Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 435/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 435/2017

Föstudaginn 9. mars 2018

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 23. nóvember 2017, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 2. nóvember 2017, vegna umgengni kæranda við son sinn, D. Er þess krafist að kærandi njóti umgengni við drenginn fjórum sinnum í mánuði í eina klukkustund í senn á heimili kæranda, eins og hún tilgreinir nánar í kröfugerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni og lýst er í kafla II hér á eftir.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi flutti til Íslands frá E árið X með drenginn D sem er fæddur árið X. Hún fluttist til F og giftist [...] manni en þau skildu skömmu síðar. Árið X giftist kærandi G og eignuðust þau tvö börn, H, fædda árið X, og I, fæddan árið X. Þau skildu og fer G með forsjá beggja barnanna.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi blóðtappa í [...]í X. Fram kemur að vegna þessa sé hún með [...]. Hún hafi einnig orðið fyrir [...] sem geti valdið hömluleysi og skorti á framtakssemi, skapsveiflum, erfiðleikum við að leysa vandamál, tilhneigingu til endurtekningar og stundum óeðlilegrar hegðunar. Hún geti einnig leitt til reiðikasta, ógnandi hegðunar og jafnvel valdbeitingar eða áhugaleysis og meðfærileika. Skaði kæranda af völdum [...]sé alvarlegur og varanlegur

Drengurinn var á árinu X vistaður tímabundið utan heimilis hjá J og K en hefur verið hjá þeim í varanlegu fóstri frá því að kærandi var svipt forsjá barna sinna með dómi Hæstaréttar Íslands X 2016 .

Þann 25. júní 2015 var úrskurðað að umgengni kæranda við drenginn skyldi vera tvær klukkustundir í senn aðra hvora viku. Úrskurðurinn var kærður til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann 2. september 2015. Þann 24. september 2015 úrskurðaði Barnaverndarnefnd B að öðrum en fósturforeldrum væri óheimilt að fara með drenginn úr landi á meðan hann væri vistaður utan heimilis. Úrskurðurinn var kærður til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann 9. desember 2015.

Þann 10. desember 2015 var mál barna kæranda enn tekið til meðferðar á fundi Barnaverndarnefndar B þar sem niðurstaða forsjárhæfnismats á kæranda lá fyrir. Barnaverndarnefnd B úrskurðaði þá að kærandi hefði umgengni við drenginn aðra hverja viku, eina klukkustund í senn undir eftirliti.

Í fjórða sinn var úrskurðað í máli drengsins 2. nóvember 2017, en Barnaverndarnefnd B kvað upp svohljóðandi úrskurð vegna umgengni kæranda við hann, auk þess sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd ákveður að regluleg umgengni D við kynmóður, A skuli vera þrisvar á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni skal fara fram undir eftirliti og í húsnæði á vegum barnaverndar B. Heimilt er að víkja frá staðsetningu sé það mat starfsmanna að það þjóni hagsmunum D“.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 2. nóvember 2017 vegna umgengni kæranda við son sinn, D. Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og umgengni kæranda við drenginn verði ákveðin fjórum sinnum í mánuði í eina klukkustund í senn á heimili kæranda. Hún krefst þess að tekið verið mið af sameiginlegum hagsmunum sínum og drengsins.

Kærandi vísar til þess að hún sé frá E og hafi komið til Íslands í X. Hún hafi fengið blóðtappa í [...]í X. Vegna blóðtappans sé kærandi [...]. Staðfest hafi verið með heilasneiðmynd að kærandi sé með skemmd á [...]eftir blóðtappann. Liggi því fyrir að kærandi hafi hlotið [...]. Afleiðingar [...] í tilviki kæranda lýsi sér líklega í einhverjum persónuleikabreytingum, skapgerðarbrestum og lélegu tímaskyni.

Samskipti kæranda við Barnavernd B eigi sér nokkra forsögu sem eigi að meginstefnu rót sína að rekja til fötlunar hennar. Sonur kæranda hafi verið í tímabundnu fóstri frá X 2015. Kærandi hafi verið svipt forsjá drengsins með dómi Hæstaréttar X 2016 og þá hafi fóstrið orðið varanlegt. Drengurinn hafi verið hjá sömu fósturforeldrum allan tímann. Umgengni kæranda við drenginn hafi að jafnaði verið einu sinni á sex vikna fresti áður en henni hafi verið breytt í einu sinni á átta vikna fresti síðast liðið vor, til reynslu fram á haustið. Barnavernd B hafi lagt fram tillögu 12. október 2017 um að umgengni kæranda við drenginn yrði þrisvar á ári, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnverndar B. Jafnframt hafi Barnavernd B lagt til að umgengni gæti staðið skemur, óskaði drengurinn eftir því.

Við úrlausn þessa máls verði, eins og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem sé barni fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Fyrir bæði kæranda og drenginn sé hin kærða ákvörðun mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðunin feli í sér verulegt inngrip í réttindi þeirra beggja auk þess að hafa mjög viðurhlutamikil áhrif á líf drengsins. Af þeim ástæðum sem nú verði raktar telji kærandi að hinn kærði úrskurður gangi gegn hagsmunum drengsins og að það sé honum fyrir bestu að hafa tíðari umgengni við sig.

Í hinum kærða úrskurði skorti verulega á að tekið sé tillit til sérþarfa kæranda. Fyrir liggi að hún sé með [...], eigi erfitt með gang og hafi jafnframt orðið fyrir einhverjum persónuleikabreytingum vegna [...]. Kærandi telji það brjóta í bága við alþjóðasáttmála sem tryggi réttindi fatlaðs fólks að taka ekki tillit til sérþarfa sinna í hinum kærða úrskurði. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland sé aðili að, sé sérstaklega áréttað í 23. gr. að virðingu skuli bera fyrir heimili og fjölskyldu, en í 2. mgr. 23. gr. sé lögð jákvæð skylda á aðildarríki til þess að veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna. Að mati kærandi hvíli því á barnaverndaryfirvöldum jákvæð skylda til þess að tryggja að hún geti haft reglulega umgengni við drenginn og verið eins virk í lífi hans og mögulegt sé. Þá sé barnarverndarnefnd skylt að veita kæranda og drengnum þann stuðning sem þeim sé nauðsynlegur til þess að geta notið reglulegrar umgengni hvort við annað.

Í sérfræðiáliti L sálfræðings sé meðal annars vikið að mikilvægi þess að börn kæranda þekki móður sína. Í því sambandi sé vakin athygli á því að það sé nauðsynlegt að tekið sé mið af fötlun kæranda við ákvörðun um tilhögun umgengni, en þar segi: „Undirrituð telur mikilvægt að lagðar séu línur varðandi umgengni barnanna þriggja við móður sína út frá því að hún hefur engar forsendur til að vera ein með ábyrgðina á þeim eina einustu stund. En hún er móðir þeirra og það er mikilvægt að börnin haldi áfram að þekkja hana. Stuðla þarf að samvistum hennar og barnanna, sem fari fram af virðingu við hana sem þá alvarlega fötluðu konu sem hún er og taki tillit til þess að börnin eru glaðleg og kraftmikil. Samvistir mega alls ekki gera meiri kröfur til hennar en hún getur mætt og þær þurfa að standa nægilega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið. Það væri beinlínis vanvirðing við hana ef reynt væri að gera til hennar kröfur um stærra hlutverk í uppeldi þeirra.“

Að áliti kæranda gangi hinn kærði úrskurður gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og því sem fram komi í ofangreindu sérfræðiáliti. Það sé ótækt að vegna fötlunar kæranda séu settar svo viðamiklar takmarkanir á möguleika þeirra mæðgina til þess að rækja samband sitt.

Í málinu verði einnig að líta til meðalhófsreglu, en barnaverndarnefndin sé bundin af meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 38. gr. bvl. Í því felist að barnaverndaryfirvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skuli ekki beita íþyngjandi úrræðum lengur en nauðsynlegt sé. Kærandi telur að hinn kærði úrskurður geti ekki með nokkru móti samræmst meðalhófsreglunni þar sem ekki sé nauðsynlegt að beita svo íþyngjandi úrræði.

Meðalhófsreglan leggi þær skyldur á barnaverndaryfirvöld að reyna að finna aðrar leiðir til þess að tryggja vellíðan drengsins, samhliða því að hann njóti reglulegrar umgengni við kæranda. Það sé líklegra til að stuðla að vellíðan drengsins og samræmist mun betur meðalhófsreglunni ef reynt verði að stuðla að meiri stöðugleika í lífi drengsins með tíðari umgengni við kæranda, ásamt því að vinna með henni og drengnum í tengslum við umgengni með aðstoð sérfræðinga. Kærandi telji nauðsynlegt að gera drengnum grein fyrir eðli veikinda hennar og þá sérstaklega hvernig veikindin geti haft áhrif á hegðun hennar. Líkur séu á því að með betri fræðslu og meðferðarvinnu með drengnum geti hann gert sér grein fyrir hvernig skuli haga sambandi sínu við kæranda. Jafnframt telur kærandi nauðsynlegt að sér sé veittur fullnægjandi stuðningur til þess að geta sinnt umgengni við drenginn af kostgæfni. Það muni ekki bæta úr þeirri togstreitu sem þegar sé fyrir hendi að skerða umgengni, það geti í raun haft gagnstæð áhrif og valdið verri líðan drengsins en ella. Það samræmist betur meðalhófssjónarmiðum að kanna hvort það fyrirkomulag sem kærandi leggi til, komi sér betur fyrir drenginn. Það sé barnaverndaryfirvöldum í lófa lagið að heimila aukna umgengni samhliða auknum stuðningi og fræðslu, áður en svo íþyngjandi ákvörðun sé tekin, enda hafi barnaverndarnefnd alla möguleika til að fylgjast náið með nýju umgengnisfyrirkomulagi og breyta því ef reynslan sýni að það henti drengnum illa.

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 64. gr. a. bvl. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls. Kærandi telji að í hinum kærða úrskurði sé litið fram hjá þeim miklu tengslum sem séu á milli hennar og drengsins. Í greinagerð, sem lögð hafi verið fyrir Barnaverndarnefnd B 12. okóber 2017, komi fram að drengurinn greini frá því með svipbrigðum og orðum að hann hugsi um kæranda og vilji sjá hana. Kærandi telji ótækt að litið sé fram hjá því að hún hafi þrátt fyrir allt tengsl við drenginn og drengurinn hafi tengsl við hana. Kærandi telji einnig að óhjákvæmilega verði rof á tengslum þeirra fái hinn kærði úrskurður að standa óhaggaður. Að mati kæranda kunni slík tengslarof að verða drengnum skaðlegra til lengri tíma litið en þau óþægindi sem umgengni kunni að hafa skapað honum, ef þau hafi þá einhver verið. Vegna tengslamyndunar drengsins við kæranda sé nauðsynlegt að hafa umgengni eins oft og hægt sé. Eðli málsins samkvæmt eigi það að vera í forgrunni við ákvarðanir um umgengni á milli kæranda og drengsins að viðhalda og styrkja tengsl þeirra eins mikið og kostur sé á.

Að mati kæranda sé einnig ljóst að vilji drengsins standi til þess að hafa aukin samskipti við sig vegna þess að hann hafi leitað eftir þeim. Þar sem lítil umgengni hafi verið heimiluð hafi kærandi og drengurinn brugðið á það ráð að eiga aukin samskipti. Einnig hafi þau hist á milli þess sem umgengni hafi átt að fram í íbúð kæranda en drengurinn hafi greint frá vilja sínum til að hitta hana. Jafnframt telji kærandi að skýrsla talsmanns 30. október 2017 sýni skýrlega að drengurinn hafi þörf fyrir að hitta hana.

Kærandi telur að framangreint sé til marks um vilja drengsins til þess að hafa meiri samskipti við sig og auka tengsl þeirra á milli. Að mati kæranda eigi ekki að virða fyrrnefnd auka samskipti sér í óhag. Hún veki jafnframt athygli á því að ef þeim mæðginum verði heimiluð aukin umgengni þurfi þau ekki að eiga í samskiptum utan umgengnistíma.

Eins og að framan hafi verið rakið sé það grundvallarregla í barnarétti að hafa beri hag barns í fyrirrúmi við úrlausn hvers máls. Til þess að hægt sé að komast að því hvað sé best hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi í málinu gerst brotleg við rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að mati kæranda sé hin kærða ákvörðun efnislega röng, brjóti á réttindum hennar sem fatlaður einstaklingur og sé andstæð hagsmunum drengsins. Markmið kæranda sé að fá umgengni sem sé líklegri til þess að viðhalda tengslum hennar og drengsins og virði þörf hans til þess að hafa samskipti við sig. Að mati kæranda sé málið ekki nægjanlega vel unnið til að hægt sé að taka svo viðhlutamikla ákvörðun um líf drengsins. Blasi því við að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 18. desember 2017 er vísað til þess að umgengni kæranda hafi verið mjög rúm ef tekið sé mið af því sem almennt gerist þegar um varanlegt fóstur sé að ræða. Ljóst sé af öllum gögnum málsins að umgengni drengsins við kæranda hafi haft skaðleg áhrif á hann. Aukin kvíðaeinkenni og vanlíðan séu áberandi í fari drengsins í kringum umgengni og samverustundir þeirra í umgengni séu þvingaðar og mótaðar af þráhyggju kæranda sem meðal annars hafi hvatt hann til að fara á bak við fósturforeldra sína.

Vegna fötlunar kæranda hafi hún þörf fyrir aðstoð og leiðbeiningar en þær séu fúslega veittar af þeim fagaðilum sem starfi innan [...]B. Kærandi hafi ekki viljað taka við leiðbeiningum starfsmanna og hafi til að mynda ekki svarað starfsmönnum barnaverndar í síma. Kærandi hafi um tíma notið aðstoðar starfsmanns á vegum þjónustudeildar fatlaðra vegna umgengni við systkini drengsins en hafi síðan afþakkað þá þjónustu. Hvorki sé hægt að þvinga kæranda til samstarfs né til að þiggja aðstoð sem hún hafni.

Þegar litið sé til þeirra áhrifa sem samskipti drengsins við kæranda hafi haft á líðan hans og hegðun megi vera ljóst að það samræmist ekki hagsmunum drengsins að vera í eins mikilli umgengni og verið hafi. Í skýrslu talsmanns 30. október 2017 komi fram að drengurinn vilji hitta kæranda þrisvar sinnum á ári ýmist heima hjá henni eða í M þar sem umgengni hafi farið fram. Barnaverndarnefndin telji að virða beri vilja drengsins og að gögn málsins sýni að meiri umgengni geti beinlínis haft neikvæð áhrif á hann.

Þá sé vísað til þess að markmið með umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra sé ekki að styrkja tengsl þeirra á milli heldur að tryggja að barn þekki uppruna sinn.

Með vísan til alls ofangreinds og gagna málsins er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Sjónarmið D

Í skýrslu talsmanns drengsins 30. október 2017 kemur fram að honum finnist ágætt að hitta kæranda. Aðspurður um hversu oft hann vilji að umgengni fari fram eða hversu langt ætti að líða á milli hafi hann sagt að hann vildi að umgengni færi fram þrisvar á ári. Hann kvaðst vilja hitta kæranda einu sinni fyrir jól, einu sinni fyrir sumar og einu sinni „[e]ftir áramót um mars, apríl eða eitthvað.“ Þegar hann hafi verið spurður að því hve lengi hann vildi hafa umgengni hverju sinni hafi hann sagt að sig langaði til að hafa umgengni í einn og hálfan tíma. Aðspurður um staðsetningu umgengni hafi hann sagt: „Mig langar samt smá að fara til hennar og hitta hana. Stundum til hennar og stundum í M. Bara skiptast.“ Drengurinn hafi einnig verið spurður að því hvað hann vildi að þau gerðu saman í umgengni og hann hafi sagt: „Bara tala saman og borða.“

Þá hafi drengurinn verið spurður að því hvort hann vildi taka eitthvað annað fram en hann kvað svo ekki vera.

V. Sjónarmið fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 27. febrúar 2018 kemur fram að þau séu á þeirri skoðun að núverandi fyrirkomulag umgengni, þ.e. þrisvar sinnum á ári virðist henta drengnum mjög vel. Hann sé rólegri og almennt í betra jafnvægi. Umgengnin við kæranda hafi oft gengið nærri drengnum og komið miklu róti og ójafnvægi á hann.

Það sé vilji drengsins að umgengnin sé þrisvar sinnum á ári og finnist fósturforeldrum ótækt annað en taka það til greina. Síðasta umgengnin hafi verið þannig að kærandi hafi ekki nýtt hana til samskipta við drenginn, sbr. það sem tilsjónaraðili drengsins hafi skrifað: „Það voru lítil sem engin samskipti á milli þeirra síðustu 60 mínúturnar þar sem [A] sat og skoðaði myndir á Facebook. [D]sat í sófanum, skoðaði íbúðina og virtist leiðast.“

VI. Niðurstaða

Drengurinn D er X ára og er í varanleg fóstri hjá fósturforeldum sínum, J og K.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B 2. nóvember 2017 var ákveðið að drengurinn hefði umgengni við kæranda þrisvar á ári í húsnæði á vegum barnaverndar undir eftirliti. Heimilt væri að víkja frá staðsetningu væri það mat starfsmanna barnaverndar að það þjónaði hagsmunum drengsins.

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að umgengni hennar við drenginn verði ákveðin fjórum sinnum í mánuði í eina klukkustund í senn á heimili kæranda. Kærandi telur að hinn kærði úrskurður brjóti á réttindum hennar sem fatlaðs einstaklings samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland sé aðili að en hann sé efnislega rangur og andstæður hagsmunum drengsins. Þá telur kærandi að úrskurðurinn sé hvorki í samræmi við meginreglu bvl. um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Loks er það mat kæranda að vilji drengsins hafi ekki verið virtur í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. sömu laga skal taka réttmætt tillit til skoðana barns við úrlausn máls.

Hinn kærði úrskurður er byggður á því að umgengni kæranda við drenginn hafi haft skaðleg áhrif á hann og þannig séu aukin kvíðaeinkenni og vanlíðan áberandi í fari hans í kringum umgengni. Þá séu samverustundir þeirra í umgengni þvingaðar og mótaðar af þráhyggju kæranda. Einnig hafi kærandi átt samskipti við drenginn án leyfis síðastliðið sumar og hvatt hann til að fara á bak við fósturforeldra sína. Kærandi hafi ekki viljað taka við leiðbeiningum um samskipti sín við drenginn og það samrýmist ekki hagsmunum hans að eiga jafn mikla umgengni við kæranda og verið hafi, sé litið til þeirra áhrifa sem kærandi hafi á drenginn. Loks sé vilji drengsins lagður til grundvallar í hinum kærða úrskurði en drengurinn hafi óskað eftir því að hitta kæranda þrisvar sinnum á ári.

Meðal gagna málsins er forsjárhæfnismat sálfræðings á kæranda frá 2015 en á því var meðal annars byggt í dómsmáli á hendur kæranda vegna forsjársviptingar X barna hennar. Í matinu kemur fram að vegna [...]kæranda sé hún með öllu ófær um að tengjast börnum sínum á náinn hátt og rækta með þeim þau nánu tengsl sem börn þurfi á að halda. Einnig sé hún með öllu ófær um að bera ábyrgð á börnunum og bregðast við þörfum þeirra. Þá sé hafið yfir allan vafa að kæranda skorti ýmsa greindarfarslega þætti sem séu nauðsynleg forsenda til að geta haft innsæi í þarfir barnanna og uppfyllt þær, annast um börnin, veitt þeim nauðsynlega athygli og örvun og tengst þeim á þann hátt sem börnunum sé nauðsynlegt. Skaði sá sem orðinn sé á [...] kæranda sé óafturkræfur og engin þjálfun eða kennsla sé til sem geti bætt hann upp. Í matinu kemur fram að kærandi hafi engar forsendur til að bera ein ábyrgð á börnunum eina einustu stund en mikilvægt sé að börnin þekki kæranda. Stuðla þurfi að því að samvistir hennar og barnanna taki mið af fötlun hennar. Fram kemur að samvistir kæranda við börnin megi alls ekki gera meiri kröfur til hennar en hún geti mætt og þurfi að standa nægilega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið. Í forsjárhæfnismatinu kemur einnig fram að greinilegt sé af gögnum málsins að D hafi búið við mikla vanrækslu og hann hafi endurtekið sagt frá því að kærandi hafi beitt hann ofbeldi. Fram kemur í matinu að samverustundir drengsins með kæranda undir eftirliti hafi sýnt mjög vel fram á hve grunnt væri á samskiptum þeirra.

Með dómi héraðsdóms [...] X 2016, er staðfestur var í Hæstarétti Íslands X 2016, var kærandi svipt forsjá X barna sinna, meðal annars drengsins sem hér um ræðir. Í dóminum kemur meðal annars fram að afskipti Barnaverndar B af heimili og börnum kæranda hafi staðið yfir frá árinu 2011. Kærandi hafi ekki farið að fyrirmælum barnaverndar varðandi umgengni, uppeldi, öryggi og aðbúnað barnanna. Hún hafi ítrekað fengið liðveislu inn á heimilið og aðstoð með börnin en hún ætíð komið því þannig fyrir að starfsmenn barnaverndar eða félagsþjónustunnar hafi hætt störfum. Í forsendum og niðurstöðum héraðsdóms er vísað til vottorðs læknis en þar segi að segulómskoðun hafi verið gerð á heila kæranda X sem sýni [...]. [...] geti valdið hömluleysi og skorti á framtakssemi og skapsveiflum. Hann geti einnig valdið erfiðleikum við að leysa vandamál, tilhneiging sé til endurtekninga og stundum óeðlilegrar hegðunar. [...]skemmd kæranda geti haft töluverð áhrif á minni. Þetta geti einnig leitt til reiðikasta og hótandi hegðunar eða jafnvel valdbeitingar. Það geti líka leitt til þveröfugs atferlis; áhugaleysis og meðfærileika. Tímaskyn sé oft truflað. Einnig er í dóminum vísað til þess sem fram komi í vottorði taugasálfræðings hjá LSH en þar segi meðal annars að helstu niðurstöður taugasálfræðilegs mats séu að óyrt rökhugsun mælist skert. Í niðurstöðum segi að kærandi greinist með [...], sem að öllum líkindum sé afleiðing [...] sem hún hafi fengið árið X. Úrskurðarnefndin telur ótvírætt að af gögnum málsins verði ráðið að vitsmunaleg geta kæranda sé verulega skert og hafi þær afleiðingar að kærandi geti ekki ráðið við marga þætti sem reyni á í daglegum samskiptum.

Úrskurðarnefndin telur að vegna vangetu sinnar geti kærandi ekki haft eðlileg og heilbrigð samskipti við drenginn. Kærandi getur því ekki greint á milli hvað eru góð og æskileg samskipti við hann og hvað geta verið erfið og jafnvel slæm samskipti fyrir hann. Þar sem kærandi getur verið óútreiknanleg og hefur ekki innsæi til að hlífa drengnum við erfiðum samskiptum getur það valdið honum hugarangri og vanlíðan. Einnig má ætla að sú togstreita sem kann að skapast í kjölfar samskipta drengsins við móður setji hann í hollustuklemmu og vinni gegn fóstrinu.

Kærandi telur að í hinum kærða úrskurði sé ekki nægilega tekið tillit til fötlunar hennar. Úrskurðarnefndin telur að við úrlausn þessa atriðis sé nauðsynlegt að líta til þess sem fram kemur í fyrrnefndu forsjárhæfnismati. Í matinu eru þær ályktanir dregnar af gögnum málsins, niðurstöðum segulómskoðunar, taugasálfræðimats og athugunum sálfræðings að vegna [...] sé kærandi með öllu ófær um að tengjast börnum sínum á náinn hátt og rækta með þeim þau nánu tengsl sem börn þurfa á að halda. Einnig sé kærandi með öllu ófær um að bera ábyrgð á börnunum og bregðast við þörfum þeirra. Drengurinn er orðinn stálpaður og framundan eru unglingsárin sem eru afar viðkvæmur tími í þroska hans. Á þeim tíma þarfnast hann stöðugleika í lífi sínu og uppalenda sem geta beint honum á réttar brautir. Eftir nokkur ár getur drengurinn sjálfur ákveðið hvernig tengslum hans við kæranda verður háttað en nú þarf hann frið og ró. Að mati úrskurðarnefndarinnar og með vísan til alls þessa sem hér hefur verið rakið er kærandi óhæf til þess að sjá hvað drengnum er fyrir bestu.

Varðandi tímalengd umgengni við börnin verður með vísan til forsjárhæfnismats að styðjast við það mat sálfræðings að umgengni verði ekki meiri en kærandi ráði við í hvert sinn og að hún fái aðstoð eftirlitsaðila til að sinna börnunum meðan á umgengni stendur. Fram kemur í matinu að samvistir við kæranda verði að standa nægjanlega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið. Úrskurðarnefndin telur að með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að drengurinn og kærandi njóti samverustunda með hliðsjón af veikindum kæranda og getu hennar til að sinna honum og eiga við hann samskipti. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni drengsins, öryggi hans og þroskamöguleika. Úrskurðarnefndin telur að umgengni kæranda við drenginn hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Verður því að hafna kröfum kæranda um tíðari umgengni en metin var hæfileg í hinum kærða úrskurði svo og sjónarmiðum hennar um að ekki hafi verið tekið tillit til fötlunar hennar og að vilji drengsins hafi verið virtur að vettugi við úrlausn málsins.

Af öllu þessu verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin, vilja drengsins og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins.

Að mati kæranda hafa barnaverndaryfirvöld gerst brotleg við rannsóknarreglu 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Undir þetta getur úrskurðarnefndin ekki tekið. Í málinu liggja fyrir ítarleg gögn svo sem forsjárhæfnismat og greinargerð vegna viðtals kæranda við félagsráðgjafa B, skýrsla talsmanns drengsins auk dóms í forsjársviptingarmáli á hendur kæranda. Samhljómur er meðal þeirra upplýsinga sem fram koma í þessum gögnum, þ.e. að skaði kæranda sé óafturkræfur og engin þjálfun eða kennsla geti bætt þar úr, að kærandi hafi engar forsendur til að bera ein ábyrgð á börnum sínum, að kærandi hafi ekki verið til samstarfs við barnaverndaryfirvöld, að hún hafi ítrekað reynt að fá drenginn til sín án leyfis síðastliðið sumar og hvatt hann til að segja fósturforeldrum ósatt og að drengurinn hafi búið við mikla vanrækslu á meðan hann var í umsjá kæranda. Eins og málið er nú vaxið telur úrskurðarnefndin að frekari rannsókna hafi ekki verið þörf.

Kærandi krefst þess að umgengni fari fram á heimili hennar. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að umgengni skuli fara fram í húsnæði á vegum barnaverndar en heimilt sé að víkja frá staðsetningu sé það talið þjóna hagsmunum drengsins. Drengurinn hefur sjálfur greint frá því að hann vilji hafa umgengni ýmist á M (sem er húsnæði á vegum barnaverndar) eða á heimili kæranda. Þegar litið er til takmarkana kæranda, forsögu málsins, þess sem fram kemur í forsjárhæfnismati, forsjársviptingardómi og sjónarmiða drengsins verður að telja óvarlegt að mæla fyrir um að umgengni fari ávallt fram hjá kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því staður umgengni réttilega ákveðinn í hinum kærða úrskurði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með vísan til þess sem að framan greinir að umgengni kæranda við D hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að þar hafi einnig verið réttilega mælt fyrir um framkvæmd umgengninnar.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 2. nóvember 2017 varðandi umgengni A við son hennar, D, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira