Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

08020143

Þann 21. janúar 2009 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

                                                                                           

                                                  ÚRSKURÐUR:

 

Ráðuneytinu barst þann 8. mars 2008 stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 22. febrúar s.l. um að framkvæmd vegna virkjunar við Brúará skuli sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Kærandi er framkvæmdaraðili Eyvindartunga ehf. og fyrir hans hönd Sigurður Jónsson hrl. Kæruheimild er í 14. gr. ofangreindra laga.

 

I. Málavextir og forsendur hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Þann 22. október 2007 tilkynnti Eyvindartunga ehf. allt að 6 MW virkjun í Brúará í Bláskógabyggð til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. a. - liður 3. tl. í 2. viðauka þeirra laga. Í framhaldi af því tók Skipulagsstofnun sem fyrr segir ákvörðun með bréfi dags. 22. febrúar 2008 um að framkvæmd þessi skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna Af hálfu ráðuneytisins var kæran send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Orkustofnunar, Iðnaðarráðuneytisins, Heilbrigðisnefndar Suðurlands, Bláskógabyggðar, Fornleifaverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands með bréfum dags. 31. mars s.l. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dags. 18. apríl s.l., umsögn Bláskógabyggðar með bréfi dags. 23. apríl s.l., umsögn Fornleifavernd ríkisins 17. apríl s.l., umsögn Heilbrigðisnefndar Suðurlands með bréfi dags. 11. júlí s.l., umsögn Orkustofnunar með bréfi dags. 4. júlí s.l., umsögn Iðnaðarráðuneytisins með bréfi dags. 9. júní s.l., umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands með bréfi dags. 5. maí s.l., umsögn Fornleifaverndar ríksisins með bréfi dags. 17. aprí s.l. og umsögn Umhverfisstofnunar með bréfi dags. 20. maí s.l. Umsagnir þessar voru svo sendar kæranda til athugasemda með bréfi dags. 13. ágúst og bárust þær athugasemdir ráðuneytinu þann 8. september s.l.

 

Samkvæmt framlögðum gögnum í málinu er fyrirhuguð virkjun í Brúará rennslisvirkjun án mögulegrar miðlunar. Áætlað er að raforkuframleiðsla muni verða mjög jöfn á ársgrundvelli en geti tekið minni háttar breytingum í samræmi við vatnsmagn árinnar. Að hámarki muni virkjunin afla 6000 KW en virkjað fall verði  um 23 metrar. Meðalrennsli í Brúará í inntakslón er uppgefið 32,8 rúmmetrar á sekúndu og líklegt talið að virkjað verði um 30 rúmmetrar á sekúndu. Fram kemur og að fyrirhugað sé að stífla  ánna með um 50 metra löngu og 6 - 8 metra háu steinsteyptu yfirfalli og heildarlengd stíflu áætluð um 170 metrar. Við stífluna verði til um 12.500 fermetra lón og muni um 200 metrar af farvegi Brúarár og 50 metrar af farvegi Hrútár fara undir lón. Þá er og tekið fram að frá stíflu verði vatni veitt um tvær 400 metra langar og rúmlega tveggja metra sverar niðurgrafnar þrýstipípur til stöðvarhúss sem verði um 160 fermetrar að flatarmáli. Frá stöðvarhúsi sé gert ráð fyrir um 230 metra löngum og um 4 metra djúpum frárennslisskurði til farvegar Brúarár og 33 kV jarðstrengur verði frá frárennslisskurði og muni ná til spennistöðvar við Reykholt. Framkvæmdir við jarðstreng og spennistöð verði á vegum RARIK. Þá er og tilgreint að vegagerð og efnistaka verði samfara fyrirhugaðri framkvæmd. Til viðbótar fyrirliggjandi eldri malarslóða þurfi að leggja um 670 metra langan veg að fyrirhuguðum mannvirkjum. Er heildarefnisþörf áætluð um  13.000. - rúmmetrar og gert ráð fyrir að mestur hluti efnisins komi úr efnisnámu við núverandi frístundabyggð.

 

Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar byggir á eftirfarandi forsendum og ástæðum:

 

Varðandi árif á verndargildi og landslag svæðis, árfarveg, útivist og ásýnd.  Í hinni kærðu ákvörðun segir að fyrirhugaðar framkvæmdir kunni að hafa verulega neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins sem einkennist af fjölskrúðugu gróðurfari og fuglalífi, en verndargildi svæðisins sé meðal annars staðfest í náttúruminjaskrá, það er áin og um 200 metra spilda beggja vegna hennar. Einnig er til þess litið að Brúará sé innan grannsvæðis vatnsverndar. Er í því sambandi vísað til sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands sem fylgdi greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar og þeirra upplýsinga þar um að Brúará sé ein af stærri lindám landsins. Vísað er og til þess að áin og farvegur hennar frá upptökum til ármóta við Hvítá sé að mestu leyti óspilltur og óraskaður. Fossar séu í Hrútá er falli undir verndarákvæði 37. gr. laga um náttúruvernd, en þeir muni hverfa ef af virkjunarframkvæmdum verði og votlendi raskast. Hinn sérkennilegi farvegur árinnar og staðhættir á svæðinu séu þannig að farvegurinn muni að mestu verða þurr á um 700 metra svæði neðan stíflunnar ef af framkvæmdum verði. Með tilliti til þessara atriða telur Skipulagsstofnun að fyrirhugaðar framkvæmdir muni rýra verndargildi svæðisins og geti haft verulega neikvæð og varanleg áhrif á það svo og sérkenni á svæðinu. Að mati Skipulagsstofnunar mun fyrirhuguð framkvæmd hafa talsvert neikvæð áhrif á fjölbreyttan kjarrgróður sem þar vaxi við núverandi aðstæður. Í því sambandi vísar stofnunin til þess að samkvæmt sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands séu umræddar framkvæmdir á skóglendissvæði sem sé hluti af einum lengsta samfellda skógi á landinu, svæðið teljist vel gróið og gróska mikil þar. Í hinni kærðu ákvörðun er og til þess litið að gróður muni raskast vegna lagningar þrýstipípa, frárennslisskurðar og veglagningar.

 

Hin kærða ákvörðun grundvallast og á því að framkvæmdasvæðið sé að mestu leyti óraskað og fyrirhugaðar framkvæmdir komi til með að hafa neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins með tilkomu stöðvarhúss, stíflu, lóns og vegar auk rasks vegna frárennslisskurðar og þrýstipípa. Metur stofnunin það svo að bæði sé um tefla tímabundin neikvæð áhrif á framkvæmdartíma sem og varanlegri áhrif af stöðvarhúsi, stíflumannvirki og þurrkun farvegs neðan stíflu á um 700 metra kafla. Miðað við staðsetningu fyrirhugaðra framkvæmda í lítt snortnu umhverfi telur Skipulagsstofnun að áhrif á landslag og sjónræn áhrif kunni að verða verulega neikvæð og varanleg, þótt staðbundin verði.

 

Varðandi áhrif á lífríki og jarðveg. Í hinni kærðu ákvörðun er og vísað til sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands er fylgdi sem fyrr segir greinargerð kæranda til Skipulagsstofnunar og þeirra upplýsinga þar um að af varpfuglum hafi straumönd verið eina tegundin á válista er fundist hafi á rannsóknarsvæðinu. Þar sé og tekið fram að straumönd verpi aðeins á Íslandi, af Evrópulöndum. Samkvæmt Bernarsamningnum sem Ísland á aðild að beri að friða straumendur og vernda búsvæði þeirra sérstaklega. Byggt er og á því að í sérfræðiskýrslunni komi fram að stífla í Brúará kunni að hafa mikil og ófyrirsjáanleg áhrif á straumendur bæði á og við Brúará og Hrútá. Einnig lítur Skipulagsstofnun til þeirra upplýsinga í skýrslu Náttúrufræðistofnunar um að miðað við þann mikla þéttleika straumanda á því litla svæði sem kannað hafi verið sé hugsanlegt að tugir para verpi ofar með ánni og við Hrútá og þá kunni svæðið að hafa alþjóðlega þýðingu fyrir straumandastofninn. Þá er af hálfu Skipulagsstofnunar vísað til takmarkaðra athugana á straumandarstofninum á svæðinu að öðru leyti. Með vísan til einkum þessara atriða telur Skipulagsstofnun að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á straumendur. Þá er í hinni kærðu ákvörðun horft til möguleika á hugsanlegum leka úr lóninu niður í hraunið.

II. Málsástæður og kröfur kæranda og umsagnir um þær.

 

1. Um óréttmætar forsendur Skipulagsstofnunar og réttaáhrif umsagna.

Kærandi álítur ákvörðun Skipulagsstofnunar vera ófaglega og byggða á pólitísku mati í þeim tilgangi að „þóknast ríkjandi stjórnvöldum.“ Einnig er staðhæft í kæru að afstaða og niðurstaða Skipulagsstofnunar sé í mótsögn við umsagnir fagaðila sem um fyrirhugaða virkjun hafa fjallað og reynt sé að draga mátt úr kæranda með því að krefjast afar dýrra og tímafrekra rannsókna sem lítil eða engin þörf sé á. Vísar kærandi til þess að framkvæmdasvæðið sé á svæði þar sem mannvist hafi fyrir löngu rofið óspillta náttúru og engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga úr þeirri notkun sem samfara er starfsemi þeirri sem ríkjandi hefur verið á svæðinu um langt skeið. Sú umgengni og röskun sem fyrir sé á svæðinu valdi mun meiri áhrifum á álagsþol náttúrunnar en lítil sjálfbær virkjun af þeim toga er hér um ræðir. Telur kærandi að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé að hluta tekin út frá háu uppsettu afli virkjunarinnar en ekki með tilliti til takmarkaðra umhverfisáhrifa virkjunarinnar sem slíkrar.

 

Þá byggir kærandi á að Skipulagsstofnun hafi beðið mun lengur eftir umsögn iðnaðarráðuneytisins en heimilt geti talist. Í umsögn Skipulagsstofnunar er meðal annars tekið fram að stofnunin líti svo á að í ljósi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hafi henni borið lagaskylda til að leita eftir umsögn iðnaðarráðuneytisins sem leyfisveitanda.

 

2. Um rask og áhrif á framkvæmdasvæði, landslag, gróðurfar og útivist.

Kærandi telur að áhrif vegna framkvæmdar geti orðið jákvæð. Af hálfu kærenda er í þessu sambandi lögð áhersla á að vatnsvegurinn vegna framkvæmdarinnar verði einungis um 700 metra langur, virkjunarmannvirki verði hönnuð til þess að falla vel að ríkjandi landslagi eftir framkvæmdir og friðun svæðisins fyrir ágangi búpenings. Vatn verði ævinlega í upprunalegum farvegi árinnar samfara undirfalli á stíflu. Þá mótmælir kærandi því að flúðir þær sem neðst eru í Hrútá geti talist til fossa líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar og einnig staðhæft að því fari fjarri að farvegur árinnar sé óraskaður frá upptökum til ármóta. Geti og mannvirki vegna framkvæmdar fallið vel að landslagi að mati kæranda. Telur kærandi sig með engu móti geta fallist á það með Skipulagsstofnun að gera megi ráð fyrir því að aðdráttarafl svæðisins til útivistar og ferðamennsku felist fyrst og fremst í óraskaðri náttúru og að hugsanlegt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir muni rýra gildi svæðisins til útivistar. Af hálfu kæranda er á því byggt að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði hafi nú þegar verið raskað en framkvæmdir komi til með að hafa jákvæð áhrif á ásýnd svæðisins samanborið við ríkjandi ástand þar. Stöðvarhús, stífla, lón, vegur og frárennslisskurður muni að mati kæranda auka á fjölbreytni og falla afar vel að þeirri byggð sem þarna er. Þrýstipípur verði niðurgrafnar og því ósýnilegar. Kærandi andmælir þeim forsendum Skipulagsstofnunar sem fjalla um áhrif á gróður, en sem fyrr greinir byggir hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar á því að fyrirhugað framkvæmdasvæði sé hluti af einu merkasta og samfelldasta skóglendissvæði landsins. Af hálfu kæranda er bent á að á svæðinu sé fjöldi sumarbústaðalóða og á hverri einustu lóð eigi sér veruleg röskun.

 

Í sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnin var vegna umræddrar framkvæmdar á árinu 2006 kemur fram að Brúará sé ein af stærri lindám landsins og áin ásamt farvegi sínum frá upptökum til ármóta við Hvítá sé að mestu leyti óspilltur og óraskaður. Að mati stofnunarinnar hefur Brúará og vatnasvið hennar mikið gildi sem óspillt lindá þrátt fyrir mannvirki í grenndinni. Í umsögn Bláskógabyggðar er tekið fram að leyfi til framkvæmdarinnar verði ekki veitt nema fyrir liggi samstaða eigenda svæðisins en samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum hafa verið áhöld um umrædd virkjunaráform af þeirra hálfu.

 

3. Um áhrif á lífríki og jarðveg.

Af hálfu kæranda er vísað til efnis skýrslu Náttúrufræðistofnunar sem unnin var vegna framkvæmdarinnar og byggt á því að þar bregðist stofnunin hlutverki sínu sem hlutlaus álitsgjafi með því að koma með skoðanamyndandi fullyrðingar byggðar á takmörkuðum gögnum og án frekari tilvísana í athuganir eða umfjallanir um atferli straumanda. Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er á því efni sérfræðiskýrslunnar byggt að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á straumendur. Nánar tiltekið þá vísar kærandi í þessu samhengi til þess þáttar í skýrslu Náttúrufræðistofnunar þar sem tekið er fram að miðað við þann mikla þéttleika straumanda á því litla svæði er kannað hafi verið sé hugsanlegt að tugir para verpi ofar með ánni svo og við Hrútá og gæti svæðið haft alþjóðlega þýðingu fyrir straumandarstofninn. Kærandi telur að til greina komi að fresta framkvæmdum um eitt ár eða fram til haustsins 2009 þannig að hægt sé að vinna greinargerð með mati á áhrifum framkvæmdanna á straumendur samfara vöktun árið 2008. Tilvísun Skipulagsstofnunar í hinni kærðu ákvörðun til Bernarsáttmálans er og að mati kæranda fráleit og gengur að hans áliti gegn meðalhófssjónarmiðum. Í umsögn Umhverfisstofnunar er rakið að með tilliti til lífsskilyrða straumanda á svæðinu í ljósi fyrirhugaðrar framkvæmdar telji stofnunin að framkvæmdin skuli sæta mat á umhverfisáhrifum og sama afstaða birtist sem fyrr greinir í sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar.

 

Þá telur kærandi hættu á leka úr lóni í hraun vera litla og vísar til þess að hönnuðir stíflumannvirkja muni taka fullt tillit til þess háttar möguleika.

 

Á grundvelli framanrakinna kæruatriða krefst kærandi þess að umrædd ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. febrúar verði felld úr gildi þannig að hún verði ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

III. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins.

 

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er rakið að markmið laganna sé að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi er henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þá er það einnig markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda er undir lögin falla, svo og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er svo tekið fram að framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Við mat á því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif ber að fara eftir þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 3. viðauka laganna, en hugtak þetta er skilgreint í 3. gr.  sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif, eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er unnt að bæta úr með mótvægisaðgerðum. Verður úrlausnarefnið fyrst og fremst virt í ljósi þessara lagaákvæða og þeirra sjónarmiða sem þau byggja á.

 

1. Um óréttmætar forsendur Skipulagsstofunar og umsagnir

Viðvíkjandi þeirri staðhæfingu kæranda að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé byggð á pólitískum eða ófaglegum forsendum þá verður að mati ráðuneytisins hvorki ráðið af framkomnum gögnum og sjónarmiðum um málsmeðferð stofnunarinnar né heldur forsendum hinnar kærðu ákvörðunar að öðru leyti, að umrædd staðhæfing eigi við rök að styðjast. Sá dráttur sem varð á málsmeðferð vegna skila iðnaðarráðuneytisins á umsögn um liðlega tvo mánuði og skírskotað er til af hálfu kæranda þykir ekki geta haggað því eins og mál þetta er vaxið, þótt það hafi  seinkað hinni kærðu ákvörðun um tæpa tvo mánuði umfram þann frest sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Ber í þessu sambandi að taka fram að álitsumleitan stofnunarinnar er lögbundin, sbr. ákvæði 2. mgr. 6. gr. laganna þar um. Þá er samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 unnt að kæra drátt á á málsmeðferð sérstaklega, en ekki verður ráðið að kærandi hafi talið þörf á að nýta þann möguleika vegna hagsmuna sinna á meðan málið var til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Vegna vísunar kæranda til þess að ákvörðunin stríði gegn afstöðu eða umsögnum fagaðila þá verður að mati ráðuneytisins að taka fram að slíkar umsagnir eru ekki að lögum bindandi þótt Skipulagsstofnun geti verið skylt að afla þeirra og þær kunni eftir atvikum að hafa áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 í þessu sambandi. Þannig er það á valdsviði Skipulagsstofnunar en ekki umsagnaraðila að taka að lögum ákvörðun um hvort tiltekin framkvæmd skuli látin sæta mati á umhverfisáhrifum, sbr. einkum 2. mgr. 4. gr. sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Er því að mati ráðuneytisins ekki unnt að fallast á sjónarmið kæranda þessu viðvíkjandi.

 

2. Um rask og áhrif á framkvæmdasvæði, gróðurfar, árfarveg, landslag og útivist.

Kærandi telur sem fyrr segir áhrif fyrirhugaðra framkvæmda um margt geta orðið jákvæð á framkvæmdasvæðinu og til þess fallin að auka gildi þess á þann hátt. Að mati ráðuneytisins þykir fram komið, sbr. einkum sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar, að Brúará sé ein af stærri lindám landsins og að áin og farvegur hennar frá upptökum til ármóta við Hvítá sé að mestu óspilltur og óraskaður og foss á svæðinu mun að öllum líkindum hverfa ef af framkvæmdum verði. Líkt og fyrr hefur verið vikið að njóta fossar sérstakrar verndar 37. gr. náttúruverndarlaga. Hugtakið foss er hins vegar ekki skilgreint í gildandi lögum, en í orðabók er vísað til straumvatns er falli af stalli og má að mati ráðuneytisins að miða við þá almennu merkingu orðsins. Með tilliti til þess þykir því ekki fram komið að vísan Skipulagsstofnunar í hinni kærðu ákvörðun til 37. gr. náttúruverndarlaga teljist í þessu sambandi óréttmæt. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar er og tekið fram að áin og 200 metra spilda beggja vegna hennar séu á náttúruminjaskrá sbr. í því sambandi d. - lið iv. - liðar 2. tl. 3. viðauka laganna. Brúará telst og einnig innan grannsvæðis vatnsverndar. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar og hinni kærðu ákvörðun er tekið fram að farvegur árinnar sé sérkennilegur og geti þornað upp á um 700 metra kafla verði virkjunin að veruleika. Með vísan til framangreindra atriða og forsendna hinnar kærður ákvörðunar Skipulagsstofnunar að öðru leyti, má að mati ráðuneytisins taka undir sjónarmið Skipulagsstofnunar um að fyrirhugaðar framkvæmdir kunni að rýra vernd eða verndargildi svæðisins og geti haft verulega neikvæð og þannig varanleg á sérstöðu þess, sérkenni og verndargildi, sbr. í þessu sambandi 37. gr. náttúrverndarlaga, sbr. og einkum iv. - lið 2. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

Af hálfu ráðuneytisins þykir og fram komið að framkvæmdin geti haft í för með verulega neikvæð áhrif á árfarveg þar sem  hann kann nánast að þorna upp á um 700 metra kafla líkt og frá er greint í sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar og hinni kærðu ákvörðun. Þá má að mati ráðuneytisins taka undir þau sjónarmið Skipulagsstofnunar að umhverfisáhrif vegna stíflu, stöðvarhúss og frárennslisskurðar, auk ummerkja vegna vegagerðar, geti orðið varanleg á svæði sem telja verður að miklu leyti óraskað, líkt og fram kemur í sérfræðiskýrslu og umsögn Náttúrufræðistofnunar. Að mati ráðuneytisins fær ekki haggað framangreindu sú staðhæfing kæranda að vatn verði ævinlega í upprunalegum farvegi. Að öllum framangreindum þáttum virtum getur framkvæmdin að mati ráðuneytisins haft í för með sér óafturkræf umhverfisáhrif á landslag svo og sjónræn áhrif, sbr. einkum fyrri málslið o. - liðar 3. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sbr. og a., d., og e. - lið iv.  - liðar 2. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Að mati  ráðuneytisins má og samkvæmt framanlýstu taka undir sjónarmið Skipulagsstofnunar um að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á gróður á svæðinu, þar sem fjölbreyttur kjarrgróður vex og gróska telst mikil samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum, geti orðið neikvæð, einkum vegna lagningar þrýstipípa, vegagerðar og frárennslisskurðar, sbr. einkum f. - lið iii. - liðar 2. tl. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

3. Um áhrif á jarðveg og lífríki.

Að mati ráðuneytisins þykir ekki fram komið að slík hætta sé á leka úr lónum niður í hraun á framkvæmdasvæðinu að það atriði geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og er því fallist á  áðurgreind sjónarmið kæranda hvað þetta varðar.

 

Kærandi véfengir sem fyrr greinir gildi þeirra forsendna er lúta að áhrifum á straumönd. Samkvæmt fyrrnefndri sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands svo og umsögn Náttúrufræðistofnunar er straumönd á válista af þeim fuglum er fundust á rannsóknarsvæðinu, Ísland telst eina varpland hennar innan Evrópu og samkvæmt ákvæðum alþjóðasamnings - Bernarsamningsins - hefur Ísland undirgengist og þar með skuldbundist til að vernda búsvæði straumanda sérstaklega. Í umsögn Umhverfisstofnunar er og tekin fram sú afstaða stofnunarinnar að rétt sé að framkvæmdin verði látin sæta mati á umhverfisáhrifum með vísan til lífsskilyrða straumandarinnar og umræddrar sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar. Að mati ráðuneytisins má því taka undir þau sjónarmið í sérfræðiskýrslu og umsögn Náttúrufræðistofnunar að stíflan í Brúará kunni að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á straumendur, svo sem vegna þess hvernig frágangur stíflunnar verði og hvort straumendur komist auðveldlega með ófleyga unga sína niður ánna, en einnig með tilliti til fjölda straumanda ofan fyrirhugaðrar stíflu. Í skýrslunni er svo rakið að með tilliti til þess að samkvæmt talningu hafi 9 fuglar sést á um 1 km leið þá sé hugsanlegt að tugir para verpi ofar með ánni svo og við Hrúta og því kunni svæðið að hafa alþjóðlega þýðingu fyrir straumandarstofninn. Má því og fallast á þau sjónarmið Náttúrufræðistofnunar um að kanna þurfi mun betur fjölda og dreifingu straumanda ofan fyrirhugaðra mannvirkja og gera gleggri grein fyrir lokunarbúnaði og öðru er máli kann að skipta varðandi leið straumanda niður ánna og fram hjá virkjunarmannvirkjum. Með hliðsjón af framangreindu verður þannig að mati ráðuneytisins taka undir umrædd sjónarmið Skipulagsstofnunar í hinni kærðu ákvörðun varðandi straumendur og telja að áhrif fyrirhugaðar framkvæmdar á lífsskilyrði og búsvæði straumanda geti orðið umtalsverð, sbr. einkum e. - lið iii.- liðar 2. tl. sbr. g. - lið iv. - liðar 2. tl. sbr. 3. tl. 3. viðauka sbr. og o. - lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Þykir tillaga kæranda sjálfs um frestun framkvæmda í eitt ár til vöktunar eða frekari rannsókna vegna straumanda og geta stutt þessa afstöðu. Þá þykir að mati ráðuneytisins ekki fram komið á hvern hátt skírskotun í hinni kærðu ákvörðun til Bernarsáttmálans í þessu sambandi stríðir gegn meðalhófssjónarmiðum, enda  getur meðalhófsreglunni að mati ráðuneytisins ekki verið ætlað að veikja stjórnvöld í sérhverju lögákveðnu hlutverki sínu við að rækja þær skyldur sem þar er gert ráð fyrir að þau skuli gegna. Ber í þessu sambandi að benda á að við mat á því hvort tiltekin framkvæmd eigi að sæta mati á umhverfisáhrifum, skal fara eftir þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. fyrirmæli 6. gr. laganna þar um. Ákvæði umrædds sáttmála hljóta og að mati ráðuneytisins vissulega að vera sérstaklega sett og samþykkt til þess að styðjast við í tilvikum sem þessum, sbr. og e. - lið iii. - liðar 2. tl. 3. viðauka laganna.

 

Af hálfu ráðuneytisins þykir ekki unnt að fallast á með kæranda að Náttúrufræðistofnun hafi brugðist hlutverki sínu sem hlutlaus álitsgjafi með því að vekja athygli á mögulegum parafjölda og varptíðni straumanda á svæðinu í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga byggða á talningu. Að mati ráðuneytisins þykir umrædd ályktun eða athugasemd hvorki ganga gegn hlutverki stofnunarinnar né vera ómálefnaleg að öðru leyti, enda stofnuninni beinlínis markað það hlutverk með lögum að rannsaka og upplýsa um umhverfisþætti sem þessa, sbr. einkum  3. gr. og 4. gr. sbr. 5. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands nr. 60/1992.

 

4. Niðurstaða.

Samkvæmt öllu framanröktu telur ráðuneytið að fyrirhuguð framkvæmd geti haft verulega neikvæð og varanleg umhverfisáhrif á sérstöðu framkvæmdasvæðisins, sérkenni þess og verndargildi, til að mynda vegna náttúrufyrirbæra er njóta verndar 37. náttúruverndarlaga, svo og sérkenna á umræddu svæði. Árfarvegur kann að þorna upp á um 700 metra kafla í Brúará sem er talin hafa mikið gildi vegna vatnasviðs síns og er ein af stærri lindám landsins. Sjónræn áhrif vegna stíflu, vegagerðar og frárennslisgerðar geta orðið varanleg á svæði sem telja verður að miklu leyti óraskað. Þá geta áhrif á fjölskrúðugt gróðurfar þar sem gróska er mikil og kjarrgóður áberandi, orðið varanleg. Loks geta að mati ráðuneytisins áhrif á lífsskilyrði straumandar sem nýtur sérstakrar verndar að gildandi rétti, orðið verulega neikvæð og varanleg vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar.

 

Með vísan til alls þess sem að framan hefur verið rakið, svo og með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar að öðru leyti, er hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. ferbrúar s.l. staðfest og skal fyrirhuguð framkvæmd vegna virkjunar við Brúará sæta mati á umhverfisáhrifum eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

       Úrskurðarorð:

 

                  Staðfest er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. febrúar 2008.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta