Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 54/2018 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að brottvísa kæranda frá Íslandi og ákveða honum endurkomubann er felld úr gildi.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 1. febrúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 54/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100075

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. október 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. og 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um vernd ásamt syni sínum, tveimur systrum, systurdóttur, tveimur systursonum og mági.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 12. desember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 30. ágúst 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. október 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 31. október 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 15. nóvember 2017. Þann 23. nóvember 2017 óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum um tengsl umræddra manna við yfirvöld í […]. Jafnframt óskaði kærunefnd eftir afriti af […] og var frestur veittur til 28. nóvember til að afla þessara gagna. Umbeðnar upplýsingar bárust fyrir tilskilinn frest. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 11. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki. Þann 22. janúar bárust frekari gögn frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna skuldar sinnar við valdamikla menn í […]. Jafnframt kvaðst kærandi óttast að vera fangelsaður þar sem hann hafi yfirgefið […] ólöglega.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestar réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda einnig ákveðin brottvísun ef hann yfirgæfi ekki landið innan tilskilinn frests ásamt tveggja ára endurkomubanni, sbr. a- lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að ástæða flótta hans frá heimaríki sé sú að hann óttist ofsóknir af hálfu þriggja manna sem tengist bróður forseta landsins. Fyrir um þremur árum síðan hafi kærandi lent í árekstri í bænum […] í suðausturhluta […]. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið auðugur og valdamikill maður. Ásamt ökumanninum hafi tveir menn verið í bifreiðinni. Hafi mennirnir þrír ráðist á kæranda og hafi þeir tekið af honum ökuskírteini og eigendaskírteini bifreiðar hans. Hafi mennirnir skipað kæranda að hitta þá í tilteknu húsi í bænum seinna um kvöldið. Þegar þangað var komið hafi mennirnir krafið kæranda um 170.000 dollara vegna atviksins. Í kjölfarið hafi mennirnir haft reglulega samband við kæranda í þeim tilgangi að ýta á eftir greiðslum. Mennirnir hafi haft í hótunum við kæranda og fjölskyldumeðlimi hans. Hafi þeir m.a. hótað því að ef fjölskylda kæranda seldi ekki eignir sínar til að afla lausafjár þá myndu þeir koma fyrir fíkniefnum á elsta syni kæranda svo hann yrði settur í fangelsi. Hafi kærandi verið neyddur til að selja húsnæði sitt ásamt landareign í hans eigu, en andvirði þess hafi einungis dugað fyrir litlum hluta þeirrar upphæðar sem mennirnir hafi krafið hann um.

Kærandi kveður umrædda menn einnig hafa séð til þess að kærandi yrði dæmdur til að greiða einum þeirra tiltekna peningaupphæð. Máli sínu til stuðnings hafi kærandi sent Útlendingastofnun [...]. Hafi kærandi séð sig tilneyddan til að fela sig fyrir mönnunum innan […] og á meðan kærandi hafi verið í felum hafi mennirnir leitað hans, m.a. hjá móður hans og vinum. Þar sem mennirnir séu valdamiklir og tengdir yfirvöldum í […] telji kærandi að hann geti ekki leitað verndar yfirvalda í heimaríki. Þá kveðst kærandi einnig óttast að verða hnepptur í fangelsi verði honum gert að snúa aftur til […], en samkvæmt lögum landsins sé mönnum sem dæmdir hafi verið til greiðslu skulda sem þeir hafi ekki staðið skil á óheimilt að yfirgefa landið.

Enn fremur kemur fram í greinargerð að um vorið 2017 hafi öðrum syni kæranda borist hótanir frá sömu mönnum. Um hafi verið að ræða samskonar hótanir og beinst höfðu að elsta syni kæranda. Hafi syninum verið hótað að ef frekari greiðslur bærust ekki þá yrði fíkniefnum komið fyrir á honum og hann fangelsaður. Í kjölfarið hafi sonur kæranda farið huldu höfði til að forðast mennina og ákveðið að koma til Íslands til að sækja um alþjóðlega vernd. Hafi sonur kæranda fengið synjun á umsókn sinni líkt og kærandi hjá Útlendingastofnun en ákveðið að una ákvörðuninni.

Þá óttist kærandi einnig ofsóknir vegna upplýsinga sem nýlega hafi verið gerðar opinberar í […]. Í þeim komi m.a. fram að afi kæranda, sem hafi barist fyrir [...] í seinni heimstyrjöldinni, hafi gerst liðhlaupi og gengið til liðs við [...]. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir áreiti þegar þessar upplýsingar hafi komið fram og telji öryggi sínu ógnað vegna þeirra. Meðal annars hafi dómari […] sagt að kærandi ætti að hljóta sömu örlög og afi hans.

Í greinargerð er fjallað almennt um aðstæður í […] og stöðu mannréttinda í ríkinu. Þar komi fram að meðal stærstu vandamála ríkisins sé skortur á sjálfstæði dómskerfisins og þá sérstaklega varðandi spillingarmál handhafa löggæslu- og dómsvalds. Forseti landsins, […], fari með öll helstu völd ríkisvaldsins, og sé hann höfuð löggjafa- og dómsvaldsins auk svæðis- og staðbundinna stjórnvalda. Stjórni forsetinn með einræðistilburðum og hafi hann til langs tíma legið undir ásökunum um grófa spillingu. Í lögum sé að finna refsiheimildir vegna spillingar embættismanna en ríkisvaldið framfylgi ekki lögunum með virkum hætti. Samkvæmt lista Transparency International sé […] eitt spilltasta ríki heims og spilling sé greipt inn í dómskerfi landsins. Algengt sé að aðilar dómsmála geti keypt sér hagfellda niðurstöðu með mútugreiðslum og telji tveir af hverjum þremur íbúum landsins dómskerfið og lögregluna vera spillta. Jafnframt sé hin mikla spilling innan lögreglunnar álitinn stór áhættuþáttur fyrir þá sem stundi viðskipti í landinu. Í alþjóðlegum skýrslum komi fram að málsmeðferðarreglur séu oft ekki virtar við handtökur, rannsóknir eða útgáfu ákæra auk þess sem reynt sé að koma í veg fyrir að þeir sem séu handteknir fái lögfræðiaðstoð. Einnig komi fram í skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2016 að þrátt fyrir að lög í […] banni pyndingar hafi lögregla og fangaverðir beitt handtekna einstaklinga pyndingum og misnotað þá. Þá telji umboðsmaður mannréttinda í […] mikla hættu á því að mannréttindabrot verði framin í tengslum við handtökur og varðhald. Samkvæmt upplýsingum frá ákæruvaldinu berist um 600 kvartanir árlega vegna pyndinga en skv. mannréttindasamtökum séu vanhöld á að ákært og refsað sé fyrir slík brot. Kærandi bendir á að í skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2015 komi fram að yfirvöld í […] eða einstaklingar á þeirra vegum hafi framið handahófskennd morð á almennum borgurum (e. arbitrary or unlawful killings).

Í greinargerð er fjallað um hvað felist í ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og samspil greinarinnar við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. gr. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Kærandi telur að raunhæf hótun um ofbeldi geti verið brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans þó svo að slíkum hótunum sé ekki fylgt eftir. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Írlands gegn Bretlandi (mál nr. 5310/71) frá 18. janúar 1978 og Gäfgen gegn Þýskalandi (mál nr. 22978/05) frá 1. júní 2010. Kærandi hafi lýst ofsóknum í sinn garð, m.a. ofbeldisfullum árásum, hótunum sem og þeirri þjáningu sem hann hafi þurft að þola í heimaríki sínu vegna ótta við ofsóknir. Jafnframt hafi kærandi fyrir tilstilli spillingar verið dæmdur af dómstólum til greiðslu skuldar til eins af þeim mönnum sem hafi ofsótt hann. Í ljósi framangreinds hafi kærandi þurft að þola ómannlega og vanvirðandi meðferð og refsingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar dags. 10. apríl 2017 nr. 2016-06968 máli sínu til stuðnings.

Þá ítrekar kærandi í greinargerð að mennirnir sem hafi ofsótt hann hafi náin tengsl við bróður forseta […]. Vekur kærandi athygli á því að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ekki fjallað um umrædd tengsl. Jafnframt sé mati Útlendingastofnunar mótmælt þar sem stofnunin telji að ekki beri að leggja til grundvallar að […].

Í greinargerð kæranda kemur fram að sú refsing sem kærandi stendur frammi fyrir í […], fyrir að hafa yfirgefið landið, sé óhófleg í skilningi c-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi bendir kærandi á 1. gr. 4. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um að engan megi svipta frelsi af þeirri ástæðu einni að hann geti ekki staðið við gerða samninga og sé ákvæðið oft nefnt bann við skuldafangelsi. Ákvæðið undanþiggur þá frá frelsissviptingu sem eru ófærir um að efna samningsákvæði, en ekki þá sem vanefna samninga með sviksamlegum hætti eða af gáleysi. Þá sé ljóst að engin ákvæði í íslenskum lögum heimila skerðingu á ferðafrelsi manna sem hafi ekki greitt dæmdar fjárkröfur né heimild til að beita fangelsisrefsingu í slíkum tilvikum. Samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 er óheimilt að framselja mann til annars ríkis ef rökstudd ástæða sé til þess að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms, sem óskað er framsals vegna, þykir eigi fullnægja grunnreglum íslenskra laga um refsiverða háttsemi. Því sé sú refsing sem kærandi eigi yfir höfði sér, verði honum gert að snúa aftur til […], í andstöðu við íslensk lög og siðferði og teljist því óhófleg, auk þess sem hún feli í sér ómannlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 2. mgr. 37. gr laga um útlendinga. Í því samhengi bendir kærandi á skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2016, þar sem fram komi að aðstæður í fangelsum í […] séu almennt harðneskjulegar og stundum lífshættulegar. Hafi kærandi greint frá heilbrigðisvandamálum sem hann glími við en aðstæður í […] fangelsum uppfylli ekki alþjóðlega heilbrigðisstaðla og heilbrigðismálum fanga sé ekki sinnt sem skyldi.

Af öllu þessu virtu telur kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda til […] sé verið að brjóta gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Enn fremur myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli að útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda og yfirvöld í heimaríki telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt verði ekki fallist á aðalkröfu hans.

Að lokum er bent á að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þá þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir með 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta lands sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá greinir í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að ákvörðun um það hvort viðkomandi einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis geti aðeins farið fram að loknu persónubundnu mati á aðstæðum og að í þeim tilvikum þar sem stjórnvöld séu völd að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] ökuskírteini þar sem m.a. kemur fram nafn hans og fæðingarár. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé […] ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

[…]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi […] vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins, […], sem hefur setið [...] og sé æðsti maður löggjafarvaldsins, dómsvaldsins og svæðis- og staðbundinna stjórnvalda. Þá hafi framkvæmd kosninga í landinu verið gagnrýnd af hálfu kosningaeftirlitsmanna og annarra vegna skorts á frjálsri og óháðri fjölmiðlun og skerðingu á tjáningar-, funda- og félagafrelsi í aðdraganda þeirra.

Þá kemur fram að löggæslan í […] heyri undir innanríkisráðuneyti landsins (e. the Ministry of Internal Affairs) og byggist að miklu leyti á [...]. Spilling sé viðvarandi vandamál í […] en mikið álag hvíli á löggæslu landsins, en á þeim tíma sem liðinn er frá [...] hafi löggæslan bæði verið undirmönnuð og fjársvelt. Þá sé spilling útbreitt vandamál á meðal stjórnvalda í […] þrátt fyrir að vera refsiverð samkvæmt lögum. Heimildir bera með sér að yfirvöld hafi saksótt opinbera starfsmenn í viðamiklum og opinberum spillingarmálum en enn hafi ekki tekist að vinna gegn spillingu með fullnægjandi hætti. Á þessu ári hafi mikilvægar umbætur orðið á stjórnarskrá […] sem hafi það að markmiði að minnka völd forseta landsins með því að veita þingi og ríkisstjórn landsins meiri völd. Um sé að ræða aðkallandi breytingar sem hafi það að markmiði að vinna gegn spillingu og nútímavæða stjórnarhætti […] Þá sé starfandi umboðsmaður í […] (e. Commissioner of Human Rights) sem sé skipaður til fimm ára af forseta landsins. Þá séu völd umboðsmannsins að einhverju leyti takmörkuð þar sem hann geti til að mynda ekki rannsakað ákvarðanir forsetans, þingsins, dómstóla eða ríkisstofnana.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi óttist menn sem hafi hótað honum og krafið hann um peningagreiðslu. Þessir tilteknu menn séu valdamiklir og hafi tengsl við yfirvöld í landinu því geti hann ekki leitað aðstoðar lögreglu. Auk þess óttist kærandi að vera fangelsaður verði honum gert að snúa aftur til […].

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Líkt og fram hefur komið ber kærandi fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum og hótunum af hálfu tiltekinna einstaklinga í heimaríki sem hafi krafið hann um peningagreiðslu. Kærandi kveðst ekki hafa leitað til lögreglu þar sem spilling sé víðtækt vandamál í […] en einnig vegna náinna tengsla umræddra aðila við stjórnvöld í landinu. Kærandi kveður lögreglu í heimaríki ekki geta veitt honum fullnægjandi vernd. Þá eigi hann yfir höfði sér fangelsisrefsingu fyrir að hafa brotið gegn farbanni. Jafnframt hafi kærandi orðið fyrir áreiti vegna liðhlaups afa síns [...].

Eins og að framan greinir óttist kærandi um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til […]. Hefur kærandi greint frá hótunum og ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir af hálfu einstaklinga sem kærandi kveður tengjast stjórnvöldum þar í landi. Kærandi kveður lögregluna í [...] ekki geta veitt honum fullnægjandi vernd vegna spillingar innan raða lögreglunnar þar í landi. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í […]. Að mati kærunefndar benda þessi gögn sem kærandi hefur lagt fram til þess að kærandi skuldi, eða hafi skuldað, einstaklingi um 3000 dollara. Að mati kærunefndar bendir ekkert í gögnum málsins til þess að […] sé til málamynda eða megi rekja til tengsla skuldheimtumannsins við yfirvöld.

Þá hefur kærunefnd hvorki fundið upplýsingar sem styðja frásögn kæranda um tengsl milli fyrrgreinds skuldheimtumanns og stjórnvalda í […] né hefur kærandi lagt fram gögn þess efnis. Verður því frásögn kæranda aðeins lögð til grundvallar að því leyti að hann skuldi tilteknum aðila í heimaríki sínu peninga og eigi yfir höfði sér refsingu vegna þess að hann hafi brotið gegn farbanni í heimaríki sínu. Þá hafi hann átt í útistöðum við ákveðna einstaklinga í heimaríki sínu.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hann hafi orðið fyrir eða óttist ofsóknir yfirvalda eða aðila á þeirra vegum. Enn fremur benda gögn ekki til þess að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir yfirvalda eða aðila á þeirra vegum. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað kemur fram að talsverð spilling ríki hjá stjórnvöldum í […] og að dæmi séu um að brotið sé á rétti einstaklinga, einkum þeirra sem andmæli ríkjandi stjórnvöldum í landinu. Þrátt fyrir spillingu kemur fram í ofangreindum gögnum að í […] sé til staðar kerfi sem hafi það hlutverk að sporna við spillingu opinberra starfsmanna og geti þeir sem telji sig hafa verið beittir órétti af lögreglu leitað þangað. Af gögnum má ráða að þetta úrræði sé almennt raunhæft og að ákveðin framfaraskref hafi átt sér stað í […] á undanförnum árum, þ. á m. með hertri refsilöggjöf vegna spillingarmála, þrátt fyrir að úrbóta sé enn þörf. Samkvæmt tölum frá ríkissaksóknara landsins hafi dómstólar til að mynda á árinu 2015 dæmt yfir þúsund opinbera starfsmenn til refsingar fyrir spillingarbrot. Gögn bendi til þess að löggæslukerfi í heimaríki kæranda fari batnandi og hafi yfirvöld í landinu lagt áherslu á áætlanir sem eigi m.a. að koma í veg fyrir spillingu í stjórnkerfum landsins, tryggja gegnsæi og aðgengi að dómstólum.

Þá hefur kærunefnd hvorki fundið upplýsingar sem styðja frásögn kæranda um að verið sé að áreita afkomendur [...] í […] né hefur kærandi lagt fram gögn þess efnis. Kærunefnd telur því að sú frásögn hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál.

Líkt og áður segir er krafa kæranda jafnframt byggð á því að hann eigi yfir höfði sér óréttmæta fangelsisrefsingu í […] þar sem hann hafi yfirgefið landið án þess að borga skuld sem hann hafi […]. Samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 4 við mannréttindasáttmála Evrópu skal ekki svipta mann frelsi af þeirri ástæðu einni að hann getur ekki staðið við gerða samninga. Þeir sem flýja saksókn eða refsingu vegna afbrots teljast alla jafna ekki flóttamenn. Þó verður að meta hvort afbrotamaður geti átt á hættu óhóflega refsingu eða hvort ástæða ákæru jafngildi ofsóknum. Einnig geti þurft að meta hvort lög viðkomandi lands séu ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum.

Samkvæmt […] lögum um fólksflutninga er hægt að setja einstakling í tímabundið farbann ef engar réttlætanlegar ástæður eru fyrir því að hann hafi ekki uppfyllt skyldur sem dómstólar hafi dæmt hann til að uppfylla. Kærandi kveðst eiga yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi í heimaríki fyrir að hafa brotið gegn farbanninu. Þá kemur fram í refsilöggjöf […] að ef einstaklingur fer ólöglega yfir landamæri […] geti hann átt yfir höfði sér refsingu í formi sekta eða fangelsisrefsingar í allt að eitt ár. Í handbók Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna segir að einstaklingur sem hefur ólöglega farið á brott eða dvalið erlendis án heimildar og eigi hörð viðurlög yfir höfði sér í heimaríki geti talist flóttamaður. Verði einstaklingurinn að geta sýnt fram á að tilefni brottfarar eða dvalar erlendis hafi tengst þeim ástæðum sem taldar eru upp í 2. tölulið A-liðar 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Er það mat kærunefndar að sú refsing sem kærandi eigi mögulega yfir höfði sér í […] teljist hvorki til „harðra viðurlaga“ í skilningi handbókar Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna né geti refsingin talist „óhófleg“ í skilningi c-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála dragi ekki í efa frásögn kæranda um þær hótanir og áreiti sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir þá telur kærunefnd, með vísan til ofangreinds og gagna um heimaríki kæranda, að fyrrgreindir atburðir nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera […] og ekki tilheyra minnihlutahópi í heimalandi sínu. Þá kvaðst hann ekki vera virkur í pólitísku starfi. Frásögn kæranda bendir til þess að ástæður þess áreitis sem kærandi telji sig hafa orðið fyrir séu að tilteknir aðilar hafi talið hann skulda sér fé. Önnur gögn málsins benda ennfremur ekki til þess að sú hætta sem kærandi kveður sig vera í tengist þeim ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.

Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki á nægilega skýran hátt sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Máli sínu til stuðnings vísar kærandi jafnframt til fyrri ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 10. apríl 2017 í máli nr. 2016-06968. Kærandi telur að það mál sé í öllum grundvallaratriðum sambærilegt máli kæranda en aðstæður einstaklingsins hafi verið taldar falla undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í tilefni tilgreindrar athugasemdar bendir kærunefnd á að umrædd ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki fordæmisgildi fyrir ákvarðanir kærunefndar.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtali við Útlendingastofnun, dags. 30. ágúst 2017, kvaðst kærandi vera með [...]. Hafi kærandi verið greindur með […]. Hafi kæranda leitað til læknis eftir að hann kom til Íslands og hafi hann fengið […]. Í viðtalinu kveðst kærandi geta fengið læknisaðstoð í heimaríki. Í þeim gögnum sem kærunefndin hefur skoðað kemur fram að forseti […] samþykkti tiltekin heilbrigðislög (e. People's Health and Healthcare System) [...] sem tryggi öllum ríkisborgurum landsins grundvallar heilbrigðisþjónustu. Ljóst er að kærandi geti leitað sér heilbrigðisaðstoðar verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, undir fyrirsögninni „frávísun og brottvísun“, kemur fram að kæranda sé vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu stofnunarinnar er í ákvörðuninni vísað til 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 þar sem komi fram að samhliða veitingu frests til sjálfviljugrar heimfarar skuli tekin afstaða til þess í ákvörðun hvort skilyrði til brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt yfirgefi umsækjandi ekki landið eða óski aðstoðar við sjálfviljuga heimför innan veitts frests. Þá er í ákvörðuninni fjallað með almennum hætti um skilyrði brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er gerð grein fyrir andmælum kæranda varðandi mat á því hvort brottvísun fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða öðrum aðstandendum hans og lýst því mati Útlendingastofnunar að ekki sé um að ræða ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga verði kæranda ákveðin brottvísun og endurkomubann.

Niðurstaðan í rökstuðningi Útlendingastofnunar varðandi þennan þátt málsins er að umsækjanda skuli gefinn sjö daga frestur til að yfirgefa landið. Þá segir: „Fari hann ekki innan þess tíma skal honum vísað úr landi og skal hann sæta endurkomubanni í tvö ár. Lögreglu er því heimilt að færa umsækjanda úr landi, sbr. 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, að 15 dögum liðnum“.

Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa ákvarðanir stjórnvalda að byggja á viðhlítandi lagagrundvelli. Þegar lög mæla fyrir um skilyrði fyrir því að stjórnvald geti tekið ákvörðun verður sú ákvörðun ekki tekin nema fyrir liggi atvik sem leggja grundvöll að ályktun stjórnvalds um að skilyrðin séu fyrir hendi.

Ákvörðun um brottvísun samkvæmt 98. gr. laga um útlendinga ekki tekin nema fyrir liggi atvik sem verða heimfærð undir einhver af skilyrðum ákvæðisins. Kærunefnd hefur í úrskurði sínum frá 21. desember 2017 í máli nr. KNU17100067 komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögum til að heimila ákvörðun um brottvísun áður en skilyrði 98. gr. séu uppfyllt og því geti ákvæðið ekki verið grundvöllur þeirrar framkvæmdar sem var viðhöfð í máli kæranda.

Eins og að framan greinir er í rökstuðningi í máli kæranda vísað til a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga en atvik í máli hans eru ekki heimfærð undir ákvæðið. Fyrir liggur að þegar ákvörðunin var tekin hafði kæranda verið veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar verður ekki litið svo á að skilyrði a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, um að hann sé án dvalarleyfis og hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests, séu uppfyllt á meðan hann hefur enn slíkan frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Liggur því fyrir að skilyrði brottvísunar voru ekki fyrir hendi í máli kæranda og verður sá þáttur ákvörðun Útlendingastofnunar því felldur úr gildi.

Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til að kanna hvort brottvísun kæranda og endurkomubann kunni að vera í ósamræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd þann 12. desember 2016. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Í samræmi við 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kærandi hefur 15 daga frá birtingu úrskurðar þessa til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Kæranda er leiðbeint um að samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar. Felld er úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun og endurkomubann. Ákvörðun um frávísun kæranda er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og frávísun er staðfest. Felldur er úr gildi sá þáttur ákvörðunar stofnunarinnar er varðar brottvísun og endurkomubann. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds and refusal of entry is affirmed. The portion of the Directorate’s decision pertaining to expulsion and a re-entry ban is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                            Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira