Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 2/2006: Úrskurður frá 2. maí 2006

Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins vegna Hitaveitu Suðurnesja hf.

Ár 2006, þriðjudaginn 2. maí, var í Félagsdómi í málinu nr. 2/2006.

                                                       

Vélstjórafélag Íslands

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

Hitaveitu Suðurnesja hf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

 

Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.

 

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., kt. 680475-0169, Brekkustíg 36, 260 Reykjanesbæ.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að viðurkennt verði með dómi að þeir félagsmenn Vélstjórafélags Íslands, sem starfa hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. og vinna reglubundið á vöktum á aukafrídögum, skuli fá án skerðingar á launum 12 vinnudaga (vaktir) í frí á ári, skv. grein 6.5 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., frá 16. september 2005.

Að Samtök atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

Til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.

Að stefnandi verði í báðum tilvikum dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefnda gert að greiða málskostnað í þessum þætti málsins.

 

Málsatvik

Ágreiningsefni málsaðila er um túlkun á ákvæði greinar 6.5 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., sem undirritaður var þann 16. september 2005. Í ákvæðinu er kveðið á um vetrarfrí vélfræðinga hitaveitunnar, félagsmanna stefnanda. Ákvæðið var samþykkt óbreytt frá fyrri kjarasamningi sömu aðila 4. janúar 2001. Í ákvæðinu segir orðrétt:

Auk framangreinds orlofs skulu vélfræðingar sem vinna reglubundið á vöktum á aukafrídögum fá án skerðingar á launum 12 vinnudaga (vaktir) á ári. Frídagar þessir skulu veittir á tímabilinu 15. september – 30. apríl með samfelldu fríi.

Stefnandi byggir á því að allt frá gildistöku kjarasamnings stefnanda frá 2001, hafi ákvæði greinar 6.5 verið skýrt og túlkað þannig, að þeir vélfræðingar sem vinna samkvæmt tilteknu vaktafyrirkomulagi allan ársins hring, þ.e. vinna reglubundið á vöktum á aukafrídögum, fái án skerðingar 12 vetrarfrídaga. Stefnandi heldur því fram að ákvæðið hafi alla tíð verið túlkað með þessum hætti af samningsaðilum og hafi vélfræðingar hitaveitunnar því fengið 12 daga vetrarfrí, hafi þeir uppfyllt framangreint skilyrði.

Við endurskoðun á kjarasamningi stefnanda vegna vélfræðinga hjá Hitaveitu Suðurnesja hf., á árinu 2005, var svofelldu ákvæði bætt við vetrarfríákvæði greinar 6.5.:

Starfsmenn sem vinna skv. vinnutilhögun með blöndu af vöktum og hefðbundinni dagvinnu fá hlutfall framangreindra daga í samræmi við hlutfall vakta af heildarvinnutíma.

Nýr kjarasamningur milli stefnanda og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., með ofangreindri viðbót við grein 6.5, var undirritaður 23. júní 2005. Samningurinn var felldur í atkvæðagreiðslu félagsmanna stefnanda.

Með uppsagnarbréfum Hitaveitu Suðurnesja hf. 22. ágúst 2005 til vélfræðinga fyrirtækisins,  var „viðbótarfrídögum starfsmanna“ sagt upp með vísan til þess, að sá fjöldi vetrarfrídaga sem starfsmenn á vöktum hefðu fengið, samkvæmt grein 6.5, væri umfram lágmarksákvæði kjarasamninga, en þar sem yfirborgunin hefði viðgengist um nokkurt skeið yrði hún ekki felld niður nema að undangengnum samningsbundnum uppsagnarfresti. Var „núverandi framkvæmd á töku vetrarfrís“ því sagt upp frá og með 1. janúar 2006 og kveðið á um að innvinnsla á grundvelli kjarasamnings hæfist frá þeim tíma. Starfsmenn héldu því fullum dagafjölda á árinu 2006 (vegna vinnu ársins 2005) en vetrarfrí árið 2007 m.v. óbreytt vaktakerfi yrði 6,15 dagar (vegna vinnu ársins 2006).

Hinn 16. september 2005 var skrifað undir nýjan kjarasamning milli stefnanda og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf. Ákvæði greinar 6.5 kjarasamningsins um vetrarfrí var óbreytt frá fyrri samningi. Samningsaðilar voru hins vegar ekki á einu máli hvernig túlka bæri ákvæðið og lögðu báðir fram bókanir sama dag með túlkun þeirra á ákvæðinu.

Í bókun Samtaka atvinnulífsins, var m.a. vísað til þeirra breytinga, sem gerðar voru á vetrarfríákvæði kjarasamnings stefnanda og Landsvirkjunar frá 7. apríl 2005, með því viðbótarákvæði sem vélfræðingar Hitaveitu Suðurnesja hf. höfnuðu. Því var lýst yfir, að með fyrirhugaðri breytingu á vetrarfrítökuákvæði greinar 6.5, í kjarasamningi stefnanda og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., sem ekki náði fram að ganga, hafi ekki átt að felast nein efnisbreyting á gildandi vetrarfríákvæði, heldur væri einungis um að ræða „lýsingu á eldra ákvæði“. Hafi vélfræðingar hjá Landsvirkjun, sem höfðu unnið á vöktum ásamt dagvinnu, um árabil fengið hlutfall af 12 dögum í samræmi við hlutfall vakta af heildarvinnutíma. Hafi vélfræðingar í Kröflu (starfsmenn Landsvirkjunar) „sem unnið hafa í eins kerfi og vélfræðingar hjá Hitaveitu Suðurnesja“ fengið 6,15 daga á ári en ekki 12. Hafi Vélstjórafélagi Íslands verið kunnugt um það fyrirkomulag.

Í bókun Vélstjórafélags Íslands var túlkun Samtaka atvinnulífsins á grein 6.5 kjarasamnings aðila og uppsögn Hitaveitu Suðurnesja hf. á viðbótarfrídögum starfsmanna mótmælt. Var vísað til þess að grein 6.5 hafi ávallt verið túlkuð með þeim hætti, að þeir vélfræðingar sem hefðu unnið samkvæmt tilteknu vaktafyrirkomulagi allan ársins hring, hafi fengið án skerðingar tólf frídaga. Hafi Hitaveita Suðurnesja hf. ávallt gert upp við vélfræðingana í samræmi við þennan skilning samningsaðilanna. Bent var á það sérstaklega, að til hafi staðið að breyta fyrirkomulagi vetrarfría vélfræðinga hjá Hitaveitu Suðurnesja hf., sbr. tillögur um viðbótarákvæði við grein 6.5, en sökum andstöðu félagsmanna stefnanda, hafi kjarasamningurinn verið felldur í atkvæðagreiðslu þeirra. Þess var því krafist að fallið yrði frá fyrirhuguðum uppsögnum Hitaveitu Suðurnesja hf. á vetrarfrídögum vélfræðinga Hitaveitu Suðurnesja hf., enda stæðust ekki uppsagnir hitaveitunnar á kjarasamningsbundnum kjörum þeirra.

Hitaveita Suðurnesja hf. varð ekki við beiðni stefnanda um að fallið yrði frá fyrirhuguðum uppsögnum. Af þeim sökum hefur stefnandi höfðað mál þetta.

           

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því að uppsagnir Hitaveitu Suðurnesja hf. 22. ágúst 2005 á fyrirkomulagi vetrarfría hjá vélfræðingum fyrirtækisins, félagsmönnum stefnanda, hafi verið óheimilar, þar sem um kjarasamningsbundin lágmarksréttindi sé að ræða, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938.

Fyrirsvarsmenn Hitaveitu Suðurnesja hf. hafi réttlætt uppsagnir sínar frá 22. ágúst 2005, frá og með 1. janúar 2006 „á núverandi framkvæmd á töku vetrarfrís“, með því að sumarið 2001 hafi nýtt vaktafyrirkomulag verið tekið upp hjá hitaveitunni, að fyrirmynd Kröflustöðvar hjá Landsvirkjun. Hafi þá farist fyrir að breyta framkvæmd vetrarfría vélfræðinganna til samræmis við nýja skipan vakta. Hafi það verið mat fyrirtækisins að vélfræðingum sem vinni ekki á vöktum allt árið bæri einungis að veita hlutfallslegt vetrarfrí og miðað við hlutfall vaktavinnu vélfræðinga hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. í Svartsengi eigi þeir rétt á 6,15 dögum í vetrarfrí en ekki 12 dögum. Væri það fyrirkomulag sem í gildi hefði verið í raun yfirborgun umfram kjarasamning sem fyrirtækinu væri heimilt að fella niður. En þar sem yfirborgunin hefði viðgengist um nokkurt skeið yrði hún ekki felld niður nema að undangengnum samningsbundnum uppsagnarfresti.

Stefnandi mótmælir því sem fyrirsvarsmenn Hitaveitu Suðurnesja hf. halda fram, að réttur vélfræðinga Hitaveitu Suðurnesja hf., sem vinna reglubundið á vöktum á aukafrídögum, til 12 vetrarfrídaga á ári, teljist til ráðningarbundinna kjara þeirra, að um sé að ræða yfirborgun sem hægt sé að segja upp með lögmætum fyrirvara. Þvert á móti heldur stefnandi því fram að um sé að ræða kjarasamningsbundin lágmarksréttindi, sem Hitaveita Suðurnesja hf. geti ekki einhliða skert.

Þessu til stuðnings er á það bent að vetrarfríákvæði kjarasamninga vélfræðinga sem starfað hafa hjá Hitaveitu Suðurnesja, nú hf., og framkvæmd ákvæðisins hafi verið óbreytt um langt árabil. Vélfræðingar hitaveitunnar, sem unnið hafi reglubundið á vöktum á aukafrídögum, hafi a.m.k. frá árinu 1993, fengið án skerðingar eða skilyrða 12 – 14 daga í vetrarfrí, sbr. kjarasamninga Vélstjórafélags Suðurnesja frá 1993, 1995 og 1998 og kjarasamninga Vélstjórafélags Íslands frá 2001 og 2005. Verði áralangri og venjubundinni framkvæmd kjarasamningsákvæðis því ekki einhliða breytt af öðrum samningsaðilanum á samningstíma kjarasamnings. Breytingar á þessari áralöngu, venjubundnu og athugasemdalausu framkvæmd kjarasamningsákvæðisins geti ekki komið til nema með samkomulagi allra þeirra aðila sem að viðkomandi kjarasamningi koma og þá helst með ótvíræðri breytingu á orðalagi viðkomandi kjarasamningsákvæðis, svo ekki fari milli mála hver endanlegur vilji samningsaðilanna sé.

Í uppsagnarbréfum Hitaveitu Suðurnesja hf. segi að þegar nýtt vaktafyrirkomulag var tekið upp í Svartsengi sumarið 2001, að fyrirmynd Kröflustöðvar hjá Landsvirkjun, hafi farist fyrir að breyta framkvæmd vetrarfrís „til samræmis við nýja skipan vakta“. Hér vakni óhjákvæmilega upp sú spurning, hvers vegna fyrirsvarsmenn hitaveitunnar hafi ekki strax gert breytingar á vetrarfríum vélfræðinga sinna, sumarið 2001 eða fljótlega þar á eftir, fyrst réttur þeirra til 12 daga vetrarfrís hafi einungis verið hluti af ráðningarbundnum kjörum en ekki kjarasamningsbundnum. Hvers vegna hafi gildandi fyrirkomulagi vetrarfría ekki verið sagt upp fyrr en rúmum fjórum árum síðar fyrst heimildin til uppsagnar á fyrirkomulagi vetrarfría hafi þá verið fyrir hendi? Og hvers vegna hafi fyrirsvarsmenn Hitaveitu Suðurnesja hf. yfir höfuð ekki farið fram á það í kjarasamningsviðræðum árið 2005, að bætt yrði við grein 6.5 í kjarasamningnum ákvæði um skerðingu vetrarfrís með tilliti til dagvinnuvakta, fyrst hægt hafi verið einhliða að segja þágildandi fyrirkomulagi upp með venjubundnum uppsagnarfresti? Skýring á þessu sé augljós að mati stefnanda, og hún sé sú að fyrirsvarsmenn Hitaveitu Suðurnesja hf. hafi í raun ekki litið svo á sumarið 2001 þegar breytingar voru gerðar á vaktafyrirkomulagi, eða síðar, að um ráðningarbundin kjör væri að ræða því þá hefði fyrirtækið væntanlega strax breytt eða sagt upp greiðslum fyrir vaktavinnu vélfræðinganna.

Í bókun Samtaka atvinnulífsins frá 16. september 2005 sé varðandi túlkun á vetrarfríákvæði greinar 6.5 kjarasamnings Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., vísað til sömu greinar í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landsvirkjunar frá 7. apríl 2005, sem fjallar um vetrarfrí vélfræðinga hjá Landsvirkjun. Í bókuninni segir, að í viðbótinni sem vélfræðingar Landsvirkjunar samþykktu en vélfræðingar Hitaveitu Suðurnesja hf. höfnuðu, fælist ekki efnisleg breyting á ákvæðinu, einungis væri um að ræða nánari lýsingu á eldra ákvæði. Í bókuninni sagði jafnframt, að vélfræðingar hjá Landsvirkjun sem unnið hefðu á vöktum ásamt dagvinnu, hefðu um árabil fengið í vetrarfrí hlutfall af 12 dögum í samræmi við hlutfall vakta af heildarvinnutíma. Hafi vélfræðingar í Kröflu, sem unnið hafa í eins kerfi og vélfræðingar hjá Hitaveitu Suðurnesja hf., þannig fengið 6,15 daga í vetrarfrí á ári en ekki 12 eins og vélfræðingar Hitaveitu Suðurnesja hf.

Stefnandi telur það engu breyta fyrir áralanga túlkun á vetrarfríákvæði kjarasamnings vélfræðinga hjá Hitaveitu Suðurnesja hf., hvernig samhljóða ákvæði í kjarasamningi vélfræðinga hjá Landsvirkjun hafi verið túlkað. Stefnandi sé lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, og ráði málefnum sínum sjálfur, með þeim takmörkunum sem kveðið sé á um í lögum nr. 80/1938, sbr. 1. ml. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938. Við kjarasamningsgerð f.h. tiltekins hóps félagsmanna sinna, sé stefnandi því ekki bundinn af samhljóða eða sambærilegum ákvæðum kjarasamninga annarra aðila vinnumarkaðarins eða annarra kjarasamninga sem hann sé aðili að eða því hvernig þessi samningsákvæði hafi verið túlkuð. Ákvæði hvers og eins kjarasamnings hafi afmarkaða og sjálfstæða þýðingu og gildi og kunni samhljóða eða sambærileg ákvæði kjarasamninga því að hafa verið túlkuð á mismunandi hátt og haft mismunandi þýðingu, eins og dæmin sanna. Við túlkun og samanburð á vetrarfríákvæðum kjarasamninga vélfræðinga hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. annars vegar og hins vegar vélfræðinga Landsvirkjunar, verði einnig að horfa til þess að samningarnir séu ósambærilegir að mörgu leyti og njóti vélfræðingar Landsvirkjunar í ýmsu betri réttinda en vélfræðingar Hitaveitu Suðurnesja hf. Hér megi nefna réttindi er snúa að lífeyrissjóðsréttindum, yfirvinnu, greiðslum fyrir bakvaktir o.fl. Sé m.a. af þessum sökum ekki hægt, ef bera á saman framangreinda tvo kjarasamninga, að beina sjónum eingöngu að einum tilteknum réttindum og ætla að samræma túlkun þeirra án þess að annað og meira komi til, heldur verði að skoða samningana heildstætt og þá öll þau réttindi og skyldur sem í samningunum felist.

Stefnandi vísar einkum til kjarasamninga Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., frá 2001 og 2005, einkum greinar 6.5. Einnig er vísað til kjarasamninga milli Vélstjórafélags Suðurnesja og Hitaveitu Suðurnesja frá 1993, 1995 og 1998, einkum ákvæða þeirra samninga um vetrarfrí vélfræðinga. Þá er vísað til greinar 6.5 í kjarasamningum Vélstjórafélags Íslands og Landsvirkjunar frá 2001 og 2005. Þá vísast til 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938. Einnig til meginreglna vinnuréttar, einkum þeirrar að kjarasamningsbundnum réttindum launþega verði ekki einhliða breytt af vinnuveitanda á gildistíma kjarasamnings. Einnig þeirrar meginreglu vinnuréttar að venjubundinni túlkun og framkvæmd kjarasamnings, til margra ára, verði ekki einhliða breytt af öðrum samningsaðilanum. Mál þetta sé lagt fyrir Félagsdóm til úrlausnar m.v.t. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er tekið fram að kjaramál vélfræðinga hjá stefnda hafi um árabil tekið mið af kjarasamningi stefnanda við Landsvirkjun. Sá kjarasamningur hafi verið talinn „hliðstæður samningur” í skilningi kjarasamninga stefnanda við fyrirtækið.

Haustið 2000 var hafin vinna við að samræma ákvæði og uppsetningu kjarasamninga Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar og lauk þeirri vinnu með undirritun samningsins 4. janúar 2001. Var þá m.a. tekið orðrétt upp ákvæði um vetrarfrídaga vaktavinnumanna, sbr. gr. 6.5. í kjarasamningi frá 2001. Áréttað hafi verið í bókun 4 með samningnum að vetrarfrí vaktavinnumanna á 12 klst. vöktum skyldi vera það sama í klst. og í sambærilegum fyrirtækjum þar sem staðnar væru 12 klst. vaktir allt árið. Hafi þar verið átt við vélfræðinga hjá Landsvirkjun.

Í júní 2001 hafi verið tekið upp nýtt vaktakerfi hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. og  þá tekin upp sú nýjung að vélfræðingar unnu að hluta á vöktum og að hluta sem dagvinnumenn. Um hafi verið að ræða vinnufyrirkomulag sem Landsvirkjun notaði við Kröflu.

Eftir upptöku þessa vaktakerfis hafi mikið verið um það rætt innan fyrirtækisins hvort fækka ætti vetrarfrídögum til samræmis við Landsvirkjun. Af ýmsum ástæðum hafi því ekki verið hrint í framkvæmd fyrr en árið 2005.

Þegar gr. 6.5. var breytt með kjarasamningi dags. 23. júní 2005 hafi ekki verið litið á það sem efnisbreytingu af hálfu stefnda. Einungis væri verið að árétta eðlilega túlkun á ákvæðinu. Kjarasamningurinn hafi hins vegar verið felldur í atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna.

         

Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á d lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Með aðilum sé ágreiningur um það hvað felist í vaktafyrirkomulagi gr. 6.5 í kjarasamningi aðila. Dómkrafa stefnanda endurspegli ekki túlkunarágreining aðila og sé því ekki til þess fallin að leiða ágreining aðila til lykta. Dómkrafa eigi að vera svo skýr að unnt sé að taka hana óbreytta upp í dóm og hún eigi að fela í sér lyktir máls. Um það sé ekki að ræða hér og beri því að vísa málinu frá dómi.

Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

 

Niðurstaða

Ljóst er af gögnum máls að ágreiningur er með málsaðilum um túlkun á ákvæði greinar 6.5 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf. Í gildandi kjarasamningi aðila, sem undirritaður var þann 16. september 2005, voru engar breytingar gerðar á samningaákvæði þessu, sem er óbreytt frá fyrri kjarasamningi sömu aðila  4. janúar 2001. Ákvæði þetta sem kveður á um sérstaka frídaga að vetri til handa félagsmönnum stefnanda hljóðar svo orðrétt:

Auk framangreinds orlofs skulu vélfræðingar sem vinna reglubundið á vöktum á aukafrídögum fá án skerðingar á launum 12 vinnudaga (vaktir) á ári. Frídagar þessir skulu veittir á tímabilinu 15. september – 30. apríl með samfelldu fríi.

Dómkrafa stefnanda í málinu er þannig: Að viðurkennt verði með dómi að þeir félagsmenn Vélstjórafélags Íslands, sem starfa hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. og vinna reglubundið á vöktum á aukafrídögum, skuli fá án skerðingar á launum 12 vinnudaga (vaktir) í frí á ári, skv. grein 6.5 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., frá 16. september 2005.

Krafa stefnanda í málinu er því þess efnis að viðurkennt verði það ákvæði kjarasamnings aðila, sem deilt er um túlkun á.

Kröfugerð í dómsmáli þarf að vera þannig úr garði gerð að dómsniðurstaða á grundvelli hennar leiði til lykta þann ágreining sem uppi er í málinu. Dómkrafa stefnanda, eins og hún er sett fram, er ekki til þess fallin að leysa úr þeim ágreiningi sem er með aðilum um túlkun á greindu kjarasamningsákvæði og er hún andstæð d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um glögga kröfugerð. Ber því að vísa máli þessu frá Félagsdómi.

Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 100.000 krónur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, greiði stefnda, Samtökum atvinnulífsins vegna Hitaveitu Suðurnesja hf., 100.000 krónur í málskostnað.                                       

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira