Hoppa yfir valmynd

nR. 185/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 185/2019

Miðvikudaginn 18. september 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. maí 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. mars 2019 þar sem umsókn hennar um barnalífeyri var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 6. mars 2019. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 27. mars 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki náð þriggja ára búsetu á Íslandi. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar með tölvubréfi 4. apríl 2019 og var hann veittur með bréfi, dags. 4. apríl 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. maí 2019. Með bréfi, dags. 16. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. maí 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með tölvupósti 28. júní 2019 bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. ágúst 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski eftir að afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um barnalífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um barnalífeyri vegna sonar síns en hafi verið synjað á grundvelli þess að hún hafi ekki verið búsett á Íslandi í þrjú ár. Hún hafi komið [...] til landsins X og eignast son sinn X. Þegar kærandi sótti um barnalífeyri hafi henni verið sagt að staða hennar væri óvenjuleg og að þá yrði þetta álitamál varðandi mögulega bakgreiðslu þar sem sonur hennar sé íslenskur og inni í kerfi frá byrjun en hún utan þess.

Þá rökstyður kærandi kröfu sínu á þá leið að barnalífeyrir sé handa barninu en ekki foreldrinu og þá sé ekki hægt að setja stöðu mæðginanna í sama dálk og útlendinga í sömu stöðu. Í tilviki sonar hennar þá hafi hann, vegna ríkisborgaréttar hans, átt rétt á þjónustu á Íslandi frá fæðingu en það hafi útlendingar í sömu stöðu ekki. Því kæri hún ákvörðun Tryggingastofnunar þar sem sonur hennar hafi verið sviptur rétti sínum til stuðnings fyrstu ár hans.

Kærandi spyrji hvort hún geti sótt um barnalífeyri í umboði sonar síns og kært þannig hugsanlega synjun á sömu forsendum. Þetta hljómi eins og sami hluturinn en sé það ekki þar sem á einn máta sé hún umsækjandi og þar af leiðandi sé henni synjað til að forðast bakgreiðslu þó svo að lífeyririnn sé syni hennar til handa. Í hinu tilfellinu yrði sonur hennar umsækjandi og hann sé fæddur hér og ekkert ákvæði segi að barn þurfi að hafa lifað í þrjú ár til að sækja um barnalífeyri.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 28. júní 2019, segir að í íslenskum lögum sé talað um að „börn hljóti bætur“ þegar rætt sé um barnalífeyri. Barnalífeyrir sé þeim til handa, fyrir þeirra framfærslu og umsjá. Lögin um barnalífeyri hafi í upphafi verið sett til þess að konur, meðal annars með ófeðruð börn, gætu séð fyrir börnum sínum til jafns á við þá foreldra sem hljóti stuðning hins foreldrisins varðandi framfærslu og umsjá. Syni kæranda hafi verið synjað um barnalífeyri á grundvelli „skýrra laga“ varðandi barnalífeyri, þ.e. 20. gr. laga um almannatryggingar. Lögin séu ekki alveg svo skýr þar sem þau brjóti í bága við 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum. Svohljóðandi sé 65. gr. stjórnarskrárinnar:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Þá tilgreinir kærandi sérstaklega 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Þá segir í athugasemdum kæranda að hefði hún látist eftir barnsburð hefðu foreldrar hennar tekið að sér umsjá drengsins og sótt um sama barnalífeyri og fengið hann tvöfaldan. Sama barni sé refsað fyrir ólíkar aðstæður, en framfærslukostnaður barnsins sé sá sami. Í slíku tilfelli sé ekki vitnað í að barnið eigi að hafa búið hér í þrjú ár. Í slíku tilfelli hefði syni hennar einnig verið veittur sérstakur stuðningur, sbr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar. Það sé ekki einungis brotið á rétti barnsins samkvæmt jafnræðisreglunni heldur sé þetta einnig brot á barnalögum nr. 76/2003 og vísar þar kærandi sérstaklega til 1. gr. þeirra laga. Það sé barninu hvorki fyrir bestu að vera neitað um barnalífeyri né heldur að eina forsjárforeldri þess fái ekki meðlag.

Sonur kæranda hafi búið á Íslandi frá fæðingu en hann geti ekki uppfyllt skilyrði um þriggja ára búsetu þar sem hann hafi ekki náð þeim aldri. Hann hafi aldrei fengið annað meðlag annars staðar frá, enda hafi ekki verið möguleiki á að sækja um slíkt þar sem barnið hafi aldrei búið annars staðar en á Íslandi og þá sé barnið ófeðrað.

Þá tilgreinir kærandi að ákvörðun Tryggingastofnunar fari einnig gegn 2., 3., 26. og 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Á grundvelli framangreinds sé beðið um að barnalífeyrir verið greiddur fyrir framfærslu og umsjá barnsins.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun á greiðslu barnalífeyris vegna ófeðraðs barns þar sem kærandi hafði ekki náð þriggja ára búsetu á Íslandi.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram.

Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun greiða barnalífeyri þegar skilríki liggi fyrir um að barn verði ekki feðrað.

Kærandi hafi sótt um greiðslu barnalífeyris með syni sínum með tveimur umsóknum, dags. 6. mars 2019. Í rafrænni umsókn kæranda hafi komið fram að hún hefði búið í B frá X til X. Þá hafi kærandi lagt fram endurrit úr sifjamálabók C þar sem komi fram að kærandi geti ekki feðrað barn sitt.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi verið búsett í B frá X en hafi flutt til Íslands þann X. Sonur kæranda sé fæddur X og hafi því ekki náð þriggja ára búsetu á Íslandi.

Þar sem kærandi hafði ekki verið búsett hér á landi í þrjú ár áður en umsókn var lögð fram hafði Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða kæranda barnalífeyri vegna ófeðraðs barns, sbr. skýrt orðalag 20. gr. laga um almannatryggingar um að barnið eða foreldri þess þurfi að hafa haft hér búsetu í þrjú ár áður en umsókn er lögð fram til að heimilt sé að greiða barnalífeyri. Tryggingastofnun telji ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við lög um almannatryggingar og telji sér ekki heimilt að breyta þeirri ákvörðun. 

Kærandi geti sótt að nýju um barnalífeyri vegna ófeðraðs barns þegar þrjú ár hafi liðið frá því að hún flutti til landsins, þ.e. í X. Ekki sé heimilt að greiða barnalífeyri til barnsins sjálfs og því myndi umsókn í nafni sonar kæranda vera synjað.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. mars 2019 þar sem kæranda var synjað um barnalífeyri með syni sínum þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um búsetu á Íslandi í þrjú ár.

Um barnalífeyri er fjallað í 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Þá er kveðið á um það í 4. mgr. sömu greinar að heimilt sé að greiða barnalífeyri þegar skilríki liggi fyrir um að barn verði ekki feðrað.

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris að annað hvort foreldra eða barnið sjálft hafi búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Samkvæmt breytingaskrá Þjóðskrár var kærandi búsett í B á tímabilinu X til X. Þá flutti hún til Íslands á ný og sonur kæranda fæddist hér á landi X samkvæmt gögnum málsins. Ljóst er að hvorki kærandi né sonur hennar uppfylltu búsetuskilyrði 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar þar sem hvorki voru liðin þrjú ár frá flutningi kæranda til landsins né fæðingu sonar hennar þegar umsókn um barnalífeyri barst Tryggingastofnun 6. mars 2019. Kærandi uppfyllti því ekki á þeim tíma skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris með syni sínum. Bent er á að ríkisborgararéttur sonar kæranda hefur engin áhrif á þá niðurstöðu.

Kærandi byggir á því að jafnræðis sé ekki gætt varðandi greiðslur barnalífeyris frá Tryggingastofnun þegar aðstæður séu eins og í þessu máli, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og að brotið sé einnig á félagslegum réttindum barnsins, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Auk þess að um sé að ræða brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Í 65. gr. stjórnarskár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþátta, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá segir í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sé í samræmi við 20. gr. laga um almannatryggingar. Þá telur úrskurðarnefndin að framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákvæði um búsetu og lágmarksdvöl á Íslandi til þess að einstaklingar öðlist rétt samkvæmt almannatryggingakerfinu. Skilyrði 20. gr. laga um almannatryggingar um þriggja ára búsetu á við um alla umsækjendur um barnalífeyri eða börn þeirra. Úrskurðarnefndin telur því að ekkert bendi til annars en að barnalífeyrir séu veittur á jafnræðisgrundvelli. Með hliðsjón af framangreindu er það jafnframt mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 20. gr. laga um almannatrygginga brjóti ekki í bága við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. mars 2019, um að synja umsókn kæranda um barnalífeyri með barni hennar, staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A9, um barnalífeyri með barni hennar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira