Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 154/2019 - Úrskurður

Formannmarki

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 154/2019

Miðvikudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála þá afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að stofnuninni væri ekki heimilt að sjá um milligöngu meðlagsgreiðslna meira en ár aftur í tímann frá umsókn.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði Sýslumannsins B, dags. X, var barnsföður kæranda gert að greiða henni meðlag með barni þeirra frá X til 18 ára aldurs þess. Kærandi kærði þá ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins sem úrskurðaði í málinu þann X 2019 og kvað á um breytingu á upphafstíma meðlagsgreiðslna til hennar, þ.e. frá X. Með tölvupósti upplýsti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að stofnuninni væri einungis heimilt að annast milligöngu meðlagsgreiðslna eitt ár aftur í tímann frá því að ákvörðun um meðlagsskyldu berst stofnuninni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. apríl 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun verði gert að annast milligöngu meðlagsgreiðslna frá X.

Ástæða kröfu kæranda sé sú að það hafi tekið sýslumann meira en eitt og hálft ár að úrskurða um meðlagsgreiðslur til hennar. Kærandi hafi kært úrskurðinn til dómsmálaráðuneytisins sem hafi fallist á kröfu hennar en það hafi tekið ráðuneytið eitt ár að úrskurða í málinu. Í ljósi þess hve langan tíma það geti tekið fyrir embætti að úrskurða í svona málum sé tímarammi Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur eitt ár aftur í tímann ansi þröngur.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins komi fram að kærandi eigi ekki að bera hallann af seinagangi sýslumanns. Tryggingastofnun geri það samt sem áður þar sem þeir neiti að hafa milligöngu meðlagsins. Kærandi sé nokkuð viss um að mál hennar sé ekki einsdæmi. Kærandi fari fram á að mál hennar verði skoðað og að athugað verði hvort lögum þurfi ekki að breyta eða gera undantekningarákvæði vegna sambærilegra mála.

Í ljósi þess hve mál þetta hafi tekið langan tíma fari kærandi fram á að það verði skoðað í það minnsta að hafa milligöngu á meðlagi frá X. Ástæða þess að kærandi velji þennan tímaramma sé sú að hún hafi fengið fyrri úrskurðinn í X og ef hann hefði kveðið á um það sem nýrri úrskurðurinn hljóði upp á þá hefði hún fengið greitt ár aftur í tímann eins og lögin segi til um. Þá hafi kærandi hvorki fjárhagslega burði né heilsu til að höfða einkamál á hendur barnsföður sínum.

III.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af kæru að hún lúti einungis að upplýsingum sem kærandi hafi fengið í tölvupósti frá Tryggingastofnun ríkisins um það hve langt aftur í tímann Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag til kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að í tölvubréfi Tryggingastofnunar felist einungis svar við fyrirspurn kæranda en ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Afgreiðslan er því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Í þeim tilgangi að upplýsa málið nægilega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hvort stofnunin hefði tekið stjórnvaldsákvörðun varðandi milligöngu meðlagsgreiðslna í kjölfar úrskurðar dómsmálaráðuneytisins, dags. X 2019. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur engin umsókn borist frá kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna og því liggur ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira