Hoppa yfir valmynd

799/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 799/2019 í máli ÚNU 19020002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. febrúar 2019, kærði A synjun Seðlabanka Íslands á beiðni um upplýsingar varðandi ákveðna tilfærslu listaverka í eigu bankans.

Með beiðni, dags. 24. janúar 2019, óskaði kærandi eftir „aðgangi að og afriti af öllum gögnum og skjölum í vörslu Seðlabanka Íslands sem leiddu til þeirrar ákvörðunar að finna tilteknum listaverkum í eigu bankans annan stað, eftir því sem segir í fréttum í geymslu, þ. á m. málverkum eftir Gunnlaug Blöndal sem sýna naktar konur.“ Þá óskaði kærandi m.a. eftir gögnum og skjölum um hugsanlegar kvartanir, viðbrögð við þeim og ákvörðun eða niðurstöðu.

Með erindi, dags. 1. febrúar 2019, synjaði Seðlabankinn beiðni kæranda. Til stuðnings synjuninni var annars vegar vísað til þess að ákvörðunin hefði verið tekin með hliðsjón af jafnréttisáætlun bankans. Samkvæmt áætluninni skyldi bregðast við ábendingum starfsmanna og ekki væri gerð krafa um að ábendingarnar væru skriflegar eða samtöl vegna þeirra skráð. Hins vegar vísaði bankinn til þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, sem meinaði bankanum að afhenda upplýsingar vegna málefna bankans og gerði honum ókleift að afhenda kæranda afrit af gögnum og skjölum sem vörðuðu ofangreinda ákvörðun bankans.

Í kæru kemur fram að kærandi telji þagnarskylduákvæði 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands vera almennt þagnarskylduákvæði, sem samkvæmt 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 takmarki ekki rétt almennings til aðgangs að gögnum. Kærandi dregur þá ályktun af orðalagi svarbréfs bankans varðandi þagnarskyldu, að gögn og skjöl sem málið varða séu fyrirliggjandi þrátt fyrir að í bréfinu komi einnig fram að fátt ef nokkuð hafi verið skráð um umrædda ákvörðun. Samkvæmt 27. gr. upplýsingalaga beri bankanum skylda til þess að skrá málsatvik. Þá bendir kærandi á að ekki sé vísað til neins undanþáguákvæðis upplýsingalaga synjuninni til rökstuðnings og vekur hann athygli á því að skort hafi leiðbeiningar um kæruheimild í erindi bankans, sbr. 3. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2019, var kæran kynnt Seðlabanka Íslands og frestur veittur til að senda úrskurðarnefnd umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var óskað eftir að nefndinni yrðu afhent þau gögn sem kæran lyti að. Frestur var veittur til 19. febrúar 2019 en var að beiðni Seðlabankans framlengdur til 1. mars. Í umsögn bankans, dags. 1. mars, var vísað til svars bankans við beiðni kæranda og ítrekað að óþarfi væri að fjalla efnislega um kæruna enda lægju hvorki fyrir formlegar kvartanir né formleg ákvörðun. Ákvörðunin um að fjarlægja tiltekin listaverk hefði verið tekin eftir óformlegar ábendingar starfsmanna og óformlegar umræður á vinnustaðnum.

Þá var áréttað að þótt umrædd gögn lægju fyrir væru þau háð þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Ákvæðið teldist vera sérstakt þagnarskylduákvæði, sem með gagnályktun frá ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 140/2012 gæti, eitt og sér, komið í veg fyrir að almenningi yrði veittur aðgangur að gögnum í vörslum stjórnvalda. Því til stuðnings var vísað til túlkunar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á ákvæðinu í úrskurðum í málum A-324/2009, A-423/3012 og úrskurða nr. 582/2015 og 774/2019 auk dóms Hæstaréttar nr. 329/2012, þar sem því var slegið föstu að 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 væri sérstakt þagnarskylduákvæði.

Í umsögn Seðlabankans var einnig vikið að skráningarskyldu 27. gr. upplýsingalaga, sem vísað var til í kæru. Bankinn benti á að tilfærsla málverka gæti ekki talist ákvörðun um rétt eða skyldu manna en samkvæmt 27. gr. laganna bæri stjórnvöldum að skrá m.a. upplýsingar um málsatvik, ákvarðanir og helstu forsendur þeirra við meðferð mála þar sem taka ætti ákvörðun um rétt eða skyldu manna.

Umsögn Seðlabankans var kynnt kæranda með bréfi, dags. 1. mars 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 1. mars, var því hafnað að það hefði verið skýrt af svarbréfi bankans frá 1. febrúar að umrædd gögn lægju ekki fyrir hjá bankanum. Hins vegar hefði ótvíræð fullyrðing þess efnis fyrst birst í umsögn bankans vegna kærunnar. Þá var umsögn bankans sögð byggjast á misskilningi á svarbréfi bankans en ekki sjálfstæðri rannsókn á mögulegri tilvist gagna sem vörðuðu málið. Kærandi dró niðurstöðu umsagnarinnar í efa, þ.e. að engum gögnum væri raunverulega til að dreifa í málinu.

Í athugasemdum vék kærandi einnig að þagnarskylduákvæði 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands og vísaði til þess að það þyrfti að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort um almenna eða sérstaka þagnarskyldu væri að ræða enda færi það eftir samhengi gagna og skjala í málinu. Að óséðu væri því ekki hægt að segja til um hvort umrædd gögn væru varin aðgangi vegna þagnarskyldu. Kærandi var ósammála því að tilfærsla listaverkanna gæti ekki talist snerta rétt eða skyldu manna, það ylti á aðstæðum og taldi hann útskýringar Seðlabankans á þeim ófullnægjandi.

Með erindi, dags. 4. júní 2019, fór úrskurðarnefnd þess á leit við Seðlabanka Íslands að upplýst yrði um það hvort nokkur þeirra gagna sem kæran lyti að lægju fyrir hjá bankanum. Í svari bankans var vísað til þess að gögn eða skjöl sem kæran lyti að, t.d. kvartanir, viðbrögð eða ákvörðun í málinu, teldust almennt formleg í starfsemi bankans og yrðu skráð með ákveðnum hætti, lægju þau fyrir. Þá var áréttað að ekki væri til að dreifa eiginlegri kvörtun né skriflegri eða skráðri ákvörðun og að tilfærsla umræddra málverka hefði verið ein af mörgum ákvörðunum sem teknar eru dag hvern innan bankans innan gefins ramma í starfsemi hans, án þess að þær séu skráðar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda um upplýsingar er varða tilfærslu listaverka í eigu bankans. Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur til þeirra gagna sem fyrirliggjandi eru þegar beiðni um aðgang berst, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Í skýringum Seðlabanka Íslands hefur komið fram að ákveðið hafi verið að fjarlægja tiltekin málverk eftir umræður og ábendingar starfsmanna, sem hafi hvorki verið skriflegar né skráðar sérstaklega. Af þeirri ástæðu hafnar bankinn því að nokkur gögn séu fyrirliggjandi um tilfærslu listaverkanna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og telur hann sér af þeirri ástæðu ómögulegt að verða við beiðni kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær skýringar bankans. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki fyrir hendi og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 3. febrúar 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira