Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 9/2019, úrskurður 10. október 2019

Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 9/2019

 

 

Vegagerðin

gegn

Miðskersbúinu ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 6. júní 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms fyrir malarefni úr tveimur námum, sem í beiðninni er lýst með svofelldum hætti: „[M]alarefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti og námu 6 í Melsendahrauni, en námurnar eru í óskiptri sameign eignarnámsþola o.fl. landeigenda í Hornafirði.“

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþoli er Miðskersbúið ehf., kt. 671206-1420, Miðskeri, 781 Höfn í Hornafirði. Fyrirsvarsmaður eignarnámsþola er Bjarney Pálína Benediktsdóttir, stjórnarmaður, [...]. Eignarnámsþoli er eigandi jarðarinnar Miðskers, landnúmer 159510. Jörðin á námuréttindi í námum í Hornafjarðarfljóti og Melsendahrauni í óskiptri sameign með fleiri jörðum í Hornafirði. Nánar tiltekið á jörðin eignarnámsþola, Miðsker, 16,67% eignarhlutdeild í svonefndri námu 5 í Hornafjarðarfljóti, ásamt tíu öðrum jörðum, það er jörðunum Stapa, landnúmer 159518, Brekkubæ (vegna Brattagerðis og Annargarðs), landnúmer 159469, Grund, landnúmer 215793, Fornustekkum, fastanúmer 221959, Austurhóli, landnúmer 220642, Meðalfelli I, landnúmer 159507, Móa, landnúmer 159468, Bjarnarnesi, landnúmer 159463 og fastanúmer 221959, og Borgum, landnúmer 159468. Af því leiðir að hlutdeild jarðar eignarnámsþola í námunni er 1,54%. (0,0924x0,1667) Þá á jörð eignarnámsþola, Miðsker, 9,24% eignarhlut í svonefndri námu 6 í Melsendahrauni í Skógey.

 

Matsandlagið er nánar tiltekið:

1.         240.000 rúmmetrar fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti.

 

2.         85.000 rúmmetrar burðarlagsefnis úr námi 6 í Melsendahrauni í Skógey.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 18. júní 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 14 tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Þá var af hálfu matsnefndarinnar bókað: „Varaformaður gætti 13. júní 2019 leiðbeiningarskyldu gagnvart fyrirsvarsmanni eignarnámsþola, Sævar Kristni Jónssyni, með símtali, þar sem fyrirsvarsmanni eignarnámsþola var kynnt fyrirtakan í dag, 18. júní 2019. Var fyrirsvarsmanni eignarnámsþola meðal annars leiðbeint um að samkvæmt lokamálslið 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skuli eignarnemi greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn, óháð niðurstöðu matsnefndar í matsmáli, og eignarnámsþola bent á möguleika þess að leita til lögmanns vegna reksturs matsmálsins.“ Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Miðvikudaginn 26. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 26. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum og greinargerð eignarnámsþola. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram nýtt skjal, það er vinnuskýrsla lögmanns eignarnámsþola. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmanni eignarnámsþola bókað: „Eftir lögmanni eignarnámsþola er bókað að höfð sé uppi krafa um 150 kr./m3 vegna efnistöku úr námum 5 og 6.“ Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

 

Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 25 krónur á rúmmetra vegna fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti og 100 krónur á rúmmetra vegna burðarlagsefnis úr námu 6 í Melsendahrauni í Skógey. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 240.000 rúmmetrum af fyllingarefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti 92.418 krónum og vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 85.000 rúmmetrum af burðarlagsefni úr námu 6 í Melsendahrauni í Skógey 785.400 krónum.

 

Við mat á bótum fyrir fyllingarefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti vísar eignarnemi til þess að efni úr farvegi Hornafjarðarfljóts sé fremur illa fallið til mannvirkjagerðar sökum fínleika. Vísar eignarnemi til þess að af hálfu eignarnema hafi verið lögð áhersla á að nýta efnið úr farveginum næst brúnni í kjarna fyllingar og skuli efnið þá varið fyrir vatni og vindum. Meðal steinastærð neðan núverandi brúar sé um 0,5 mm en sú kornastærð fjúki auðveldlega. Hlutaðeigandi fyllingarefni sé ódýrasta malarefnið og af þeim sökum telji eignarnemi 25 krónur á rúmmetra hæfilegar bætur fyrir það.

 

Við mat á bótum fyrir burðarlagsefni úr námu 6 í Melsendahrauni í Skógey vísar eignarnemi til þess að hvergi á framkvæmdasvæðinu nema þar hafi fundist nothæft berg til að vinna í rofvarnir og slitlag. Náman í Skógey gegni þannig lykilhlutverki í framkvæmdum eignarnema. Hlutaðeigandi burðarlagsefni sé verðmætasta efnið og af þeim sökum telji eignarnemi 100 krónur á rúmmetra hæfilegar bætur fyrir það.

 

Við ákvörðun um fjárhæð bóta fyrir jarðefni úr báðum námum telur eignarnemi að líta verði til þess að um sé að ræða óunnið efni þar sem eignarnemi leggi til alla vinnu við mat á efnistökustöðum, mælingar og rannsóknir og annað sem tengist mati á gæðum efnis og efnistökustaðar. Þá sé nám, mölun, flokkun og frágangur á kostnað eignarnema. Vísar eignarnemi til þess að umsýsla landeigenda sé engin eða í algjöru lágmarki og þannig sé aðstaðan allt önnur en í virkum náum þar sem efni sé mokað beint á flutningstæki. Þá telur eignarnemi að líta þurfi til þess að hann sé eini og/eða langstærsti kaupandi malarefnis á svæðinu. Til þess sé og að líta að eigendur námu 5, að undanskildum eigendum þriggja jarða, hafi þegar samið um bætur á grundvelli áðurgreinds tilboðs eignarnema og hið sama gildi um eigendur námu 6, að undanskildum eigendum tveggja jarða.

 

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna fyllingarefnis úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 20 krónur á rúmmetra og vegna burðarlagsefnis þar 60 krónur á rúmmetra, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna malarefnis úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 12 krónur á rúmmetra. Eignarnemi hafnar því að unnt sé að hafa hliðsjón af verðmæti jarðefnis í Lambafellsnámu í Þrengslum við ákvörðun eignarnámsbóta fyrir jarðefni í þessu máli, líkt og eignarnámsþoli heldur fram, því Lambafellsnáma sé tilbúin náma í grennd við höfuðborgarsvæðið og þar með á mikilvægu markaðssvæði fyrir jarðefni. Það jarðefni sem hér sé til úrlausnar sé á hinn bóginn í Hornafirði þar sem Vegagerðinn sé eini stórkaupandi að slíku efni. Í því samhengi áréttar eignarnemi að líta beri til eldri úrskurða matsnefndarinnar við ákvörðun um fjárhæð bótanna.

 

Þá mótmælir eignarnemi að öðru leyti málatilbúnaði eignarnámsþola sem fer í bága við málatilbúnað hans.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er endanleg kröfugerð hans þess efnis að krafist er eignarnámsbóta að fjárhæð 1.732.608 krónur. Samkvæmt málatilbúnaði eignarnámsþola tekur sú krafa mið af því að honum beri eignarnámsbætur að fjárhæð 150 krónur á hvern rúmmetra vegna jarðefnisins sem um ræðir, í námum 5 og 6. Telur eignarnámsþoli að tilboð eignarnema um bætur sé of lágt, að um sé að ræða verð sem ákveðið hafi verið einhliða af eignarnema og að tilboðið endurspegli ekki markaðsverð fyrir hlutaðeigandi jarðefni. Vísar eignarnámsþoli í því samhengi til þess að langt sé síðan matsnefnd eignarnámsbóta hafi síðast lagt mat á fjárhæð eignarnámsbóta fyrir jarðefni og að af þeim sökum sé erfitt að draga ályktanir um verðmæti efnisins af eldri úrskurðum nefndarinnar. Til hliðsjónar vísar eignarnámsþoli til útboðs vegna nýtingar Lambafellsnámu í Þrengslum, þar sem hæstbjóðandinn Björgun ehf. hafi boðið 267 krónur á hvern rúmmetra. Þetta telur eignarnámsþoli endurspegla opinbert verð fyrir jarðefni í gæðum hliðstæðum við það jarðefni sem undir er í málinu. Þá telur eignarnámsþoli að fjárhæð eignarnámsbóta fyrir jarðefnið hljóti hvað sem öðru líði að taka mið af hækkun miðað við vísitölu því um sé að ræða gamalt tilboðsverð af hálfu eignarnema.

 

Þá krefst eignarnámsþoli málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema í samræmi við 11. gr. laga nr. 11/1973, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 309.750 krónum vegna lögfræðiþjónustu.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á jarðefni úr námum sem eignarnámsþoli á eignarhlutdeild í er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 26. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður. Eignarnámið tekur til jarðefnis úr áðurgreindum tveimur námum, þar sem um ræðir 240.000 rúmmetra fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti og 85.000 rúmmetra burðarlagsefnis úr námi 6 í Melsendahrauni í Skógey. Eins og áður greinir er náma 5 staðsett í sjálfu Hornafjarðarfljóti en  samkvæmt gögnum málsins einkennist gróðurfar svæðis sem fer undir námu 6 af deiglendi, flóa, sjávarflæðagróðri og graslendi. Eðli máls samkvæmt fór ekki fram vettvangsathugun á námu 5 í fljótinu, en athugun matsnefndar á námu 6 í Skógey, séð frá varnargarði meðfram austurbakka Hornafjarðarfljóts 25. júní 2019, degi fyrir vettvangsathugun með lögmanni eignarámsþola, staðreyndi áðurgreinda landshætti þar.

 

Er stærð og hlutdeild eignarnámsþola í námunum tveimur lýst hér á undan og óumdeild.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir jarðefni úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti og námu 6 í Melsendahrauni í Skógey. Ef litið er til námu 5, þá er þar um að ræða efni sem er illa fallið til mannvirkjagerðar sökum fínleika þess en meðal kornastærð efnisins er um 0,5 mm. Svo fíngert fyllingarefni hefur ákveðna galla miðað við grófara efni með breytilegri kornastærð. Þannig er burðargeta þessa efnis mun minni en grófara efnis með breytilegri kornastærð. Þá er hætta á útskolun og foki og þarf því að gera ráðstafanir til þess að verja fyllinguna fyrir vatnsgangi og foki og eins þarf að nota meiri þykkt af efninu heldur en ef um væri að ræða grófara fyllingarefni sem tæki betur þjöppun. Þá er til þess að líta að efni þetta er til í miklu magni á svæðinu. Á hinn bóginn er efnið í námu 6 í háum gæðaflokki og er áætlað að nota það í rofavarnir, slitlag og burðarmiklar fyllingar. Matsnefndin telur þannig rétt, að virtum gæðum jarðefnisins sem undir er í málinu og markaðsaðstæðum, að miða við að verðmæti þess nemi 35 krónum á rúmmetra vegna fyllingarefnis í námu 5 og 150 krónum á rúmmetra vegna burðarlagsefnis í námu 6. Fyrir hlutdeild eignarnámsþola í 240.000 rúmmetrum fyllingarefnis úr námu 5 í Hornafjarðarfljóti, það er í 3.697 rúmmetrum af jarðefninu (0,0924x0,1667x240.000), þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 129.395 krónur (3.697x35). Fyrir hlutdeild eignarnámsþola í 85.000 rúmmetrum burðarlagsefnis úr námi 6 í Melsendahrauni í Skógey, það er í 7.854 rúmmetrum af jarðefninu (0,0924x85.000), þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 1.178.100 krónur (7.854x150). Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessa þáttar 1.307.495 krónur.

 

Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

 

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola eins og áður greinir. Að því virtu verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþola ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til þess að lögmaður eignarnámsþola hefur samkvæmt áðurgreindu rekið annað mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vegna eignarnáms á landi, sbr. úrskurð í máli nr. 8/2019 sem kveðinn er upp í dag, í þágu sömu framkvæmdar eignarnema. Þriðja málið, mál nr. 10/2019, kemur á hinn bóginn ekki til úrlausnar matsnefndarinnar, þar sem það mál var fellt niður fyrir nefndinni að beiðni málsaðila þess 8. og 9. október 2019 sökum þess að um rangan eignarnámsþola var að ræða, því jafnframt var af þeirra hálfu fallið frá kröfum um kostnað vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur samtals vera 2.307.495 krónur. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola 359.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 2.307.495 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og eignarnámsþola, Miðskersbúinu ehf., samtals 384.000 krónur í málskostnað.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira