Hoppa yfir valmynd

15/2011

Mál nr. 15/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Ár 2011, mánudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 15/2011 Anna Margrét Kristinsdóttir, Haukanesi 14, Garðabæ, gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Vegna kröfu í málinu um frestun réttarárifa hinnar kærðu ákvörðunar er kveðinn upp svofelldur úrskurður: I. Aðild kærumáls og kröfur Með stjórnsýslukæru, dags. 5. september 2011, kærði Anna Margrét Kristinsdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (hér eftir nefnt kærði) frá 29. ágúst 2011, sem kynnt var með bréfi dags. 30. ágúst 2011, þar sem þess er krafist að hundurinn Golíat nr. 5126 verði aflífaður. Í kærunni er þess óskað að úrskurðarnefndin taki ákvörðun um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. II. Málmeðferð Kæra málsins er dagsett 5. september 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 9. september 2011. Óskaði úrskurðarnefndin í því bréfi hvort tveggja eftir greinargerð kærða í málinu og afstöðu hans til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til beiðni um frestun réttaráhrifa með greinargerð, dags. 16. september 2011. III. Málsatvik Samkvæmt gögnum málsins var kæranda, þann 14. júlí 2010, veitt leyfi til hundahalds í Garðabæ nr. 5126 vegna hundsins Golíat. Var leyfið veitt í kjölfar þess að hundurinn hafði verið fangaður óskráður og fluttur í hundagæslu. Á fundi heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sem haldinn var 29. ágúst 2011, ákvað heilbrigðiseftirlitið að krefjast þess að viðkomandi hundur yrði aflífaður. Var það gert með svohljóðandi bókun: ?Heilbrigðisnefnd telur að hundurinn Golíat nr. 5126 hafi sýnt af sér verulega hættulegt atferli. Ólíðandi sé að hundur sé haldinn sem glefsi til og bíti vegfarendur þegar hann er laus úr gæslu. Með vísun til ákvæða 11. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000 krefst nefndin þess að dýrið verði aflífað.? Frá því kæranda var veitt leyfi fyrir umræddum hundi og fram að því að kærði tók hina kærðu ákvörðun hafði kærða borist eftirfarandi kvartanir vegna hundsins og kærði haft eftirfarandi afskipti af honum, sbr. framlögð gögn. Þann 19. ágúst 2010 var kvartað undan því að viðkomandi hundur og annar hundur í eigu kæranda gengju of mikið lausir í götunni við heimili þeirra og að Golíat hefði náð að glefsa til manns veturinn á undan. Þann 26. maí 2011 var kvartað undan lausagöngu hunda kæranda og því að Golíat hefði náð að glefsa í gangandi vegfarendur. Þann 31. maí 2011 ritaði kærði kæranda bréf og gerði kröfu um að umræddur hundur færi í skapgerðarmat og að kærandi kæmi í kjölfarið til fundar við kærða. Engin viðbrögð höfðu átt sér stað vegna bréf þessa þegar næst var kvartað undan lausagöngu hundsins sem var þann 9. júní 2011. Í þeirri kvörtun kom fram að sá sem kvartaði hefði fjórum sinnum áður komið óformlegum kvörtunum á framfæri. Þann 24. júlí 2011 beit Golíat, sem þá var laus, í kálfa á konu, sem var á göngu. Kærði sendi kæranda bréf, dags. 3. ágúst 2011, þar sem henni var gert kunnugt um að hundahald hennar yrði tekið fyrir á fundi kærða sem fyrirhugaður væri 29. ágúst 2011. Þann 3. ágúst 2011 barst einnig kvörtun um lausagöngu hundsins, svo og þann 9. ágúst 2011. Þá var Golíat fangaður af dýraeftirlitsmanni sem kom honum fyrir í geymslu. Þann 15. ágúst 2011 var jafnframt tilkynnt til kærða að viku fyrr hefði Golíat glefsað í aftanverðan kálfa á manni, sem var á göngu. Sonur kæranda hafði samband við kærða þann 10. ágúst 2011 sökum þess að hann saknaði hundsins og var hann þá upplýstur um stöðu mála. Upplýsti sonur kæranda þá að kærandi væri erlendis en væntanleg til landsins um miðjan ágústmánuð. Þann 16. ágúst 2011 mætti kærandi til fundar hjá kærða vegna Golíats og var þá ákveðið að kæranda mynndi láta fara fram skapgerðarmat á hundinum. Þann 24. ágúst 2011 barst kærða skapgerðarmat Katrínar Harðardóttur dýralæknis vegna umrædds hunds og þann 25. ágúst 2011 barst kærða bréf frá kæranda þar sem hún gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hundahald kæranda var síðan rætt á fundi kærða þann 29. ágúst 2011, eins og að framan greinir. IV. Málstæður og rök kærenda Eins og að framan er nefnt hefur kærandi farið þess á leit að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Ekki er að finna beinan rökstuðning fyrir þeirri kröfu í kæru málsins. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða segir að hafa verði öryggissjónarmið almennra borgara í fyririrúmi. Þar er upplýst að hundurinn sé í vörslu kærðu og að greidd hafi verið trygging að fjárhæð kr. 50.000 vegna kostnaðar við að hafa hann í geymslu. Þá tekur kærði fram að fallist úrskurðarnefndin á kröfu kæranda um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar leggi kærði áherslu á að hundurinn verði áfram í gæslu og að frekari tryggingar verði settar fyrir geymslukostnaði. VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar Í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en í 2. mgr. er lögfest undantekningarheimild fyrir æðra stjórnvald til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál er til meðferðar í þeim tilvikum þegar ástæður mæla með því. Í athugasemdum við frumvarp til gildandi stjórnsýslulaga kemur fram varðandi ákvæði 2. mgr. 29. gr. laganna að nauðsynlegt hafi þótt að lögin geymdu heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál væri til meðferðar þar sem kæruheimild gæti í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefði ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum við frumvarpið segir jafnframt að ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og að við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Enn fremur segir að líta beri til þess hversu langt sé um liðið frá því hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá segir auk þess í athugasemdum við frumvarpið að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hafi að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum tjóni. Þá segir að þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi svo nefna þau tilvik þar sem kæruheimild yrði í raun þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Í 11. gr. samþykktar um hundahald á Álftanesi, í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 segir: ?Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður. Óski hundeigandi þess skal leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkennir áður en ákvörðun um aflífum er tekin.? Þá segir í 14. gr. sömu samþykktar: ?Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds getur heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn.? Fyrir liggur í máli þessu að kærði tók þann 29. ágúst 2011 ákvörðun um að krefjast þess að hundurinn Golíat yrði aflífaður. Var sú ákvörðun tekin á grundvelli heimildar í 11. gr. framangreindar samþykktar um hundahald. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin lá fyrir álit frá dýralækni þar sem m.a. kom fram að dýralæknirinn teldi að glefs Golíats stafaði frekar af hegðunarvandamáli en grimmd og að það væri álit dýralæknisins að hundurinn hefði ekki fengið nægilegt uppeldi og nægilega þjálfun. Þá tók dýralæknirinn fram að til að minnka áhuga hundsins á að strjúka af heimilinu ætti að gelda hann. Komi til þess að hinni kærðu ákvörðun verði framfylgt og hundur kærða aflífaður áður en úrskurðarnefndin hefur kveðið upp efnislegan úrskurð í málinu má ljóst vera, komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að fella skuli úr gildi hina kærðu ákvörðun, að ekki verði unnt að ráða bót á því tjóni sem hafi orðið. Í ljósi þessa, svo og á grundvelli þess að hundurinn er í öruggri gæslu, telur úrskurðarnefndin rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar kærða um að krefjast þess að hundurinn Golíat, nr. 5126, verði aflífaður. Úrskurðarorð: Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að krefjast þess að hundurinn Golíat, nr. 5126, verði aflífaður, þar til efnisleg úrlausn úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 liggur fyrir. Steinunn Guðbjartsdóttir Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira