Hoppa yfir valmynd

7/2004

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, föstudaginn 8. apríl, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr.  7/2004  Þórður Sigurjónsson, Kleppsvegi 102, Reykjavík gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður

I

Stjórnsýslukæra Helga Birgissonar hrl. f.h. Þórðar Sigurjónssonar, hér eftir nefndur kærandi er dags. 5. október, 2004, en barst úrskurðarnefnd 11. október, 2004. Kærð er ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, hér eftir nefnd kærði, um afturköllun á leyfi til hundahalds.

 Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit af bréfi kærða dags. 24. september 2004 um afturköllun leyfis til hundahalds..

2)      Afrit af bréfi lögmanns kæranda dags. 20. september, 2004.

3)      Afrit af bréfi kærða dags. 10. september 2004.

Afrit af gögnum kærenda var sent kærða með bréfi dags. 15. október, 2004.  Greinargerð kærða barst 15. mars, 2005 en er dagsett 28. október 2004. Ítrekunarbréf hafði verið sent kærða í lok desember og fyrirspurnir símleiðis.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða um staðfestingu á afturköllun kærða dags. 10. september 2004 á leyfi til að halda hundinn Tímon nr. 3875.  Krafist er að ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir kærða að afhenda kæranda hundinn Tímon.

Lögmaður kæranda greindir frá því að Umhverfis- og heilbrgðisnefnd hafi staðfest afturköllun kærða með þrem atkvæðum.  Minnihluti nefndarinnar hafi fallist á sjónarmið kæranda um að honum hafi ekki verið gefinn nægjanlegur kostur á að gæta hagsmuna sinna áður en ákvörðun um að svipta hann leyfinu hafi verið tekin og kveður lögmaður að því hafi verið beint til kærða að í framtíðinni yrðu áminningarbréf send með sannanlegum hætti.  Meirihluti hafi tekið undir nauðsyn þess að áminningarbréf yrðu send með þeim hætti að þau bærust örugglega hlutaðeigendum  en hafi samt talið með vísan til “ítrekaðra kvartana borgara vegna lausagöngu hundsins sem og þeirrar staðreyndar að eiganda hafi sannanlega borist eitt áminningarbréf vegna máls”, skylt að afturkalla umrætt leyfi til hundahalds.  Lögmaður kveður kæranda gera alvarlega athugasemd við þessa afgreiðslu meirihluta. Hann kannist ekki við að ítrekaðar kvartanir eigi við rök að styðjast.  Leyfisveitandi verði að sýna fram á réttmæti slíkra fullyrðinga ella væri einstaklingum í lófa lagið að gera hundeigendum skráveifu með röngum og óréttmætum kvörtunum.  Þá kannist kærandi ekki við að hafa borist nein áminningarbréf vegna málsins eins og haldið sé fram af meirihluta Umhverfis- og heilbrigðisnefndar, en nefndin hafi ekki séð ástæðu til að upplýsa nánar um hvaða bréf sé að ræða. Þá vísar lögmaður kæranda til frekari rökstuðnings í kæru sinni til Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar sem dagsett sé 20. september 2004.

Í kæru þeirri vísar lögmaður kæranda til afturköllunar leyfis til hundahalds og að rökin fyrir því hafi verið að með ítrekaðri lausagöngu hundsins Tímons hafi kærandi brotið gegn 13. gr. samþykkta um hundahald í Reykjavík.  Hafi kæranda verið send áminning skv. 26. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með bréfi dags. 28.  júlí s.l.  Þar sem hundurinn hafi verið handsamaður í lausagöngu þann 10. september sé leyfið afturkallað.  Lögmaður kveður kæranda mótmæla framangreindri ákvörðun og krefjast þess að hún verði felld úr gildi og lagt verði fyrir kærða að afhenda honum þegar hundinn.  Lögmaður vísar til þess að ákvörun kærða byggi m.a. á því að kæranda hafi verið send áminning með bréfi þann 28. júlí s.l. og þar bent á að við endurtekið brot yrði leyfi hans afturkallað.  Lögmaður vísar til ákvæðis 26. gr. laga nr. 7/1998 sem sé svohljóðandi :

Til að knýja á um framkvæmd ráðsöfunar samkvæmt lögum þesusm reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkævmt þessum ákvæðum geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aægerðum :

1.      veitt áminningu

2.      veitt áminningu og  tilhlýðilegan frest til úrbóta.

Þá vísar lögmaður kæranda einnig til 30. gr. laganna þar sem fram komi :

Við meðferð mála samkvæmt þessum kafla skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga.

Telur lögmaður kæranda ljóst vera að áminning og frestur til að bæta úr sé almennt undanfari ráðstafana samkvæmt lögnunum og að málsmeðferð (við afturköllun) beri að haga eftir almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Þannig hafi borið að gera kæranda viðvart um að leyfi hans væri til skoðunar og gefa honum færi á að tjá sig og tækifæri til að bæta úr.  Umrætt áminningarbréf hafi hins vegar aldrei borist kæranda og eftirgrennslan hafi leitt í ljós að það hafi ekki verið sent honum með sannanlegum hætti.  Því hafi kæranda aldrei í raun verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna, bæta ráð sitt og koma að sjónarmiðum sínum áður en sú ákvörðun hafi verið tekin að svipta hann leyfinu. 

Lögmaður kæranda vísar ennfremur til þess að hafi kvartanir borist vegna hundahalds kæranda stafi þær eingöngu frá einum nágranna sem virðist hafa horn í síðu kæranda.  Í flestum tilvikum hafi þessar kvartanir ekki átt við nein rök að styðjast.  Lögmaður vísar til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þess að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og ekki mismuna aðilum.  Kærandi viðurkenni að hafa orðið á mistök við gæslu hundsins Tímons.  Slíkt eigi einnig við  um flesta aðra hundaeigendur, að fyrir komi að dýr þeirra sleppi laus innan borgarmarkanna.  Þó að finna megi að kæranda sem hundaeiganda  telji hann að í samanburði hafi hann ekki staðið sig verr en margur hundaleyfishafi sem kærði hafi ekki talið sig þurfa að beita áminningum eða afturköllun hundaleyfis.  Hundaeftirlitsmenn borgarinnar geti væntanlega borið um þetta atriði og veki athygli að ekki skuli hafa verið talin ástæða til að kalla eftir upplýsingum frá þeim áður en gripið hafi verið til svo viðurhlutamikillar ákvörðunar sem afturköllun leyfis sé.  Kærandi hafi engar skýringar fengið á því hvers vegna hann fái ekki sambærilega meðhöndlun og aðrir leyfishafar hundahalds.

Vísar lögmaður kæranda til andmælareglu, rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga auk annarra raka og krefst þess að afturköllun leyfis verði felld úr gildi.

Lögmanni kæranda var send greinargerð kærða.  Hann ítrekaði kröfur og málsástæður í fyrirliggjandi gögnum.

 

III.

Greinargerð kærða er dags. 28. október 2004, en barst nefndinni í tölvupósti 15. mars 2005 og var undirritað eintak sent formanni samdægurs.  Vísar kærði til þess að í kjölfar kvörtunar sem kærða hafi borist vegna lausagöngu hunds kæranda hafi kæranda verið sent bréf, dags. 30. mars, 2004 þar sem hann hafi verið minntur á ákvæði 13. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 sem kveði á um bann við lausagöngu hunda.  Hafi kæranda jafnframt verið bent á að ítrekuð brot á ákvæðum samþykktar um hundahald í Reykjavík gætu leitt til afturköllunar á leyfi til hundahalds, sbr. ákv. 20. gr. áðurnefndrar samþykktar.  Ekkert lát hafi orðið á lausagöngu hundsins og hafi kærða m.a. borist kvartanir þ. 6. maí, 9. og 26. júlí v. þessa. Hafi því kæranda verið send áminning skv. 26 gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þann 28. júlí 2004 og honum tilkynnt að við endurtekið brot hyggðist kærði afturkalla leyfi hans til hundahalds.  Bréfið hafi ekki verið endursent kærða líkt og með bréf sem pósturinn komi ekki til skila.  Þá hafi kærða borist aftur kvörtun vegna lausagöngu hundsins þann 17. ágúst.  Rétt sé að taka það fram að kvartanir hafi borist frá fleiri en einum aðila í nágrenni kæranda.

Kærði kveður að þann 7. september 2004, hafi aftur verið kvartað til lögreglu vegna lausagöngu hundsins og hafi lögregla handsamað hundinn.  Þar sem kærandi hafi haft samband við lögreglu meðan á aðgerð stóð hafi hundinum verið ekið heim til kæranda í stað þess að fara í dýrageymslu.  Lögreglu hafi þá ekki verið kunnugt um að kærði hyggðist afturkalla leyfi kæranda til hundahalds gengi hundurinn laus.   Aftur hafi hundurinn gengið laus þann 10. september og hafi hundaeftirlitsmaður kærða þá handsamað hundinn.  Hann hafi þá verið færður í hundageymslu og kæranda tilkynnt með bréfi dags. 10. september s.l. að leyfi hans til hundahalds hafi verið afturkallað.  Hafi honum þá verið veitttur frestur til andmæla og jafnframt bent á að skv. 2. mgr. 1. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík gæti hann vísað ákvörðun kærða til úrskurðar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar. Kærði lýsir því að með bréfi dags. 20. september 2004 hafi lögmaður kæranda vísað ákvörðun kærða um afturköllun á leyfinu til úrskurðar Umhverfis- og heilbrigðisnefndar.  Málið hafi verið tekið fyrir og afgreitt á fundi nefndarinnar þann 23. september 2004, eins og lýst sé í bréfi lögmanns kæranda.

Kærði bendir á að skv. lýsingu hafi kærandi ítrekað brotið ákvæði 13. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 um bann við lausagöngu og kærða hafi því verið heimilt skv. 20. gr. sömu samþykktar að afturkalla leyfi hans til hundahalds.  Með áðurnefndu bréfi dags. 30. mars .sl. hafi kæranda verið gert fullljóst að ítrekuð lausaganga myndi leiða til afturköllunar á leyfi til hundahalds.  Hafi því kærði ekki talið þörf á að veita frekari áminningu þó svo að kærandi telji sig ekki hafa fengið formlegt áminningarbréf sem sent hafi verið, heldur afturkallað leyfi til hundahalds.

Kærði vísar til tilvísunar kæranda um að stjórnsýslulög hafi verið brotin þar sem kæranda hafi ekki “sannanlega”  borist áminningarbréf  kærða vegna hundahalds  og hann hafi því ekki fengið færi á að tjá sig og bæta úr ástandinu.  Kærandi haldi því fram að áminning og frestur til að bæta úr ástandi sé almennt undanfari ráðstafana skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Kærði tekur fram af þessu tilefni að skv. tilgreindum lögum sé það ekki skilyrði til að knýja á um framkvæmd ráðstafana skv. lögunum að áminning og síðan áminning með tilhlýðilegum fresti til úrbóta sé undanfari ráðstafana.  Þvert á móti sé hægt að grípa án tafar til ráðstafana, án þess að til áminningar þurfi að koma  sérstaklega þegar hætta sé á að broti sé haldið áfram af viðkomandi.  Kveður kærði það liggja í hlutarins eðli að sumar ráðstafanir skv. lögunum séu þess eðlis að ekki sé unnt að fara þessa leið.  Hann kveður það vera viðtekna venju við eftirlit með hundum í borginn að þeir séu teknir án viðvörunar og undangenginnar áminningar þegar um lausagöngu sé að ræða, upp komi bitmál, veruleg óþægindi o.sv. frv.  Þar að auki kveður kærði að andmælaréttur kæranda hafi verið virkur, þar sem hann hafi átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri bæði við kærða, Umhverfis- og heilbrigðisnefnd og nú síðast kærunefnd skv. l. nr. 7/1998.  Sé vandséð hver fleiri tækifæri eigi að veita aðila sem viðurkenni brot sín skv. hundasamþykkt, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Jafnframt kveður kærði að meðalhófs hafi verið vandlega gætt í málinu þar sem hundurinn hafi ekki enn verið fjarlægður af heimili kæranda og því hafi ekki verið gengið lengra en nauðsyn hafi borið af hálfu kærða.  Rannsóknarreglum hafi verið sinnt þar sem staðfest hafi verið með rannsókn brot kæranda á samþykkt um hundahald í Reykjavík.

 

IV.

Krafa kæranda er að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds verði

felld úr gildi. Kærði krefst staðfestingar á ákvörðun sinni.

Í VI. kafla laga nr.  7/1998 um valdsvið og þvingunaraðgerðir kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar skv. lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt þeim aðgerðum að veita áminningu  og að veita áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.  Í gögnum málsins kemur fram að  kæranda hafi ekki borist áminningarbréf það sem kærði kveðst hafa sent.  Kærði lýsir því yfir að áminnningarbréf hafi verið sent, en hefur ekki lagt fram neina staðfestingu á því.  Kærði verður að bera hallann af því að geta ekki sýnt fram á að áminningarbréf hafi verið sent með sannanlegum hætti. Fram kemur í gögnum málsins að venja sé  að senda áminningarbréf og verður kærði að bera ábyrgð á því að það berist hlutaðeigandi.   Ekki er unnt að fallst á sjónarmið kærða um að ítrekuð brot kæranda og meint viðurkenning á brotum sé næg ástæða til afturköllunar án áminningar og frests til úrbóta.  Verður því fallist á kröfur kæranda.  Afturköllun leyfis til hundahalds er  íþyngjandi ákvörðun og á kærandi því rétt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en til ákvörðunar kemur sbr. ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  .  Ekki verður séð að þess hafi verið gætt í máli þessu.  Með tilvísan til framangreinds er fallist á kröfur kæranda  og er ákvörðun kærða felld úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

            Fallist er á kröfur kæranda.  Ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds fyrir hundinn Tímon er felld úr gildi.

 

 

___________________________________

Lára G. Hansdóttir

 

 

__________________________             ______________________________

Gísli Gíslaon                                       Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira