Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 5/2014

Málið varðar kröfu föður um rýmri umgengni við dóttur sína, skv. 74. gr. barnaverndarlaga, sem er í fóstri.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 9. júlí 2014 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hansB, nr. 5/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 Ú R S K U R Ð U R:


I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við dóttur sína, B. Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 18. mars 2014 um umgengni kæranda við dóttur hans, B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við föður sinn A, fjórum sinnum á ári á heimili föðurömmu, þrjár klukkustundir í senn.

Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hans við dóttur sína verði aðra hverja helgi frá föstudagssíðdegi til sunnudagskvölds.

Til vara er þess krafist að umgengni verði mun rýmri en nú er, a.m.k. einu sinni í mánuði í sólarhring í senn.

Til þrautavara er þess krafist að barnaverndarnefnd verði gert að kanna líðan B þegar hún fer til föður, dvelur hjá honum og þegar hún fer aftur til fósturforeldra og jafnframt að rætt verði við barnið, eða eftir atvikum gerð tengslakönnun, þannig að kanna megi eins og kostur er hvort rúm umgengni við föður sé „beinlínis andstæð þörfum barnsins“ í skilningi 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærunefnd barnaverndarmála kallaði eftir afstöðu fósturforeldra B til krafna kæranda varðandi umgengni hans við stúlkuna. Í tölvupósti frá þeim til kærunefndarinnar 11. júní 2014 kemur fram að þeir vilji halda óbreyttri umgengni en leyfa stúlkunni að stýra ferðinni þegar komi að frekari umgengni.


II. Málavextir

 B fæddist X 2009 og er því rúmlega fjögurra og hálfs árs gömul. Hún hefur verið vistuð hjá fósturforeldrum sínum, C og D, frá sex mánaða aldri að undanskildu tímabilinu 25. maí til 28. júní 2011 þegar hún bjó með móður sinni á Vistheimili barna. B hefur verið í varanlegu fóstri frá 15. maí 2012 og lýtur forsjár barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Á fósturheimilinu býr einnig ættleidd dóttir fósturforeldranna, E, fædd X 2010. B á eina sammæðra hálfsystur, F, fædda 1997, en hún býr hjá föður sínum.

Í bréfi G 7. febrúar [2012] segir að í upphafi leikskólagöngu hennar í byrjun september 2011 hafi hún verið viðkvæm og óörugg. Í dag sé hún nokkuð örugg og treysti starfsfólki í leikskólanum. Starfsmenn finni þó mun á stöðugleika hennar þegar dragi að þeim helgum þegar hún hitti blóðforeldra sína. Hún verði viðkvæmari, þoli minna áreiti frá hinum börnunum, gráti meira og spyrji meira eftir því hvort mamma eða pabbi sæki hana.

Í bréfi leikskólans 12. mars 2014 kemur fram að B sé í góðu jafnvægi og glöð í daglegu lífi leikskólans. Hún sé örugg þegar hún kveðji fósturforeldra sína á morgnana og standi jafnfætis jafnöldrum sínum námslega. Hún leiki sér við öll börnin á kjarnanum og eigi frumkvæði að samskiptum við þau. Hún sé glaðvær og tilbúin til þess að taka þátt í öllu sem fari fram í leikskólanum. Þá kemur fram að B hafi flutt á nýjan kjarna sumarið 2013 og hafi þroskast mikið og dafni vel í leik og samskiptum við starfsfólk og börn. Fram kemur að hún sé alveg hætt öllu væli og eirðarleysi, hún taki vel eftir, uni sér vel í öllum verkefnum og verði starfsfólk leikskólans ekki vart við neinn kvíða hjá stúlkunni.

Fram kemur í gögnum málsins að starfsmaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi farið í heimsóknir til B á fósturheimilið áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og virðist henni líða mjög vel þar. Hún hafi verið frekar feimin við starfsmann til að byrja með en þegar á líði verði hún öruggari. Hún leiti til fósturforeldra sinna eftir öryggi og tali mikið við þau, biðji um mat og að sér sé sinnt. Fósturforeldrar hafi greint frá því að stúlkan sé í betra jafnvægi en áður og sé það einnig álit þeirra sem þekki stúlkuna að sögn fósturforeldranna.

Kynforeldrar B slitu samvistum í apríl 2011. Móðir stúlkunnar, sem hefur átt við verulegan vímuefnavanda og geðrænan vanda að etja, var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2012. Kærandi átti einnig við vímuefnavanda að etja en kveðst hafa haldið sig frá neyslu eftir að hann fór í áfengismeðferð á Vog og Krýsuvík frá ágúst 2010 til febrúar 2011. Kærandi og fósturfaðir B eru systrasynir.

Eftir að B var vistuð á vegum Barnaverndar Reykjavíkur var umgengni kæranda við hana samkvæmt samningum sem gerðir voru milli hans og Barnaverndarinnar eins og nánar er rakið í gögnum málsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað síðan upp úrskurð um umgengnina 19. júní 2012. Með þeim úrskurði var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði fjórum sinnum á ári á heimili föðurömmu, þrjár klukkustundir í senn. Umgengnin hefur gengið nokkuð vel en fram kemur að kærandi hafi yfirleitt óskað eftir umgengni í mánuðinum eftir að hún átti að vera. Stúlkan virðist oftast sátt við að fara í umgengnina og kemur til baka í nokkuð góðu jafnvægi. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins hafa fósturforeldrar þó lýst erfiðleikum stúlkunnar og óöryggi í tengslum við umgengni.

Kærandi óskaði eftir rýmri umgengni við B með bréfi 8. nóvember 2013 þannig að hann fái umgengni aðra hverja helgi, annað hvort laugardag eða sunnudag, í sex klukkustundir í senn. Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 18. mars 2014 kemur síðan fram að kærandi óskaði eftir því að umgengni yrði ekki bundin við heimili föðurömmu heldur að hún færi fram á heimili hans. Hann var þó tilbúinn til að ræða annað fyrirkomulag, sem þó fæli í sér aukna umgengni og meiri samskipti þeirra feðgina. Ekki náðist samkomulag um umgengnina og kvað barnaverndarnefndin því upp nýjan úrskurð þar að lútandi 18. mars sl. sem nú hefur verið kærður til kærunefndar barnaverndarmála og er hér til úrlausnar.


III. Afstaða kæranda

Af hálfu kæranda er bent á að í hinum kærða úrskurði komi fram nokkrar rangfærslur sem rekja megi að hluta til framburðar fósturforeldra stúlkunnar sem hann telur rangan. Kærandi kveðst alla tíð hafa sýnt Barnavernd Reykjavíkur mikinn samstarfsvilja. Hann hafi til dæmis farið í áfengismeðferð vegna þess að Barnavernd hafi talið það rétt án þess að hann teldi það sjálfur nauðsynlegt. Kærandi bendir á að ekki hafi verið sýnt fram á að dóttir hans mundi bera skaða af ríkulegri umgengni við hann og hann mótmælir þeirri staðhæfingu fósturforeldra að meiri umgengni við hann en nú er geti valdið B kvíða. Þetta hafi ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Stúlkunni líði vel hjá honum og engir erfiðleikar hafi skapast þegar hún komi til hans né þegar hann skili henni aftur til fósturforeldra, nema það að B vilji alltaf vera lengur hjá honum en heimilað sé og spyrji hvort hún megi ekki koma fljótlega aftur. Kærandi hafi ítrekað komið því á framfæri að Barnavernd Reykjavíkur láti fylgjast með þegar stúlkan kemur til kæranda og einnig þegar hún fer frá honum. Sérfræðingar sem komið hafi að málinu telji ekkert í fari kæranda, sem ætti að vera til fyrirstöðu mikilli umgengni. Kærandi sé þess fullviss að B hafi aðeins gott af umgengni við hann og hans nánustu séu sama sinnis. Það sé í raun merkilegt hve mikið stúlkan sæki í kæranda og hve samband þeirra sé náið og gott, þrátt fyrir litla umgengni. Böndin sem tengi þau séu afar traust og styrki það skoðun kæranda varðandi það að B ætti að hafa meiri samskipti við sig en nú sé. Kærandi hafi þrátt fyrir mikla vanlíðan ekki neytt vímuefna, heldur hafi hann reynt að bæta úr vanlíðan sinni með viðtölum við sérfræðinga.

Kærandi telur að tími sé til kominn að huga að hagsmunum barnsins í máli þessu eða a.m.k. kanna hver áhrif umgengni við kæranda kunni að hafa á barnið. Hann fullyrðir að aukin umgengni yrði barninu bara til góðs.

Í bréfi kæranda til kærunefndarinnar 19. júní 2014 eru gerðar athugasemdir við að fósturforeldrarnir vilji að barnið stýri ferðinni. Miðað við ungan aldur barnsins sé ekki hægt að tala um að það stýri ferðinni. Það sé í höndum fullorðinna að stýra ferðinni. Þá skrifi fósturforeldrarnir alla óværð barnsins á umgengni við foreldrana. Kærandi telur aðrar ástæður geta verið fyrir svefntruflunum og óværð barnsins. Barnaverndarnefndin hafi ekki séð ástæðu til að kanna hvernig barninu líði í umgengni þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um það frá föðurfjölskyldu barnsins. Þá er tekið fram í bréfinu að föðurfjölskyldan vonist eftir því að sátt náist innan fjölskyldunnar með því að koma á reglulegri mánaðarlegri umgengni.


IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er vísað til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá X 2012 þar sem fram komi að B hafi myndað tilfinningaleg geðtengsl við fósturforeldra. Einnig er vísað til þess að það sé mat starfsmanna nefndarinnar að mikilvægt sé fyrir stúlkuna að tryggja og treysta þessi tengsl við fósturforeldrana, að hún finni til öryggis um að framtíð hennar verði hjá þeim og að hún þurfi ekki að fara aftur frá þeim. Mikið virðist hafa áunnist frá þeim tíma er stúlkan hafi verið vistuð hjá fósturforeldrum í varanlegu fóstri og úrskurðað hafi verið um umgengni við kynforeldra fjórum sinnum á ári. Ekki sé annað fyrirséð en að stúlkan verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu, sérstaklega breytinga á líðan og tengslum við fósturforeldra frá því að umgengni var breytt í júní 2012, sé það mat starfsmanna að mikilvægt sé að viðhalda þeim stöðugleika og öryggi sem fósturforeldrar hafi náð að skapa í aðstæðum stúlkunnar. Það sé nauðsynlegt til þess að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Engin rök séu fyrir því að breyta umgengni út frá hagsmunum stúlkunnar.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók í bókun sinni frá 18. mars 2014 undir ofangreint mat starfsmanna nefndarinnar og telur nefndin, með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar, hæfilegt að umgengni við kæranda verði fjórum sinnum á ári, í þrjár klukkustundir í senn. Í gögnum málsins hafi komið fram að búseta kæranda hafi verið óstöðug og þyki því ekki tilefni til að gera breytingar á þeim stað sem umgengnin fari fram á, þ.e. á heimili föðurömmu.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur bendir á að samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mark af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir því að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

B sé vistuð í varanlegu fóstri. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé umgengni yfirleitt mjög takmörkuð. Markmið fósturs sé að jafnaði það að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Af gögnum málsins sé ljóst að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun barnsins eftir að það flutti á heimili fósturforeldra sinna og virtist barnið njóta ástar, umhyggju og öryggis í umsjá þeirra. Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikilvægt væri að skapa B áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.


V. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram að afstaða þeirra til þessa máls hafi alltaf verið sú sama. Þau vilji halda óbreyttri umgengni en leyfa stúlkunni að stýra ferðinni þegar komi að frekari umgengni. Hálfs mánaðar umgengni, eins og hún hafi verið þegar B var í tímabundnu fóstri, hafi ekki gefið góða raun og skapað mikla togstreitu og óöryggi hjá henni. Hún hafi smám saman verið að vinna upp öryggið aftur en það hafi ekki farið að gerast fyrr en eftir að skrifað var undir samning um varanlegt fóstur og umgengnin minnkuð í samræmi við það. Fósturforeldrarnir séu því hrædd um að allt fari aftur í gamla farið ef umgengni verði aukin. Þar fyrir utan finnist þeim þetta óeðlilega mikil umgengni sem farið sé fram á þegar litið sé til þess að barnið er í varanlegu fóstri en ekki tímabundnu.

 B sé yfirleitt spennt fyrir umgengni við kæranda og föðurömmu sína. Hún komi þó oft tætt úr umgengni. Líðan hennar sé þó betri og hegðun viðráðanlegri eftir að fóstur­samningi var breytt í varanlegan samning og umgengni minnkuð. Í dag skynji fósturforeldrarnir þó aukið óöryggi, vantraust í garð þeirra og hræðslu við höfnun eftir umgengni og taki það þá nokkurn tíma að vinda ofan af því. B verði óstýrilát og orðljót. Það sé eins og hún sé að reyna mörkin og kanna hvort fósturforeldrarnir muni hafna henni ef hún gangi of langt. Þegar þeir taki hana í fangið og segi henni að það sé alveg sama hvað hún segi ljóta hluti við þá eða hversu óþekk hún sé þá muni þeir alltaf elska hana og aldrei fara frá henni. Þá spyrji hún spurninga á borð við „elskið þið mig líka þegar ég er vond?“ eða „en þegar ég verð 8 ára verður þú þá ennþá mamma mín?“

Fósturforeldrarnir telji best að hún fái að ráða ferðinni sjálf og segi henni reglulega að alltaf þegar hana langi til að hitta kynföður sinn og ömmu þá skuli hún segja þeim það og þeir hringi í þau. Hún hafi gert það í tvígang í ár. Fyrst um páskana og hafi hún farið til ömmu sinnar á annan í páskum og hitt kæranda þar. Síðan hafi hún beðið um það þarsíðustu helgi og hafi fósturforeldrarnir strax haft samband við ömmu hennar. Það hafi þó ekki gengið þann daginn en í staðinn hafi hún farið til þeirra mánudaginn 2. júní 2014. Hún hafði þá ekki hitt þau síðan um páskana þar sem kærandi hafði ekki samband við Barnavernd í maí til þess að óska eftir umgengni eins og núgildandi samningur kveði á um.

Fósturforeldrarnir telji að nýr samningur með aukinni umgengni sé of bindandi og taki þetta val af stúlkunni. Þá verði að standa við samninginn hvort sem hún vilji fara eða ekki. Í dag sé öll umgengni utan samnings á hennar forsendum og þannig vilji fósturforeldrarnir halda því.

Kærandi og amma stúlkunnar hafi þó mun meira aðgengi að henni en núgildandi samningur kveði á um. Þau viti að þau séu alltaf velkomin í heimsókn, fósturforeldrarnir bjóði þeim alltaf í afmælið hennar og hafi föðuramma þegið það, fósturforeldrarnir hafi haft frumkvæði að því að bjóða B að fara í jólaboð til ömmu sinnar á jóladag og þau hafi tækifæri til þess að hitta hana á mannamótum í stórfjölskyldunni. Þar að auki hafi þau fengið að hafa hana allan daginn þá daga sem umgengni fari fram en ekki bara þessar fjórar klukkustundir sem samningurinn kveði á um.

B hitti einnig kynmóður sína og móðurfjölskyldu fjórum sinnum á ári samkvæmt samningi og svo hafi fósturforeldrarnir heimilað einhverjar aukaheimsóknir í kringum afmælið hennar og jólin. Allt í allt séu þetta því mun fleiri umgengnisdagar en samningurinn hljóði upp á. Fósturforeldrarnir hafi ekki tekið þetta saman nákvæmlega en teljist til að þetta hafi verið a.m.k. fjórtán skipti árið 2013.

 

VI. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfum kæranda um rýmri umgengni við fjögurra ára gamla dóttur sína en hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur kveður á um. Aðal- og varakrafa kæranda lúta báðar að þessu. Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum. Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn í fóstri á rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.

Mestu máli skiptir fyrir þroska barnsins og heilbrigði til lengri tíma að það njóti stöðugra og öruggra tengsla við umönnunaraðila sem barnið lítur á sem foreldra sína. Stúlkan hefur verið í fóstri frá sex mánaða aldri sem ætlað er að standa þar til hún verður sjálfráða. Foreldrar hennar slitu samvistum 2011 og var móðir hennar svipt forsjá hennar með dómi X 2012. Með fósturráðstöfuninni er ætlunin að tryggja barninu stöðugt og öruggt umhverfi hjá umönnunaraðilum sem barnið á að líta á sem fjölskyldu sína. Markmiðið með þessu þjónar ótvírætt hagsmunum barnsins.

Í þessu máli eru ekki áform um að byggja upp varanleg tengsl við kynforeldri og vinna að því að barnið tilheyri tveimur fjölskyldum. Það er heldur ekki ætlunin að rjúfa tengsl barnsins við kæranda heldur að hafa samskiptin í föstum skorðum þar sem ríkir öryggi og ró í kringum umgengnina. Æskilegt er að fósturforeldrar og kynforeldrar geti verið sátt við þá umgengni sem talin er þjóna hagsmunum barnsins best.

Í þessu máli telur barnaverndarnefnd að umgengni sé hæfileg fjórum sinnum á ári á heimili föðurömmu barnsins, í þrjár klukkustundir í senn. Kærunefnd barnaverndarmála er sammála þessari niðurstöðu og telur hana þjóna hagsmunum barnsins best, ekki síst í ljósi ofangreindra raka og þess að fósturforeldrar eru jákvæðir gagnvart því að barnið sjálft geti ráðið einhverju um umgengnina.

Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að dóttir hans myndi bera skaða af ríkulegri umgengni við hann. Hann mótmælir jafnframt þeirri staðhæfingu fósturforeldra að meiri umgengni við hann en nú er geti valdið B kvíða. Stúlkunni líði vel hjá honum og engir erfiðleikar hafi skapast þegar hún komi til hans eða þegar hann skili henni aftur til fósturforeldra. Kærandi hafi ítrekað komið því á framfæri að Barnavernd Reykjavíkur láti fylgjast með þegar stúlkan komi til kæranda og einnig þegar hún fari frá honum. Sérfræðingar sem komið hafi að málinu telji ekkert í fari kæranda sem ætti að vera til fyrirstöðu mikilli umgengni. Samband feðginanna sé náið og gott þrátt fyrir litla umgengni og böndin sem tengi þau séu afar traust. Kærunefndin vísar í þessu sambandi til þess sem að ofan greinir varðandi þörf stúlkunnar fyrir stöðugt og öruggt umhverfi hjá fósturforeldrunum og trausta tengslamyndun við þau. Með því að tryggja stúlkunni slík uppvaxtarskilyrði myndi það af augljósum ástæðum þjóna hagsmunum hennar best.

Umgengni sem hefur togstreitu í för með sér fyrir þá sem að henni koma er greinilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Með því að takmarka umgengni kæranda við stúlkuna og marka henni ákveðinn ramma, eins og gert er með hinum kærða úrskurði, er stefnt að því að draga úr slíkri togstreitu í þeim tilgangi að þjóna hagsmunum stúlkunnar, eins og skylt er að gera samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þegar ákvörðun er tekin um umgengni. Með vísan til þessa verður að hafna framangreindum röksemdum kæranda.

Fósturforeldrarnir hafa bent á að sú leið sé heppilegri að leyfa stúlkunni að eiga val um það að fá að hitta kæranda og föðurömmu sína þegar hún sjálf vilji í stað þess að umgengni verði ákveðin á þann hátt sem kærandi fer fram á. Kærunefndin telur þetta sjónarmið skynsamlegt og að betur hljóti að fara á því að nokkur sveigjanleiki verði á fyrirkomulagi umgengninnar eins og málum er hér háttað en fósturfaðirinn er náskyldur kæranda og föðurömmu stúlkunnar. Með tilliti til þess telur kærunefndin sérstaklega mikilvægt að gott samkomulag ríki um umgengni kæranda við stúlkuna en þar verða báðir aðilar, þ.e. kærandi annars vegar og fósturforeldrar hins vegar, að leggja sitt af mörkum til að tryggja að samvinna verði góð og friðsamleg. Kærunefndin telur að horfa verði til þessara aðstæðna við úrlausn málsins og að þær hafi ásamt öðru nokkurt vægi þegar metið er hvernig umgengni skuli háttað. Það dregur þó ekki úr mikilvægi þess að umgengnin verði í föstum skorðum jafnhliða því að gott samkomulag ríki um hana. Kærunefndin telur hins vegar að sú ábyrgð verði ekki lögð á barnið að ákveða hvernig umgengninni verði háttað þótt tekið verði tillit til vilja stúlkunnar eftir því sem aldur hennar og þroski gefur tilefni til.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal við ráðstöfun barns í fóstur taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best þegar tekin er afstaða til umgengni barns við foreldra. Það er mat kærunefndar barnaverndarmála að sú umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði þjóni hagsmunum stúlkunnar best, eins og kærunefndin hefur skilgreint þá hér að framan, og að meiri umgengni geti stefnt í hættu þeim stöðugleika sem að er stefnt í uppeldi barnsins og fóstri, sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Af framangreindu leiðir að hafna ber kröfum kæranda, þ.e. aðal- og varakröfu, um rýmri umgengni við stúlkuna en ákveðin var af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur með vísan til 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hinn kærði úrskurður barnaverndar­nefndarinnar frá 18. mars 2014 er með vísan til þessa staðfestur.

Eins og að framan greinir hefur verið leyst úr ofangreindum kröfum kæranda þannig að tekið er mið af því sem kærunefndin telur að þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til þess verður að líta svo á að frekari könnun á líðan barnsins þegar það fer til kæranda, dvelur hjá honum og þegar það fer aftur til fósturforeldranna, eins og kærandi fer fram á með þrautavarakröfunni að barnaverndarnefndinni verði gert að framkvæma, hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Ber með vísan til þess að hafna þeirri kröfu kæranda.

 

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 18. mars 2014 um umgengni A við dóttur sína, B, er staðfestur.

 Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira