Hoppa yfir valmynd

7/2010

Mál nr. 7/2010.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.


Ár 2011, mánudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Fyrir var tekið mál nr. 7/2010 Vilhjálmur Jónsson vegna Fles ehf., kt. 570901-2730, Skálanesgötu 15, Vopnafirði gegn sveitarfélaginu Langanesbyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:


I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 4. nóvember 2010, kærði Vilhjálmur Jónsson f.h. Fles ehf. (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun sveitarfélagsins Langanesbyggðar (hér eftir nefnt kærði) um að hafna beiðni kæranda um endurskoðun á gjaldtöku vegna sorphreinsunar og sorpeyðingar. Kæruna sendi kærandi til samgöngu- og sveitarsjórnarráðuneytisins, sem framsendi hana úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 8. nóvember 2010, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi gerir þær kröfur að álagning sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalda á fasteignirnar Eyrarveg 1, Langanesveg 15 og Hafnargötu 3, Langanesbyggð, sem eru í eigu kæranda, verði endurskoðaðar og leiðréttar.


II. Málmeðferð og málsatvik

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 10. nóvember 2010 og byggir hún á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru erindi kæranda til kærða, dags. 25. ágúst 2010, hin kærða ákvörðun, dags. 1. nóvember 2010 og yfirlit yfir fasteignagjöld árin 2009 og 2010 vegna fasteignanna Eyrarvegar 1, Langanesvegar 15 og Hafnargötu 3. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 11. nóvember 2010, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 6. desember 2010, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2010. Eftir beiðni frá úrskurðarnefndinni bárust frá kærða afrit af samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000, álagningarákvæðum fasteignagjalda Langanesbyggðar fyrir árið 2010 og álagningarseðlum fasteignagjalda kæranda. Auk þess lá fyrir nefndinni núgildandi gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar úrgangs í Langanesbyggð.


III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er eigandi þriggja fasteigna í Langanesbyggð, þ.e. Eyrarvegar 1, Langanesvegar 1 og Hafnargötu 3. Kærandi kveðst alltaf hafa staðið í skilum á álögðum gjöldum Langanesbyggðar vegna umræddra fasteigna, þ.á m. sorphreinsunar- og sorpeyðingargjöldum. Kveður kærandi að við þreföldum sorpgjalda milli áranna 2009 og 2010 hafi honum þótt nóg komið og borið fram kvörtun við sveitarstjóra. Á yfirliti yfir fasteignagjöld fyrir árin 2009 og 2010, sem kærandi lagði fram með kæru, kemur m.a. fram að sorphreinsunargjald fyrir Eyrarveg 1 hafi á árinu 2009 verið 1.232 kr. en 1.934 kr. á árinu 2010 og að sorpeyðingargjald fyrir sömu fasteign hafi verið 1.232 kr. á árinu 2009 en 1.934 kr. áh árinu 2010. Enn fremur kemur þar fram að sorphreinsunargjöld fyrir Langanesveg 15 og Hafnargötu 3 hafi á árinu 2009 verið 8.625 kr. fyrir hvora fasteign en 13.541 kr. á árinu 2010 og að sorpeyðingargjald fyrir sömu fasteignir hvora um sig hafi verið 8.625 kr. á árinu 2009 en 40.624 kr. á árinu 2010.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi eignast fasteignina að Langanesvegi 15 á árinu 2003, fasteignina að Eyrarvegi 1 á árinu 2004 og fasteignina að Hafnargötu 3 á árinu 2005. Kærandi kveður að umræddar fasteignir hafi verið nýttar til geymslu útgerðartækja og veiðarfæra milli vertíða með þeirri undantekningu að Míla ehf. leigi 20% hússins við Hafnargötu 3 til hýsingar fjarskiptatækja. Þá heldur kærandi því fram að frá upphafi hafi aldrei átt sér stað sorphirða af neinu tagi við umræddar fasteignir enda hafi engin þörf verið á því. Óumdeilanlegt hljóti að vera að Langanesbyggð hafi aldrei haft nokkurn kostnað vegna sorphiðru við fasteignirnar þrjár. Fer kærandi fram á úrskurð um hvort gjaldtaka Langanesbyggðar fyrir sorphreinsun og sorpeyðingu vegna framangreindra fasteigna teljist í lagi og hvort fyrir henni sé lagastoð.


IV. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða kemur fram að álagning fasteignaskatts, þ.m.t. sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalds, í Langanesbyggð árið 2010 hafi farið fram á grundvelli reglna (gjaldskrár) sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn. Umrædd gjöld séu lögð á án tillits til þess hvort og þá í hve miklum mæli einstaklingar og/eða lögaðilar noti þá þjónustu sem gjöldin eigi að ganga upp í, en þó sé reynt að áætla magn sorps frá fyrirtækjum og þau flokkuð í þrjá flokka með tilliti til þess í gjaldskrá. Þá er því haldið fram í greinargerðinni að eftir að umrædd gjöld hafi verið lögð á sé útilokað fyrir sveitarstjórn að fylgjast með því hvort aðilar sem rétt eigi á þjónustunni nýti sér hana og þá í hve miklum mæli. Ef fallist yrði á kröfu kæranda yrði að finna út hve mikið aðrir gjaldendur hefðu notað umrædda þjónustu til þess að gæta jafnræðis og að slíkt væri óframkvæmdanlegt. Gerir kærði þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað.


V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um álagningu gjalda vegna sorphreinsunar og sorpeyðingar sem tengjast þremur tilgreindum fasteignum í Langanesbyggð. Langanesbyggð hefur sett gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Í gildandi gjaldskrá sem samþykkt var í desember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. desember 2010 segir að gjaldskráin sé sett samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum og samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000.

Í 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um gjald fyrir meðhöndlun úrgangs. Þar segir m.a. í 1. mgr. að rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um sé að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skuli innheimta gjald fyrir förgun úrgangs og að gjaldið skuli nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins. Í 2. mgr. segir síðan að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Er sveitarfélögum veitt heimild til að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafi á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Einnig er sveitarfélögum veitt heimild til að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Í 3. mgr. segir að innheimt gjald skuli aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Þá er sveitarfélögum veitt heimild í 4. mgr. til að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða umrætt gjald og tekið fram að gjaldskrá skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Á grundvelli framangreindrar lagagreinar hefur sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkt gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Í gjaldskrá fyrir árið 2010 segir að sorphreinsunargjald og sorpeyðingargjald heimila sé hvort tveggja 13.541 kr. á íbúð og jafnframt að sorphreinsunargjald fyrirtækja sé 13.541 kr. eða samkvæmt reikningi. Sorpeyðingargjaldi fyrirtækja er hins vegar skipt í þrjá flokka, A, B og C, eftir urðuðu magni og nemur 13.541 kr., 40.623 kr. eða 162.495 kr.

Af kæru má ráða að umtalsverð hækkun sorphirðugjalda milli áranna 2009 og 2010 hafi orðið kveikjan að því að kærandi fór fram á að álögð sorphirðugjöld á þrjár fasteignir í hans eigu yrðu endurskoðuð. Ekkert hefur hins vegar komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að gjaldskráin hafi ekki verið innan þeirra marka sem sett eru í framangreindum lagaákvæðum eða hún hafi á einhvern hátt verið sett andstætt gildandi lagaákvæðum. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi átt rétt á því að kærði undanskildi hann frá gildandi gjaldskrá um sorphirðugjöld á þeim grundvelli að kærandi nýtti sér ekkert eða lítið sem ekkert þá þjónustu sem kærði veitir fasteignaeigendum sveitarfélagsins tengda sorphirðu.

Sorphreinsun og sorpeyðing er meðal þeirra grunnþjónustuverka sem sveitarfélög veita íbúum sínum. Líta verður til þess að skipulag sorphirðu í sveitarfélagi, eins og hjá kærða, sé í föstum skorðum og falli ekki niður þó einstaklingur eða fyrirtæki nýti hana ekki. Telur úrskurðarnefndin sterk rök fyrir því að greitt sé jafnaðargjald fyrir sorphreinsun og sorpeyðingu og að ekki verði lögð sú skylda á sveitarfélagið að rannsaka sorp og krefja fasteignaeigendur um gjald miðað við flokkað og mælt sorp.

Úrskurðarnefndin lítur svo á að kærði hafi samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs lagaheimild til að haga gjaldtöku vegna sorphirðu á þann hátt að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign og jafnframt að lög og reglur standi ekki til þess að reiknaður sé út sá kostnaður sem falli til vegna hvers og eins gjaldanda, sbr. einnig 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Á hinn bóginn skal til þess litið að á álagningarseðli kemur fram að fyrirtæki kæranda að Langanesvegi 1 og Hafnargötu 3 hafi verið flokkuð í A flokk vegna sorpeyðingar árið 2010 en engu að síður eru álögð sorpeyðingargjöld þessara fasteigna sömu fjárhæðar og sorpeyðingargjald í B flokki samkvæmt gjaldskrá. Af þessum sökum telur úrskurðarnefndin að leiðrétta þurfi álögð sorpeyðingargjöld á fasteignir kæranda að Langanesvegi 1 og Hafnargötu 3 þannig að fjárhæð þeirra verði í samræmi við A flokk sem tilgreindur er á álagningarseðli. Skal því álagt sorpeyðingargjald fyrir hvora fasteign á árinu 2010 vera 13.541 kr. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að önnur sorpeyðingargjöld og sorphreinsigjöld sem lögð voru á fasteignir kæranda á árinu 2010 hafi verið í samræmi við gildandi gjaldskrá.


Úrskurðarorð:

Staðfest er álagning sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalda á fasteignina Eyrarveg 1 á árinu 2010. Einnig er staðfest álagning sorphreinsunargjalda á fasteignirnar Langanesveg 1 og Hafnargötu 3 á árinu 2010. Álagning sorpeyðingargjalda á fasteignirnar Langanesveg 1 og Hafnargötu 3 á árinu 2010 er lækkuð í samræmi við A-flokk og skal vera kr. 13.541. kr.





Steinunn Guðbjartsdóttir



Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira