Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 13/2012

Mál þetta varðar 47. gr. barnaverndarlaga. Málinu var skv. 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga vísað til nýrrar meðferðar.

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, miðvikudaginn 22. ágúst 2012, var tekið fyrir mál nr. 13/2012, A gegn barnaverndarnefnd B vegna ágreinings um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar.

Kveðinn var upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Sigríður Kristinsdóttir hdl., Acta lögmannsstofu, óskaði eftir styrk til greiðslu lögmannskostnaðar hjá Velferðarsviði B, fyrir hönd A, vegna meðferðar máls dóttur hennar, C. Hin kærða ákvörðun kemur fram í bréfi Velferðarsviðs B, dags. 30. maí 2012, til Berglindar Svavarsdóttur hrl., Acta lögmannsstofu. Þar segir að ekki sé veittur styrkur fyrir lögmannskostnaði með vísan í reglur bæjarfélagsins um aðstoð til greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum skv. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

I. Málsmeðferð og kröfugerð.

Kæra Sigríðar Kristinsdóttur hdl., fyrir hönd A, er dagsett 29. júní 2012. Þar er kærð synjun Velferðarsviðs B, dags. 30. maí 2012, um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna meðferðar á máli dóttur kæranda, C. Í umræddu bréfi kemur fram að aðstoð sú sem kæranda hafi verið veitt falli ekki undir reglur B um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir umsögn B með bréfi, dags. 3. júlí 2012. Greinargerð Velferðarsviðs B er dagsett 17. júlí 2012 og var Acta lögmannsstofu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina, með bréfi kærunefndar dags. 19. júlí 2012, en ekki bárust frekari athugasemdir.

Kærandi krefst fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar þar sem málefni hennar falli undir reglur félagsmálaráðs B.

Af hálfu Velferðarsviðs B kemur fram að skilyrði reglna félagsmálaráðs B um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar hafi einungis verið uppfyllt að ákveðnu marki, þannig að greiddur hafi verið styrkur vegna viðveru lögmanns á fundi með starfsmönnum þann 20. mars 2012 í 1,5 klst. ásamt undirbúningstíma. Að öðru leyti sé lögmannsaðstoð sú sem kærandi naut ekki til komin af því tilefni sem mælt sé fyrir um í 1. gr. framangreindra reglna.

 

II. Málavextir.

Mál A vegna dóttur hennar, C, var flutt frá barnavernd D til barnaverndar B 6. janúar 2012. Málið var síðan aftur flutt til barnaverndar D 13. apríl 2012 vegna flutnings móður í það sveitarfélag. Á framangreindu tímabili var mikil vinnsla í málinu hjá barnavernd B eins og fram kemur í gögnum málsins, en ástæða þess eru geðrænir erfiðleikar móður. Málið snerist einkum um vistun dóttur kæranda utan heimilis hjá föður sínum og umgengni mæðgnanna. Þann 9. febrúar 2012 úrskurðaði barnaverndarnefnd B að dóttir kæranda yrði vistuð hjá föður sínum í allt að tvo mánuði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þann 7. mars 2012 fékk kærandi lögmann til þess að gæta réttar síns í málinu. Lögmaðurinn aðstoðaði kæranda í tengslum við meðferð þess hjá Velferðarsviði B eins og greint er frá í gögnum málsins þar til málið var flutt til barnaverndar D. Lögmaðurinn lagði fram beiðni um aukna umgengni með bréfi, dags. 15. mars 2012, og 16. mars 2012 ítrekaði lögmaðurinn fyrri beiðni um aukna umgengni í ljósi nýrra gagna frá geðlækni og leikskóla. Kærandi kom til fundar með lögmanni sínum 20. mars 2012 þar sem reynt var að ná samkomulagi um meðferðaráætlun og umgengni. Þann 23. mars 2012 barst barnavernd tölvupóstur frá lögmanni kæranda þar sem óskað var eftir íhlutun starfsmanns til að kærandi kæmist sem fyrst að hjá lækni. Þann 27. mars 2012 lagði lögmaðurinn fram beiðni um aukna umgengni og óskaði eftir að málið yrði tekið fyrir á meðferðarfundi. Lögmanninum var send bókun fundar þann 29. mars 2012 og greint frá næstu skrefum í málinu. Var lagt til að kærandi myndi leita sér aðstoðar á göngudeild geðdeildar LSH. Umgengni yrði aukin í þrjá daga í viku, tvær stundir í senn. Samstarfs yrði leitað við kæranda um fyrirkomulag umgengninnar. Leitað yrði samþykkis kæranda fyrir áframhaldandi vistun hjá föður og umgengnissamningur jafnframt gerður í samstarfi við kæranda. Ef samkomulag næðist ekki við kæranda um áframhaldandi vistun yrði tillaga þess efnis lögð fyrir barnaverndarnefnd.

 

III. Sjónarmið kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að starfsmaður Velferðarsviðs B, E, hafi ítrekað boðið kæranda að fá sér lögmann og að kostnaður vegna þess yrði greiddur af barnavernd. Í kæru kemur fram að þetta hafi E staðfest við lögmann kæranda. Lögmaður kæranda bendir á að það sé rétt að þegar lögmannsstofan Acta hafi komið að máli þessu hafi verið búið að úrskurða um að vista barn kæranda utan heimilis. Einnig hafi verið búið að ákveða umgengni sem hafi verið mjög takmörkuð. Vinna lögmannsins hafi meðal ananrs falist í því að fá aukna umgengni og hafi hún að lokum verið samþykkt 29. mars 2012. Þá hafi einnig legið fyrir að barnavernd myndi beita áframhaldandi þvingunarúrræðum yrði kærandi ekki til samvinnu og hafi málið verið unnið með kæranda með þessa vitneskju. Á fundi sem haldinn hafi verið með starfsmönnum barnaverndar 20. mars 2012 hafi þessi afstaða komið skýrt fram. Þá sjáist það einnig í bókun frá 29. mars 2012 að ákveðið sé að leggja til að barnið verði áfram vistað utan heimilis. Það sé því ljóst að yfirvofandi hafi verið frekari þvingunaraðgerðir af hálfu barnaverndarnefndar í málefnum kæranda hjá nefndinni eftir að lögmannsstofan hafi komið að málinu.

Fram kemur hjá lögmanni kæranda að málefni hennar falli undir reglur B. Það hafi legið fyrir að B myndi halda áfram þvingunaraðgerðum og unnið hafi verði að því að fá umgengni aukna og að forðast það að frekari þvingunaraðgerðir yrðu gerðar. Vinna lögmannsstofunnar í þágu kæranda uppfylli öll skilyrði reglna B frá 2. júní 2009 og skuli því greidd af B.

 

IV. Sjónarmið Velferðarsviðs B.

Velferðarsvið B bendir á að umsóknir um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar séu afgreiddar samkvæmt reglum félagsmálaráðs B sem samþykktar voru 2. júní 2009 og eigi sér stoð í 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Aðstoð sú sem kærandi hafi notið á umræddu tímabili sé ekki til komin af því tilefni sem mælt sé fyrir um í 1. gr. reglnanna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar. Þar segi að styrkur verði veittur vegna undirbúnings og fyrirtöku máls fyrir barnaverndarnefnd og aðeins þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum. Í tilviki kæranda hafi þvingunarúrræðum þegar verið beitt þegar lögmaður hafi komið að málinu. Það hafi verið kæranda í sjálfsvald sett að ráða sér lögmann á þessu stigi barnaverndarmálsins þar sem að jafnaði sé ekki veittur styrkur, hvorki við kröfur um frekari umgengni né vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar, nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns, sbr. 1. gr. reglnanna.

Þar af leiðandi hafi einungis þótt uppfyllt skilyrði framangreindra reglna til að samþykkja styrk vegna viðveru lögmanns á fundi með starfsmönnum 20. mars 2012 í 1,5 klst. ásamt undirbúningstíma sem hæfilegur þyki 1 klst.

 

V. Forsendur og niðurstaða.

Í máli þessu hefur verið kærð synjun Velferðarsviðs B um að greiða kæranda frekari fjárstyrk vegna meðferðar máls dóttur hennar, C, hjá Velferðarsviði B.

Í 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga er kveðið svo á um að aðilar máls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð sinn í málinu. Í 2. mgr. 47. gr. laganna er kveðið á um að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð skv. 1. mgr. 47. gr. laganna og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setur. Félagsmálaráð B hefur sett sér reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar í barnaverndarmálum sem voru samþykktar 2. júní 2009.

Í 2. mgr. 1. gr. reglna þessara segir að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar og undirbúnings vegna fyrirtöku málsins. Í 3. mgr. 1. gr. segir að aðeins sé veittur fjárstyrkur þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Þá segir í 4. mgr. 1. gr. reglnanna að ekki sé veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að barnaverndarnefnd B veiti jafnframt aðilum máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir kærunefnd barnaverndarmála, sbr. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. 

Þannig má ráða af ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga, sem og af ákvæðum fyrrgreindra reglna félagsmálaráðs B, að barnaverndarnefnd veiti fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar þegar fyrir liggur að barnaverndarnefndin muni kveða upp úrskurð í máli barns og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála.

Af gögnum máls þessa verður hins vegar ekki ráðið að barnaverndarnefnd B hafi fyrirhugað að kveða upp úrskurð í málinu þar sem þvingunarúrræðum yrði beitt. Þvert á móti verður ráðið af gögnum málsins að þvingunarúrræðum hafi þegar verið beitt þegar lögmaður kæranda kom að málinu. Þá liggur fyrir að Velferðarsvið B samþykkti greiðslu fjárstyrks vegna viðveru lögmanns kæranda á fundi, sem hann var sérstaklega boðaður til og undirbúningstíma vegna þess fundar. Má hins vegar ráða af tímaskýrslu lögmanns kæranda að undirbúningstími vegna þess fundar hafi numið fleiri klukkustundum en kemur fram í hinni kærðu ákvörðun. Að mati kærunefndar barnaverndarmála verður því ekki annað séð en að ákvörðun Velferðarsviðs B fari í bága við 47. gr. barnaverndarlaga og fyrrnefndar reglur B um veitingu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Því er máli þessu í samræmi við 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga vísað til nýrrar meðferðar Velferðarsviðs B.

            

Úrskurð þennan kveður formaður kærunefndar barnaverndarmála upp ein, sbr. 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

 


Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun Velferðarsviðs B um frekari styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna meðferðar máls A, vegna dóttur hennar, C, er felld úr gildi og er málinu vísað til nýrrar meðferðar Velferðarsviðs B.

 

  

Ingveldur Einarsdóttir,

formaður

 

 

 

 

 

 

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira