Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 5/2015: Dómur frá 12. október 2015

Læknafélag Íslands gegn íslenska ríkinu vegna Landspítala.

Ár 2015, mánudaginn 12. október, er í Félagsdómi í málinu nr. 5/2015:

Læknafélag Íslands

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

vegna Landspítala

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

                                              

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

 

Mál þetta var dómtekið 14. september 2015.

Málið dæma Sigurður G. Gíslason, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson,  Karl Ó. Karlsson og Sigurlaug K. Jóhannsdóttir.

 

Stefnandi er:  Læknafélag Íslands, kt. 450269-2639, Hlíðasmára 8, Kópavogi.

Stefndi er:  Íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Arnarhvoli, Reykjavík, vegna Landspítala, kt. 500300-2130, Eiríksgötu 5, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda:

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að félagsmenn stefnanda sem starfa við Landspítalann, eigi rétt til 1½ klst. frítökuréttar fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram samfellda 16 klst. vinnulotu upp að 24 klst., án tillits til þess hvort nýr viðmiðunarsólarhringur hefjist innan vinnulotunnar.

Þess er einnig krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda:

Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

Málavextir:

Félagsmenn stefnanda sem starfa á Landspítalanum munu ganga vaktir eftir skipulagi á hverri deild spítalans. Í kjarasamningi er kveðið á um vinnutíma og vinnuskyldu lækna. Þar segir í grein 4.1.2 að vinnuskylda læknis í fullu starfi skuli vera 40 klukkustundir á viku og í grein 4.1.3 segir að læknum skuli skylt að vinna yfirvinnu og taka vaktir þar sem þess er þörf. Í kjarasamningi eru svo ýmis ákvæði sem fjalla um greiðslu launa til lækna eftir því hvenær þeir vinna sína vinnu, þ.e. á hvaða tíma sólarhrings og á hvernig vöktum. Allur vinnutími lækna fer eftir skipulagi á hverri deild sjúkrahússins.

Í kjarasamningi er gert ráð fyrir að læknar safni frítökurétti við ákveðnar kringumstæður. Annars vegar safnist frítökuréttur ef 11 tíma hvíldartími næst ekki á hverjum viðmiðunarsólarhring. Þá safnast upp frítökuréttur samkvæmt nánar fyrirmælum samningsins, sbr. grein 4.7. Hins vegar eru sérákvæði í kjarasamningnum um uppsöfnun frítökuréttar ef samfelld vinnulota fer yfir 16 klukkustundir, sbr. 2. málslið 3. mgr. greinar 4.7.2. Fari samfelld vinnulota yfir 24 klukkustundir safnast aukinn frítökuréttur sbr. grein 4.7.4.  Við starfslok læknis skal ótekinn frítökuréttur gerður upp með sama hætti og orlof, sbr. ákvæði 4.7.7 í kjarasamningi.

Aðilar ekki hafa verið sammála um það hvernig reikna eigi frítökurétt þegar samfelld vinnulota læknis fari umfram 16 klst.

Dæmi um slíkan ágreining kveður stefnandi mega finna vegna félagsmanns stefnanda, Jóhanns Sigurjónssonar, kt. 180280-4649. Hann hafi verið starfandi læknir á Landspítala á tímabilinu 2012 – 2013. Starfshlutfall hans hafi verið 100% og hafi hann starfað við svæfinga- og gjörgæslulækningar á skurðlækningasviði. Líkt og aðrir læknar á deildinni hafi hann einnig gengið vaktir í samræmi við starfshlutfall sitt. 

Stefnandi tekur fram að þegar Jóhann hafi hætt störfum hjá stefnda hafi hann ekki fengið greitt fyrir ótekinn frítökurétt eins og gert sé ráð fyrir í kjarasamningi grein 4.7.7. Á tímabilinu frá 27. nóvember 2012 til 31. júlí 2013 Hafi  vaktir Jóhanns, sem lengri voru en 16 klst. verið eftirfarandi:

 

Þann 27.11.2012        vakt frá kl. 14:34 – 08.18

Þann 06.12.2012        vakt frá kl. 14:21 – 08.19

Þann 13.12.2012        vakt frá kl. 14:42 – 08.49

Þann 28.12.2012        vakt frá kl. 14:40 – 08.48

Þann 08.01.2013        vakt frá kl. 14:36 – 09.17

Þann 18.01.2013        vakt frá kl. 14:25 – 09.54

Þann 25.01.2013        vakt frá kl. 14:15 – 08.54

Þann 31.01.2013        vakt frá kl. 14:33 – 08.51

Þann 19.02.2013        vakt frá kl. 14:33 – 09.02

Þann 21.02.2013        vakt frá kl. 14:33 – 08.47

Þann 27.02.2013        vakt frá kl. 14:31 – 08.48

Þann 06.03.2013        vakt frá kl. 14:17 – 08.40

Þann 15.03.2013        vakt frá kl. 14:31 – 09.12

Þann 03.04.2013        vakt frá kl. 14:37 – 08.37

Þann 29.05.2013        vakt frá kl. 14:46 – 08.45

Þann 19.06.2013        vakt frá kl. 14:46 – 08.54

Þann 25.06.2013        vakt frá kl. 14:42 – 09.49

Þann 01.07.2013        vakt frá kl. 14:45 – 09.48

Þann 03.07.2012        vakt frá kl. 14:43 – 09.02

Þann 26.07.2013        vakt frá kl. 17:04 – 10.48

Þann 31.07.2013        vakt frá kl. 14:28 – 09.22

 

Stefnandi sendi bréf til stefnda dagsett 8. maí 2014 þar sem krafið var um greiðslu 69 klst. vegna uppsafnaðs frítökuréttar ofantalda daga, eða um greiðslu 3 klst. fyrir hvern dag.  Svar barst frá stefnda þann 18. júní 2014. Þar var því hafnað að umræddur læknir eigi rétt til greiðslu 3 klst. vegna uppsafnaðs frítökuréttar á framangreindum dögum.  Hinsvegar var fallist á að læknirinn eigi rétt til greiðslu 28,01 klst. vegna uppsafnaðs frítökuréttar fyrir þessa sömu daga. Í kjölfar bréfs stefnda kveður stefnandi að lækninum hafi verið greidd laun vegna framangreindra 28.01 klst. Túlkun stefnda var mótmælt í bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 11. júlí 2014. Sjónarmið stefnda voru ítrekuð í bréfi dagsettu 17. júlí 2014.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi kveður mál þetta hafa kristallað þann ágreining sem ríki milli málsaðila um útreikning frítökuréttar vegna vinnulotna sem standi lengur en 16 klst. Stefndi vilji núllstilla uppsöfnun frítökuréttar í vinnulotum sem eru lengri en 16 tímar við upphaf nýs viðmiðunarsólarhrings. Þessi skilningur stefnda komi skýrt fram í áðurnefndu bréfi stefnda frá 18. júní 2014. Eins og áður sé rakið hafi í því bréfi verið fallist á að ógreidd væru laun vegna frítökuréttar þessa daga fram að upphafi nýs viðmiðunarsólarhrings. Í dæmaskyni hafi stefndi tekið vinnu Jóhanns þann 26. nóvember  og skýrt útreikning sinn með eftirgreindum hætti í bréfinu:

“Til nánari útskýringar á útreikningi frítökuréttar má nefna sem dæmi vaktina 26-27. nóvember 2012. Þá var starfsmaðurinn við störf kl. 14.34 – 08.18. Vinna á viðmiðunarsólarhring var þá kl. 14.34 – 07.30, samtals 16 klst. og 56 mín. Vinna umfram 16 tíma á viðmiðunarsólarhring er því 56 mínútur. Þessi tími margfaldaður með 1,5, sbr. grein 4.7.2 í kjarasamningi aðila, reiknast því sem uppsafnaður frítökuréttur, þ.e. 84 mín, sem samsvarar 1,40 klst.”

Á þessi sjónarmið fellst stefnandi ekki. Þvert á móti telur stefnandi  að reikna hefði átt laun vegna frítökuréttar umræddan dag, til 08.18 en ekki til 07.30 þann 27. nóvember 2012. Stefnandi telur að samkvæmt ákvæðum kjarasamnings beri lækninum launagreiðsla fyrir frítökurétt sem hann ávinni sér vegna allra klukkustunda sem unnar séu samfleytt umfram 16 klst. í samfelldri vinnulotu, algerlega óháð viðmiðunarsólarhringnum. Óumdeilt sé að viðmiðunarsólarhringur hafi hafist alla ofantalda daga kl. 07.30, en á þeim tíma hafi almenn dagvinna lækna  hafist á þeirri deild sem Jóhann starfaði, þ.e. á þeim tímapunkti hafi hafist skipulagt / venjubundið upphaf vinnudags læknis, eins og það sé orðað í kjarasamningi. 

Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum:

Í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, sem í gildi hafi verið á þeim tíma sem ágreiningur nái til, sé svohljóðandi ákvæði í gr. 4.7.2:

Frávik/frítökuréttur. ...

Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildir eftirfarandi:  Séu læknar sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 ½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist.  Heimilt er að greiða út ½ klst. (í dagvinnu) af frítökuréttinum, óski læknir þess.

Skerðist 11 tíma hvíld á gæsluvakt myndast frítökuréttur með sambærilegum hætti.  Einnig myndast frítökuréttur fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring, þ.e. á hverjum 24 klst. miðað við skipulagt / venjubundið upphaf vinnudags læknis...“.

 

Í grein 4.7.4 í kjarasamningi segir:

Aukinn frítökuréttur vegna samfelldrar vinnu umfram 24 klst. Í þeim sérstöku undantekningartilvikum að starfsmaður vinni samfellt fullar 24 stundir, skal frítökuréttur aukast þannig að hver heil stund umfram 24 veitir frítökurétt sem er 1,8% lengri en sá frítökuréttur sem næsta stund á undan gaf.”

 

Stefnandi telur að líta beri svo á m.t.t. framangreindra ákvæða kjarasamnings að fari samfelld vinnulota læknis fram yfir 16 klst. eigi hann alltaf rétt til frítökuréttar sem nemur 1,5 klst. fyrir hverja unna stund umfram 16 klst. Fari samfelld vinna umfram 24 klst. eigi hann rétt til 1,8% lengri frítökuréttar vegna klukkustunda sem séu umfram 24 klst. samfellda vinnu. Stefnandi byggir á því að ákvæði í grein 4.7.4 í kjarasamningi staðfesti það að starfsmaður eigi rétt til frítökuréttar vegna allrar vinnu sem unnin sé umfram 16 / 24 klst. óháð því hvenær upphaf viðmiðunarsólarhrings er. Stefnandi getur ekki fallist á það sjónarmið stefnda að frítökuréttur vegna vinnulotu umfram 16 klst. sé bundinn við að vinnulotan sé innan sama viðmiðunarsólarhrings. Ekkert í orðalagi greinar 4.7.2 renni stoðum undir þá túlkun stefnda að viðmiðunarsólarhringur skipti máli um vinnulotur sem séu lengri en 16 klst. Að mati stefnanda sé þessi frítökuréttur viðbótarumbun fyrir vinnulotur sem séu lengri en 16 klst. án tillits til viðmiðunarsólarhringsins. Til viðbótar komi, að mati stefnanda, að ef þessi túlkun stefnda væri rétt þá væri grein 4.7.4 í kjarasamningi aðila óþörf og tilefnislaus því það gefi auga leið að ef vinnulota er lengri en 24 klst. þá sé hún lengri en viðmiðunarsólarhringurinn. Túlkun stefnda leiði jafnframt til mismunandi niðurstöðu eftir því hvernig vinnulota lengri en 16 klst. liggi innan viðmiðunarsólarhrings og þar með til mismunandi greiðslu fyrir svo langa vinnulotu.

Það geti ekki staðist að mati stefnanda að þessi viðbótarumbun í formi frítökuréttar greiðist með tilviljanakenndum hætti eftir því hvenær vinnulotan hefjist innan viðmiðunarsólarhringsins.

Stefnanda sé nauðsyn á að fá dóm fyrir kröfu sinni og telji að dómur í máli þessu hafi almennt fordæmisgildi gagnvart greiðslu frítökuréttar fyrir vinnulotur umfram 16 klst. en innan 24 klukkustunda, því sú framkvæmd sem beitt hafi verið gagnvart Jóhanni hafi a.m.k. verið beitt gagnvart öllum læknum, þ.e. kandídötum, almennum læknum og sérfræðingum, sem starfi hjá Landspítala.

Stefnandi byggir kröfur sínar fyrst og fremst á kjarasamningi aðila frá 5. mars 2006, sem framlengdur hafi verið með samkomulögum 1. október 2008, 7. júlí 2009 og 13. september 2011. Rétt sé að fram komi að umrædd og tilvitnuð kjarasamningsákvæði séu óbreytt í nýgerðum kjarasamningi aðila frá 7. janúar 2015.

Stefnandi vísar til 2. tölul. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 um lögsögu Félagsdóms í máli þessu.

Stefnandi styður kröfu sína um málskostnað við 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938. Stefnandi kveðst ekki reka virðisaukaskattskylda starfsemi, sbr. lög nr. 50/1988, og sé óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar.

 

Málsástæður og lagarök stefnda:

Túlkun á ákvæðum kjarasamnings.

Stefndi kveður stefnanda gera kröfu um að viðurkennt verði að félagsmenn stefnanda sem starfi við Landspítalann eigi rétt til 1 ½ klst. frítökuréttar fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram samfellda 16 klst. vinnulotu upp að 24 klst., án tillits til þess hvort nýr viðmiðunarsólarhringur hefjist innan vinnulotunnar.

Stefndi tekur fram að stefnandi vísi til stuðnings kröfum sínum til greinar 4.7.2., 2. ml. 3. mgr. í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, frá 5. mars 2006.  Ákvæðið sé svohljóðandi:  „Einnig myndast frítökuréttur fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring, þ.e. á hverjum 24 klst. miðað við skipulagt/venjubundið upphaf vinnudags læknis.“  Í málatilbúnaði stefnanda sé byggt á því að þetta sérákvæði um frítökurétt í kjarasamningnum eigi við ef „samfelld“ vinnulota fari yfir 16 klst og jafnframt að fari samfelld vinnulota yfir 24 klst. safnist aukinn frítökuréttur, sbr. grein 4.7.4.

Stefndi mótmælir þessari framsetningu á hinum tilvitnuðu ákvæðum í kjarasamningnum sem rangri og villandi.  Ákvæði samningsins um frítökurétt vegna vinnu umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring, sbr. 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2., sé ekki bundið við samfellda vinnulotu. Þvert á móti sé þar gert ráð fyrir því að frítökuréttur geti skapast vegna vinnu sem fari umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhringnum samtals, þ.e. óháð því hvort hún hafi verið unnin samfellt eða ekki. Þannig hafi ákvæði þetta verið túlkað allt frá gildistöku þess 1997 gagnvart stefnanda og öðrum stéttarfélögum sem hafi sambærilegt ákvæði í sínum kjarasamningum.

Stefndi tekur fram að þegar komi að túlkun á umræddu ákvæði í 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2. í kjarasamningnum, verði ekki talið að heimilt sé að túlka ákvæðið, með tilliti til afmörkunar við viðmiðunarsólarhring, með mismunandi hætti eftir því hvort vinnan sé unnin í samfelldri vinnulotu annars vegar eða með hléum hins vegar. Aftur á móti fjalli grein 4.7.4. um sjálfstæðan rétt til aukins frítökuréttar ef samfelld vinna fari umfram 24 klst. óháð mörkum viðmiðunarsólarhrings. Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu skipti því ekki máli hvenær sólarhrings vinnan hefjist eða hvenær henni ljúki. Þá skipti heldur ekki máli samkvæmt þessu samningsákvæði á grundvelli hvaða frítökuréttarákvæða frítökurétturinn skapist.

Stefndi telur að svo virðist sem stefnandi telji að forsenda ákvæðisins um aukinn frítökurétt eftir samfellda vinnu í 24 klst. eða lengur, sbr. grein 4.7.4., sé talning frítökuréttartíma vegna vinnu umfram 16 klst. fram yfir mörk viðmiðunarsólarhrings.  Þá sé byggt á því af hálfu stefnanda að ákvæðið sé marklaust verði túlkun stefnanda ekki lögð til grundvallar. Þessi málatilbúnaður sé á misskilningi byggður að mati stefnda. Ákvæðið í grein 4.7.4. þurfi að skoða sérstaklega í hverju tilviki og óraunhæft sé með öllu á grundvelli þessa ákvæðis að búa til nýja og framandi túlkun á reglunni um frítökurétt vegna vinnu umfram 16 klst.

Þá telur stefndi rétt að benda á að frítökuréttur geti myndast vegna þessara tveggja ákvæða samhliða, þ.e. 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2. og greinar 4.7.4.  Sem dæmi um slíkt tilvik megi hugsa sér starfsmann sem sé við störf í framhaldi af útkalli frá kl. 00:00 aðfaranótt mánudags til kl. 02:00 aðfaranótt þriðjudags, samtals í 26 klst.  Þar af sé starfsmaðurinn við störf í 18,5 klst. á viðmiðunarsólarhring sem hefjist kl. 07:30 að morgni mánudags, þ.e. kl. 07:30-02:00. Vegna þessa ávinni starfsmaðurinn sér frítökurétt, samtals 3,75 klst. (þ.e. 2,5 * 1,5 ). Jafnframt ætti hann í dæmi þessu rétt á auknum frítökurétti vegna samfelldrar vinnu umfram 24 klst. samkvæmt grein 4.7.4., þ.e. vegna tveggja klukkustunda vinnu kl. 00:00-02:00 aðfaranótt þriðjudagsins.

Stefndi kveður stefnanda byggja á því að ekkert í orðalagi greinar 4.7.2. renni stoðum undir þá túlkun stefnda að viðmiðunarsólarhringur skipti máli um vinnulotur sem eru lengri en 16 klst.  Þessum málatilbúnaði sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda.  Stefndi telur þvert á móti að samningsákvæðið í 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2. kveði ótvírætt á um að horft skuli til hvers viðmiðunarsólarhrings fyrir sig við talningu tíma umfram 16 klst. Ákvæðið sé óháð öðrum ákvæðum um forsendur og tilurð frítökuréttar. Fari vinnumagn á viðmiðunarsólarhring umfram 16 klst. samtals, skapist frítökuréttur, 1,5 stundir fyrir hverja unna stund umfram 16 klst. Verði túlkun stefnanda lögð til grundvallar, væru vinnustundir taldar áfram inn á nýjan viðmiðunarsólarhring. Ekki verði þá séð hvernig meta skuli næsta viðmiðunarsólarhring á eftir, með tilliti til þessa ákvæðis.

 

Bókun 6 með kjarasamningum lækna og skurðlækna frá september 2011.

Af hálfu stefnda er bent á að umrætt ákvæði í kjarasamningnum, í 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2. hafi verið í kjarasamningum aðila allt frá árinu 1997. Sambærilegt ákvæði hafi jafnframt verið í öðrum kjarasamningum ríkisins frá sama tíma. Eftir því sem næst verði komist hafi framkvæmd ákvæðisins verið sú sama allan þennan tíma og um það hafi aðilar verið sammála. Það sé því ekki rétt sem komi fram í málatilbúnaði stefnanda, að aðilar hafi verið ósammála um það hvernig reikna eigi út frítökurétt þegar vinna fari umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring skv. grein 4.7.2. í kjarasamningi aðila. Þvert á móti sé það mat stefnda að inntak greinar 4.7.2. hafi verið óumdeilt og hafi stefnandi ekki gert athugasemdir í þau 17 ár sem ákvæðið hafi verið við lýði, fyrr en nú. Þessu til stuðnings sé vísað til bókunar 6 með kjarasamningi Læknafélags Íslands og ríkisins frá 13. september 2011, þar sem komi fram að aðilar hafi verið ásáttir um að setja á laggirnar sérstaka óháða nefnd utanaðkomandi aðila með það að markmiði að fjalla um ágreining sem upp hefði komið um túlkun og framkvæmd á frítökuréttarákvæðum kjarasamningsins. Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við fram komna túlkun á ákvæðinu í 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2. í svörum sínum við fyrirspurnum nefndarinnar. Nefnd þessi hafi skilað ítarlegri álitsgerð um málið til samninganefndar ríkisins, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands í mars 2013. Stefnandi hafi með sama hætti og Landspítali og aðrir hagsmunaaðilar fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina, m.a. um þau dæmi sem nefndin hafi byggt á við úrlausn sína.

Stefndi tekur fram að af álitsgerð nefndarinnar megi glögglega sjá að þrátt fyrir að ágreiningur hafi verið milli aðila um túlkun á öðrum greinum kjarasamningsins um frítökurétt, þá hafi skilningur aðila verið sá sami þegar kom að túlkun á grein 4.7.2. um myndun frítökuréttar þegar unnið er umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring. Á túlkun þessarar reglu hafi reynt í a.m.k. 11 dæmum sem rakin séu í álitsgerðinni. 

Af hálfu stefnda er sérstaklega vakin athygli á Dæmi R á bls. 22 í álitsgerðinni. Þar hafi verið deilt um myndun frítökuréttar vegna vinnu umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring, við þær aðstæður þegar vinnustundir hafi farið fram yfir viðmiðunarsólarhring viðkomandi læknis. Ekki verði annað séð en að stefnandi hafi í dæmi þessu verið sammála afstöðu samninganefndar ríkisins og Landspítala, þ.e. að reikna skuli frítökurétt vegna vinnu umfram 16 klst. miðað við viðmiðunarsólarhringinn en ekki fram á næsta vinnudag. Hámarksfjöldi frítökuréttartíma sem þannig ávinnist séu 12 tímar, þ.e. (24-16) * 1,5. Báðir aðilar hafi samkvæmt framansögðu verið sammála um þá túlkun að þær vinnustundir sem unnar hafi verið eftir að nýr viðmiðunarsólarhringur hófst mynduðu ekki frítökurétt og hafi þessi framkvæmd á umræddu ákvæði verið óumdeild frá því það var fyrst sett eða í 17 ár.

Þá telur stefndi rétt að líta til þess að nýr kjarasamningur milli aðila hafi verið  samþykktur hinn 15. janúar 2015 og sé ákvæði 4.7.2. óbreytt í hinum nýja samningi.

 

Lögsaga Félagsdóms.

Stefndi tekur fram að af hálfu stefnanda sé um lögsögu Félagsdóms vísað til 2. töluliðar 44. gr. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Stefnandi heyri hins vegar undir lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna skv. 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga. Fari því um lögsögu Félagsdóms í máli þessu eftir ákvæði 26. gr. laga nr. 94/1986, en ekki eftir tilvitnuðu ákvæði í stefnu.

Stefndi byggir samkvæmt framansögðu á því að venjubundin túlkun á ákvæði 2. ml. 3. mgr. greinar 4.7.2. og framkvæmd á útreikningi frítökuréttar samkvæmt ákvæðinu hafi verið óumdeild allt frá árinu 1997, þegar ákvæðið hafi fyrst komið inn í kjarasamning aðila. Aðilar hafi verið sammála um túlkun þessa, sem fram hafi komið í vinnu óháðrar nefndar um skýringu frítökuréttarákvæðanna samkvæmt bókun 6 með kjarasamningi aðila dags. 13. september 2011. Hafi stefnandi þannig sýnt af sér fullkomið tómlæti þar til nú fyrst að hann hefst handa um málatilbúnað þennan í andstöðu við yfirlýsta og þekkta túlkun og framkvæmd ákvæðisins síðastliðin 17 ár.

Með vísan til þess sem að framan greinir krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og mótmælir málatilbúnaði félagsins að öðru leyti.

Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar stefndi í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstaða:

Mál þetta á undir Félagsdóm skv. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986.

Í grein 4.7.2 í kjarasamningi aðila frá 5. mars 2006, sem var samkvæmt gögnum málsins framlengdur með samkomulagi 1. október 2008 og aftur þann 13. september 2011, sem og í grein 4.7.2 í nýjum kjarasamingi aðila frá 7. janúar 2015, eru ákvæði um frítökurétt.

Í 2. mgr. ákvæðisins, sem verið hefur óbreytt í framangreindum samningum segir:

„Frávik/frítökuréttur. ...

Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmilegt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildir eftirfarandi:  Séu læknar sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1 ½ klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist.  Heimilt er að greiða út ½ klst. (í dagvinnu) af frítökuréttinum, óski læknir þess.“

Í 3. mgr. ákvæðisins, sem hefur verið óbreytt í framangreindum kjarasamningum, segir:

„Skerðist 11 tíma hvíld á gæsluvakt myndast frítökuréttur með sambærilegum hætti.  Einnig myndast frítökuréttur fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring, þ.e. á hverjum 24 klst. miðað við skipulagt / venjubundið upphaf vinnudags læknis...“.

Í grein 4.7.4 í umræddum kjarasamningum er jafnframt ákvæði sem er samhljóða í báðum samningum og hljóðar svo:

“Aukinn frítökuréttur vegna samfelldrar vinnu umfram 24 klst. Í þeim sérstöku undantekningartilvikum að starfsmaður vinni samfellt fullar 24 stundir, skal frítökuréttur aukast þannig að hver heil stund umfram 24 veitir frítökurétt sem er 1,8% lengri en sá frítökuréttur sem næsta stund á undan gaf.”

Dómkröfur stefnanda beinast að því að viðurkennt verði að félagsmenn stefnda eigi rétt til 1½ klst. frítökuréttar fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram samfellda 16 klst. vinnulotu upp að 24 klst., án tillits til þess hvort nýr viðmiðunarsólarhringur hefjist innan vinnulotunnar.

Í stefnu kemur fram að óumdeilt sé að viðmiðunarsólarhringur í hinu tilfærða dæmi um lækninn Jóhann Sigurjónsson hafi hafist alla ofantalda daga kl. 07.30, en á þeim tíma hafi almenn dagvinna lækna  hafist á þeirri deild sem Jóhann starfaði, þ.e. á þeim tímapunkti hafi hafist skipulagt / venjubundið upphaf vinnudags læknis, eins og það sé orðað í kjarasamningi.

Í kjarasamningi aðila, sem hefur verið óbreyttur a.m.k. frá árinu 2006 hvað þetta varðar, segir berum orðum í 3. mgr. í grein 4.7.2 að frítökuréttur myndist fyrir hverja klukkustund sem unnin er umfram 16 klst. á viðmiðunarsólarhring, þ.e. á hverjum 24 klst. miðað við skipulagt / venjubundið upphaf vinnudags læknis. Er í ákvæðinu vísað til málsgreinarinnar á undan þar sem fram kemur að frítökuréttur 1,5 klukkustund myndist fyrir hverja unna klukkustund.

Það er mat dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram röksemdir fyrir því að víkja eigi frá skýru orðalagi ákvæðis 3. mgr. í grein 4.7.2 þar sem fram kemur með berum orðum að frítökurétturinn myndist fyrir hverja unna stund sem unnin er umfram 16 klukkustundir á viðmiðunarsólarhring. Getur vísun stefnanda til greinar 4.7.4 í kjarasamningi ekki breytt þessu enda fjallar hún um frítökurétt þegar unnið er samfellt umfram 24 stundir, en þess er að geta að grein 4.7.2 er ekki bundin við samfellda vinnu, auk þess sem dómkrafa stefnanda er bundin við vinnulotu umfram 16 stundir að 24 stundum og fellur því utan efnis greinar 4.7.4.

Verður stefndi samkvæmt framansögðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Rétt er að stefnandi greiði stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn kr. 400.000.   

           

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Læknafélags Íslands.

Stefnandi greiði stefnda kr. 400.000 í málskostnað.

 

Sigurður G. Gíslason

Ásmundur Helgason

Guðni Á. Haraldsson

Karl Ó. Karlsson

Sigurlaug K. Jóhannsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira