Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2014

 Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Úrskurður er kveðinn upp mánudaginn 14. júlí 2014 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 4/2014: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna sona kæranda,  B og C. Á fundi kærunefndarinnar 25. júní síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kærð er ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. bréf 26. mars 2014, um styrk til að greiða fyrir lögmannskostnað vegna aðstoðar D hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.

Kveðinn var upp svohljóðandi

        Ú R S K U R Ð U R

 

I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A, vegna tveggja sona hennar, B, og C.

Drengirnir hafa lotið forsjár foreldra sinna, A og E, en drengjunum hefur nú verið ráðstafað í fóstur og forsjársviptingarmál verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur kæranda og barnsföður hennar eins og fram kemur í gögnum málsins. Áhyggjur voru af uppeldisaðstæðum drengjanna í umsjá foreldra og voru afskipti af högum eldri drengsins, C, frá því að hann var fimm mánaða gamall. Upphaflega voru afskipti vegna þessa hjá Félagsþjónustu F og síðar hjá Félagsþjónustu G. Málefni yngri drengsins, B, var til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur frá því í júlí 2012 þegar foreldrarnir fluttu til Reykjavíkur og er þar enn til meðferðar svo og hjá barnaverndarnefndinni ásamt máli eldra drengsins.

 Kæra D hdl., fyrir hönd A, var móttekin hjá kærunefnd barnaverndarmála 15. apríl 2014. Þar er kærð ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 26. mars 2014 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eftirfarandi kemur fram í hinni kærðu ákvörðun:

Barnavernd Reykjavíkur hefur borist vinnuskýrsla lögmannsstofunnar, dags. 25. febrúar 2014. Samkvæmt tímaskýrslu er um að ræða vinnuframlag lögmanns f.h. umbjóðanda lögmannsstofunnar, A, frá 18. október til 17. desember 2013. Samkvæmt tímaskýrslu lögmanns er vinnuframlag lögmanns 35 klst. Mál sona A var fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 29. október 2013 og aftur þann 12. nóvember 2013.

Að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmannsstofunnar, umfangi málsins og gögnum þess, hefur verið ákveðið að veita A styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 16 klst. á tímagjaldi kr. 10.000,- ásamt virðisaukaskatti sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Vegna fundarins þann 29. október 2013 er veittur styrkur vegna undirbúnings 8 klst. og 2 klst. vegna mætingar og eftirvinnslu. Vegna fundarins þann 12. nóvember 2013 er veittur styrkur vegna undirbúnings 3 klst. og vegna mætingar og eftirvinnslu, þ.m.t. vegna umgengni 3 klst.

Samþykkt var hjá Barnavernd Reykjavíkur að veita styrk sem nemur 10 klukkustundum í stað 17,25 klukkustunda samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins vegna undirbúnings og mætingar á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. október 2013, á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts. Var það mat meðal annars byggt á jafnræðissjónarmiðum og á því að lögmannsstofan H, sem fer með mál kæranda, hafi haft málið til meðferðar áður og ætti að þekkja það vel.

Þá var samþykkt hjá Barnavernd Reykjavíkur að veita styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 6 klukkustundum í stað 17,75 klukkustunda vegna undirbúnings, mætingar og eftirvinnslu á fund barnaverndarnefndar 12. nóvember 2013, á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts. Það mat byggðist á jafnræðissjónarmiðum og á því að lögmannsstofan H, sem fer með mál kæranda, hefur haft málið til meðferðar áður og ætti að þekkja það vel. Enn fremur var litið til þess að ekki var um að ræða nýja tillögu í málinu heldur var ákvörðun á fundi 29. október 2013 frestað til að unnt væri að afla þeirra gagna sem lögmenn foreldra vísuðu til á fundinum um eldri afskipti af málinu, en lögmenn beggja foreldra hafi komið að málinu áður en það var flutt til Reykjavíkur.

Samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins 25. febrúar 2014 fóru samtals 35 klukkustundir í vinnu við mál kæranda á umræddu tímabili.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Barnavernd Reykjavíkur verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns hennar við ákvörðun lögmannskostnaðar.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að samþykktur styrkur í bréfi 26. mars 2014 verði staðfestur af hálfu kærunefndarinnar.

 

II. Sjónarmið kæranda

Af hálfu lögmanns kæranda er bent á að krafist sé þóknunar vegna tímans frá upphafi október 2013 og þar til forsjársviptingarmál var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en þá hafi starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur haft samband við lögmanninn til þess að kærandi hefði lögmann sér við hlið. Fram kemur að mál þetta hafi verið mikið vexti og afskipti Barnaverndar Reykjavíkur af sonum kæranda hafi verið töluverð eins og rakið er í kæru. Málið hafi farið tvisvar sinnum fyrir barnaverndarnefnd en aðeins tveimur dögum fyrir fyrsta nefndarfundinn hafi lögmenn fengið afhent gögn málsins sem hafi verið samtals um 90 talsins og mörg þeirra upp á margar blaðsíður. Lögmaðurinn hafi lesið í gegnum öll gögn málsins með hliðsjón af greinargerð starfsmanns Barnaverndar en töluvert hafi verið byggt á gögnum allt frá fæðingu eldri drengsins í september 2009. Hafi lestur gagnanna tekið margar klukkustundir enda hafi lögmaðurinn ekki séð stærstan hluta þeirra áður. Þá hafi hún skilað greinargerð til nefndarinnar þar sem útlistaðar hafi verið kröfur og málsástæður kæranda enda hafi málið verið það mikið að vexti og snúist um svo mikilvæga hagsmuni að nauðsynlegt hafi verið að leggja fram skriflegar upplýsingar til nefndarinnar. Einnig hafi málið verið flutt fyrir nefndinni og sé ávallt nauðsynlegt að undirbúa sig vel fyrir slíkan málflutning. Málið hafi hins vegar farið þannig að nefndin hafi úrskurðað að drengirnir skyldu vistast áfram utan heimilis í tvo mánuði og að farið yrði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í þeim tilgangi að svipta kæranda og barnsföður hennar forsjá barna sinna.

Fram kemur hjá lögmanni kæranda að með kærunni fylgi tímalína málsins sem hafi verið lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í forsjársviptingarmálinu en af henni megi sjá hversu umfangsmikið málið hafi verið. Þá hafi hún lagt fram tímaskýrslu sem send hafi verið til Barnaverndar Reykjavíkur til stuðnings kröfu um styrk fyrir lögmannskostnaði og greinargerð. Hún hafi enn fremur lagt fram tölvupósta sína til starfsmanna Barnaverndar þar sem hún hafi meðal annars verið beðin um að afla samþykkis kæranda fyrir áframhaldandi vistun og beðin um skilaboð til hennar frá Barnavernd. Barnavernd hafi því gert ráð fyrir því og ætlast til þess að lögmaðurinn sinnti ákveðnum verkefnum í tengslum við málið en vilji þó ekki greiða fyrir þá vinnu.

Fram kemur hjá lögmanni kæranda að uppgefnir tímar hafi sannanlega verið unnir í þágu kæranda og það sé ljóst að kærandi geti ekki greitt fyrir þá vinnu sjálf. Finnist lögmanni kæranda lítið gert úr þeirri vinnu sem unnin hafi verið og ekki hafi verið hægt að vinna á styttri tíma. Þá virðist Barnaverndin telja tímafjölda tilbúning einan og setji fram í hinni kærðu ákvörðun hvað eðlilegt væri að færi mikill tími í undirbúning og vinnslu málsins. Þetta viðmið sé algjörlega út í hött miðað við umfang málsins, fjölda gagna og tímalínu málsins og sé algjörlega hafnað.

Lögmaðurinn bendir á það að vinnubrögð Barnaverndar varðandi ákvarðanir þóknana séu í engum takti við það sem geti talist eðlilegt og sé ekki til þess fallið að halda reynslumeiri og vandaðri lögmönnum í þessum málaflokki ef ekki sé greitt fyrir vinnuframlag þeirra.

 

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 8. maí 2014 kemur fram afstaða barnaverndarnefndarinnar til krafna kæranda fyrir kærunefndinni um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Bent er á að í tímaskýrslu lögmanns kæranda komi fram að um sé að ræða tímabilið frá 18. október til 17. desember 2013, samtals 35 klukkustundir. Mál sona kæranda hafi verið lögð fyrir fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. október og 12. nóvember 2013. Að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmanns kæranda, umfangi málsins og gögnum hafi verið ákveðið, í samræmi við reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga, að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemi samtals 16 klukkustundum á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Barnaverndarnefndin telur hæfilegan styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar fyrir undirbúning fundar 29. október 2013 vera átta klukkustundir og mæting á þann fund tvær klukkustundir. Ekki hafi verið fallist á styrkveitingu vegna vinnu fyrir gerð umboðs, í 0,25 klukkustundir. Fram kemur að fyrirtaka málsins á fundinum 29. október hafi staðið í u.þ.b. hálftíma og hafi lögmaður kæranda setið helming tímans á fundinum en lögmaður föður hafi þá mætt. Þá fellst Barnaverndin á það að málið sé umfangsmikið en telur að líta verði til þess að það hafi verið flutt frá annarri barnaverndarnefnd í ágúst 2012 og beri gögnin með sér að sami lögmaður hafi komið fram sem lögmaður kæranda í því máli og ætti því að vera forsaga málsins vel kunn.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur telur hæfilegan styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar fyrir undirbúning fundar 12. nóvember 2013 þrjár klukkustundir og mæting og eftirvinnsla aðrar þrjár klukkustundir. Fram kemur að fyrirtaka málsins á framangreindum fundi hafi staðið í rúman hálftíma. Hafi lögmenn beggja foreldra setið allan fundinn. Barnaverndin greinir frá því að á þann fund hafi mætt fulltrúi lögmannsins, J lögfræðingur, og lagt fram greinargerð. Þar hafi verið byggt á því sem fram hafi komið í máli lögmanns kæranda á fundi 29. október 2013 en ekki sé um að ræða breytingar á afstöðu kæranda frá þeim fundi. Barnaverndin kveðst ekki draga í efa að það hafi tekið fulltrúann talsverðan tíma að setja sig inn í málið og rita greinargerð enda umfangsmikið. Að mati Barnaverndarinnar felist ekki í því að lögmaður sendi fulltrúa sinn í sinn stað skylda til þess að veita fjárstyrk til umfangsmeiri undirbúnings fyrir fundinn en almennt gerist, þ.e. þegar fulltrúi þarf að kynna sér mál vegna forfalla lögmanns.

Af hálfu barnaverndarnefndarinnar er bent á að í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé um að ræða skyldu til styrkveitingar en hvergi í lögum sé kveðið á um að barnaverndarnefndum sé skylt að greiða reikninga lögmanna án athugasemda enda um styrki að ræða. Þvert á móti sé gert ráð fyrir því í frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum að barnaverndarnefnd setji reglur þar sem meðal annars skuli taka tillit til efnahags foreldra og eðlis og umfangs málsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi samþykkt slíkar reglur 28. maí 2008. Í 1. gr. reglnanna komi fram að veita skuli fjárstyrk vegna málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur áður en nefndin kveði upp úrskurð. Veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Þá komi fram í 5. gr. reglnanna að lögfræðingar barnaverndarnefndar Reykjavíkur afgreiði umsóknir um fjárstyrk og skuli fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins hverju sinni og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Hafa beri í huga að barnaverndarnefnd Reykjavíkur skuli gæta jafnræðis við ákvarðanatöku varðandi styrkveitingar sem og annað og sé því ekki unnt að halda því fram að barnaverndarnefnd Reykjavíkur beri að greiða án athugasemda þá reikninga sem berist frá lögmannsstofum.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur mótmælir þeim orðum lögmanns kæranda að vinnubrögð Barnaverndarinnar varðandi greiðslu lögmannsaðstoðar séu í engum takti við það sem eðlilegt geti talist og séu ekki til þess fallin að halda reynslumeiri og vandaðri lögmönnum í málaflokknum. Bent er á að í langflestum tilvikum sé veittur styrkur í samræmi við tímaskýrslu lögmanns. Lögmenn sem sinni barnaverndarmálum séu nær undantekningarlaust vandaðir og flestir þeirra hafi reynslu í málaflokknum þó fyrir komi að reynsluminni lögmenn komi að málum. Sú tímaskýrsla sem sett hafi verið fram í þessu máli sé ekki í samræmi við það sem almennt gerist í sambærilegum málum og þar af leiðandi hefði ekki verið gætt jafnræðis við ákvörðun styrkveitingar ef fallist hefði verið á styrk sem nemi 35 klukkustundum vegna málsins.

 

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt bréfi frá 26. mars 2014 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar verði felld úr gildi og barnaverndarnefnd verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns kæranda við ákvörðun lögmannskostnaðar. Með ákvörðuninni taldi Barnavernd Reykjavíkur að greiða skyldi færri tíma en kærandi telur að lögmaður hennar hafi unnið fyrir hana í málinu. Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar 27. maí 2008. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skulu foreldrar velja sér sjálfir lögmann. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmannsins. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Viðmiðunargjald skuli ákveðið af framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur í samráði við lögfræðinga nefndarinnar. Samkvæmt 1. gr. reglnanna er fjárstyrkur veittur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Samkvæmt 6. gr. reglnanna er ákvörðun um fjárhæð styrks kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 6. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. sömu laga getur kærunefnd barnaverndar­mála staðfest niðurstöðu kærðrar ákvörðunar eða hrundið henni að nokkru eða öllu leyti.

Af hálfu kæranda hefur verið lögð fram tímaskýrsla lögmanns hennar frá 25. febrúar 2014 vegna lögmannsaðstoðar við kæranda á fundum barnaverndarnefndar 29. október 2013 og 12. nóvember s.á. Fundir þessir voru haldnir í tilefni af tillögum Barnaverndar um að synir kæranda færu í varanlegt fóstur. Leitað var eftir samþykki foreldranna fyrir því en þegar það fékkst ekki kvað barnaverndarnefndin upp þann úrskurð á fundinum 12. nóvember að drengirnir skyldu vistaðir á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði frá þeim degi að telja samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Eins og fram kemur í bókun á sama fundi taldi barnaverndarnefndin jafnframt að mikilvægt væri með hagsmuni drengjanna að leiðarljósi og með tilliti til ungs aldurs þeirra að finna þeim framtíðarheimili og umönnunaraðila þar sem öryggi þeirra og þroskavænlegar uppeldisaðstæður væru tryggðar. Fól nefndin borgar­lögmanni að gera þá kröfu fyrir dómi að foreldrarnir yrðu sviptir forsjá beggja drengjanna.

Samkvæmt ofangreindum reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Samkvæmt reglunum ber að framvísa tímaskýrslu lögmanns með beiðni um fjárstyrk en telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar, eins og önnur gögn málsins, við mat á því sem skiptir máli og verður lagt til grundvallar við ákvörðun á styrkfjárhæðinni.

Eins og málið er lagt fyrir kærunefndina verður að líta þannig á að tekið hafi verið tillit til efnahags kæranda þegar fjárhæð styrksins var ákveðin enda hefur ekkert komið fram sem bendir til annars. Þá verður að líta til þess að af gögnum málsins má ráða að málið er töluvert umfangsmikið. Verður að telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi umfang þess verið að nokkru vanmetið þegar ákveðið var að aðeins skyldi greitt fyrir 16 klukkustunda vinnu. Þegar virt eru þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við ákvörðun styrkfjárhæðar og eru hér að framan rakin verður vinnuframlag lögmanns að teljast réttilega metið 25 klukkustundir. Að þessu leyti var hin kærða ákvörðun ekki í samræmi við 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga og 5. gr. ofangreindra reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt lagagreininni.

Með vísan til þessa ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að því er varðar tímafjöldann sem ákveðið var að leggja til grundvallar við ákvörðun styrkfjárhæðar. Í stað þess að miða við 16 klukkustundir þegar styrkfjárhæð er ákveðin ber að miða við 25 klukkustundir.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að greiða kæranda styrk vegna lögmannsaðstoðar er felld úr gildi að því er varðar þann þátt hennar að miða aðeins við 16 klukkustunda vinnu. Ber að miða við 25 stundir við ákvörðun styrkfjárhæðarinnar. 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira