Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 154/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 154/2016

Miðvikudaginn 5. október 2016

A

gegn

Barnavernd Reykjavíkur


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi 21. apríl 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Barnaverndar Reykjavíkur um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannskostnaðar í tengslum við umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur um félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 144/2009 um tæknifrjóvgun.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi árið X verið í ferli vegna tæknifrjóvgunar hjá Art Medica. Með bréfi X óskaði Art Medica eftir því að barnaverndarnefnd Reykjavíkur gerði forathugun á foreldrahæfi kæranda. Með erindi Art Medica barst skýrsla C, félagsráðgjafa Art Medica, þar sem greint var frá aðstæðum kæranda. Málið var lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur og lá þá fyrir greinargerð starfsmanna, dags. X, þar sem lagt var til að barnaverndarnefnd myndi ekki mæla með því að kærandi fengi meðferð hjá Art Medica. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi barnavendarnefndar Xen var frestað að beiðni kæranda. Málið var tekið að nýju fyrir á fundi nefndarinnar X. Mætti þá lögmaður kæranda á fund nefndarinnar og lagði fram greinargerð í málinu. Niðurstaða barnaverndarnefndar var sú að mælt var með því að kærandi fengi að undirgangast meðferð vegna ófrjósemi hjá Art Medica. Í kjölfarið sendi lögmaður kæranda Barnavernd Reykjavíkur reikning ásamt vinnuskýrslu vegna vinnu fyrir kæranda í málinu á tímabilinu X til X. Með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 9. febrúar 2015 var lögmanni kæranda tilkynnt að ekki væri heimilt að veita fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar í umsagnarmálum sem væru til umfjöllunar hjá barnaverndarnefndum. Um hafi verið að ræða umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur um félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 144/2009 um tæknifrjóvgun og því væri ekki grundvöllur fyrir styrkveitingu samkvæmt 47. gr. bvl. Með bréfi 13. október 2015 ítrekaði lögmaður kæranda erindi um greiðslu lögmannskostnaðar með rökstuðningi. Barnavernd Reykjavíkur svaraði erindinu 18. nóvember 2015 þar sem vísað var til bréfs 9. febrúar 2015 um að erindið hefði þegar verið afgreitt.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur og samþykki kröfu hennar um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna máls hennar. 

Fram kemur í kæru að þegar mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur lá fyrir X hafi verið ljóst að kærandi yrði að fá sér aðstoð við að gæta réttar síns fyrir barnaverndarnefnd. Greinargerð starfsmanna barnaverndar hafi verið kæranda afgerandi í óhag og hagsmunir hennar af því að fá leyfi til þess að halda áfram tæknifrjóvgun verið mjög miklir. Að mati kæranda hefði hún ekki getað gætt hagsmuna sinna nema með því að ráða lögmann sem hún hafi verið þvinguð til að gera vegna málsmeðferðarinnar.

Kærandi vísar til þess að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hófu könnun máls í skilningi 21. og 22. gr. bvl., enda hafi allar aðgerðir starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur verið í samræmi við ákvæði laganna svo sem að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður og hagi foreldris, aðbúnað barna á heimilinu og að kalla eftir upplýsingum frá heilsugæslu og að leita aðstoðar sérfræðings sem í þessu tilfelli var sálfræðingur sem gerði foreldrahæfismat á kæranda.

Málsmeðferðin hafi tekið átta mánuði og á tímabilinu frá X fram til þess að mál kæranda var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndarinnar í X hafði verið unnin gríðarlega mikil vinna við athugun á aðstæðum kæranda, bæði af hálfu starfsmanna sem og sérfræðings sem skilaði greinargerð sinni. Það sé því afar sérstakt að litið sé til þess að kærandi hafi ekki verið aðili máls í skilningi bvl., en í almennum skilgreiningum stjórnsýsluréttarins á því hver teljist aðili máls þá sé það sá sem ákvörðun beinist að eða sá sem hafi lögmæta hagsmuni að gæta varðandi stjórnvaldsákvörðun. Almennt sé miðað við að maður verði talinn aðili máls þegar hann eigi persónulegra hagsmuna að gæta sem séu verulegir og litið hafi verið svo á að ef maður á einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta, sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls, sé viðkomandi talinn eiga aðild að málinu. Ekki verði um það deilt að hagsmunir kæranda voru einstaklega persónulegs eðlis þar sem vegið hafi verið að sjálfsákvörðunarrétti hennar til þess að fá að gangast undir tæknifrjóvgun og miðaðist tillaga starfsmanna barnaverndarnefndarinnar að því að mæla gegn því að kærandi fengi að nýta sér þjónustu Art Medica sem hafi verið ígildi þvingunaraðgerða þar sem tillögurnar miðuðu að því að meina kæranda að eignast fleiri börn. Kærandi hafi því verið aðili málsins, enda vandséð hvernig unnt sé að líta á að ekki hafi verið um afskipti á grundvelli bvl. miðað við málsmeðferðina alla og þeirra persónulegra hagsmuna sem hafi verið í húfi hjá kæranda. Þótt öðrum ákvæðum bvl. hafi ekki verið beitt í málinu þá sé það engum vafa undirorpið að málsmeðferðarreglur laganna gilda um rétt kæranda til þess að andmæla og til þess varð hún að leita sér aðstoðar lögmanns í ljósi þess að tillaga starfsmanna barnaverndar miðaði að því að hún fengi ekki að láta reyna á það að eignast fleiri börn.

Að mati kæranda var umfang málsins í meðförum barnaverndar langt umfram það sem ætlast sé til í 5. gr. reglugerðar nr. 144/2009. Engin skilgreining sé á því hvað felist í orðalaginu „forathugun á foreldrahæfni“  en í handbók Barnaverndarstofu sé fjallað um hver sé tilgangur og markmið reglugerðarinnar. Þar segi að við gerð umsagnar barnaverndar sé rétt að skoða hvort barnaverndarnefndin hafi í fórum sínum einhverjar upplýsingar sem gætu haft áhrif á hæfni og getu viðkomandi til þess að annast barn og sé svo, hvers eðli þær séu. Þá þurfi einnig að skoða hvort einhver barnaverndarafskipti hafi verið af börnum viðkomandi og ef svo er, hver ástæða afskipta hafi verið. Það hafi legið fyrir að barnavernd hafði aldrei afskipti af kæranda og hafði ekki í fórum sínum neinar upplýsingar sem gætu haft áhrif á hæfni hennar til þess að annast börn. Þá segi í handbókinni að í umsögn barnaverndar þurfi ekki að gera grein fyrir félagssögu og öðrum þeim þáttum sem fram eiga að koma í umsögnum vegna ættleiðinga þar sem þær upplýsingar eigi að liggja fyrir hjá beiðanda áður en óskað sé eftir umsögn frá Barnavernd Reykjavíkur. Á meðan á málsmeðferð stóð hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá starfsmönnum barnaverndar að svona beiðni hefði aldrei áður komið frá Art Medica og var henni tjáð að óvissa væri með hvernig ætti að vinna slíka beiðni og líklega yrði niðurstaðan neikvæð fyrir hana fyrst beiðni um umsögn hafi verið lögð fram. Kærandi telur að málsmeðferðin hjá barnavernd hafi gengið langt úr hófi fram miðað við það sem ætlast mátti til og þær leiðbeiningar sem koma fram í handbók Barnaverndarstofu.

III.  Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur er vísað til 1. mgr. 47. gr. bvl. þar sem fram kemur að aðilar barnaverndarmáls skulu eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Þá segi í 2. mgr. 47. gr. sömu laga að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni, sem er aðili máls, fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Samkvæmt orðanna hljóðan sé þessi styrkur afmarkaður við þá sem séu aðilar að barnaverndarmáli samkvæmt bvl. Ákvarðanir barnaverndarnefndar Reykjavíkur um lögmannskostnað á grundvelli 47. gr. bvl. séu kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í máli kæranda hafi ekki verið um að ræða ákvarðanatöku á grundvelli bvl. heldur hafi verið um að ræða umsagnarmál sem barst barnaverndarnefnd Reykjavíkur á grundvelli laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun. Hvergi í lögum sé kveðið á um skyldu barnaverndarnefnda til að greiða fyrir lögmannsaðstoð í málum sem séu umsagnarmál og séu engin fordæmi fyrir því að það hafi verið gert. Því verði að telja að ákvarðanir sem teknar séu í málum, sem ekki eru barnaverndarmál, séu ekki kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 6. gr. bvl. komi skýrt fram að heimilt sé að skjóta til nefndarinnar úrskurðum og stjórnvaldsákvörðunum eftir því sem nánar er kveðið á um í bvl. Í 51. gr. bvl. sé kveðið á um að aðilar barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála enda eigi málið ekki undir nefndina lögum samkvæmt.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur vegna aðstoðar lögmanns á grundvelli 47. gr. bvl. vegna málsmeðferðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Barnavernd Reykjavíkur hafnaði því að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar á grundvelli þess að ekki væri um barnaverndarmál að ræða.

Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. bvl. er hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til nefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum eftir því sem nánar er kveðið á um í bvl.

Í máli þessu liggur fyrir að leitað var umsagnar barnaverndarnefndar Reykjavíkur þar sem vafi var talinn leika á því að félagslegar aðstæður kæranda væru nægilega góðar til uppeldis, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 144/2009 um tæknifrjóvgun. Umrædd reglugerð var sett með stoð í 15. gr. laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun, með síðari breytingum. Óskað var eftir framangreindri umsögn vegna beiðni kæranda um að gangast undir tæknifrjóvgun.

Samkvæmt 47. gr. bvl. er það skilyrði þess að veittur sé styrkur vegna lögmannskostnaðar að um barnaverndarmál sé að ræða sem verið hefur til meðferðar samkvæmt bvl. Samkvæmt gögnum málsins stóð ekki til að barnaverndarnefnd úrskurðaði á grundvelli bvl. í máli kæranda heldur veitti barnaverndarnefndin umsögn á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 144/2009 um tæknifrjóvgun.

Með hliðsjón af framangreindu fellur það ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar velferðarmála að úrskurða í máli kæranda. Kæru er því  vísa frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Guðrún A. Þorsteinsdóttir formaður

 


 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira