Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


 Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 9. júlí 2014 var tekið fyrir mál nr. 2/2014, A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Á fundi kærunefndarinnar 9. júlí 2014 var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Mál þetta varðar aðgang kæranda að gögnum í máli hennar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dóttur hennar, B.

Kveðinn var upp svohljóðandi

          

 Ú R S K U R Ð U R

Helstu málavextir

 Með bréfi Barnaverndarstofu 7. febrúar 2014 til kærunefndar barnaverndarmála var framsent erindi C hdl., fyrir hönd kæranda, með vísan í 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tilefni þess var kvörtun til Barnaverndarstofu 14. janúar 2014 vegna meðferðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur á máli kæranda þar sem vísað var til heimilda stofunnar gagnvart barnaverndarnefnd samkvæmt 2.‒4. mgr. 8. gr. og 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga. Fram kemur að mál dóttur kæranda, B, sem nú er látin, hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur. Í kvörtuninni kemur fram að kærandi sé verulega ósátt við meðferð mála hjá barnaverndarnefndinni. Beinist kvörtunin að því að barnaverndaryfirvöld vinni ekki samkvæmt stjórnsýslulögum og barnaverndarlögum við meðferð máls hennar og barns hennar. Umkvörtunarefnin eru rakin í erindi hennar til Barnaverndarstofu í nokkrum liðum.

Í bréfi Barnaverndarstofu til kærunefndarinnar er því lýst að kærandi sé ósátt við að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um takmarkaðan aðgang að gögnum máls hennar vegna stúlkunnar, skuli vera ótímabundinn ásamt því að ekki sé tekin afstaða til endurupptöku þess þáttar málsins hjá nefndinni. Barnaverndarstofa vísar til þess að í 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 komi fram að unnt sé að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarnefndar. Barnaverndar­stofa sendi lögmanni kæranda og Barnavernd Reykjavíkur afrit af bréfinu til kærunefndarinnar. Með bréfi kærunefndarinnar 5. júní 2014 til lögmannsins var óskað eftir afstöðu kæranda til málsins og var veittur frestur til 23. júní til að koma henni á framfæri. Ekkert svar hefur borist og afstaða kæranda til málsins hefur ekki komið fram umfram það sem þegar hafði fram komið þegar málið var til meðferðar hjá Barnaverndarstofu.

Með ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 16. október 2012 var kveðið á um það að kæranda og lögmönnum hennar væri aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða dætur hennar, þær B, D og E, án þess að þau eða ljósrit af þeim væru afhent, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ákveðið var að þeim væri gert kleift að kynna sér gögnin í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur undir eftirliti starfsmanns nefndarinnar. Gildir takmörkunin á afhendingu gagna um þau skjöl og önnur gögn sem eru til vörslu hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og þau gögn sem til verða og varðveitt verða hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Kærandi skaut framangreindri ákvörðun til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hana með úrskurði 10. apríl 2013.

Mál kæranda vegna dætra hennar hefur áður verið til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála og hafa eftirfarandi númer hjá kærunefndinni: 23/2012, 28/2012, 5/2013, 16/2013 og 28/2013. Gögn þessara mála teljast til gagna þessa máls.

Í erindi lögmanns kæranda til Barnaverndarstofu 14. janúar 2014 kemur fram, eins og áður greinir, að kærandi telji barnaverndaryfirvöld ekki vinna samkvæmt stjórnsýslulögum og barnaverndarlögum við meðferð máls hennar og barns hennar. Verður hér eingöngu gerð grein fyrir þeim þætti í erindi lögmannsins sem snýr að aðgangi að gögnum í máli kæranda, en sá þáttur málsins var framsendur með áðurnefndu erindi Barnaverndarstofu eins og þegar hefur komið fram. Fram kemur að kærandi telji að ítrekað hafi borið á því að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur og barnaverndarnefndar hafi ekki svarað skriflegum erindum kæranda, eins og þeim sé skylt að gera, og eigi það bæði við um erindi lögmanns hennar og erindi hennar sjálfrar. Byggi sú afstaða á meginreglum stjórnsýslulaga að stjórnvaldi sé skylt að svara skriflegum erindum, skriflega. Lögmaður kæranda kveðst hafa skrifað bréf til Barnaverndar Reykjavíkur 14. október 2013 vegna fjögurra aðgreindra erinda. Hann hafi meðal annars krafist þess fyrir hönd kæranda að aflétt yrði takmörkun á aðgangi kæranda og lögmanns hennar að gögnum, en samkvæmt úrskurði Barnaverndar sé kæranda og lögmanni hennar óheimilt að kynna sér gögn málsins annars staðar en í húsnæði Barnaverndar. Með bréfinu hafi lögmaðurinn óskað eftir því að þessari takmörkun yrði aflétt. Hafi þess verið óskað að erindið yrði tekið fyrir á fundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og síðar lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Starfsmaður Barnaverndar hafi haft samband við lögmann kæranda 18. nóvember 2013 og rætt um aðra þætti máls kæranda en þá sem varði aðgang að gögnum. Aðspurður hvort afstaða hefði verið tekin varðandi önnur atriði hafi starfsmaðurinn sagt það ekki hafa verið gert en yrði gert fljótlega. Fram kemur að lögmaðurinn og starfsmaðurinn hafi átt í tölvupóstsamskiptum dagana á eftir, einkum í sambandi við umgengni, og í tölvupósti 20. nóvember 2013 hafi lögmaðurinn innt starfsmanninn aftur eftir því hvort svara ætti öðrum atriðum í bréfi hans en þeim er varði umgengni, en ekki hafi borist svar við því erindi.

Lögmaðurinn kveður að málefni varðandi aðgang að gögnum hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar 14. nóvember 2013 og virðist af honum að ekki sé með neinum hætti hægt að hnekkja úrskurði varðandi aðgang að gögnum eða breyta þar sem hann sé ótímabundinn. Einnig hafi verið vísað til þess að öll þau rök sem lögð hafi verið til grundvallar í úrskurðinum séu enn fyrir hendi. Síðar hafi komið í ljós að málið hafi ekki verið tekið fyrir á fundinum og málið hafi ekki verið lagt fyrir barnaverndarnefnd.

Fram kemur af hálfu lögmanns kæranda að sú afstaða starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, að ómögulegt sé að leggja umrætt málefni fyrir nefndina, standist enga skoðun. Ef fara ætti eftir henni væru allar ákvarðanir barnaverndarnefndar ótímabundnar og ómögulegt að breyta því réttarástandi sem komið sé á með úrskurði þrátt fyrir verulega breyttar aðstæður. Kærandi telji þessa meðferð málsins vera handvömm af hálfu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og í ósamræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar um stjórnvaldsákvarðanir, meðal annars 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ef erindið hefði átt að vera með einhverjum öðrum hætti en fram komi í bréfi 14. október 2013 hafi stjórnvaldinu borið að veita kæranda leiðbeiningar um það hvernig koma ætti þessu málefni fyrir barnaverndarnefnd, sbr. 40. gr. barnaverndarlaga og til hliðsjónar 7. gr. stjórnsýslulaga.


  Forsendur og niðurstaða

Barnavernd Reykjavíkur tók ákvörðun 16. október 2012 um að kæranda og lögmönnum hennar væri aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða dætur kæranda, án þess að gögnin eða ljósrit af þeim væru afhent. Var ákveðið að þeim yrði gert kleift að kynna sér gögnin í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur undir eftirliti starfsmanns nefndarinnar. Ákvörðunin gildir varðandi takmarkaðan aðgang kæranda og lögmanna hennar að gögnum málsins sem eru skjöl og önnur gögn sem til eru í vörslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur og þau gögn sem verða til hjá nefndinni og verða varðveitt hjá henni. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hana með úrskurði 10. apríl 2013. Hvorki ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur né úrskurður kærunefndar barnaverndarmála var bundinn til tiltekins tíma.

Eins og hér að framan er rakið er vísað til þess af hálfu kæranda að erindi lögmanns hennar frá 14. október 2013 varðandi aðgang að gögnum hafi hvorki verið svarað né tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Vísað er jafnframt til þess að ólögmætt hafi verið að synja því að málið yrði lagt fyrir barnaverndarnefndina. Unnt eigi að vera að breyta réttarástandi sem komið hafi verið á þegar aðstæður hafi breyst verulega og er í því sambandi vísað til 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi sendi Barnaverndarstofu erindi vegna málsins, en stofan framsendi það til kærunefndar barnaverndarmála með bréfi 7. febrúar 2014 og afrit af bréfinu til lögmanns kæranda og Barnaverndar Reykjavíkur, eins og rakið hefur verið.

Í 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga kemur fram að heimilt sé að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. sömu laga getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum við aðstæður sem tilgreindar eru í lagaákvæðinu. Einnig getur barnaverndarnefnd úrskurðað samkvæmt sama lagaákvæði að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim verði afhent. Í málinu liggur ekki fyrir önnur ákvörðun eða úrskurður barnaverndarnefndar um takmarkaðan aðgang kæranda og lögmanna hennar að gögnum en sú ákvörðun sem þegar hefur sætt kæru til kærunefndarinnar og verið staðfest þar eins og þegar hefur verið rakið. Engin ákvörðun eða úrskurður af hálfu barnaverndarnefndar liggur heldur fyrir varðandi beiðni kæranda um endurupptöku þess máls sem þegar hefur verið afgreitt með ofangreindri kæru. Eins og málið er lagt fyrir kærunefndina er ekki að sjá að nokkur kæranleg ákvörðun liggi fyrir í málinu varðandi takmarkaðan aðgang kæranda að gögnum. Með vísan til þess eru ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga til að málinu verði skotið til kæranefndar barnaverndarmála. Ber því að vísa málinu frá kærunefndinni.

 
 Ú r s k u r ð a r o r ð

 Beiðni A um endurskoðun á málsmeðferð í barnaverndarmáli fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dóttur hennar, B, um aðgang að gögnum er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira