum, barst kjörnefnd sama dag.

 

Ákvörðun um almenna atkvæðagreiðslu
III

Með bréfi Gísla Ragnars Kristjánssonar, Davíðs Kristjánssonar og Aldísar Sigfúsdóttur til bæjarstjórnar Árborgar, dags. 20. mars 2018, var óskað eftir ákvörðun bæjarstjórnar um undirskriftasöfnun um að breyting á aðalskipulagi fyrir miðbæ Selfoss, sem bæjarstjórn samþykkti 21. febrúar 2018, yrði sett í íbúakosningu.

Var í bréfinu vísað til 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglugerðar nr. 155/2013, um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum (hér eftir vísað til sem reglugerðar um undirskriftasafnanir). Í bréfinu var óskað eftir að bréfritarar yrðu umsjónarmenn/ábyrgðaraðilar undirskriftasöfnunar ef hún yrði samþykkt af hálfu bæjarstjórnar.

Á fundi bæjarstjórnar 21. mars 2018 samþykkti bæjarstjórn að ábyrgðaraðilar gætu efnt til umbeðinnar undirskriftasöfnunar sem mætti hefjast 23. mars 2018 og skyldi ljúka 20. apríl 2018.

Hinn 17. apríl 2018 var samningur gerður milli Þjóðskrár Íslands, sem vinnsluaðila og Aldísar Sigfúsdóttur, sem ábyrgðaraðila á grundvelli reglugerðar um undirskriftasafnanir.

Með bréfi Þjóðskrár Íslands til Aldísar Sigfúsdóttur, dags. 2. maí 2018, var tilkynnt um niðurstöðu vinnslu á þeim undirskriftum sem borist hefðu í undirskriftasöfnun vegna íbúakosninga. Sagði í bréfinu að á kjörskrá hefðu verið 6.658 einstaklingar og að samkvæmt niðurstöðu talningar hefði fjöldi kjósenda sem settu nafn sitt á undirskriftalista 1 Íbúakosning fyrir samþykkt aðalskipulag miðbæjar Selfoss, verið 1.928 eða 29,4%, en á undirskriftalista 2 Íbúakosning fyrir samþykkt deiliskipulag miðbæjar Selfoss, verið 1.941 eða 29,7%. Var með bréfinu afhentar niðurstöður undirskriftasöfnunarinnar og undirskriftalistarnir sjálfir á rafrænu formi.

Á fundi bæjarstjórnar Árborgar sem haldinn var 14. maí 2018, var neðangreind tillaga samþykkt samhljóða af bæjarstjórn:

Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að efna til íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um aðal- og deiliskipulag miðbæjar Selfoss sem samþykkt var í bæjarstjórn hinn 21. febrúar 2018.

Bæjarstjórn samþykkir að leita eftir heimild til þess að íbúakosningin fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosningarinnar verði rafræn. Um framkvæmd kosninganna fari eftir ákvæðum bráðabirgðaákvæðis V við sveitarstjórnarlög, sbr. og reglugerð nr. 1002/2015 um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.

Bæjarstjórn samþykkir að rafræna kosningin standi yfir í sjö sólarhringa og hefjist svo fljótt sem heimilað verður og lög leyfa. Bæjarstjórn felur bæjarráði að auglýsa kosninguna og taka ákvörðun um hvenær hún hefst, með vísan til framangreinds, svo og að ákveða hvar kjósendur geti greitt atkvæði á opinberum stöðum í sveitarfélaginu, þar sem nauðsynlegur tækjabúnaður er fyrir hendi. Bæjarstjórn samþykkir að miða kosningaaldur við 16 ára aldur.

Bæjarstjórn samþykkir að eftirfarandi spurningar verði lagðar fyrir íbúa í íbúakosningunni:

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?

Hlynnt(ur)
Skila auðu
Andvíg(ur)

 

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?

Hlynnt(ur)
Skila auðu
Andvíg(ur)

Bæjarstjórn getur lögum samkvæmt ekki ákveðið að niðurstaða kosningarinnar bindi hendur þeirrar bæjarstjórnar sem tekur við að loknum sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 26. maí nk., en ljóst er vegna tímamarka í sveitarstjórnarlögunum að kosningin mun ekki fara fram fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningarnar.

Með bréfi Þjóðskrár, dags. 16. maí 2018, til ábyrgðaraðila, var fyrra bréf stofnunarinnar frá 2. maí 2018 leiðrétt. Í bréfinu kom fram að mistök hefðu átt sér stað við talningu undirritana. Samkvæmt leiðréttri talningu hefði fjöldi kjósenda sem settu nafn sitt á undirskriftalista 1 verið 2.086 eða 31,76%, en á undirskriftalista 2 verið 2.086 eða 31.76%.

Samkvæmt gögnum málsins var bréf Þjóðskrár sent bæjarfulltrúum og framkvæmdastjóra sveitarfélagsins samdægurs í tölvupósti. Með bréfinu fylgdu hins vegar hvorki undirskriftalistar né frumrit undirskrifta.

Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar Árborgar 18. júní sl., var eftirfarandi tillaga samþykkt með atkvæðum fimm bæjarfulltrúa af níu:

Lagt er til að niðurstaða úr fyrirhugaðri íbúakosningu um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi fyrir miðbæinn á Selfossi verði bindandi fyrir ákvörðun bæjarstjórnar um framhald málsins. Þessi binding bæjarstjórnar nær eingöngu til málsins ef að lágmarki 29% kjörgengra íbúa tekur þátt í kosningunni. Ef hins vegar færri en 29% íbúa taka þátt í kosningunni verður niðurstaðan ráðgefandi fyrir endanlega ákvörðun bæjarstjórnar.


Á sama fundi bæjarstjórnar var samþykkt, með vísan til heimildar 8. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar, að fella reglulegan fund bæjarstjórnar í júlí niður, næsti fundur bæjarstjórnar skyldi haldinn 15. ágúst 2018 og að bæjarráði yrði falin fullnaðarafgreiðsla mála á sama tíma.

Á fundi bæjarráðs Árborgar sem haldinn var 13. júlí sl. var eftirfarandi tillaga samþykkt:

Bæjarráð Árborgar samþykkir að íbúakosning um miðbæjarskipulag á Selfossi fari fram laugardaginn 18. ágúst 2018. Stefnt er að því að kosningin verði með hefðbundnum hætti í kjördeildum og kjörstaðir verði opnir frá kl. 9:00 – 18:00.

Bæjarráð áréttar að eftirfarandi spurningar sem áður voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar 14. maí sl. verði lagðar fyrir í íbúakosningunni.

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

Bæjarráð áréttar að niðurstöður kosninganna verði eins og áður var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. júní sl.

Niðurstaða atkvæðagreiðslu úr íbúakosningunni um breytingu á aðal- og deiliskipulagi fyrir miðbæinn á Selfossi verði bindandi fyrir ákvörðun bæjarstjórnar um framhald málsins. Þessi binding bæjarstjórnar nær eingöngu til málsins ef að lágmarki 29% kjörgengra íbúa tekur þátt í kosningunni. Ef hins vegar færri en 29% íbúa taka þátt í kosningunni verður niðurstaðan ráðgefandi fyrir endanlega ákvörðun bæjarstjórnar.

Bæjarráð samþykkir að vísa til viðauka við fjárhagsáætlun kostnaði við íbúakosninguna.

Á fundi 16. júlí sl. með ábyrgðaraðilum og fulltrúum Árborgar voru athugasemdir gerðar við sveitarfélagið um samþykkta atkvæðagreiðslu. Athugsemdir, sem afhentar voru jafnframt skriflega, voru meðal annars gerðar um að ákvörðun sveitarfélagsins 14. maí sl. um að efna til atkvæðagreiðslu hafi verið haldin formgalla þar sem hún hefði verið tekin tveimur dögum áður en endanleg niðurstaða Þjóðskrár um undirskriftasöfnun lá fyrir. Þá var einnig upplýst í bréfinu að beint hefði verið fyrirspurn til Persónuverndar, vegna tiltekinna ummæla þáverandi framkvæmdastjóra sveitarfélagsins um birtingu undirskriftalista eftir að þeir yrðu afhentir sveitarfélaginu, en svar Persónuverndar hefði ekki borist.

Með bréfi, dags. 17. ágúst sl., afhentu ábyrgðaraðilar sveitarfélaginu undirskriftalista og niðurstöðu Þjóðskrár Íslands. Með bréfinu fylgdi jafnframt svar Persónuverndar sem barst 14. ágúst sl. við fyrirspurn ábyrgðaraðila.

Um efni kæru og röksemdir kærenda

IV.

Í kærunni er gerð krafa um að íbúakosningar þær sem fram fóru 18. ágúst 2018 verði úrskurðaðar ógildar vegna ágalla á framkvæmd þeirra. Sjónarmið kærenda eru rakin nánar hér að neðan.

Í fyrsta lagi, telja kærendur að formskilyrði 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga og reglugerðar um undirskriftasafnanir hafi verið brotin. Nánar tiltekið, telja kærendur, að ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar 14. maí sl. um að halda íbúakosningar, hafi verið í andstöðu við ákvæði reglugerðar um undirskriftasafnanir, sbr. 6. og. 7. gr., þar sem formreglum hafi ekki verið verið framfylgt, úrvinnslu gagna hafi ekki verið lokið og að ábyrgðaraðilar hafi ekki verið búnir að afhenda niðurstöður og undirskriftir. Með ákvörðun sveitarstjórnar hefði verið gripið inn í samning ábyrgðarmanns við Þjóðskrá Íslands um framkvæmd undirskriftasöfnunar.

Í kæru er rakið að undirskriftalistum hefði ekki verið skilað til sveitarfélagsins fyrr en 17. ágúst 2018 sökum ummæla þáverandi framkvæmdastjóra sveitarfélagsins um að undirskriftalistar yrðu birtir opinberlega. Vegna þessara ummæla hefði verið send fyrirspurn til Persónuverndar um lögmæti þessa en svar Persónuverndar hafi borist 14. ágúst sl.

Kærendur halda því fram að ef bæjarstjórn hefði ekki gripið inn í skipulagt verkferli samkvæmt ákvæðum reglugerðar um undirskriftasafnanir hefði engin íbúakosning farið fram 18. ágúst sl. þar sem undirskriftasöfnun var ekki formlega lokið. Kærendur rekja jafnframt að skipulagstillögurnar, sem voru grundvöllur kosninganna, hefðu þar með runnið út á tíma um mánaðamót ágúst - september og því hefði þurft að byrja skiplagsferli miðbæjarsvæðisins upp á nýtt, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í kæru er því jafnframt haldið fram að vitneskja bæjarstjórnar um að  skipulagstillögurnar væru að renna út á tíma samkvæmt skipulagslögum hafi verið grundvöllur ákvörðunar um að efna til atkvæðagreiðslu 18. ágúst sl. Þetta hafi haft áhrif á endanlega niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Í öðru lagi¸ telja kærendur að upplýsingar í kynningarbæklingi sem sveitarfélagið lét dreifa á öll heimili í sveitarfélaginu hafi verið af skornum skammti og ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Í þessu sambandi er þess getið að ekki hafi verið minnst á hvers konar byggðarmunstur ætti að byggja á miðbæjarsvæði Selfoss þótt um það hafi þegar verið samið við framkvæmdaraðila.

Kærendur gera jafnframt athugasemd við að upplýsingar í kynningarbæklingnum hafi verið rangar þar sem fullyrt hafi verið að kjósendur þyrftu að svara báðum spurningum á kjörseðli en hann teldist annars ógildur. Þessi ranga fullyrðing hafi síðar verið leiðrétt en einungis á upplýsingavef sveitarfélagsins en ekki með öðru dreifibréfi. Þannig telja kærendur að megi fullyrða að flestir kjósendur hafi ekki séð framangreinda leiðréttingu.

Kærendur gera athugasemd við að gefið sé í skyn í kynningarbæklingnum að allir íbúar Árborgar 18 ára og eldri geti tekið þátt í íbúakosningunum. Þetta verði að telja mjög svo ónákvæmt orðalag og villandi miðað við ákvæði 2. gr. kosningalaga.

Kærendur vekja athygli á því að ekki hafi verið upplýst í kynningarbæklingi að íbúakosning færi fram á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga og meginreglum laga um kosningar og ekki hafi verið bent á kæruleiðir samkvæmt ákvæði 93. gr. kosningalaga.

Í þriðja lagi, telja kærendur að orðalag auglýsingar Sveitarfélagsins Árborgar um framlagningu kjörskrár 13. ágúst sl. hafi verið haldin verulegum annmarka hvað varðar tilgreiningu á þeim kjósendum sem ættu kosningarrétt í íbúakosningunum.

Í kæru er því haldið fram að í texta auglýsingarinnar hafi einungis verið vísað til þeirra kjósenda sem kosningarrétt ættu samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. kosningalaga þ.e. íslenskra ríkisborgara. Ekki hafi verið getið erlendra ríkisborgara sem áttu kosningarrétt, sbr. 3. mgr. 2. gr. sömu laga.

Kærendur telja að orðalag auglýsingarinnar gefi fullt tilefni til þess að halda því fram að hluti kjósenda hafi skilið það svo, að þeir hefðu ekki rétt til þess að taka þátt í íbúakosningunum, jafnvel þótt þeir hafi verið á kjörskrá. Þetta verði því að telja verulegan annmarka á undirbúningi og framkvæmd kosninganna.

Í fjórða lagi, telja kærendur ákvörðun yfirkjörstjórnar að framlengja kjörfund umfram þann tíma sem auglýst var að hann stæði ólögmæta.

Kærendur telja að túlkun yfirkjörstjórnar á 66. gr. kosningalaga, að ekki hafi verið heimilt að slíta kjörfundi fyrr en að hálfri klukkustund liðinni frá því að síðasti kjósandi gaf sig fram, hafi hvergi verið auglýst og ekki gerð opinber fyrr en að kjörfundi loknum. Þannig hefðu einhverjir kjósendur getað kosið á tímabilinu 18:00-18:35 en aðrir ekki. Framangreind túlkun hljóti að vera á skjön við viðtekna túlkun á framangreindu lagaákvæði og einstæð. Með þessu hafi kjósendum verið mismunað með þeim hætti að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort túlkunin sé réttmæt.

Sjónarmið yfirkjörstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar

V.

Í umsögn yfirkjörstjórnar vegna kærunnar kemur fram að það sé mat yfirkjörstjórnar að kosningin hafi farið fram í samræmi við gildandi lög og að þau atriði sem nefnd séu í kæru hafi ekki haft áhrif á úrslit kosninganna. Yfirkjörstjórn bendir jafnframt á að kærendur færi ekki fyrir því rök að ætlaðir gallar á kosningunni hafi haft áhrif á úrslit hennar. Í umsögn sinni tekur yfirkjörstjórn fram að henni sé ekki unnt að veita tæmandi umsögn eða upplýsingar um þá þætti sem kjörstjórninni er ekki ætlað að annast samkvæmt sveitarstjórnarlögum og eru á forræði sveitarstjórnar.

Í fyrsta lagi telur yfirkjörstjórn að formskilyrðum ákvæða 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga og reglugerðar um undirskriftasafnanir hafi verið fylgt. Í ákvæði 107. gr. sé kveðið á um að sveitarstjórn ákveði hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr. sömu laga, sem fjallar um frumkvæði íbúa sveitarfélagsins þegar minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu.

Að mati yfirkjörstjórnar gæti misskilnings í kærunni um innihald 1. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga, en í athugasemdum með frumvarpi því sem síðar varð að sveitarstjórnarlögum segi um ákvæðið:

Sveitarstjórn hefur almennt sjálf forræði á því hvort að almenn íbúakosning fer fram. Á því er þó ákveðin undantekning ef minnst 20% af kosningabærum íbúum sveitarfélags óska íbúakosningar. Þá er sveitarstjórn skylt að verða við slíkri ósk, sbr. 108. gr. frumvarpsins. 

Að mati yfirkjörstjórnar ber samkvæmt framangreindu að túlka umrætt ákvæði á þá leið að sveitarstjórn geti ætíð sjálf haft frumkvæði að atkvæðagreiðslu áður en lögbundnu ferli í tengslum við frumkvæði íbúa að kosningum er lokið samkvæmt 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæðið hafi að mati yfirkjörstjórnar eingöngu þá þýðingu að sveitarstjórn getur ekki ákveðið að halda ekki kosningar ef formsskilyrðum um frumkvæði íbúa er fullnægt heldur er þeim þá skylt að halda kosningar.

Yfirkjörstjórn vísar jafnframt til auglýsingar Sveitarfélagsins Árborgar sem birtist í Dagskránni 18. júlí sl. og á vefsíðu sveitarfélagsins. Í auglýsingunni hafi komið fram upplýsingar um að kosning færi fram á grundvelli sveitarstjórnarlaga, þær spurningar sem lagðar yrðu fyrir kjósendur og að kosning yrði bindandi fyrir bæjarstjórn ef kosningaþátttaka yrði að lágmarki 29% eða meiri en ellegar ráðgefandi. Í auglýsingu hefði enn fremur verið upplýst um tillögur að breytingum á aðal- og deiliskipulagi, sem voru grundvöllur íbúakosningar og að þær mætti nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins og á skrifstofu byggingar- og skipulagsfulltrúa.

Yfirkjörstjórn vísar jafnframt til kynningarbæklings sveitarfélagsins sem dreift var í öll hús í sveitarfélaginu 14.-15. ágúst sl. auk þess að vera aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins.

Yfirkjörstjórn bendir á að ákvörðun að efna til atkvæðagreiðslu hafi verið tekin af Sveitarfélaginu Árborg samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Yfirkjörstjórn hafi hvorki átt aðkomu að undirskriftasöfnun né móttöku undirskriftalista og hafi eingöngu annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Í öðru lagi, tekur yfirkjörstjórn fram að umræddur kynningarbæklingur hafi verið gefinn út af sveitarfélaginu samkvæmt ákvæðum 107. gr. sveitarstjórnarlaga án aðkomu yfirkjörstjórnar.

Yfirkjörstjórn telji hins vegar rétt að benda á nokkur atriði vegna þessa. Hvað varðar þá fullyrðingu kærenda að orðalag um kosningarrétt allra íbúa hafi verið ónákvæmt og villandi, eða að skort hafi á tilvísanir til laga, telur yfirkjörstjórn að engin annmarki sé á kynningarbæklingi hvað þetta varðar.

Í auglýsingu hafi komið fram að kosningar færu fram á grundvelli ákvæðis sveitarstjórnarlaga, en í ákvæðum þeirra laga sé vísað til ákvæða kosningalaga. Yfirkjörstjórn telur jafnframt að engin þörf hafi staðið til þess, eða verið skylda að lögum, að vísa til 93. gr. kosningalaga um kæruleiðir að kosningum afstöðnum.

Yfirkjörstjórn bendir á að allir íbúar 18 ára og eldri hefðu verið hvattir til að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn og mæta á kjörstað eða kjósa utan kjörfundar Þetta væri væntanlega til þess fallið að hafa jákvæð áhrif og vera hvatning til íbúa til að nýta sér kosningarrétt sinn. Slík hvatning geti vart haft neikvæð áhrif á framkvæmd eða úrslit kosninga. Yfirkjörstjórn bendir á að samkvæmt 2. gr. kosningalaga eigi íbúar 18 ára og eldri almennt kosningarrétt þó tilteknar takmarkanir séu þar á.

Hvað varðar þann lið kærunnar sem varðar upplýsingar í kynningarbæklingi, um að kjósendur yrðu að svara báðum spurningum á kjörseðlinum annars yrði seðillinn metinn ógildur, bendir yfirkjörstjórn á ákvæði 46. gr. kosningalaga. Í ákvæðinu segi að kosningaleiðbeiningar skuli veittar á hverjum kjörstað og það sé því ekki hlutverk sveitarstjórna að veita upplýsingar í íbúabæklingi um það efni sem kosið er um. Yfirkjörstjórn tekur undir að umræddar upplýsingar hafi verið rangar og því afar óheppilegar. Þær hafi í kjölfarið verið leiðréttar af hálfu sveitarfélagsins á heimasíðu þess, í þeim bæklingum sem lágu frammi á skrifstofu þess og auk þess hafi verið umfjöllun um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Í þessu sambandi bendir yfirkjörstjórn á að kosning utan kjörfundar höfðu hafist tveimur mánuðum áður en bæklingurinn hafði verið gefinn út. Yfirkjörstjórn hafi til viðbótar útbúið sérstakar áberandi leiðbeiningar á kjörstöðum með leiðréttingu auk hefðbundinna kosningaleiðbeininga. Leiðbeiningarnar hefðu allir sem kusu á kjörfundi átt og getað séð á kjörstöðum.

Yfirkjörstjórn bendir enn fremur á að hlutfall auðra og ógildra seðla í íbúakosningu hafi ekki verið ósvipað og sveitarstjórnarkosningum þeim sem fóru fram 26. maí sl. Átti þetta einkum við spurningu nr. 2 í íbúakosningunni. Í sveitarstjórnarkosningunum var hlutfall auðra og ógildra atkvæða 4,5%. Í íbúakosningu 18. ágúst sl. voru auð og ógild atkvæði um spurningu nr. 1 alls 2,3% og 4,7% við spurningu nr. 2. Auð og ógild atkvæði við spurningu nr. 2 voru því hlutfallslega fleiri í íbúakosningunni heldur en í síðustu sveitarstjórnarkosningum, sem yfirkjörstjórn telur ákveðna vísbendingu um að framangreindar upplýsingar hafi haft lítil áhrif á kjósendur og úrslit kosninga.

Í þriðja lagi, telur yfirkjörstjórn að ekki hafi verið um annmarka að ræða á orðalagi

auglýsingar um framlagningu kjörskrár um kosningarrétt í sveitarfélaginu. Yfirkjörstjórn rekur ákvæði 8. og 9. gr. kosningalaga um tímafresti sveitarstjórnar til að leggja fram kjörskrá og hvernig auglýsa beri slíka framlagningu. Yfirkjörstjórn bendir á að ekki sé skylda samkvæmt ákvæðum kosningalaga að í slíkum auglýsingum sé auglýst hverjir eigi kosningarrétt í sveitarfélaginu. Gert sé ráð fyrir því samkvæmt framangreindum lagaákvæðum að kjósendur kanni hvort og hvar þeir séu á kjörskrá þegar hún er lögð fram til sýnis.

Yfirkjörstjórn tekur jafnframt fram að ekki hafi verið venja að upplýsa um kosningarrétt í auglýsingum sveitarfélagsins um framlagningu kjörskrár.

Yfirkjörstjórn tekur fram að í samskiptum starfsmanns Sveitarfélagsins Árborgar við lögfræðing Þjóðskrár vegna umræddra kosninga hafi verið bent á að það gæti verið upplýsandi fyrir námsmenn búsetta á Norðurlöndum, sem féllu undir ákvæði 2. mgr. 2. gr. kosningalaga, að vera minntir á að tilkynna sig til Þjóðskrár til að vera teknir á kjörskrá. Umræddur viðbótartexti í auglýsingu hefði því verið eingöngu til áminningar fyrir námsmenn um að þeir færu ekki sjálfkrafa á kjörskrá fyrir kosningarnar. Auk þeirra upplýsinga kom fram að lög um kosningar til sveitarstjórna giltu að öðru leyti um kosninguna, þar sem m.a. er nánar kveðið á um kosningarrétt í kosningunum.

Yfirkjörstjórn bendir jafnframt á, að eftir framlagningu kjörskrár, hefðu allir kjósendur á kjörskrá getað kannað rafrænt í gegnum vef Árborgar eða á vef Þjóðskrár Íslands hvort þeir væru á kjörskrá. Þar hefðu komið fram tæmandi upplýsingar um hverjir höfðu kosningarrétt í íbúakosningunum, bæði hvað varðar íslenska og erlenda ríkisborgara. Í auglýsingu yfirkjörstjórnar um kjörfund vegna íbúakosninga í Sveitarfélaginu Árborg, sem birt var þann 15. ágúst sl., var þess getið að kjósendur gætu kannað á vefslóðinni www.kosning.is hvort og þá hvar þeir væru á kjörskrá.

Auk framangreinds bendir yfirkjörstjórn á að afar stutt sé liðið frá sveitarstjórnarkosningum og ættu íbúar sveitarfélagsins því að hafa verið nokkuð meðvitaðir um kosningarrétt sinn í umræddum íbúakosningum. Yfirkjörstjórn hefði ekki borist neinar ábendingar um það að umrædd auglýsing Sveitarfélagsins Árborgar um framlagningu kjörskrár hafi valdið misskilningi sem hafi leitt til þess að erlendir ríkisborgarar hafi ekki nýtt sér kosningarrétt sinn.

Í fjórða lagi, telur yfirkjörstjórn að framlenging kjörfundar fram yfir auglýstan tíma hafi verið í samræmi við ákvæði kosningalaga.

Yfirkjörstjórn rekur ákvæði 1. mgr. 47. gr. kosningalaga um þær reglur sem gilda um upphaf kjörfundar og að það skuli auglýsa með þeim fyrirvara og á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í viðkomandi sveitarfélagi. Jafnframt vísar yfirkjörstjórn til ákvæðis 1. og 2. mgr. 66. gr. sömu laga um slit atkvæðagreiðslu.

Yfirkjörstjórn bendir á að skv. 2. mgr. 47. gr. sé einungis skylt að lögum að auglýsa upphaf kjörfundar. Að mati yfirkjörstjórnar sé hins vegar mikilvægt að auglýsa einnig lok kjörfundar, sérstaklega ef kjörstjórn fyrirhugar að nýta heimild kosningalaga til þess að loka kjörstöðum fyrir kl. 22:00, þannig að kjósendur geti örugglega nýtt sér kosningarrétt sinn. Með vísan til þessa hafi verið auglýst oftar en einu sinni fyrir íbúakosningarnar að fyrirhugað væri að hafa kjörstaði opna til kl. 18:00.

Yfirkjörstjórn tekur fram að ljóst sé að ákvæði kosningalaga geri ekki ráð fyrir að almenningi sé kynnt sérstaklega með auglýsingu sú skylda sem hvílir á yfirkjörstjórn skv. 1. mgr. 66. gr. kosningalaga.

Yfirkjörstjórn fellst ekki á þá fullyrðingu kærenda að kjósendum hafi verið mismunað. Þvert á móti hafi allir kjósendur setið við sama borð þar sem umrætt ákvæði var ekki kynnt sérstaklega fyrir kosningarnar. Yfirkjörstjórn bendir jafnframt á að minni sveitarfélög í Suðurkjördæmi hafi sum hver viðhaft þessa framkvæmd við kosningar og auglýst styttri opnunartíma en til kl. 22:00. Yfirkjörstjórn hefði borið skylda til að hafa lengur opið þegar í ljós kom að kjósendur mættu enn á kjörstað milli kl. 17:30 og 18:00.

Yfirkjörstjórn getur þess að hún hafi fjallað ítarlega um þetta atriði í skýrslu yfirkjörstjórnar til bæjarstjórnar, dags. 21. ágúst sl., þar sem fram komi:

Opnunartími kjörstaða var auglýstur frá kl. 9 til kl. 18. Kjörstaðir voru hins vegar opnir til kl. 19:05 sökum ákvæðis 66. gr. laga nr. 5/1998 þar sem segir að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Á kjördag mættu kjósendur til kosninga til kl. 18 auk þess sem einn kjósandi gaf sig fram kl. 18:20 og tveir kjósendur kl. 18:35. Kjörfundi var því ekki lokið fyrr en hálftíma síðar eða 19:05.

 

Niðurstaða kjörnefndar

Almennt um valdheimildir og endurskoðunarheimildir kjörnefndar

VI.

Almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélags um málefni þess fer fram samkvæmt ákvæði 107. gr. sveitarstjórnarlaga, eða eftir atvikum samkvæmt ákvæði 108. gr. sömu laga ef atkvæðagreiðsla fer fram að frumkvæði íbúa sveitarfélagsins. Samkvæmt 6. mgr. 107. gr. fer um framkvæmd atkvæðagreiðslu að öðru leyti samkvæmt meginreglum kosningalaga, eftir því sem við getur átt.

Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. kosningalaga skal viðkomandi sýslumaður skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið þegar honum hefur borist kæra þess sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu. Ákvæðið kom fyrst inn í 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en með þeim lögum var horfið frá því fyrirkomulagi, að nýkjörin sveitarstjórn úrskurðaði um lögmæti kosninga, þar sem ótryggt þótti, að hún fengi litið óhlutdrægt á málavexti. Í athugasemdum með þessari grein í frumvarpi til laga nr. 8/1986 kom fram að þessa skipan skyldi viðhafa „einungis í þeim tilvikum, þegar gildi kosninga er dregið í efa.“

Í 94. gr. kosningalaga er tekið fram að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Ákvæði þetta kom fyrst inn í 36. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 en í athugasemdum með því ákvæði í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum var tekið fram að það leiddi: „þó væntanlega af eðli máls, að ekki ber að ógilda kosningar að öllu leyti, ef hægt er að bæta úr því sem áfátt er með ógildingu að hluta eða með öðrum úrræðum“.

Samkvæmt framangreindu afmarkast valdsvið kjörnefndar af umfjöllun um gildi kosninga. Ógilding kosninga kemur hins vegar ekki til skoðunar nema þegar ætla má að gallar á framboði, framkvæmd, eða kosningu hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Skiptir í þessu sambandi ekki máli hvort um er að ræða ógildingu í heild eða hluta eða þegar bæta skal úr því sem áfátt er með öðrum úrræðum. Gallarnir, einir sér eða samanlagðir, verða allt að einu að hafa áhrif á úrslit kosninganna.

Um ætlaðan galla á ákvörðun um almenna atkvæðagreiðslu

VII.

Í fyrsta lagi byggir kærandi á því, á meðan undirskriftasöfnun um almenna atkvæðagreiðslu í Sveitarfélaginu Árborg skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga væri ekki formlega lokið, væri bæjarstjórn óheimilt að samþykkja að almenn atkvæðagreiðsla um sama efni færi fram skv. 107. gr. laganna.

Í ákvæði 107. gr. sveitarstjórnarlaga er að finna heimild fyrir sveitarstjórnir til þess að ákveða hvort efnt skuli til almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags um málefni þess. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal boða til slíkrar atkvæðagreiðslu með að minnsta kosti fjögurra vikna fyrirvara með opinberri auglýsingu. Samhliða auglýsingunni skal sveitarstjórn kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til þess að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skulu þeir eiga rétt til þátttöku í slíkri atkvæðagreiðslu sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu samkvæmt ákvæðum kosningalaga og skulu slíkar kosninga vera leynilegar og atkvæðaréttur jafn samkvæmt 4. mgr. Í 5. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að atkvæðagreiðsla sem fram fer samkvæmt greininni skuli vera ráðgefandi, nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils og skal í auglýsingu samkvæmt 2. mgr. taka fram hvort hún skuli vera bindandi en jafnframt skal heimilt að binda slíka ákvörðun skilyrði um að tiltekið hlutfall kjósenda á kjörskrá taki þátt í atkvæðagreiðslu. Í 6. mgr. er svo á um það kveðið að við framkvæmd atkvæðagreiðslu skuli að öðru leyti fara eftir meginreglum laga um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við eigi.

Í ákvæði 108. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um borgarafundi eða atkvæðagreiðslu að frumkvæði íbúa sveitarfélags. Í 1. mgr. er fjallað um íbúafundi. Í 2. mgr. segir að ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu samkvæmt 107. gr. skuli sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn skal heimilt að ákveða hærra samþykkishlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags, en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga. Í ákvæði 3. mgr. er að finna tiltekin verkefni eða ákvarðanir sveitarstjórna sem ekki er heimilt að krefjast atkvæðagreiðslu um þ.m.t. tillögur sem ganga gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins. Í 4. mgr. segir að ráðuneytið skuli í reglugerð mæla frekar fyrir um það hvernig staðið verður að söfnun undirskrifta eða annarrar staðfestingar á ósk íbúa samkvæmt 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Þar megi ákveða að undirskriftir skuli lagðar fram á sérstöku eyðublaði eða að staðfesting sé lögð fram rafrænt á nánar tiltekinn hátt.

Í ákvæðum reglugerðar um undirskriftasafnanir er kveðið nánar á um framkvæmd undirskriftasöfnunar samkvæmt ákvæði 108. gr. laganna. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um hlutverk ábyrgðaraðila og að hann skuli gera samning við Þjóðskrá Íslands sem annast vinnslu og talningu undirskrifta. Í 6. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það að þegar undirskriftasöfnun er lokið skuli Þjóðskrá Íslands annast úrvinnslu þ.m.t. hvort þeir sem ljáð hafa málefni undirskrift sína eigi rétt til þátttöku. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að Þjóðskrá Íslands skuli afhenda ábyrgðaraðila niðurstöður undirskriftasöfnunar og lista á pdf-formi, rafrænt undirritaða. Í 3. mgr. er kveðið á um að framkvæmdastjóri sveitarfélags eða oddviti skuli taka við undirskriftum frá ábyrgðaraðila ásamt staðfestingu þjóðskrár og staðfesti móttöku þeirra. Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um að sveitarstjórn skuli eftir móttöku undirskrifta staðfesta að tilskildu hlutfalli íbúa skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hafi verið náð og að framkvæmdastjóri sveitarfélagsins eða oddviti tilkynnir ábyrgðaraðila um niðurstöðuna um leið og hún liggur fyrir. Í 3. mgr. segir að verði niðurstaða sveitarstjórnar sú að almenn atkvæðagreiðsla skuli fara fram ber sveitarstjórn að ákveða hvenær atkvæðagreiðslan fer fram og hefja undirbúning hennar, sbr. 107. gr. laganna og skal hún fara fram innan árs frá því að slík ósk berst skv. 4. mgr.

Fyrir liggur í málinu að ábyrgðaraðilar afhentu ekki sveitarfélaginu undirskriftalista ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands á vinnslu sömu lista skv. 3. mgr. 6. gr. reglugerðar um söfnun undirskrifta fyrr en 17. ágúst sl. Af því leiðir að þegar ákvarðanir bæjarstjórnar og bæjarráðs Árborgar voru teknar um atkvæðagreiðsluna var sveitarfélagið ekki skuldbundið að halda almenna atkvæðagreiðslu að frumkvæði íbúa samkvæmt 108. gr. sveitarstjórnarlaga.

Fyrir liggur enn fremur að ákvörðun um að efna til almennrar atkvæðagreiðslu hinn 18. ágúst 2018 var tekin að frumkvæði sveitarstjórnar samkvæmt 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

Eftir stendur þá að komast að niðurstöðu um það hvort ákvæði 108. gr. sveitarstjórnarlaga takmarki heimildir sveitarstjórnar að taka sjálfstæða ákvörðun um að efna til atkvæðagreiðslu samkvæmt 107. gr. sveitarstjórnarlaga, ef undirskriftasöfnun um atkvæðagreiðslu á grundvelli sömu tillögu samkvæmt 108. gr. er ekki formlega lokið.

Í ákvæðum sveitarstjórnarlaga er enga slíka takmörkun á heimildum sveitarstjórnar að finna. Í framhaldsnefndaráliti um frumvarp það sem síðar varð að sveitarstjórnarlögum segir um 108. gr.:

Nefndin telur sérstakt tilefni til að benda á að þrátt fyrir að ákvæði frumvarpsgreinarinnar kveði á um skyldu sveitarstjórna til viðbragða að því tilskildu að ákveðinn hluti íbúa sveitarfélags krefjist slíks er ekki hægt að gagnálykta frá frumvarpsgreininni á þann hátt að slíkt sé sveitarstjórnum ekki að öðru leyti heimilt. Þannig kemur ekkert í veg fyrir að sveitarstjórn bregðist við óskum fárra íbúa krefjist þeir borgarafundar eða atkvæðagreiðslu um einstök mál. Þá kemur ekkert í veg fyrir að sveitarstjórn haldi íbúafund eða atkvæðagreiðslu meðal íbúa um einstök mál að eigin frumkvæði.

Af öllu framansögðu leiðir að ákvæði laga takmarka ekki heimildir sveitarstjórnar til til þess að ákveða að efna til almennrar atkvæðagreiðslu að eigin frumkvæði samkvæmt 107. gr. sveitarstjórnarlaga, þótt í gangi sé undirskriftasöfnun um að efna til sams konar atkvæðagreiðslu samkvæmt 108. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds er það því niðurstaða kjörnefndar að ekki hafi verið galli á ákvörðunum Sveitarfélagsins Árborgar um að efna til almennrar atkvæðagreiðslu sem fram fór 18. ágúst sl., enda fór hún ekki fram á grundvelli 108. gr. sveitarstjórnarlaga.

Af þessari niðurstöðu leiðir að ekki er ástæða til að fjalla um önnur þau sjónarmið sem fram koma í kæru um ástæður bæjarstjórnar fyrir ákvörðun um að efna til almennrar atkvæðagreiðslu, samspil þeirrar ákvörðunar við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, ætlaða meðferð sveitarfélagsins á undirskriftalistum eða önnur slík atriði sem rakin eru varðandi þennan þátt kærunnar.

Um ætlaðan galla á efni kynningarbæklings

VIII.

Í öðru lagi, halda kærendur því fram að efni kynningarbæklings Sveitarfélagsins Árborgar hafi verið haldið nánar tilteknum annmörkum.

i.

Kærendur byggja á því að upplýsingar hafi verið af skornum skammti um tillöguna í kynningarbæklingi og ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ákvæði 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga kveður á um að sveitarstjórn sé skylt að kynna samhliða auglýsingu opinberlega þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu. Hvorki í ákvæðinu né í lögskýringargögnum er að finna nánari skýringar á því hvernig sveitarfélag skuli standa að slíkri kynningu eða á hvaða formi.

Af almennum reglum stjórnsýsluréttar og hinni ólögfestu meginreglu um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda felst hins vegar að veittar upplýsingar skulu vera réttar, skýrar og nægilegar um það efni sem stjórnvöld veita upplýsingar um. Almennt verður að ljá sveitarfélagi svigrúm við útfærslu á slíkum kynningum þ.m.t. í hvaða formi og hversu ítarlegar slíkar kynningar eru. Við þetta mat skiptir jafnframt eðli tillögu sem bera á undir atkvæði máli og hvort hún sé einföld eða flókin. 

Í auglýsingu Sveitarfélagsins Árborgar, sem birtist í Dagskránni þann 18. júlí sl., voru birtar spurningar á kjörseðli við atkvæðagreiðsluna 18. ágúst sl. og upplýsingar um hvaða hlutfall kjósenda þyrfti að taka þátt í kosningu til þess að hún yrði bindandi fyrir bæjarstjórn. Var jafnframt tekið fram að upplýsingar um viðkomandi tillögur að breytingu á aðal- og deiliskipulagi mætti nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins eða á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa þess.

Í kynningarbæklingi sem dreift var 14.-15. ágúst sl. var að finna myndir af gildandi skipulagsáætlunum fyrir miðbæ Selfoss og tillögu að breytingu þeirra ásamt stuttum skýringum um afleiðingar þess ef tillögur að nýju skipulagi yrðu samþykktar eða þeim hafnað í atkvæðagreiðslu. Í bæklingum var uppdráttur með upplýsingum um eignarhald á lóðum á skipulagssvæðinu. Í bæklingnum var tekið fram að nánari upplýsingar mætti finna á heimasíðu sveitarfélagsins á sérstökum hnappi sem bar heitið íbúakosning.

Fyrir liggur að á heimasíðu sveitarfélagsins Árborgar voru tillögur að aðal- og deiliskipulagsbreytingum ásamt greinargerðum þeirra. Þar var afrit samnings milli sveitarfélagsins og framkvæmdaaðila, upplýsingar um eignarhald á lóðum á skipulagssvæðinu og staðfesting PWC á fjármögnun framkvæmdaraðilans.

Með vísan til alls framangreinds, er það niðurstaða kjörnefndar að ekki hafi verið galli á kynningu sveitarfélagsins í skilningi ákvæðis 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

ii.

Í kæru er því haldið fram að ranglega hafi verið fullyrt í kynningarbæklingnum að svara þyrfti báðum spurningum á kjörseðli við atkvæðagreiðsluna ellegar yrði atkvæði metið ógilt.

Kjörnefnd telur nægilega leitt í ljós, með vísan til umsagnar yfirkjörstjórnar og gagna málsins, að framangreindar upplýsingar hafi ekki verið réttar.

Að því sögðu, er upplýst í gögnum málsins, að leitast hafi verið við að leiðrétta þessar röngu upplýsingar með tilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins. Um þetta atriði hafi einnig verið fjallað umfjöllun í kvöldfréttum Stöðvar 2. Yfirkjörstjórn brást jafnframt við með því að láta semja sérstakar kosningaleiðbeiningar sem héngu uppi á öllum kjörstöðum.

Með vísan til þess að brugðist var skjótt við, þeirra leiðréttinga sem héngu uppi á kjörstöðum, hlutfalls ógildra atkvæða við kosninguna og fjölda atkvæða sem greidd voru utan kjörfundar samanborið við úrslit atkvæðagreiðslunnar og eðli upplýsinganna að öðru leyti er það niðurstaða kjörnefndar að annmarki að þessu leyti  teljist ekki galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar.

iii.

Kærendur halda því fram að eftirfarandi orðalag í kynningarbæklingi hafi verið ónákvæmt og villandi:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar hvetur alla íbúa 18 ára og eldri til að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn og mæta á kjörstað 18. ágúst nk. eða kjósa utankjörfundar hjá næsta sýslumanni. Þetta er kjörið tækifæri fyrir íbúa til að hafa áhrif á framtíðarstefnu sveitarfélagsins fyrir miðbæjarsvæði Selfoss og mikilvægt að sem flestir mæti á kjörstað og taki afstöðu til spurninganna á kjörseðlinum.

Kjörnefnd telur að í framangreindu orðalagi felist ekki annað en almenn hvatning eða áskorun til kjósenda að nýta sér kosningarrétt sinn við kosningarnar og hafa áhrif á framtíðarstefnu sveitarfélagsins fyrir miðbæjarsvæði Selfoss.

Kjörnefnd tekur sérstaklega fram að hafi einhver íbúa sveitarfélagsins, sem ekki naut kosningarréttar, skilið framangreinda hvatningu sem svo að viðkomandi nyti kosningarréttar, gátu afleiðingar þess hins sama ekki orðið aðrar en að viðkomandi hefði mætt á kjörstað án þess að geta greitt atkvæði. Með vísan til þessa fellst kjörnefnd ekki á að framangreint orðalag kynningarbæklingsins hafi verið galli á undirbúningi atkvæðagreiðslunnar.

iv.

Í kæru eru gerðar athugsemdir við að tilvísun til lagaákvæða í kynningarbæklingi hafi skort. Í ljósi þess Kjörnefnd telur að engin slík skylda er að lögum til getur framangreint ekki, þá þegar af þeirri ástæðu, ekki verið galli á undirbúningi atkvæðagreiðslunnar.

Um ætlaðan galla í auglýsingu um framlagningu kjörskrár

IX.

Í þriðja lagi, halda kærendur því fram að verulegur annmarki hafi verið á orðalagi í auglýsingu Sveitarfélagins Árborgar um framlagningu kjörskrár sem birt var þann 13. ágúst sl. með því að ekki var getið um kosningarrétt þeirra erlendu ríkisborgara sem kosningarrétt eiga samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 2. gr. kosningalaga.

Nánar sagði svo í auglýsingunni:

Kosningarrétt við íbúakosningarnar eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og sem skráðir eru með lögheimili í sveitarfélaginu þremur vikum fyrir kjördag. Íslenskir ríkisborgarar sem stunda nám á Norðurlöndunum og sem flutt hafa þangað vegna ákvæða samnings Norðurlandanna um almannaskráningu, glata ekki kosningarrétti sínum vegna þess. Um íbúakosningar gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. kosningalaga á hver íslenskur ríkisborgari kosningarrétt í sveitarfélagi sem hefur náð 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu. Samkvæmt 2. mgr. á sá kosningarrétt í sveitarfélagi sem flutt hefur lögheimili sitt samkvæmt Norðurlandasamningi um almannskráningu sem uppfyllir þau skilyrði sem rakin eru nánar í ákvæði greinarinnar. Samkvæmt 3. mgr. eiga annars vegar danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, sem hafa átt lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag kosningarrétt og það sama á við um aðra erlenda ríkisborgara sem slíkt lögheimili hafa átt samfellt fimm árum fyrir kjördag, að því tilskildu að þeir uppfylli að öðru leyti skilyrði 1. mgr. 2. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. kosningalaga er sveitarstjórn skylt að auglýsa hvar kjörskrá í sveitarfélaginu liggur frammi með þeim hætti sem vanalegt er að birta opinberar auglýsingar. Í slíkri auglýsingu er hins vegar ekki skylda að lögum að tilkynna um það hverjir kosningarrétt eigi í þeim kosningum sem fram fara í kjölfarið.

Eins og áður hefur komið fram gildir um alla upplýsingagjöf stjórnvalda ólögfest meginregla um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda þ.e. að upplýsingar stjórnvalda séu réttar, nægilegar og hvorki villandi né misvísandi.

Af þeim tölvupóstsamskiptum milli Sveitarfélagsins Árborgar og Þjóðskrár Íslands sem fyrir liggja í málinu er ljóst að framangreindur texti var sendur af Þjóðskrá Íslands til sveitarfélagsins sem tekinn var upp í texta auglýsingar um framlagningu kjörskrár.

Í auglýsingu um framlagningu kjörskrár var einungis getið um kosningarrétt íslenskra ríkisborgara samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. kosningalaga. Engar upplýsingar voru hins vegar í texta auglýsingar um að kosningarrétt ættu jafnframt þeir erlendu ríkisborgarar sem uppfylltu skilyrði 3. mgr. 2. gr.

Af framansögðu leiðir að kjörnefnd telur það nægilega leitt í ljós að með framangreindu orðalagi hafi einungis verið tiltekinn kosningarréttur hluta kjósenda samkvæmt 2. gr. kosningalaganna og með þessu hafi verið brotið gegn ólögfestri meginreglu um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda. Að mati kjörnefndar breytir almenn tilvísun í auglýsingunni til ákvæða kosningalaga ekki þessari niðurstöðu.

Að því sögðu er það niðurstaða kjörnefndar að framangreint orðalag hafi falið í sér annmarka á aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.

Við mat á því hvort annmarkinn hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar er hins vegar þess að gæta að í kynningarbæklingi sem dreift var í öll hús í sveitarfélaginu degi eftir að auglýsingin var birt, var að finna almenna hvatningu til allra íbúa sveitarfélagsins 18 ára og eldri að nýta sér kosningarrétt sinn. Þá var í auglýsingu yfirkjörstjórnar, sem birtist 15. ágúst sl., að finna upplýsingar um tengil á rafræna kjörskrá og að íbúar gætu þar kannað hvort þeir ættu kosningarrétt við atkvæðagreiðsluna. Einnig lítur kjörnefnd til þess að engar vísbendingar eru að finna í gögnum málsins um að þetta hafi orðið til þess að erlendir ríkisborgarar hafi ekki nýtt sér kosningarrétt sinn.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kjörnefndar að framangreindur annmarki hafi ekki verið með þeim hætti að hann teljist galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar.

Um ætlaðan galla á framkvæmd atkvæðagreiðslu

X.

Í fjórða lagi¸ telja kærendur að ákvörðun yfirkjörstjórnar um að framlengja kjörfund um rúman klukkutíma hafi verið ólögmæt.

Í auglýsingu yfirkjörstjórnar um kjörfund dags. 15. ágúst sl., sem birt er í samræmi 1. mgr. 47. gr. kosningalaga, kom fram að kjörfundur við atkvæðagreiðsluna 18. ágúst sl., hæfist kl. 09:00 og lyki kl. 18:00.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. er kveðið á um að kjörfund skuli að meginreglu setja kl. 09:00. Í 1. mgr. 66. gr. kosningalaga kemur fram sú meginregla að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að kjörfundi skuli þó slíta í síðasta lagi kl. 22:00 á kjördag.

Yfirkjörstjórn bendir á að minni sveitarfélög í Suðurkjördæmi hafa sum hver auglýst að kjörfundur stæði yfir í skemmri tíma en til kl. 22:00. Kjörnefnd bendir á að það sé venja við framkvæmd kosninga í fámennum sveitarfélögum hér á landi að auglýst sé fyrir kosningar að kjörfundur standi yfir í skemmri tíma en til kl. 22:00.

Þrátt fyrir að yfirkjörstjórn taki ákvörðun að auglýsa að kjörfundur standi yfir í skemmri tíma er ljóst að atkvæðagreiðslu má einungis slíta samkvæmt því sem greinir í 2. mgr. 66. gr. laganna. Auglýsing um skemmri kjörfundartíma getur því ekki bundið kjörstjórn í ljósi framangreindrar lagareglu.

Með vísan til framangreinds telur kjörnefnd að slit atkvæðagreiðslu 18. ágúst sl. hafi verið samkvæmt 2. mgr. 66. gr. kosningalaga og því ekki um galla á framkvæmd kosninganna að ræða.

XI.

Samkvæmt því sem greint hefur verið frá að framan hefur kjörnefnd komist að þeirri niðurstöðu að tveir annmarkar hafi verið á undirbúningi kosninganna, en að hvorugur annmarkanna teljist galli sem hefði getað haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, hvort sem þeir séu metnir hvor fyrir sig eða sameiginlega.

Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til ákvæðis 94. gr. kosningalaga er kröfum kærenda um ógildingu atkvæðagreiðslunnar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda, Aldísar Sigfúsdóttur og Magnúsar Karels Hannessonar, um ógildingu almennrar atkvæðagreiðslu í Sveitarfélaginu Árborg sem fram fór laugardaginn 18. ágúst 2018.

 

IV.       Málsástæður og rök kærenda

 

Í kæru sinni bendir kærandi á fjögur atriði sem hún telur að nefndin hafi ekki tekið tillit til í niðurstöðu sinni og hefðu getað breytt úrslitum kosninganna.

Í fyrsta lagi bendir kærandi á að í framhaldsnefndaráliti við frumvarp það sem síðar varð að sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og nefndin vísi til í niðurstöðu sinni sé ekki tekið fram að ef ákveðið ferli sé hafið varðandi íbúakosningu megi sveitarstjórn fara út úr því ferli og standa fyrir sambærilegri kosningu að eigin frumkvæði. Bendir kærandi á að það sem geri það tilvik sem hér um ræðir svo sérstakt sé það að stjórnvaldið, í þessu tilviki sveitarstjórnin, sé hluti af málinu eða málsaðili. Þannig knýi stjórnvaldið á um íbúakosningu að eigin frumkvæði í skjóli valds síns og slíkt sé annmarki á framkvæmd kosninganna sem leiða eigi til ógildingar þeirra.

Í öðru lagi bendir kærandi á að bæði hjá sýslumönnum við kosningu utan kjörfundar og í bæklingi sem sveitarfélagið hafi gefið út hafi komið fram að kjósendur þyrftu að svara báðum spurningunum á kjörseðlinum, að öðrum kosti yrði atkvæðið ógilt. Þetta hafi ekki verið leiðrétt fyrr en tveimur dögum fyrir kjördag, eða þann 16. ágúst 2018.  Vegna þessa telur kærandi ljóst að margir kjósendur hafi ekki fengið þessar upplýsingar fyrir kjördag og hafi þess vegna ekki farið á kjörstað, þar sem þeir hafi ekki viljað taka afstöðu til beggja spurninganna.  Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til þess að kosningaþátttakan í íbúakosningunni hafi einungis verið 54,9% en í sveitarstjórnkosningunum þremur mánuðum fyrr hafi hún verið rúmlega 70%. Telur kærandi að þetta bendi til þess að fólk hafi ekki verið búið að gera upp hug sinn varðandi bæði aðal- og deiliskipulagið og þar af leiðandi ekki farið á kjörstað þar sem það hafi talið að atkvæðaseðilinn yrði ógildur ef það svaraði aðeins annarri spurningunni. Telur kærandi að þessi mistök leiði til þess að kosningarnar hafi verið haldnar verulegum annmarka og þ.a.l. beri að ógilda þær.

Þá bendir kærandi á að það sé ekki rétt sem segi í umsögn yfirkjörstjórnar að kosning utan kjörfundar hafi hafist tveimur mánuðum áður en bæklingurinn hafi verið gefinn út. Ákvörðun um íbúakosningu hafi verið ákveðin á fundi bæjarráðs þann 13. júlí 2018 eða um mánuði áður en kosningin fór fram. Nokkru síðar hafi upplýsingabæklingurinn um íbúakosningarnar verið borinn í hús í sveitarfélaginu.

Í þriðja lagi telur kærandi að léleg upplýsingagjöf sveitarfélagsins hafi einnig haft í sér ákveðinn fælingarmátt og verið þess valdandi að fólk hafi ekki kosið. Bendir kærandi á að kosning um nýtt aðal- og deiliskipulag hafi verið framandi fyrir kjósendur og fáir í raun vitað hvaða þýðingu þetta hefði. Sveitarfélaginu hafi því borið að standa vel að kynningu og tryggja að upplýsingar væru aðgengilegar. Það hafi ekki verið gert og kosningaþátttaka því verið lítil. Telur kærandi að sveitarfélagið hafi ekki fylgt 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga um nauðsynlega upplýsingaskyldu og mikið skort á að sveitarfélagið hafi átt samtal við íbúa sína um það málefni sem kosið hafi verið um.

Bendir kærandi á að samþykktur samningur við Sigtún Þróunarfélag hafi legið undir í þessum kosningum, en í honum hafi verið fyrirvari um samþykkt deiliskipulagsins. Ef deiliskipulagstillagan yrði samþykkt myndi samningur við Sigtún Þróunarfélag um byggingu nýs miðbæjar á Selfossi taka gildi. Þetta hafi komið fram í upplýsingabæklingnum og á kosningavef sveitarfélagsins. Hins vegar hafi enginn umræðuvettvangur verið skapaður þar sem sveitarstjórn hafi útskýrt þýðingu samningsins og svarað spurningum um hann. Bendir kærandi á að samningurinn sé upp á marga milljarða og sveitarstjórn hafi ekki haldið neinn kynningarfund um efni hans. Telur kærandi að skort hafi á upplýsingaskyldu sveitarfélagsins hvað þetta varðaði og vísar til 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga máli sínu til stuðnings. Þótt samningurinn hafi verið aðgengilegur á kosningavef sveitarfélagsins þá hafi mjög margt í honum kallað á skýringar sem ekki hafi verið boðið upp á. Telur kærandi að þetta hafi óhjákvæmilega leitt til þess að færri kusu og kjósendur hafi ekki fengið nægar upplýsingar svo þeir gætu tekið upplýsta og sjálfstæða ákvörðun á kjördag. Telur kærandi að þetta hafi leitt til þess að kosningarnar hafi verið haldnar verulegum annmarka og þ.a.l. beri að ógilda þær.

Í fjórða lagi bendir kærandi á að túlkun yfirkjörstjórnar á 66. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, varðandi það að framlengja áður auglýstan opnunartíma á kjördag hafi leitt til þess að kosningarnar hafi verið haldnar annmarka og því beri að ógilda þær.

Bendir kærandi á að framangreindir annmarkar sem auk þeirra annmarka sem getið sé um í kæru til sýslumanns séu næganlegir til þess að vera gallar í þeim skilningi að ógilda beri kosningarnar.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er þess farið á leit við ráðuneytið að það ógildi bæði úrskurð nefndarinnar frá 12. september sl., sem og íbúakosningu í Sveitarfélaginu Árborg sem fram fór þann 18. ágúst sl., þar sem íbúakosningin hafi verið haldin slíkum annmörkum að hana beri að ógilda

Í hinum kærða úrskurði er skilmerkilega gerð grein fyrir lagagrundvelli málsins og vísar ráðuneytið til þess sem þar kemur fram og áréttar það að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna, sbr. 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

Ráðuneytið tekur undir niðurstöðu nefndarinnar um að ákvæði 108. gr. sveitarstjórnarlaga takmarki ekki heimild sveitarstjórnar í því tilviki sem hér er um ræða, þannig að henni hafi verið óheimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu að eigin frumkvæði, skv. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Það að í gangi hafi verið undirskriftasöfnun, á grundvelli 108. gr. laganna, þess efnis að efna til atkvæðagreiðslu um sama málefni og almennu atkvæðagreiðslunni var ætlað að ná til, takmarkar ekki vald sveitarstjórnar hvað þetta varðar. Löggjafinn hefur falið sveitarstjórnum, í krafti þess lýðræðislega valds sem þær hafa, að ákveða hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr. laganna en þær takmarkanir sem þar eru tilgreindar eiga ekki við í máli þessu. 

Ráðuneytið telur óumdeilt í máli þessu að í kynningarbæklingi sem sveitarfélagið gaf út og dreifði til íbúa fyrir kosningarnar hafi ranglega verið fullyrt að svara þyrfti báðum spurningunum á atkvæðaseðlinum til þess að hann væri gildur. Í gögnum málsins kemur fram að af hálfu sveitarfélagsins hafi verið leitast við að leiðrétta þessar röngu upplýsingar og þá hafi yfirkjörstjórn brugðist við þessu með því að láta semja sérstakar kosningaleiðbeiningar sem hafi verið hengdar upp á öllum kjörstöðum. Ráðuneytið er sammála því mati nefndarinnar að annmarki að þessu leyti teljist ekki galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar og þá tekur það einnig undir mat hennar hvað varðar önnur atriði er lutu að ætluðum annmörkum á kynningarbæklingi þeim sveitarfélagið gaf út vegna íbúakosninganna.

Þá felst ráðuneytið ekki á það með kæranda að sveitarfélagið hafi vanrækt þá upplýsingaskyldu sem kveðið er á um í 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga og vísar í því sambandi til rökstuðnings nefndarinnar í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna ber sveitarstjórn að auglýsa hvar kjörská skuli lögð fram með þeim hætti sem vanalegt er að birta opinberar auglýsingar. Ekki er gerð krafa um að í auglýsingunni skuli tiltekið hverjir eigi kosningarrétt í viðkomandi kosningum. Í málinu er hins vegar óumdeilt að í auglýsingu sveitarfélagsins um framlagningu kjörskrár sem birt var á grundvelli fyrrgreindrar 2. mgr. 9. gr. laganna, var getið um kosningarrétt íslenskra ríkisborgara skv. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, en engar upplýsingar um að kosningarrétt ættu jafnframt þeir erlendu ríkisborgarar sem uppfylltu skilyrði 3. mgr. 2. gr. laganna. Ráðuneytið tekur undir með nefndinni að með þessu þá hafi einungis verið tiltekinn kosningarréttur hluta kjósenda og þannig hafi verið farið gegn ólögfestri meginreglu um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og geti almenn tilvísun í auglýsingunni til ákvæða laga um kosningar til sveitarstjórna ekki breytt því. Að þessu leyti er um annmarka að ræða, en ráðuneytið tekur undir mat nefndarinnar og vísar til rökstuðnings hennar í hinum kærða úrskurði þess efnis að annmarkinn hafi ekki verið með þeim hætti að hann teljist galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar.

Ráðuneytið tekur undir með nefndinni hvað það varðar að auglýsing um opnunartíma kjörstaða getur ekki gengið framar þeirri lagareglu sem tilgreind er í 66. laga um kosningar til sveitarstjórna um að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Niðurstaða ráðuneytisins er í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar um að tveir annmarkar hafi verið á undirbúningi kosninganna en að hvorugur þeirra geti valdið ógildingu kosninganna, sbr. 94. gr. laga nr. 5/1998 þar sem segir að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætli megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Þá er það einnig niðurstaða ráðuneytisins að samanlögð áhrif framangreindra annmarka leiði ekki til þess að ógilda beri kosningarnar á grundvelli ákvæðisins.

 

Úrskurðarorð

Niðurstaðan er staðfest

Kröfu kæranda um ógildingu úrskurðar nefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, dags. 12. september 2018, er hafnað.

Kröfu kæranda um ógildingu íbúakosninga í sveitarfélaginu Árborg er fram fóru þann 18. ágúst 2018, er hafnað.

____________________________

Úrskurður þessi er undirritaður og sendur í ábyrgðarbréfi.

Fyrir hönd ráðherra


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira