Hoppa yfir valmynd

790/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 790/2019 í máli ÚNU 19010008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 11. janúar 2019, kærði A, blaðamaður, töf Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., ESÍ, á afgreiðslu beiðni kæranda um gögn vegna kaupa félagsins á lögfræðiþjónustu á nánar tilgreindu tímabili. Beiðnin hafi verið lögð fram sex mánuðum fyrr, og ítrekuð eftir að undanþága félagsins frá gildi upplýsingalaga hafi fallið úr gildi 15. desember 2018.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. janúar 2019, var kæran kynnt ESÍ og því beint til félagsins að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið og ekki síðar en 13. febrúar 2019. Með bréfi til kæranda, dags. 13. febrúar 2019, sem jafnframt barst úrskurðarnefndinni, er rakið að ESÍ hafi verið veitt undanþága frá gildissviði upplýsingalaga með erindi forsætisráðherra, dags. 27. nóvember 2015, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt orðalagi erindisins skyldi undanþágan endurskoðuð eigi síðar en 15. desember 2018. Með erindi, dags. 13. desember 2018, hafi Seðlabanki Íslands formlega óskað eftir áframhaldandi undanþágu til handa ESÍ. Beiðnin væri enn til meðferðar hjá forsætisráðuneytinu og þar til niðurstaða lægi fyrir um hana gilti fyrri undanþága félagsins enn. Í því ljósi lægi ekki fyrir skylda ESÍ til að veita umbeðnar upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.

Niðurstaða

Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna taka þau til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Þegar kæra þessi barst úrskurðarnefndinni var ESÍ að öllu leyti í eigu Seðlabanka Íslands og féll samkvæmt því undir 2. mgr. 2. gr.

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir: „Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka. Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu samkvæmt málsgreininni, og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.“

Á grundvelli þessarar heimildar birti ráðherra auglýsingu nr. 1107/2015, þar sem m.a. ESÍ var veitt undanþága frá gildissviði upplýsingalaga. Skyldi undanþága félagsins endurskoðuð eigi síðar en 15. desember 2018. Í október 2017 var samþykkt á hluthafafundi að slíta ESÍ. Beiðni um áframhaldandi undanþágu barst frá Seðlabanka Íslands fyrir hönd ESÍ 13. desember 2018. Í mars 2019 var félagið afskráð úr hlutafélagaskrá. Í kjölfarið afturkallaði Seðlabankinn beiðni um áframhaldandi undanþágu til handa ESÍ.

Í 3. gr. auglýsingar frá 16. maí 2019 um undanþágu lögaðila frá gildissviði upplýsingalaga, nr. 448/2019, kemur fram að undanþága ESÍ frá gildissviði laganna skuli falla brott. Þegar kæra barst úrskurðarnefnd 11. janúar 2019 var beiðni um undanþágu til handa ESÍ enn til skoðunar hjá forsætisráðuneytinu. Í samræmi við orðalag í auglýsingu nr. 1107/2015 um að undanþága ESÍ skuli endurskoðuð eigi síðar en 15. desember 2018 er ekki hægt að líta svo á að undanþágan hafi fallið brott þann dag. Á það sér jafnframt stoð í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að ráðherra geti ákveðið að lögaðili skuli ekki falla undir gildissvið laganna eða dregið slíka ákvörðun til baka. Samkvæmt orðanna hljóðan fellur undanþága lögaðila ekki brott nema með atbeina ráðherra. Því var undanþága ESÍ enn í gildi þegar kæran barst úrskurðarnefndinni. Töf ESÍ á afgreiðslu beiðni kæranda um gögn samkvæmt upplýsingalögum verður því ekki skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Er því ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru A á hendur Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira