Hoppa yfir valmynd

Nr. 102/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 102/2019

Þriðjudaginn 30. apríl 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 8. mars 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. nóvember 2018 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati, dags. 27. nóvember 2018, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað og var fyrra mat um örorkustyrk látið standa óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. mars 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2019, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfi 5. apríl 2019 bárust skýringar kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um 50% örorku.

Í kæru segir að kærandi mótmæli 50% örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins þar sem heimilislæknir hennar, VIRK, B, C og D hafi allir komist að þeirri niðurstöðu að hún sé óstarfhæf. VIRK hafi metið hana með X% starfsgetu, D hafi metið hana með X % örorku og þá hafi hún skorað um X stig hjá B.

Kærandi fjallar um veikindi sín, auk líkamlegrar og andlegrar færniskerðingar. Fram kemur að kærandi hafi verið virkur samfélagsþegn mest allt sitt líf og hún vonist til þess að þetta sé tímabundið ástand hjá henni. Kærandi hafi haft fjárhagsáhyggjur og upplifað höfnun við ákvörðun Tryggingastofnunar þó svo að það sé ekki stofnunarinnar að finna út úr því hvernig hún eigi að sjá fyrir sér. Þetta hafi valdið óvissu og aukið á þunglyndi hennar og kvíða og hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera. Það hafi verið í samráði við teymi hennar á C að senda ekki inn kæru strax þar sem ætlunin hafi verið að meta hvort vera hennar þar myndi sýna fram á að endurhæfing til vinnu væri raunhæf í náinni framtíð, sem hafi svo ekki reynst vera.

Í athugasemdum kæranda segir um ástæðu þess að kæran hafi borist að liðnum kærufresti að ákveðið hafi verið, í samráði við teymið sem hafi verið að vinna með hana á C, að senda ekki inn kæru fyrr en að lokinni endurhæfingu. Endurhæfingin hafi skilað litlum árangri og hafi það verið mat teymisins að hún væri ekki hæf til starfsendurhæfingar í bráð. E hafi sagt að það myndi taka hana um tvö til fimm ár að komast á þann stað. Kærandi hafi haft samband við C og hafi óskað eftir að C myndi senda úrskurðarnefndinni bréf en hún hafi ekki heyrt meira um það.

Kærandi hafi farið í gegnum VIRK, B og C og það sé mat þeirra að hún sé að svo stöddu með 25% starfsgetu, þ.e.a.s. 75% örorku. Það sé með ólíkindum að litið hafi verið fram hjá þeirra mati og eingöngu farið eftir matslækni Tryggingastofnunar. Á þeim forsendum óski kærandi eftir að málið verði endurskoðað.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. nóvember 2018, um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega þrír mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. nóvember 2018, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. mars 2019. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 27. nóvember 2018 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru kemur fram að í samráði við teymi hennar á C hafi verið ákveðið kæra ekki ákvörðun Tryggingastofnunar að sinni heldur halda áfram með endurhæfingu til að sjá hvort hún myndi skila árangri. Ekki verður ráðið af framangreindum skýringum að endurhæfing kæranda hafi komið í veg fyrir að hún gæti kært ákvörðun Tryggingastofnunar. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkulífeyri á ný.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira