Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 84/2016

Málskostnaður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 84/2016

Miðvikudaginn 21. desember 2016

A

gegn

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi 24. febrúar 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Barnaverndarnefndar C um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannskostnaðar.

Í gögnum málsins kemur fram að málefni barna kæranda hafi komið til umfjöllunar hjá barnaverndarnefndinni snemma árs 2014 og X 2014 var úrskurðað um vistun þeirra utan heimilis samkvæmt 27. gr. bvl. Úrskurði nefndarinnar var skotið til Héraðsdóms D og síðan Hæstaréttar. Í X 2015 var til umfjöllunar hjá nefndinni tillaga um að úrskurðað yrði um áframhaldandi vistun barna kæranda utan heimilis til loka skólaárs.

Kærandi sendi barnaverndarnefndinni 23. nóvember 2015 umsókn um styrk vegna lögmannsaðstoðar. Erindi kæranda var svohljóðandi:

„Ég A óska eftir að Barnaverndarnefnd C, greiði lögmannskostnað vegna aðkomu B, við mál barnanna minna, D og E.

Einnig óska ég eftir að Barnaverndarnefnd greiði lögmannskostnað að upphæð X kr. með VSK. Vinnan var unnin af lögfræðingnum F, þegar barnaverndarmálið heyrði undir barnaverndarnefnd C. Vinnan var unnin á tímabilinu september/október 2014-janúar/febrúar 2015 í sama máli.

Jafnframt óska ég eftir að endurskoðuð verði bókun frá 168. fundi nefndarinnar; þann 4 júní 2014; þar sem greiðslu á lögmannskostnaði að upphæð X kr. með VSK var hafnað. Vinnan var einnig unnin af F í apríl og maí 2014 í sama máli.“

Á fundi barnaverndarnefndarinnar 13. janúar 2016 var beiðni kæranda synjað. Ákvörðun nefndarinnar var tilkynnt kæranda með bréfi 22. janúar 2016.

Með bréfi, dags. 4. október 2016, gaf úrskurðarnefndin lögmanni kæranda tækifæri á því að leggja fram sundurliðaða tíma- og kostnaðarskýrslu með reikningi vegna vinnu fyrir kæranda. Gögnin bárust þann 14. október 2016 og voru send Barnaverndarnefnd C til kynningar með bréfi, dags. 1. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2016, bárust athugasemdir frá Barnaverndarnefnd C og voru þau send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. nóvember 2016. Með tölvupósti þann 5. desember 2016 bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé höfnun Barnaverndarnefndar C á umsókn um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna barnaverndarmála varðandi börn hans á árunum 2014 og 2015.

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C er vísað til 47. gr. bvl. þar sem fram kemur að við ákvörðun um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar í barnaverndarmáli skuli taka tillit til efnahags foreldra og til eðlis og umfangs málsins. Löggjafinn hafi með öðrum orðum gert ráð fyrir því að rúm efni foreldra geti takmarkað rétt þeirra til styrks. Sömuleiðis að mál sem sé lítið að umfangi þurfi ekki að vera styrkhæft og að eðli málsins kunni að hafa áhrif á styrkhæfni, meðal annars það hversu mikið það varðar þann sem andmælir. Í greininni segi að barnaverndarnefndir skuli setja sér reglur um styrkveitingar þessar.

Barnaverndarnefnd C hafi sett slíkar reglur þann 14. október 2003. Þar segi meðal annars að afla megi frekari gagna um fjárhagsstöðu foreldra og að hafa skuli til hliðsjónar reglur félagsmálaráðs (nú velferðarráðs) G um fjárhagsaðstoð. Í reglunum sé einnig lýst með hvaða hætti undirbúa skuli og semja um styrkinn, þ.e. að lögmaður leggi fram áætlun um kostnað þannig að rammasamkomulag liggi fyrir um líklegan kostnað og hverjir kostnaðarliðirnir séu. Þá komi einnig fram að aðili máls skuli að jafnaði leita aðstoðar lögmanns á G og ber að skilja þetta svo að nefndin geri almennt fyrirvara um að styrkur komi á móti þeim umframkostnaði sem hljótast kann af því að nota þjónustu lögmanns sem býr í öðrum landshlutum. Í reglunum segi einnig að þegar styrkur sé greiddur skuli liggja fyrir sundurliðuð tímaskýrsla lögmannsins.

Þegar umsókn kæranda um styrk var hafnað 4. júní 2014 hafi það verið gert á grundvelli þess að uppgefnar tekjur hans voru meira en þrefalt hærri en viðmið velferðarráðs um fjárhagsaðstoð og umfang þess máls sem um ræddi að auki ekki mikið. Þótt kærandi hafi ótvírætt átt aðild að málinu sem forsjáraðili þá bjuggu börnin ekki hjá honum og gögn málsins hafi nánast alfarið fjallað um aðbúnað barnanna hjá móður þeirra. Andmæli kæranda lutu að því að hann taldi ástæðulaust að taka börnin úr umsjá móðurinnar sem væri fullfær um að sjá um þau að hans mati. Sjálfur kvaðst hann þá ekki hafa aðstöðu til þess að sjá um börnin þótt hann stefndi að því að geta það síðar. Því megi fullyrða að umfang málsins, sem laut að kæranda sjálfum, hafi ekki verið mikið. Þess megi geta að móðir andmælti einnig tillögunni fyrir sitt leyti og naut til þess aðstoðar lögmanns.

Hvað varði umsókn kæranda um styrk vegna kostnaðar sem hann bar af lögmannsaðstoð F hdl. haustið 2014 og fram í janúar/febrúar 2015 eigi sömu sjónarmið við hvað tekjur kæranda varðar. Nefndin hafi hafnað þessum lið umsóknarinnar á þeim grundvelli að aðkoma lögmannsins hafi ekki varðað aðstoð samkvæmt skilyrðum 47. gr. bvl. Úrskurður um vistun utan heimilis var í gildi og umgengni kæranda við þau samkvæmt samkomulagi.

Hvað varði umsókn kæranda um styrk vegna aðstoðar B hdl. komst nefndin að sömu niðurstöðu. Synjað hafi verið á grundvelli tekna kæranda sem reyndust vera rúmlega tvöföld hærri en viðmið velferðarráðs G, að teknu tilliti til umfangs þess og eðlis. Í því tilviki hafi kærandi mótmælt tillögu um að börnin skyldu dvelja áfram á fósturheimilum sínum til loka skólaársins, þ.e. tæpum þremur mánuðum lengur en úrskurðað hafði verið um. Ekki hafi verið ágreiningur um að börnin flyttu til kæranda eftir fóstrið. Gögn hafi ekki verið viðamikil og hagsmunir ekki heldur, miðað við það sem oft er í úrskurðarmálum. Þá hafi eldra barnið orðið aðili máls vegna aldurs og notið aðstoðar lögmanns við sín andmæli. Synjun nefndarinnar hafi byggst á þessu en nefndin fékk ekki í hendur tímaskýrslu B, þrátt fyrir að eftir því væri gengið, þannig að ekki lá fyrir hver kostnaður kæranda var og hvernig hann var tilkominn eða hann útskýrður. Þá hafi umræddur lögmaður aldrei lagt fram áætlun um kostnað eins og reglurnar segja til um.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur vegna aðstoðar lögmanns á grundvelli 47. gr. bvl. vegna málsmeðferðar barnaverndarnefndar C. Kærandi óskaði eftir fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar með tölvubréfi 23. nóvember 2015. Í fyrsta lagi óskaði kærandi eftir greiðslu lögmannskostnaðar vegna vinnu B hdl. Með bréfinu fylgdu ekki tímaskýrslur eða frekari upplýsingar um vinnu lögmannsins. Í öðru lagi óskaði kærandi eftir greiðslu lögmannskostnaðar F hdl. og fylgdu tímaskýrslur lögmanns kæranda vegna vinnu hennar frá 10. apríl 2014 til 10. júlí 2014, samtals 18,50 tímar, og vegna vinnu hennar frá 3. nóvember 2014 til 30. janúar 2015, samtals 22,25 tímar. Í þriðja lagi óskaði kærandi eftir því að nefndin endurskoðaði fyrri ákvörðun um synjun greiðslu lögmannskostnaðar frá 4. júní 2014. Um ástæður endurskoðunnar vísaði kærandi til 47. gr. bvl. sem og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands. Beiðnir kæranda voru teknar fyrir á fundi nefndarinnar 13. janúar 2016.

Barnaverndarnefnd C hafnaði því að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar í öllum tilfellum. Beiðni um endurupptöku ákvörðunar frá 4. júlí 2014, var einnig hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. er barnaverndarnefnd skylt að veita foreldri fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur. Fram kemur í ákvæðinu að taka skuli tillit til efnahags foreldris, eðlis og umfangs málsins í reglunum. Reglur Barnaverndarnefndar C um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum voru samþykktar 14. október 2003.

Barnverndarnefnd C synjaði kæranda um styrk vegna lögmannskostnaðar B hdl. vegna vinnu hennar fyrir kæranda í febrúar og mars 2015. Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa leitað aðstoðar lögmannsins vegna tillögu fyrir barnaverndarnefndinni um að gerð yrði krafa um framlengingu á fóstri barna kæranda til 15. júní 2015. Ákveðið var að gera ekki slíka kröfu og lauk fóstri barna kæranda þann 18. mars 2015.

Barnaverndarnefnd C synjaði um styrk að teknu tilliti til efnahags kæranda, sbr. 2. gr. reglna barnaverndarnefndinnar um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum og bent var á að engin gögn hefðu legið fyrir um þann kostnað sem kærandi hafi orðið fyrir vegna vinnu lögmanns, sbr. 2. mgr. 5. gr. framangreindra reglna. Jafnframt var greint frá því að eðli og umfang málsins hafi þó ekki bent til þess að sá kostnaður væri umtalsverður.

Í 2. gr. reglna barnaverndarnefndinnar segir:

„Að teknu tilliti til efnahags foreldra eða forráðamanna barns, eðlis og umfangs máls skal veita fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem foreldrar, forráðamenn og eða barn sem náð hefur 15 ára aldri njóta ef málefni þeirra sæta meðferð fyrir barnaverndarnefnd Eyjafjarðar á grundvelli 46. og 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Við mat á fjárhagsstöðu foreldra eða forráðamanna skal hafa til hliðsjónar gildandi reglur félagsmálaráðs G um fjárhagsaðstoð“

Vegna mats á fjárhagsstöðu kæranda aflaði barnaverndarnefndin skattframtals frá kæranda um tekjur hans á árinu 2014. Samkvæmt framtalinu voru tekjur kæranda X krónur fyrir skatta og tekjur hans erlendis X krónur.

Eins og að framan greinir styðst Barnaverndarnefnd C við ákveðnar reglur um veitingu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar við ákvörðun um það hvort styrkur skuli veittur og fjárhæð styrks. Kæranda var synjað um styrk þar sem tekjur hans voru umfram viðmið í reglum G um fjárhagsaðstoð sem var 2.400.000 krónur á ári miðað við aðstæður kæranda sem var einstæður, greiddi meðlag með tveimur börnum og bar kostnað af húsnæði.

Verður ekki annað ráðið en að ákvörðun barnaverndarnefndinnar hafi stuðst við þær reglur sem nefndin hefur sett.

Í tímaskýrslu lögmannsins sem barst þann 14. október 2016 kom fram að unnir tímar vegna málsins hafi verið 20,5 samtals. Með hliðsjón af því sem að framan greinir er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að synja kæranda um styrk til greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar á grundvelli fjárhags kæranda og þess að málið hafi ekki verið umfangsmikið, sbr. 2. mgr. 47. gr. bvl., sbr. og 2. gr. reglna Barnaverndarnefndar C um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eða skipunar talsmanns í barnaverndarmálum. Með vísan til framangreinds ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun barnaverndarnefndarinnar um að synja kæranda um styrk til greiðslu framangreinds lögmannskostnaðar vegna vinnu B hdl.

Barnverndarnefnd C synjaði kæranda einnig um styrk vegna lögmannskostnaðar F hdl. vegna vinnu hennar á tímabilinu 10. apríl 2014 til 10. júlí 2014 og vegna vinnu hennar frá 3. nóvember 2014 til 30. janúar 2015, samtals 22,25 tímar. Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa leitað aðstoðar lögmannsins vegna umgengni við börn hans. Samkvæmt skýringum barnaverndarnefndarinnar í gögnum málsins var fallist á óskir kæranda um umgengni um jól og áramót. Á fundi barnaverndarnefndarinnar 10. desember 2015 var fjallað um kröfu kæranda um að nefndin felldi niður gildandi fósturráðstöfun og börnin flyttu til hans hið fyrsta. Nefndin ákvað að leita samkomulags við fósturforeldra barnanna um flutning þeirra til föðurs að skóla loknum þá um vorið. Slíkt samkomulag náðist ekki.

Samkvæmt gögnum málsins kom ekki til þess að beiðni kæranda um að fá forsjá barna sinna kallaði á að barnaverndarnefnd beitti þvingunarráðstöfun í málinu. Eins og fram kemur í 1. mgr. 34. gr. bvl. getur barnaverndarnefnd gripið til ráðstafana samkvæmt 26., 27., 28. og 29. gr. laganna, sem allar teljast þvingunar­ráðstafanir, ef foreldri afturkallar samþykki sitt fyrir tímabundnu úrræði samkvæmt 25. gr. laganna ef skilyrðum lagagreinanna er að öðru leyti fullnægt.

Að þessu virtu verður ekki fallist á að mál kæranda fyrir barnaverndarnefndinni hafi verið til meðferðar á grundvelli þess að kveða þyrfti upp úrskurð í því. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð vegna andmælaréttar eins og lýst er í 1. mgr. sömu lagagreinar sem veitt er um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferð áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Eins og að framan er lýst snéri hvorki málsmeðferð barnaverndar­nefndarinnar né efni málsins að neinni þeirri úrlausn sem barnaverndarnefndin skyldi kveða upp úrskurð um samkvæmt lögum. Skylda nefndarinnar til að greiða fjárstyrk fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga er því ekki fyrir hendi.

Auk framangreinds hafnaði barnaverndarnefndin að veita kæranda styrk vegna fjárhagstöðu hans. Samkvæmt gögnum málsins, sem barnaverndarnefndin aflaði frá kæranda um tekjur hans, voru þær X krónur árið 2013 fyrir skatta. Eins og fram hefur komið styðst Barnavernd C við ákveðnar reglur um veitingu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar þegar ákvörðun er tekin um það hvort styrkur skuli veittur og fjárhæð styrks. Kæranda var synjað um styrk þar sem tekjur hans voru umfram viðmið í reglum G um fjárhagsaðstoð. Þar sem aðkoma lögmanns kæranda kom ekki til í tengslum við rekstur máls er laut að málsmeðferð áður en barnaverndarnefnd kvæði upp úrskurð, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Barnaverndarnefndar C um styrk til kæranda til greiðslu lögmannskostnaðar vegna vinnu F hdl, á tímabilinu 10. apríl 2014 til 10. júlí 2014, samtals 18,50 tímar, og vegna vinnu hennar frá 3. nóvember 2014 til 30. janúar 2015, samtals 22,25 tímar, sbr. 47. gr. bvl.

Vegna þess hluta málsins er laut að beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 4. júní 2014, hafnaði Barnaverndarnefnd C endurupptöku ákvörðunarinnar með vísan til þess að engin ný gögn hafi komið fram í því máli. Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) er fjallað um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. ákvæðisins segir: „Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Þegar litið er til þess að meira en ár er liðið frá því að mál kæranda, sem tekið var fyrir þann 4. júní 2014, er kært til úrskurðarnefndarinnar og að ekki verði séð að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið fyrir aftur þar sem ný gögn hafa ekki borist sem gætu bent til þess að ákvörðunin hafi til dæmis byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að synja um endurupptöku málsins á þeim forsendum, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar C, sem tekin var með bókun 13. janúar 2016 í máli A um að synja kæranda um greiðslu þóknunar fyrir lögmannsaðstoð, er staðfest. Ákvörðun um að hafna endurupptöku ákvörðunar Barnaverndarnefndar C frá 14. júní 2014 er staðfest.

Guðrún Agnes Þorsteindóttur, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira