Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 29/2013

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Úrskurður er kveðinn upp 4. apríl 2014 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 29/2013: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dóttur hennar, B. Á fundi kærunefndarinnar 8. janúar síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp  úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kærð er ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur, sbr. bréf 19. desember 2013, um styrk til að greiða fyrir lögmannskostnað vegna aðstoðar C hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.

Kveðinn var upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A, vegna dóttur hennar, B.

Auk B á kærandi tvær aðrar dætur, þær D og E. Stúlkurnar lúta allar forsjár kæranda en B, sem er X, var tekin úr umsjón móður sinnar í janúar 2012 í F og dvelur hún nú á G. Faðir stúlknanna, H, sem búsettur er í F, hefur komið að umönnun þeirra, en samband foreldranna var óstöðugt. Áhyggjur voru af uppeldisaðstæðum telpnanna í umsjá foreldra og voru afskipti af högum þeirra á grundvelli barnaverndarlaga bæði hér á landi og í F.

B hefur verið vistuð tímabundið á vegum barnaverndaryfirvalda samkvæmt barna­verndarlögum frá ágúst 2012, ýmist með samþykki kæranda eða samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar eða með dómi. Fram hefur komið að kærandi samþykkti vistun stúlkunnar utan heimils 30. apríl 2013 í eitt ár en hún dró samþykki sitt síðar til baka. Á fundi barnaverndarnefndar 1. október 2013 var tekin fyrir tillaga um vistun stúlkunnar í varanlegu fóstri en kærandi hafnaði því. Var þá kveðinn upp úrskurður um að stúlkan skyldi vistuð á vegnum nefndarinnar í allt að tvo mánuði á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt var ákveðið að fela borgarlögmanni að gera þá kröfu fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá B samkvæmt a- og d-liðum sömu laga. Barnaverndarnefndin kvað upp úrskurð um umgengni kæranda við B 10. desember 2013 og hefur úrskurðinum verið skotið til kærunefndar barnaverndarmála.

Kæra C hdl., fyrir hönd A, var móttekin hjá kærunefnd barnaverndarmála 24. desember 2013. Þar er kærð ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 19. desember 2013 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eftirfarandi kemur fram í hinni kærðu ákvörðun:

,,Að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmannsstofunnar, umfangs málsins og gagna þess, hefur verið ákveðið að veita A styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 22,75 klst. á tímagjaldi kr. 10.000 auk virðisaukaskatts eða samtals kr. 285.513 sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Mál telpnanna fór fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur einu sinni á þessu tímabili þann 1. október 2013.

Veittur er styrkur vegna greinargerðarskrifa samtals 8 klst., 2 tímar vegna mætingar lögmanns á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 1. október 2013, og 1,5 klst. vegna fundar þann 23. september 2013 með móður og starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur samtals 3,5 klst. Vegna símtala og tölvupósta samtals 2,25 klst. Að lokum er veittur styrkur vegna lesturs gagna 9 klst.

Kærandi óskaði þess að greitt yrði fyrir 11 klukkustunda vinnu við greinargerðaskrif. Barnavernd Reykjavíkur ákvað, í samræmi við reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslulögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að veita kæranda styrk sem nemur greiðslu fyrir 8 klukkustunda vinnu á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts fyrir þá vinnu. Fram kemur í athugasemdum Barnaverndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar að það mat hafi byggst á jafnræðissjónarmiðum og á því að lögmannsstofan J, sem fari með málið fyrir kæranda, hafi haft málið til meðferðar í dágóðan tíma og þekki það vel.

Samþykkt var hjá Barnavernd Reykjavíkur að greiða fyrir 3.5 klukkustundir vegna mætingar lögmanns á fund barnaverndarnefnar Reykjavíkur 1. október 2013 og vegna mætingar á fund hjá Barnavernd Reykjavíkur 23. september 2013.

Samkvæmt tímaskýrslu lögmanns fóru 4.45 klukkustundir í símtöl og tölvupóstsamskipti. Fram kemur af hálfu Barnaverndar að að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmannsstofnunnar, umfangi málsins og gögnum, þ.á m. tölvupóstum sem um ræði, hafi verið ákveðið í samræmi við reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga, að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemi 2,25 klukkustundum á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts fyrir þessa vinnu. Það mat hafi m.a. verið byggt á því að matskennt sé hve langur tími fari í að semja tölvupósta og í símtöl.

Samþykktur var sá þáttur í tímaskýrslu lögmanns kæranda þar sem fram kemur að 8. október, 30. september, 27. september og 26. september 2013 hafi lögmaðurinn skoðað gögn í málinu hjá Barnavernd Reykjavíkur í samtals níu klukkustundir.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Barnavernd Reykjavíkur gert að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna 29,5 klukkustunda vinnu á tímagjaldinu 10.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að samþykktur styrkur í bréfi 19. desember 2013 verði staðfestur af hálfu kærunefndarinnar.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að lögmaður hennar hafi sinnt hagsmunagæslu fyrir hana vegna barnaverndarmáls sem hafi staðið yfir í langan tíma. Mál hennar varði þrjú börn hennar sem öll hafi um tíma verið vistuð utan heimilis. Mál eins barna hennar, B, sé umfangsmest þar sem barnið sé Z og m.a. tengt við Y alla daga. Enn fremur hafi hvorki kærandi né lögmaður hennar aðgang að gögnum málsins nema á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar sem geri meðferð málsins flóknari.

Kærandi byggir á því að ekkert bendi til þess að tímaskráning lögmanns sé meiri en raunveruleg vinna í málinu og ennfremur bendi ekkert til þess að um vinnu sé að ræða sem ekki tengist meðferð málsins fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Hvað varði styrk vegna greinargerðaskrifa beri að nefna að skilað hafi verið afar ítarlegri greinargerð, enda hafi hagsmunir kæranda verið verulegir af niðurstöðu fundarins en fyrir hafi legið tillaga um að svipta ætti kæranda forsjá. Sá tími sem skráður hafi verið vegna greinargerðaskrifa og gagnaskoðunar í húsnæði Barnaverndar sé sá rauntími sem tekið hafi að útbúa greinargerð. Því er harðlega mótmælt að skráðir séu fleiri tímar en eðlilegt sé, sérstaklega þegar vinna lögmanns fyrir fundinn hafi verið veruleg eins og sjá megi af greinargerð hans.

Hvað varði styrk vegna fundar hjá barnaverndarnefnd 1. október 2013 virðist sem ekki sé greitt fyrir fund lögmanns með kæranda á undan fundinum, enda einungis samþykktar tvær klukkustundir vegna fundarins. Því er harðlega mótmælt enda sé afar eðlilegt að lögmaður fundi með kæranda fyrir fund þar sem eigi að taka afdrifaríka ákvörðun sem varði framtíð kæranda og dóttur hennar.

Þá tengist allir tölvupóstar og símtöl sem skráð eru í tímaskýrslu beinlínis fundi barnaverndarnefndar og hafi starfsmaður nefndarinnar verið upplýstur um það eftir fyrirspurn vegna kröfu um styrk vegna lögmannsaðstoðar. Mikið af samskiptum sé að frumkvæði starfsmanna Barnaverndar en auk þess sé nauðsynlegt fyrir lögmann að hafa samráð við umbjóðanda sinn bæði fyrir og eftir fund barnaverndarnefndar.

Fram kemur af hálfu kæranda að engu virðist skipta hvaða tímafjölda óskað sé eftir í máli kæranda, ávallt sé tímunum fækkað. Virðist sem starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur séu með þessu að letja lögmann kæranda til þess að vinna af heilindum og í samræmi við siðareglur lögmanna og lög um lögmenn fyrir kæranda. Fáist ekki greitt fyrir eðlilega vinnu lögmanns í tengslum við hagsmunagæslu fyrir þá sem standa í barnaverndarmáli hjá Barnavernd Reykjavíkur sé réttaröryggi kæranda og annarra í verulegri hættu og einnig sé hætta á að reyndir lögmenn í barnaverndarmálaum veigri sér við því að taka slík mál að sér, sem leiði til þess að hugsanlega verði hagsmunagæsla verri.

Lögmaður kæranda bendir á að kærandi hafi ekki fjárráð til þess að standa straum af lögmannskostnaði í máli þessu og mundi það hafa veruleg áhrif á fjárhag hennar þyrfti hún að greiða lögmanni sínum þóknun í þeim tilvikum sem beiðnum um fjárstyrk á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga er hafnað.

Í bréfi lögmanns kæranda til kærunefndar barnaverndarmála 29. janúar 2014 er því mótmælt að hann hafi verið lengi með málefni kæranda. Eftir að hann hafi tekið formlega við málinu hafi fundur 1. október 2013 verið fyrst fundurinn sem hann hafi setið hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur fyrir hönd kæranda. Bent er á að mál kæranda sé afar flókið og af þeim sökum sé eðlilegt að öll vinna tengd málinu taki lengri tíma en ella. Málsskjöl telji þúsundir blaðsíðna auk þess sem vinnuaðstæður lögmannsins séu ekki boðlegar þar sem hann hafi ekki aðgang að gögnum málsins á skrifstofu sinni heldur eingöngu á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur. Ítrekað sé vísað til þess í bréfi barnaverndarnefndar að nefndinni beri ekki að greiða athugasemdalaust reikninga frá lögmannsstofum. Kærandi sé sammála því, en þó sé ekki hægt að leggja hvaða sjónarmið sem er til grundvallar þegar teknar eru ákvarðanir, heldur þurfi að kanna hvort umrædd vinna sé óeðlilega mikil miðað við umfang málsins. Það telji kærandi síður en svo vera í máli þessu eins og sjá megi af tímaskýrslu, greinargerðum og öðrum gögnum sem lögð hafi verið fram. Kærandi gerir sérstaklega athugasemdir við þá staðhæfingu starfsmanns barnaverndarnefndar Reykjavíkur að hún hafi fjárráð til þess að standa straum af lögmannskostnaði. Hún hafi verið láglaunamanneskja til margra ára, auk þess sem gífurlegur kostnaður hafi fylgt því að vera með Z barn. Auk þess sé hún með verulega skuldabyrði.

III. Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 17. janúar 2014 kemur fram afstaða til krafna kæranda fyrir kærunefndinni um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Þar segir að eftir athugun á tímaskýrslu lögmanns kæranda, umfangi málsins og gögnum, hafi verið ákveðið í samræmi við reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga, að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemi samtals 22.75 klukkustundum á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts. Veittar hafi verið átta klukkustundir vegna greinargerðarskrifa, tvær klukkukstundir vegna mætingar lögmanns á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1. október 2013 og 1.5 klukkustund vegna fundar 23. september 2013 eða samtals 3.5 klukkustundir og loks 2.25 klukkustundir vegna símtala og tölvupósta.

Fram kemur að mál kæranda hafi verið til meðferðar á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 frá árinu 2012. Á þeim tíma hafi kærandi notið aðstoðar lögmanna og hafi samtals verið samþykkt að styrkja hana til greiðslu 238 klukkustunda á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts eða sem nemi rétt tæplega 3.000.000 króna. Mál þetta sé fordæmalaust hjá Barnavernd Reykjavíkur hvað varði styrkveitingar vegna lögmannskostnaðar. Bent er á að um sé að ræða skyldu til styrkveitinga en hvergi í lögum sé kveðið á um að barnaverndarnefndum sé skylt að greiða reikninga lögmanna án athugasemda enda sé um styrk að ræða. Þvert á móti sé gert ráð fyrir því í frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum að barnaverndarnefnd setji reglur þar sem meðal annars skuli taka tillit til efnahags foreldra og eðlis og umfangs málsins.

Í máli þessu sé samþykktur styrkur fyrir 22.75 klukkustundir vegna einnar fyrirtöku hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur í máli kæranda í stað 29.5 klukkustundir sem sé tímafjöldi í tímaskýrslu lögmanns kæranda. Fyrrgreindur styrkur sé í samræmi við gildandi reglur um styrkveitingar þó þannig að reglurnar hafi verið túlkaðar eins rúmt og hægt sé vegna eðli máls og umfangs þess og sé styrkveitingin í raun fordæmalaus hjá Barnavernd Reykjavíkur vegna fyrirtöku máls á einum fundi. Barnavernd Reykjavíkur mótmælir harðlega þeim orðum lögmanns í kæru að engu skipti hvaða tímafjölda sé óskað eftir ávallt sé tímunum fækkað. Þá sé að sjálfsögðu ekki verið að letja lögmann kæranda til þess að vinna af heilindum í samræmi við siðareglur lögmanna og lög um lögmenn.

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt bréfi frá 19. desember 2013 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar verði felld úr gildi. Með henni taldi Barnavernd Reykjavíkur að greiða skyldi færri tíma en kærandi telur að lögmaður hennar hafi unnið fyrir hana í málinu. Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar 27. maí 2008. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skulu foreldrar velja sér sjálfir lögmann. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmannsins. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Viðmiðunargjald skuli ákveðið af framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur í samráði við lögfræðinga nefndarinnar. Samkvæmt 1. gr. reglnanna er fjárstyrkur veittur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Af gögnum málsins og hinni kærðu ákvörðun verður ráðið að samþykkt hefur verið af hálfu barnaverndarnefndar í samræmi við ofangreindar reglur að veita kæranda fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem látin var í té vegna andmælaréttar kæranda við meðferð barnaverndarmáls eins og að framan greinir.  Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að fjárhæð styrks var ákveðin á grundvelli athugunar á tímaskýrslu lögmanns, umfangi málsins og gagna þess og skyldi veita styrk til greiðslu sem næmi samtals 22,75 klukkustunda vinnu á 10.000 krónu tímagjaldi auk virðisaukaskatts. Í athugasemdum Barnaverndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 17. janúar 2014 er vísað til þess að jafnræðis hafi verið gætt þegar metið var umfang og eðli málsins og ákveðið að hæfilegt væri að greiða styrk fyrir átta klukkustunda vinnu við greinargerð, sem lögð var fram á fundi barnaverndarnefndar 1. október 2013, sem hafi verið ríflegt miðað við sambærileg mál. Ákveðið hafi verið að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmanns, umfangi málsins og gögnum, þar á meðal tölvupóstum sem um ræði og í samræmi við ofangreindar reglur að veita styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna tölvupóstsamskipta sem nemi 2,25 klukkustundum á 10.000 krónu tímagjaldi auk virðisaukaskatts. Mat á þessu hafi meðal annars verið byggt á því að matskennt sé hve langur tími fari í að semja tölvupósta og símtöl. Einnig er vísað til 1. gr. reglnanna þar sem segi að veita skuli fjárstyrk vegna málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefnd áður en nefndin kveði upp úrskurð. Veita skuli fjárstyrk vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Samþykkt hafi verið að greiða 3,5 klukkustundir vegna mætinga lögmanns á fund barnaverndarnefndar 1. október 2013 og hjá Barnavernd Reykjavíkur 23. september s.á. Þá hafi verið samþykkt að greiða fyrir níu klukkustundir vegna lesturs gagna. Fjárstyrkurinn hafi verið í samræmi við gildandi reglur um styrkveitingu, þó þannig að reglurnar hafi verið túlkaðar eins rúmt og hægt hafi verið vegna eðli málsins og umfangs þess og sé styrkveitingin í raun fordæmalaus hjá Barnavernd Reykjavíkur vegna fyrirtöku máls barnaverndarnefndar á einum fundi. Hér sé um styrk að ræða og ekki sé skylt að greiða athugasemdalaust reikning lögmanns.

Af því sem að framan er rakið verður ekki annað ráðið, en að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við þau sjónarmið sem hafa ber til viðmiðunar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga og Reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar frá 27. maí 2008 þegar fjárstyrkur er ákveðinn. Sama gildir um önnur sjónarmið sem ákvörðunin er byggð á, svo sem um jafnræði, sem verður að teljast lögmætt sjórnarmið. Samkvæmt framangreindum reglum er ekki skylt að greiða að fullu reikning lögmanns vegna aðstoðar hans við aðila barnaverndarmáls samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga. Með þessum reglum er ekki lögð sú skylda á barnaverndarnefnd að leggja mat á það hvort tímaskráning sé eðlileg, enda gert sérstaklega ráð fyrir því, eins og áður er komið fram, að fjárhæð styrkjar skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins. Engin efnisleg rök þykja heldur komin fram fyrir því að líta beri svo á að réttaröryggi kæranda verði í verulegri hættu verði ekki fallist á þann tímafjölda sem farið er fram á af hálfu kæranda við ákvörðun styrksins. Hin kærða ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur er með vísan til alls þessa staðfest.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi 19. desember 2013, um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna meðferðar máls kæranda, A, fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira