Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 12/2018. Dómur 26. febrúar 2019

Heiðveig María Einarsdóttir (Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður) gegn Sjómannafélagi Íslands (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Ár 2019, þriðjudaginn 26. febrúar, er í Félagsdómi í málinu nr. 12/2018:

Heiðveig María Einarsdóttir (Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður) gegn Sjómannafélagi Íslands (Jónas Þór Jónasson lögmaður) kveðinn upp svofelldur dómur

Mál þetta var dómtekið 29. janúar 2019.

Dóminn kveða upp Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Lára V. Júlíusdóttir og Björn Jóhannesson.

Stefnandi er Heiðveig María Einarsdóttir, Álfkonuhvarfi 4, Kópavogi.   

Stefndi er Sjómannafélag Íslands, Skipholti 50 d, Reykjavík.                                                                                           

Dómkröfur stefnanda

Upphaflegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

  1. Að viðurkennt verði með dómi að brottrekstur stefnanda úr Sjómannafélagi Íslands feli í sér brot gegn 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
  2. Að viðurkennt verði með dómi að ákvæði 16. gr. laga stefnda um þriggja  ára greiðsluskyldu  til þess að öðlast kjörgengi hjá stefnda feli í sér brot gegn  1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938.
  3. Að viðurkennt verði með dómi að stefnandi njóti kjörgengis hjá stefnda.
  4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.
  5. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að mati dómsins.
  6. Að stefndi verði dæmdur til að greiða vexti af miska- og skaðabótum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25 október 2018 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
  7. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar sem renna skal í ríkissjóð.
  8. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, auk virðisaukaskatts á málskostnaðinn þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld.

Með úrskurði Félagsdóms 21. desember 2018 var kröfum stefnanda samkvæmt kröfuliðum 3, 4, 5 og 6 vísað frá dómi. Sá úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar. Efnisleg niðurstaða Félagsdóms tekur því til kröfuliða stefnanda nr. 1, 2 , 7 og 8 í stefnu. 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati Félagsdóms.

Málavextir

Óumdeilt er að stefnandi, Heiðveig María Einarsdóttir, varð félagi í stefnda, Sjómannafélagi Íslands, í ágúst 2017.

Með tölvubréfi 24. maí 2018 upplýsti stefnandi starfsmann stefnda um að hún hygðist bjóða fram lista til stjórnar stefnda um haustið. Jafnframt óskaði hún eftir leiðbeiningum um það, hvernig standa skyldi að mótframboði til stjórnarinnar, uppstillingu, skilyrði, framboðsfrest og kjörgengi. Þá óskaði stefnandi eftir að fá afhentan lista yfir gilda félagsmenn og ársreikninga allra sjóða félagsins 2015 til 2017. Í stefnu er því lýst að engin svör hafi borist frá stefnda við framangreindu bréfi né heldur þegar stefnandi hafi farið á skrifstofu stefnda 26. sama mánaðar í sömu erindagjörðum.

Stefnandi ítrekaði erindi sitt í tölvubréfi 27. september sl. og óskaði jafnframt eftir afriti „úr fundargerðarbók af lögum félagsins eins og þau voru samþykkt 3. nóvember 2016.“ Stefnandi fór ásamt öðrum félagsmanni á skrifstofu stefnda 28. september til að fylgja eftir ítrekun sinni um upplýsingar og fékk þau svör hjá starfsmanni stefnda að þær og lög félagsins mætti nálgast á heimasíðu þess en félagalista væri ekki unnt að afhenda.

Í málinu liggur frammi ljósrit af fundargerð aðalfundar 28. desember 2017. Þar kemur fram að lögð hafi verið til breyting á 16. gr. laga félagsins svohljóðandi: „Kjörgengir eru þeir félagar sem hafa greitt í félagið sl. þrjú ár.“

Í stefnu er því lýst að við skoðun á heimasíðu stefnda 9. október sl. hefði komið í ljós að lögum stefnda hefði verið breytt á heimasíðu félagsins og hafi verið sýnilegar samtals átta lagabreytingar miðað við texta laganna eftir aðalfund félagsins 3. nóvember 2016. Þar á meðal hafi verið breyting á 16. gr. laganna sem varðaði kjörgengi stefnanda. Hefði meðal annars verið sett inn ákvæði í 3. tölulið 2. mgr. 16. gr. um að kjörgengir væru þeir félagar sem hefðu greitt í félagið síðastliðin þrjú ár. Þá hafi a-lið 7. gr. laganna um réttindi félagsmanna verið breytt þannig að nú sé kveðið á um að réttindi félagsmanna séu tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum en tekin hafi verið út orðin „svo og kjörgengi“.

Stefnandi lýsir því í stefnu að hún hafi 10. október sl. fengið senda frá starfsmanni stefnda ljósmynd af fundargerð úr fundargerðarbók félagsins vegna aðalfundar ársins 2016 og hafi í kjölfarið spurst sérstaklega fyrir um eina blaðsíðu úr henni sem hún taldi að vantaði. Þá hafi hún jafnframt fengið senda ljósmynd af fundargerð vegna aðalfundar 2017. Sem svar við frekari fyrirspurnum stefnanda kveður hún formann stefnda hafi bent henni á að hún gæti komið á skrifstofu félagsins og skoðað fundargerðarbókina ef hún kærði sig um.

Þann 11. október sl. setti stefnandi inn færslu á framboðssíðu sína á Facebook „Fulla ferð áfram B-listi Heiðveigar Maríu“ þar sem stefnandi gerði grein fyrir þeim lagabreytingum sem hún taldi að gerðar hefðu verið og gerði athugasemdir við lögmæti þeirra sem og framgöngu stjórnarmanna félagsins.

Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar og Sjómannafélaginu Jötni þar sem lýst er fréttaflutningi af mjög alvarlegum ásökunum á hendur stjórnendum stefnda um óheiðarlega framkomu og falsanir á fundargerðarbók félagsins sem bregðast þurfi við. Síðan segir að þar sem félögin hafi verið í sameiningarviðræðum við stefnda og fleiri félög sé það mat stjórnenda félaganna að ekki verði lengra farið og að þeir dragi sig því út úr þessum viðræðum. Í kjölfarið sendi stjórn stefnda út fréttatilkynningu til fjölmiðla 17. október sl. þar sem ásakanir stefnanda voru harmaðar.

Í greinargerð stefnda kemur fram að 21. október sl. hafi fjórir félagsmenn í stefnda krafist þess að stefnanda yrði vikið úr félaginu af nánar tilgreindum ástæðum. Stefnandi sendi 23. sama mánaðar bréf til stjórnar og trúnaðarmannaráðs stefnda þar sem hún óskaði staðfestingar á kjörgengi sínu með tilliti til núgildandi laga félagsins og rakti jafnframt þær lagabreytingar sem hún taldi að gerðar hefðu verið án þess að þeirra hefði verið getið í fundargerðum eða í lögum félagsins eins og þau voru skráð eftir aðalfundi áranna 2016 og 2017.

Í bréfi stefnda til stefnanda 25. október 2018 var gerð grein fyrir efni framangreinds erindis fjögurra félagsmanna í stefnda og kröfu þeirra um að henni yrði vikið úr félaginu. Trúnaðarmannaráð hafi samþykkt tillöguna á fundi sínum deginum áður með 18 atkvæðum af 23 en fjórir hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna. Loks var stefnandi upplýst um að með vísan til 10. gr. laga félagsins væri henni vikið úr stefnda með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgi.

Með öðru bréfi stefnda til stefnanda sama dag var vísað til samþykktar lagabreytingartillögu þess efnis að þeir félagsmenn einir væru kjörgengir sem hefðu greitt í félagið síðastliðin þrjú ár. Þar sem stefnandi uppfyllti ekki þetta skilyrði laganna, teldist hún ekki vera kjörgeng í félaginu og því væri ekki unnt að verða við beiðni hennar um staðfestingu kjörgengis.

Kjörstjórn stefnda úrskurðaði 20. nóvember sl. að framboð B-lista, sem stefnandi leiddi til kosninga í stjórn félagsins, væri ólögmætt og af þeim sökum væru frambjóðendur á A-lista stjórnar stefnda sjálfkjörnir í stjórn félagsins, stjórn matsveinadeildar og trúnaðarmannaráð.

Stefnandi telur að brottvikning hennar úr stefnda sé ólögmæt og að lagabreyting, sem varðar kjörgengi hennar og annarra félagsmanna stefnda, séu jafnframt ólögmætar. Sé henni því nauðsynlegt að höfða mál þetta fyrir Félagsdómi til þess að fá þessum ákvörðunum stefnda hnekkt fyrir dómi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfugerð sína í fyrsta lagi á því að hún hafi verið félagsmaður í stefnda frá því í ágúst 2017 og greitt þangað félagsgjöld. Stefndi sé stéttarfélag sjómanna og samkvæmt 3. gr. laga félagsins eigi allir sem atvinnu stunda á sjó rétt á inngöngu í félagið og teljist sá sem greiði félagsgjald félagsmaður samkvæmt 4. gr. laganna. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 2. gr. laga nr. 80/1938 skuli stéttarfélög opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu og því sé stefndi stéttarfélag stefnanda í skilningi laganna. Samkvæmt a-lið 7. gr. laga stefnda felist réttindi félagsmanna meðal annars í tillögu- og atkvæðisrétti á félagsfundum sem og kjörgengi. 

Stefnandi telur að með ákvörðun sinni um að reka hana úr Sjómannafélagi Íslands hafi félagið gerst sekt um brot á form- og efnisreglum laga félagsins og almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins. Þá feli brottreksturinn jafnframt í sér brot gegn 2. gr. laga nr. 80/1938 sem tryggi öllum rétt til að ganga í stéttarfélag og njóta þeirra réttinda sem því fylgir. Rétturinn til að vera í stéttarfélagi teljist til grundvallarmannréttinda og hafi stéttarfélög mikilvægu hlutverki að gegna við hagsmunagæslu félagsmanna sinna og launafólks almennt gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra, meðal annars með gerð kjarasamninga. Stéttarfélög njóti verndar í stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamþykktum sem Ísland eigi aðild að. Sé það skylda stéttarfélaga að virða og vernda rétt félagsmanna sinna til að hafa tækifæri til að hafa áhrif innan stéttarfélagsins á kaup þeirra og kjör með aðild, kjörgengi og atkvæðisrétti innan þess.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum 10. gr. laga stefnda sem fjalli um það hvernig standa skuli að brottvikningu félagsmanna þegar þeir séu taldir hafa brotið gegn lögunum. Af gögnum málsins megi ráða að það hafi verið trúnaðarmannaráð stefnda sem hafi tekið ákvörðun um að reka hana úr félaginu en ekki stjórn félagsins eins og a-liður 10. gr. laganna geri ráð fyrir. Stefnandi byggir jafnframt á því að við brottrekstur hennar úr félaginu hafi formaður stefnda og trúnaðarmannaráðið ekki farið að lögum félagsins um það hvernig skuli standa brottrekstri félagsmanns samkvæmt lagaákvæðinu. Þá hafi hvorki verið gætt andmælaréttar stefnanda né að rétti hennar samkvæmt a-lið 10. gr. laganna til að skjóta úrskurði um brottvikningu til trúnaðarmannaráðsfundar. Með ákvörðun sinni hafi stefndi jafnframt brotið gegn almennum reglum um meðalhóf en í a-lið 10.gr. félagslaganna sé gert ráð fyrir að unnt sé að veita áminningu eða brottvikningu.

Stefnandi byggir jafnframt á því að sú málsástæða, sem stefndi byggi brottrekstur hennar á, sé ótæk og ómálefnaleg. Í fyrsta lagi geti gagnrýni stefnanda sem félagsmanns á stjórnarhætti eða vinnubrögð stjórnarmanna í stéttarfélagi aldrei verið brottrekstrarsök. Þá hafi atkvæðagreiðsla um brottrekstur stefnanda jafnframt verið ólögmæt. Þeir, sem hafi lagt til að stefnandi yrði rekin úr stefnda, hafi sjálfir greitt atkvæði um eigin tillögu. Þá hafi einn þeirra, sem hafi lagt til að stefnandi yrði rekin, ekki verið félagsmaður í stefnda heldur í Eflingu þar til daginn áður en brottrekstur stefnanda var ákveðinn.

Stefnandi telur jafnframt að breytingar stefnda á reglum um kjörgengi, sem stefndi fullyrði að hafi verið samþykktar á aðalfundi félagsins 28. desember 2017, séu ólögmætar og varði réttindi hennar sem varin séu í 2. gr. laga nr. 80/1938. Allir fullgildir félagsmenn stéttarfélags skuli eiga jöfn réttindi innan félagsins og reglur sem mismuni félagsmönnum verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum en ekki geðþóttaákvörðunum. Verði allar reglur og lög og breytingar á þeim að taka mið af jafnræðisreglu sem sé stjórnarskrárvarinn réttur félagsmanna samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944.

Þá vísar stefnandi til 27. gr. laga stefnda þar sem segi að lögunum megi aðeins breyta á aðalfundi félagsins og að því tilskildu að lagabreytingartillagnanna hafi verið getið í fundarboði. Tillögur um lagabreytingar, sem komi frá öðrum en stjórn og trúnaðarmannaráði, eigi að berast skriflega til formanns félagsins minnst 15 dögum fyrir aðalfund.

Stefndi hafi auglýst aðalfund félagsins 2017 á heimasíðu sinni og í fjölmiðlum. Í auglýsingunni komi ekki fram hvaða lagabreytingar séu lagðar til en stefndi hafi ekki sent fundarboð til félagsmanna með upplýsingum um væntanlegar lagabreytingar. Hafi félagsmenn því ekki átt þess kost að kynna sér fyrirfram hvaða lagabreytingar væru fyrirhugaðar. Þar sem lagabreytinga á aðalfundi 2017 hafi ekki verið getið í fundarboði, séu þær ógildar. Þá sé breyting á 16. gr. laga stefnda sem lýtur að kjörgengi jafnframt ógild þar sem ekki hafi verið gætt að ákvæðum 27. gr. félagslaganna um að lagabreytingartillögur frá öðrum en stjórn og trúnaðarmannaráði eigi að vera skriflegar og berast 15 dögum fyrir aðalfund

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi þverbrotið allar almennar reglur sem honum beri að fylgja gagnvart félagsmönnum sínum að því er varðar leiðbeiningarskyldu, upplýsingaskyldu, jafnræðisreglu og andmælarétt. Sú staðreynd ein og sér eigi að leiða til þess að kjörgengi stefnanda verði staðfest og að lagabreyting um kjörgengi hennar og annarra félagsmanna verði dæmd ólögmæt. Þá telur stefnandi að allar þær breytingar og ákvarðanir, sem stefndi hafi gripið til og séu íþyngjandi fyrir stefnanda og félagsmenn í stefnda, verði að skýra stefnanda og félagsmönnunum í hag og stefnda í óhag.

Um kröfu sína um að stefnda verði gerð sekt í málinu vísar stefnandi til þess að með háttsemi sinni hafi stefndi valdið stefnanda tjóni þar sem hún hafi verið svipt öllum áunnum réttindum sínum hjá stefnda. Stefndi hafi með ásetningi  valdið því að stefnandi eigi nú hvorki veikindarétt né önnur réttindi sem félagsmenn stéttarfélaga ávinni sér með aðild að þeim.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, og stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Að auki byggir stefnandi á almennum meginreglum félaga- og vinnuréttar og samningaréttar sem og lögum Sjómannafélags Íslands eins og þau voru samþykkt 3. nóvember 2016.

Um fyrirsvar vísar stefnandi til 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 45. gr. laga nr. 80/1938. Um varnarþing er vísað til 38. gr. laga nr. 80/1938. Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af kröfu stefnanda í 1. kröfulið á því að brottvísun stefnanda úr stefnda hafi byggst á margvíslegum og gildum ástæðum. Einna þyngst hafi vegið ítrekaðar ásakanir stefnanda um að stefndi hefði falsað fundargerðarbækur félagsins vegna aðalfundar 2017 sem hafi leitt til slita á samningaviðræðum stefnda og annarra sjómannafélaga um sameiningu félaganna. Með þessari og fjölmörgum öðrum ásökunum sínum og ósannindum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum á hendur stjórnendum og starfsmönnum stefnanda um að þeir ynnu vísvitandi gegn hagsmunum stefnda og félagsmanna hans hafi stefnandi nítt niður æru þeirra. Þá hafi stefnandi með órökstuddum ávirðingum og alvarlegum ásökunum að ófyrirsynju skaðað ímynd, ásýnd og trúverðugleika félagsins en eftir ásakanir stefnanda hafi félagsmenn sagt sig úr stefnda sem hafi valdið honum tilheyrandi fjárhagslegu tjóni. Af þessum sökum hafi brottvísun stefnanda úr stefnda verið réttlætanleg og að gefnu tilefni. Hafi það verið mat mikils meirihluta trúnaðarráðs og stjórnar stefnda að óhjákvæmilegt væri að vísa stefnanda úr félaginu.

Stefndi vísar til ákvæða b-liðar 10. gr. laga stefnda þar sem segi að heimilt sé að víkja félagsmanni úr stefnda hafi hann, að áliti trúnaðarmannaráðs unnið gegn hagsmunum félagsins, valdið því tjóni eða gert eitthvað því til vansa. Einsýnt sé að fordæmalaus háttsemi stefnanda hafi falið í sér brot gegn ákvæðinu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að trúnaðarmannaráðið hafi ekki staðið rétt að verki þegar ákvörðun var tekin um brottrekstur stefnanda úr félaginu og sé hún því lögmæt, enda reist á málefnalegum ástæðum.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 80/1938 ráði stéttarfélög málefnum sínum sjálf. Ákvæði 74. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar sem og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verndi og tryggi rétt stéttarfélaga til að vinna að réttindum og málefnum sínum og félagsmanna sinna. Það sé þáttur í félagafrelsinu að stjórnvöld hafi ekki afskipti af rétti stéttarfélaga til að setja reglur um innri starfsemi sína, meðal annars um inngöngu og brottrekstur félagsmanna sinna. Stéttarfélög verði að hafa vald og svigrúm til þessa, án óþarfra afskipta stjórnvalda eða dómstóla, að leggja mat á það hvort framganga og háttsemi félagsmanns hafi verið slík að hún samræmist ekki hagsmunum félagsins, sem félagið sjálft er best til þess fallið að meta. Eftir alvarlegar og algjörlega ósannaðar ásakanir stefnanda í garð stefnda um falsanir á fundargerðarbókum, sem leitt hafi til tjóns og skerðingar á hagsmunum stefnda vegna slita á samningaviðræðum sjómannafélaganna í kjölfarið, hafi stefnda verið heimilt að vísa stefnanda úr félaginu.

Stefndi bendir á að ákvörðun hans um brottvísun stefnanda úr félaginu hafi engar fjárhagslegar afleiðingar haft fyrir hana. Stefnandi hafi getað stundað sjómannsstörf óhindrað og gengið í annað sjómannafélag og notið réttinda sem slík félagsaðild leiði til. Hafi brottvísunin því ekki haft þær afleiðingar að stefnandi væri sviptur atvinnu eða tekjumöguleikum sínum sem sjómanns. Loks vísar stefndi til þess að stjórnsýslulög nr. 37/1993 taki ekki til almennra félaga eða stéttarfélaga, en stefndi sé ekki stjórnvald í skilningi laganna, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. þeirra.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda í 2. kröfulið að því er varðar breytingu á 16. gr. laga stefnda um þriggja ára greiðsluskyldu til að öðlast kjörgengi. Málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki lagabreytingunni á þann veg að ekki væri hægt að skrá sig í stefnda og bjóða sig fram til stjórnar með litla sem enga sjóreynslu og án þess að hafa tekið þátt í félagsstörfunum, mætt á fundi eða haft afskipti af stéttarfélaginu en hugsanlega í þeim eina tilgangi að yfirtaka félagið. Auk þess gæti í einhverju tilviki verið um að ræða óreiðumanneskju í fjármálum sem gerði viðkomandi ótrúverðugan og ekki treystandi til að verða formaður í félagi eins og stefnda. Skilyrði um félagsaðild í þrjú ár áður en viðkomandi megi bjóða sig fram til trúnaðarstarfa í stéttarfélagi sé eðlilegt og feli ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé það almennt ákvæði sem taki jafnt til allra félagsmanna stefnda sem hafi ekki greitt til félagsins í þrjú ár hið minnsta. Þá séu rangar og ósannaðar vangaveltur stefnanda um að samhengi sé á milli brottvikningar stefnanda úr stefnda og 25. október 2018 og samþykktar aðalfundar stefnda tæpu ári áður, 28. desember 2017, um að breyta skilyrðum kjörgengis við kosningar í stefnda í þrjú ár.

Stefndi krefst sýknu af 7. kröfulið í stefnu með þeim rökum að hvorki séu forsendur né málefnaleg rök fyrir því að dæma hann til refsingar í formi sektar, gangi niðurstaða málsins stefnanda í vil. Ekki hafi verið gengið á hlut stefnanda og þá hafi stefnandi sjálfur komið sér í núverandi stöðu með makalausri framkomu og ávirðingum í garð stefnda sem leitt hafi til brottvísunar hennar úr félaginu.

Loks bendir stefndi á að ákvörðun málskostnaðar ráðist af heildarniðurstöðu málsins og standi engin efni til annars en að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar, verði fallist á kröfur stefnda að hluta eða öllu leyti. Einkum verði að líta til þess að upphaf máls þessa megi að hluta til rekja til tilhæfulausra ávirðinga og ásakana hennar á hendur stefnda.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 80/1938 og laga stefnda, einkum 10., 16. og 27. gr., sem og meginreglna félagaréttar. Þá vísar stefndi til 1. mgr. 74. og 1.-2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, sbr. 12 og 13. gr. laga nr. 97/1995. Þá er vísað til 1.-2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Loks vísar stefndi til 25. gr. og XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938. Svo sem áður er getið eru til efnislegrar úrlausnar Félagsdóms kröfuliðir stefnanda nr. 1, 2, 7 og 8 í stefnu.

I

Í fyrsta kröfulið stefnanda er krafist viðurkenningar Félagsdóms á því að brottrekstur hennar úr stefnda,  Sjómannafélagi Íslands, sem ákveðinn var á fundi trúnaðarmannaráðs stefnda sem fram fór 24. október 2018, hafi verið brot gegn 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938. Í ákvæðinu segir að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu, eftir nánara ákveðnum reglum í samþykktum félaganna.

Kröfu sína byggir stefnandi á því að rétturinn til þess að vera í stéttarfélögum teljist til grundvallarmannréttinda. Stéttarfélög hafi mikilvægu hlutverki að gegna fyrir hagsmuni sinna félaga og launafólks og þau njóti verndar í stjórnarskrá Íslands. Brottrekstur stefnanda hafi verið brot á þessum grundvallarréttindum og auk þess hafi hann ekki uppfyllt ákvæði 10. gr. í lögum stefnda. Þannig hafi trúnaðarráð stefnda ekki sjálfstæða heimild til þess að reka félagsmenn heldur sé heimildin í höndum stjórnar félagsins. Brottreksturinn sé auk þess byggður á ómálefnalegum ástæðum sem stefnandi hafi ekki fengið að tjá sig um. Þannig megi í raun rekja uppsögnina til þess að stefnandi hafi gagnrýnt forystu stefnda og boðað framboð sitt til setu í stjórn stefnda. 

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi vísvitandi unnið gegn hagsmunum stefnda með ósönnum fullyrðingum um falsanir á bókhaldi og fundargerðarbókum stefnda. Þá hafi hún með óhróðri nítt niður æru þeirra sem komið hafi að stjórn stefnda og þannig unnið gegn hagsmunum stefnda. Brottvikning hennar hafi við þessar aðstæður verið fullkomlega eðlileg og heimild til hennar sé að finna í b-lið 10. gr. félagslaga stefnda. Trúnaðarráð, sem stjórn stefnda og varastjórn eigi einnig aðild að, hafi tekið ákvörðun um brottvikningu á þessum forsendum. Þannig hafi brottvikningin verið reist á málefnalegum forsendum. Þá hafi brottvikningin heldur engar fjárhagslegar afleiðingar fyrir stefnanda.

Við skoðun á þessum þætti málsins verður annars vegar að líta til ákvæðis í 2. gr. laga nr. 80/1938 og hins vegar ákvæðis í 10. gr. félagslaga stefnda og þeirra ásakanna stefnda sem leiddu til brottvikningar stefnanda. Það er mat dómsins að ákvæði 10. gr. félagslaga stefnda sé ekki í andstöðu við ákvæði laga nr. 80/1938 enda ráða stéttarfélög málefnum sínum sjálf. Brottvikning úr stéttarfélagi verður þó með vísan til undirstöðuraka 2. gr. laga nr. 80/1938 og þess hlutverks sem stéttarfélög hafa á íslenskum vinnumarkaði að grundvallast á málefnalegum sjónarmiðum er taka m.a. mið af jafnræðissjónarmiðum.  Þá er heldur ekki á það fallist að brottvikningarvaldið sé einungis á valdi stjórnar stefnda. Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi hefur gagnrýnt forystu stefnda. Sú gagnrýni hefur meðal annars lotið að því að lög félagsins hafi ekki verið birt í réttu formi. Taka má undir það með stefnda að gagnrýni stefnanda hafi sumpart verið óvægin. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að stefnandi hefur boðað framboð sitt til setu í stjórn stefnda. Gagnrýni hennar verður því að skoða í því ljósi. Þá hefur stjórn stefnda orðið uppvís að því að birta á heimasíðu félagsins lög sem ekki voru í samræmi við samþykkt lög á aðalfundi félagsins á árinu 2017. Þannig var í þeim lögum ekki getið þeirrar breytingar á lögum félagsins að kjörgengi til stjórnar hefði verið takmarkað við þá félagsmenn sem greitt höfðu félagsgjöld til stefnda í 3 ár.

Það er mat dómsins að stefndi og stjórn stefnda verði að sæta því að fram sé sett gagnrýni á stjórn og stjórnarhætti í stefnda og þá sérstaklega þegar sú gagnrýni á rót sína að rekja til framboðs þess sem hana setur fram. Á það er ekki fallist með stefnda að gagnrýni og umfjöllun stefnanda um stjórn stefnda og stjórnarhætti hafi verið umfram það sem eðlilegt getur talist miðað við þau málsatvik sem fyrir liggja í máli þessu. Í lýðræðisþjóðfélagi er það réttur hvers og eins að setja fram gagnrýni. Gagnrýni er hluti af skoðana- og málfrelsi hvers og eins. Félagsmenn í stéttarfélögum hafa slík réttindi og ákvæði í lögum eða samþykktum slíkra félaga verða að víkja fyrir slíkum grundvallarréttindum. Það er því niðurstaða dómsins að þessi almennu réttindi stefnanda sem m.a. má leiða af grunnreglu 2. gr. laga nr. 80/1938 hafi ekki verið í heiðri höfð þegar trúnaðarmannaráð stefnda ákvað að víkja stefnanda úr Sjómannafélagi Íslands. Ber því að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda í kröfulið 1.

II

Í annarri kröfu stefnanda er krafist viðurkenningar á því að ákvæði 16. gr. laga stefnda um þriggja ára greiðsluskyldu til þess að öðlast kjörgengi hjá stefnda feli í sér brot á 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi byggir kröfu sína á því ákvæðið sé andstætt almennri jafnræðisreglu og sé ólögmæt takmörkun á rétti félagsmanna stéttarfélaga til þess að hafa áhrif á stjórn þeirra. Þá hafi við lagabreytinguna ekki verið fylgt félagslögum stefnda og því sé hún ógild.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að við lagabreytinguna hafi ekki verið fylgt félagslögum stefnda. Tillaga hafi verið lögð fram á aðalfundi félagsins af stjórnarmanni í stefnda fyrir hönd stjórnar félagsins og því sé hún fullkomlega gild. Þá hafi málefnaleg sjónarmið búið að baki tillögunni. Lagabreytingin hafi þannig átt að koma í veg fyrir að reynslulitlir félagsmenn gætu boðið sig fram til stjórnar í stefnda. Mikilvægt sé að stjórnarmenn þekki til innviða stefnda. Þá komi slík lagabreyting í veg fyrir að hægt sé með litlum fyrirvara að yfirtaka félagið.

Samkvæmt 27. gr. félagslaga stefnda má breyta lögum félagsins á aðalfundi. Það skilyrði er sett að lagabreytinga hafi verið getið í fundarboði. Þá segir að tillaga um lagabreytingar, er koma frá öðrum en stjórn eða trúnaðarmannaráði, verði að hafa borist skriflega til formanns félagsins minnst 15 dögum fyrir aðalfund. Í fundargerð aðalfundar stefnda frá 28. desember 2017 er bókað undir liðnum lagabreytingar að Sigurgeir Friðriksson hafi kvatt sér hljóðs og gert tillögu um breytingu á 16. gr. laga stefnda þannig að kjörgengir væru þeir félagar sem hefðu greitt í félagið s.l. þrjú ár.

Við mat á því hvort tillagan sem slík og samþykkt hennar teljist brot á 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938 verður að líta til þess að ákvæðið kveður á um að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein. Eins og að framan er rakið ráða stéttarfélög málefnum sínum sjálf. Ákvæði félagslaga takmarkast hins vegar af þeim rétti er um getur í 2. gr. laga nr. 80/1938. Hluti af þeim réttindum sem fylgja aðild að stéttarfélögum er að geta haft áhrif á stjórn þeirra, kosið um ákvarðanir, boðið sig fram til stjórnar þeirra og tekið þannig á lýðræðislegan hátt þátt í þeim ákvörðunum sem teknar eru innan þeirra á hverju tíma. Þau sjónarmið að baki þeirri takmörkun á kjörgengi sem stefndi byggir á geta að vissu leyti átt rétt á sér. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að skilyrði um þriggja ára greiðslu á félagsgjöldum til stefnda er mjög íþyngjandi fyrir einstaka félagsmenn. Slíkt skilyrði takmarkar að mati dómsins um of þau lýðræðislegu réttindi sem fylgja eiga aðild að stéttarfélögum. Þannig felur ákvæðið í sér verulegar takmarkanir í stjórnarþátttöku sem telst hluti af þeim réttindum sem varin eru af 2. gr. laga nr. 80/1938. Þá verður ekki séð að reynsla til þriggja ára veru í stéttarfélagi sé nauðsynleg til þess að geta notið þeirra réttinda er um ræðir eða boðið sig fram til stjórnar í slíkum félögum.

Þá uppfyllir lagabreytingin heldur ekki ákvæði félagslaga stefnda. Að mati dómsins verður að líta til orðalags í fundargerð aðalfundar frá 28. desember 2017. Þannig er tillagan ekki sögð lögð fram í nafni stjórnar heldur í nafni félagsmanns sem er í stjórn stefnda. Tillagan er því ekki á ábyrgð stjórnar. Því bar samkvæmt félagslögum stefnda senda hana til formanns stefnda minnst 15 dögum fyrir fundinn þannig að félagsmenn ættu þess kost að kynna sér hana með góðum fyrirvara. Er þá horft til þess að um verulega breytingu var að ræða á skilyrðum um kjörgengi félagsmanna.

Því er það niðurstaða dómsins að lagabreytingin sé í andstöðu við ákvæði 1. málsliðs 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938 og því ekki gild sem slík. Með vísan til þessa er fallist á annan kröfulið stefnanda.

III

Í sjöunda kröfulið stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sekt sem renni í ríkissjóð. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að stefndi hafi með framgöngu sinni brotið meðal annars gegn ákvæðum 2. gr. laga nr. 80/1938. Verður af honum að ráða að krafan  um sekt sé reist á þeim grunni. Samkvæmt fyrri málslið 1. gr. 65. gr. laga nr. 80/1938 getur Félagsdómur dæmt aðila til greiðslu sektar eftir venjulegum reglum.

Stefndi telur engar forsendur fyrir því að hann sé dæmdur til greiðslu sektar, enda hafi hann ekkert gert á hlut stefnanda. Þá hafi stefnandi sjálfur skapað þá stöðu sem hún sé nú komin í með makalausri framkomu og ávirðingum í garð stefnda.

Fyrir liggur í máli þessu að stefnandi hafði boðað framboð sitt til setu í stjórn stefnda í maí 2018. Hún hafði vegna þessa sóst eftir upplýsingum og gögnum frá skrifstofu stefnda um skilyrði til framboðs. Eins og að framan er rakið kom fram eftir það gagnrýni frá stefnanda á stjórnarhætti í stefnda. Þeirri gagnrýni var svarað af forsvarsmönnum stefnda þar sem stefnandi var meðal annars sökuð um að hafa eyðilagt viðræður stefnda um sameiningu við fjögur önnur stéttarfélög sjómanna. Í framburði Konráðs Alfreðssonar, formanns Sjómannafélags Eyjafjarðar, fyrir dóminum kom fram að viðræður þessar hefðu varla verið komnar formlega af stað og hefðu í raun verið rétt hafnar. Því hefði verið tekin ákvörðun um að bíða með frekari viðræður þegar mál þetta hafi komið upp innan Sjómannasambands Íslands.

Með bréfi 21. október 2018 rituðu fjórir félagsmenn stefnda bréf til stjórnar þess þar sem þeir kröfðust þess að stefnanda yrði vikið úr félaginu. Á fundi trúnaðarráðs stefnda þann 24. október 2018 var stefnanda svo vikið úr félaginu án þess að erindið hefði verið kynnt stefnanda eða borið undir hana. Í fundargerð stjórnar- og trúnaðarráðs frá þessum sama degi kom fram að ástæða brottvikningar stefnanda væri að framangreindar viðræður hefðu ekki gengið eftir vegna ásakana hennar. Miðað við framburð Konráðs Alfreðssonar, formanns Sjómannafélags Eyjafjarðar, fyrir Félagsdómi er það mat dómsins að hér hafi stefndi fundið sér til ástæðu til þess að geta vikið stefnanda úr félaginu. Í stað þess að styðja það að aðrir félagsmenn vildu hafa áhrif á stjórn félagsins og bjóða sig fram til setu í stjórn þess, brást stjórn og trúnaðarmannaráð stefnda þannig við að víkja stefnanda úr félaginu og svipta hana þannig þeim lögbundnu réttindum sem ákvæði 2. gr. laga nr. 80/1938 veittu henni. Með þessu virti stjórn og trúnaðarmannaráð stefnda að vettugi þær lýðræðislegu grunnreglur sem gilda eiga við stjórn stéttarfélaga. Létu þau stefnanda gjalda þess að hún hygðist freista þess að hafa áhrif á stjórn félagsins. Það er mat dómsins að hér hafi verið um að ræða skýran ásetning til þess að fella úr gildi réttindi stefnanda og koma þannig í veg fyrir að hún gæti haft áhrif á stjórn félagsins og að skilyrði fyrir beitingu sektarákvæðis 65. gr. laga nr. 80/1938 séu því uppfyllt.

Að teknu tilliti til alls þessa er það álit dómsins að gera eigi stefnda að greiða sekt í ríkissjóð að fjárhæð 1.500.000 krónur.

IV

Báðir aðilar krefjast málskostnaðar úr hendi hins. Við ákvörðun málskostnaðar telur dómurinn að líta verði til þess að fjórum kröfuliðum stefnanda hafi með úrskurði verið vísað frá Félagsdómi. Stefndi hafi hins vegar með athöfnum sínum komið í veg fyrir að stefnandi gæti nýtt sér lögbundin og lýðræðisleg réttindi hennar eins og þau að bjóða sig fram til stjórnar stefnda. Niðurstaðan er því að öllu verulegu henni í hag. Því þykir rétt með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, að stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.

Dómsorð

Viðurkennt er að brottrekstur stefnanda, Heiðveigar Maríu Einarsdóttur, úr stefnda, Sjómannafélagi Íslands, feli í sér brot gegn 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938.

Viðurkennt er að ákvæði 16. gr. laga stefnda um þriggja ára greiðsluskyldu til þess að öðlast kjörgengi hjá stefnda feli í sér brot gegn 1. málslið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/1938.

Stefndi greiði 1.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð.

Stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Ásmundur Helgason 

Guðni Á. Haraldsson

Björn Jóhannesson    

Lára V. Júlíusdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira