Hoppa yfir valmynd

Nr. 46/2018 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 46/2018

Föstudaginn 4. maí 2018

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 12. febrúar 2018 kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 1. febrúar 2018 vegna umgengni við dóttur hans, C.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

C er X ára stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Hún var fyrst vistuð í tímabundnu fóstri X 2016 en síðan í varanlegu fóstri hjá sömu fósturforeldrum á D. Móðir stúlkunnar, sem fór ein með forsjá hennar, var svipt forsjánni með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2017, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands X 2017. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar en kynforeldrar voru ekki í skráðri sambúð.

Báðir foreldrar stúlkunnar hafa átt við fíkniefnavanda að glíma. Afskipti barnaverndaryfirvalda af stúlkunni hófust þegar á meðgöngu er kannabisefni mældist hjá kynmóður.

Stúlkan var vistuð á E frá X 2016 og þar til hún fór í tímabundið fóstur. Á þeim tíma er hún dvaldi á E stóð kæranda til boða að heimsækja stúlkuna en það gerði hann ekki. Í X 2016 þegar barnavernd hafði ákveðið að fara fram á forsjársviptingu kynmóður og koma stúlkunni í fóstur var ítrekað reynt að hafa símasamband við kæranda. Það tókst loks X 2016 og í símtalinu var honum gerð grein fyrir stöðunni. Kærandi kvaðst vilja fá stúlkuna í sína umsjá og var ósáttur við að hún færi í varanlegt fóstur. Kærandi hefur átt við vímuefnavanda að etja frá unga aldri en hann hefur verið edrú frá X 2016.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að upplýsingum beri ekki saman um að hversu miklu leyti kærandi hafi komið að umönnun stúlkunnar áður en hún var vistuð utan heimilis en hann kveðst hafa sinnt stúlkunni mikið þar til kynforeldrar slitu samvistum í byrjun X 2016. Hann kveðst síðast hafa hitt stúlkuna í X2016. Á meðan stúlkan hafi verið á E hafi hann glímt við vímuefnafíkn en leitað sér meðferðar mánuði eftir að stúlkan hafi flust á fósturheimilið í X 2016. Aðstæður kæranda á þeim tíma er taka hafi þurft ákvörðun um vistunarstað stúlkunnar hafi verið þannig að hann hafi ekki verið fær um að búa stúlkunni viðunandi uppeldisaðstæður.

Þá er vísað til 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Þar sé kveðið á um rétt fósturbarns og foreldra þess til umgengni sem samræmist hagsmunum barnsins og þörfum. Í skýringum með frumvarpi til bvl. sé áréttað að þess skuli gætt að umgengni sé í samræmi við markmið með fóstri. Þegar staðfest sé að foreldrar barns hafi ekki getað búið því viðunandi uppeldisaðstæður kunni hagsmunir barnsins að krefjast þess að umgengni sé takmörkuð. Sé þá haft í huga það höfuðmarkmið varanlegs fósturs að barn aðlagist og tilheyri þeirri fjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um umgengni hafi verið úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C hafi umgengni við föður sinn A, tvisvar sinnum á ári, í tvo tíma í senn, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur, í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Skilyrði er að faðir sé edrú og í jafnvægi. Eftir fæðingu barns föður og sambýliskonu hans er barninu og móður þess heimilt að vera með í umgengni.“

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði hrundið og hann hafi umgengni við dóttur sína aðra hverja helgi á heimili sínu. Umgengni verði án eftirlits. Ekki séu þó gerðar athugasemdir við það að umgengni fari fram undir eftirliti til að byrja með þar til reynsla komist á hana. Ekki séu heldur gerðar athugasemdir við að umgengni fari fram á D né að umgengni sé ákveðin með takmarkaðri hætti fyrst um sinn á meðan stúlkan aðlagist kæranda.

Við fæðingu stúlkunnar hafi kærandi og kynmóðir stúlkunnar verið í óskráðri sambúð. Því hafi kærandi aldrei haft forsjá stúlkunnar. Þrátt fyrir það hafi kærandi mikið komið að umönnun hennar í upphafi, en kærandi hafi verið aðal umönnunaraðili stúlkunnar frá því að hún fæddist og fram að X 2016. Á þessum tíma hafi kærandi myndað ákaflega sterk tengsl við stúlkuna.

Þrátt fyrir að vilji kæranda hafi staðið til þess að taka fullan þátt í uppeldi stúlkunnar, hafi þátttaka hans í lífi stúlkunnar minnkað umtalsvert X 2016. Ástæðu þess megi rekja til háttsemi kynmóður en kærandi hafi verið hrepptur í gæsluvarðhald um tíma vegna rangra ásakana [...]. Ekkert hafi verið aðhafst af hálfu lögreglu í málinu síðan þá og hafi kærandi ekki verið ákærður fyrir refsiverða háttsemi gagnvart [...]. Eftir gæsluvarðhaldið hafi kynmóðir neitað kæranda um umgengni vegna þess að kærandi hafi ekki viljað [...] fyrir að fá að umgangast stúlkuna. Vegna þessa hafi líðan kæranda eftir atvikum verið slæm og hafi hann fallið á bindindi og byrjað neyslu fíkniefna í tiltölulega skamman tíma. Kærandi vilji þó benda á að hann hafi aldrei neytt fíkniefna þegar hann hafi verið með stúlkuna. Kærandi hafi nú verið edrú síðan í X 2016.

Mál stúlkunnar hafi verið í vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur síðan á meðgöngu vegna vímuefnaneyslu kynmóður. Vegna þessa hafi stúlkan verið vistuð á E X mánaða gömul, í X 2016. Í X 2016 hafi stúlkan svo verið vistuð í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum. Kynmóðir stúlkunnar, sem hafði farið ein með forsjá hennar frá fæðingu, hafi verið svipt forsjá með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2017. Stúlkan hafi verið í varanlegu fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því að móðir var svipt forsjá eða frá X 2017. Kæranda hafi ekki verið tilkynnt að stúlkan væri komin í varanlegt fóstur. Við meðferð málsins hafi ekki verið leitað eftir umsögn kæranda líkt og skylt sé samkvæmt 4. mgr. 67. gr. a. bvl., né hafi barnaverndaryfirvöld kannað grundvöll þess að ráðstafa stúlkunni til kæranda samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 67. gr. a. bvl. Brýnt sé að fram komi að kærandi hafi verið orðinn edrú áður en stúlkunni hafi verið komið fyrir í varanlegu fóstri.

Frá því að þátttaka kæranda í lífi stúlkunnar hafi minnkað X 2016 hafi kærandi einungis þrisvar haft umgengni við stúlkuna; í X 2016, X 2016 og X 2017. Umgengni hafi gengið vel í öll skiptin.

Aðstæður hjá kæranda séu nú til fyrirmyndar. Hann hafi látið af slæmu líferni sínu og hafi verið edrú síðan í X 2016. Kærandi sé í óvígðri sambúð með konu sem einnig sé edrú en þau eigi von á barni saman. Þau búi í snyrtilegri og vel útbúinni fjögurra herbergja íbúð og faðir, stjúpmóðir og hálfsystir kæranda búi skammt frá. Kærandi hafi sterk og góð tengsl við þau.

Við úrlausn málsins verði, eins og endranær í barnaverndarmálum, að hafa að leiðarljósi það sem stúlkunni sé fyrir bestu. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varða börn. Einnig skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi skv. 1. mgr. 4. gr. bvl.

Við blasi að um mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða fyrir kæranda og dóttur hans. Ákvörðunin feli í sér verulegt inngrip í réttindi þeirra beggja auk þess að hafa mjög viðhlutamikil áhrif á líf stúlkunnar. Kærandi telji að umræddur úrskurður gangi gegn sameiginlegum hagsmunum feðginanna og að það sé stúlkunni fyrir bestu að hafa tíðari umgengi við sig á heimili sínu.

Til þess að hægt sé að komast að því hvað sé best fyrir barn hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi í málinu gerst brotleg við rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telji einnig að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við grundvallarreglu um skyldubundið mat stjórnvalda við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana. Ákvörðun um umgengni barns í varanlegu fóstri við forsjárlaust foreldri sé matskennd stjórnvaldsákvörðun. Af því leiði að það sé barnaverndaryfirvöldum nauðsynlegt í hverju máli að taka ákvörðun með tilliti til allra aðstæðna. Vegna þessa sé óviðunandi að niðurstaða um umgengni við ungt barn í varanlegu fóstri sé gjarnan sú sama, óháð því hverjar aðstæður séu hverju sinni. Kærandi telji slíka málsmeðferð skýrt brot á meginreglu um skyldbundið mat stjórnvalda. Kærandi bendi á að brot á rannsóknarreglu og reglu um skyldubundið mat stjórnvalda, teljist verulegur annmarki á meðferð máls sem leiði eitt og sér til þess að úrskurður sé ógildanlegur.

Varðandi rannsóknarreglu telji kærandi að barnaverndaryfirvöld hafi ekki rannsakað með fullnægjandi hætti þann möguleika að stúlkan hefði reglulegri umgengni við sig. Einnig telji kærandi skorta á að barnaverndaryfirvöld hafi rannsakað hvaða áhrif það hafi á stúlkuna til lengri tíma litið að fá svo litla umgengni við kæranda og væntanlegt systkini sitt hjá kæranda. Kærandi kalli því eftir því að rannsakað sé hvaða áhrif hinn íþyngjandi úrskurður barnaverndaryfirvalda hafi á stúlkuna, enda sé það nauðsynlegt til þess að hægt sé að meta hvort svo lítil umgengni sé í raun til þess fallin að bæta hag stúlkunnar eða hvort betra sé fyrir hana að hafa tíðari umgengni við kæranda og væntanlegt systkini.

Varðandi skyldubundið mat stjórnvalda vilji kærandi vekja athygli á því að ákvörðun um umgengni barns í fóstri við kynforeldri sitt samkvæmt 74. gr. bvl. sé matskennd stjórnvaldsákvörðun. Kærandi telji að mál sitt beri þess merki að barnaverndaryfirvöld hafi í reynd afnumið skyldubundið mat sitt þar sem niðurstaða í máli hans sé sú sama og alþekkt sé í málum er varði umgengni forsjárlauss foreldris við ungt barn í varanlegu fóstri, þ.e. í tvö skipti á ári, í tvo tíma í senn, í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Þetta sé þrátt fyrir að málsatvik í máli kæranda séu að mörgu leyti sérstök, ekki síst vegna þess að hann hafi ekki verið sviptur forsjá yfir dóttur sinni. Við töku slíkrar ákvörðunar beri að líta til ýmissa þátta, meðal annars hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Lengd fósturs sé þó eingöngu einn af þeim þáttum sem líta beri til en mikilvægt sé að litið sé til aðstæðna allra til þess að hægt sé að meta hversu mikil umgengni samræmist hagsmunum stúlkunnar.

Í ljósi alls þess sem að framan hafi verið rakið telji kærandi ótækt að umgengni sín við stúlkuna sé ákveðin tvö skipti á ári, í tvær klukkustundir í senn, í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Ákvörðun barnaverndaryfirvalda í máli þessu sé rökstudd með vísan til þess að markmið með umgengni í varanlegu fóstri sé almennt ekki að barn myndi tengsl við foreldri, heldur að barn þekki uppruna sinn og að ekki séu fordæmi fyrir því að ákveðin sé umgengni með þeim hætti er kærandi leggi til. Telji kærandi skorta á að tekið sé tillit til aðstæðna í málinu. Í því skyni vilji kærandi sérstaklega benda á nokkra þætti.

Kærandi telji í fyrsta lagi að taka verði tillit til þess að hann hafi verið aðal umönnunaraðili stúlkunnar fyrstu X mánuði í lífi hennar en slíkt hljóti að teljast langur tími í ævi svo ungs barns. Kærandi veki í öðru lagi athygli á því að það sé vísað til þess í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að engin fordæmi séu fyrir þeirri umgengni sem kærandi leggi til þegar um sé að ræða ungt barn í varanlegu fóstri. Kærandi telji þessi rök ganga gegn meginreglunni um skyldubundið mat stjórnvalda en þótt ekki séu fordæmi fyrir slíkri umgengni, geti það ekki staðið í vegi fyrir að ákveðin sé tíðari umgengni í máli stúlkunnar, enda samræmist það hag hennar. Í þriðja lagi hafi stúlkunni verið komið í fóstur vegna þess að kynmóðir hennar hafi ekki skapað henni viðunandi uppeldisaðstæður og hafi því verið svipt forsjá stúlkunnar. Ástæða þess að stúlkan hafi verið sett í varanlegt fóstur hafi ekki verið byggð á skertri hæfni kæranda. Kærandi hafi verið edrú þegar stúlkunni hafi verið komið í varanlegt fóstur, hann sé edrú í dag og staða hans nú að öllu leyti góð. Þrátt fyrir það sé ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna sé sú sama og umgengni kynmóður við hana. Jafnframt telji kærandi að rökstuðningur í hinum kærða úrskurði, um að þegar barni hafi verið ráðstafað í varanlegt fóstur verði almennt að gera ráð fyrir að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður, eigi ekki við í sínu tilviki enda hafi hann verið orðinn edrú þegar stúlkunni hafi verið ráðstafað í varanlegt fóstur. Barnaverndaryfirvöld hafi ekki kannað hvort kærandi gæti veitt stúlkunni viðunandi uppeldisaðstæður þrátt fyrir að þeim hafi verið það lögskylt en kærandi sé fyllilega fær um að veita stúlkunni viðunandi uppeldisaðstæður. Í fjórða lagi telji kærandi að aukin umgengni hans við stúlkuna þurfi ekki að standa í vegi fyrir því að stöðugleiki ríki í lífi hennar og að hún aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu. Umgengni feðginanna hafi alltaf gengið vel og ekki að sjá að umgengnin valdi óstöðugleika, vanlíðan eða tilfinningalegu ójafnvægi í lífi stúlkunnar. Loks veki kærandi athygli á því að hann hafi boðist til þess að sinna umgengni á D, telji barnaverndaryfirvöld það betra fyrir hag stúlkunnar.

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns, eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 64. gr. a. bvl. Einnig hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls. Í þessu máli hafi stúlkunni ekki verið skipaður talsmaður sökum ungs aldurs en hún sé nú á X ári. Liggi vilji hennar því ekki ljós fyrir en þó sé ljóst að umgengni stúlkunnar við kæranda hafi alltaf gengið vel og ekki valdið ójafnvægi eða vanlíðan hjá stúlkunni. Varðandi tengsl feðginanna þá komi fram í greinargerð starfsmanna barnaverndar 24. janúar 2018 að það sé mat þeirra að ólíklegt sé að stúlkan sé yfir höfuð tengd kæranda. Því séu ekki neinar forsendur til að fallast á beiðni kæranda um umgengni. Af því megi draga þá ályktun að barnaverndaryfirvöld telji lítil tengsl feðginanna hafa áhrif á hvort fallast eigi á beiðni kæranda. Kærandi sé þessu mati barnaverndaryfirvalda ósammála. Hann telji þvert á móti að sterk tengsl ríki þeirra á milli þar sem kærandi hafi verið aðal umönnunaraðili stúlkunnar X árið í lífi hennar, en X ár verði að teljast langur tími í lífi svo ungs barns. Vilji kærandi vekja athygli á því varanlega rofi sem óhjákvæmilega verði á tengslum feðginanna fái hinn kærði úrskurður að standa óhaggaður. Kærandi telji að slíkt tengslarof kunni að verða stúlkunni skaðlegt til lengri tíma litið. Vegna ungs aldurs stúlkunnar sé mikilvægt að lofa henni að endurmynda, eða styrkja tengsl við kæranda, sérstaklega í ljósi þess að afstaða fósturforeldra sé sú að hægt sé að endurskoða umgengni þegar stúlkan verði eldri og geti tjáð hug sinn. Það sé mikilvæg forsenda þess að stúlkan geti síðar tekið ákvörðun um hvort hún vilji aukna umgengni við kæranda og að unnið sé að því að búa til eða viðhalda tengslum hennar við kæranda, ella hafi stúlkan engar forsendur til þess að óska eftir aukinni umgengni síðar. Með því að takmarka svo verulega umgengni nú sé í raun verið að taka viðahlutamikla ákvörðun sem takmarki varanlega möguleika stúlkunnar til þess að hafa sterk tengsl við uppruna sinn til lengri tíma litið. Kærandi telji að tíðari umgengni, sem sé til þess fallin að mynda sterk tengsl stúlkunnar við sig, væntanlegt systkini og uppruna sinn, geti ekki með nokkru móti talist andstæð hag stúlkunnar. Auk þess telji kærandi ekkert vera því til fyrirstöðu að stúlkan fái að njóta þess að eiga sterk tengsl við uppruna sinn með því að hafa reglulega umgengni við sig, samhliða því að stúlkan aðlagist fósturheimili, tilheyri fósturfjölskyldu og búi við stöðugleika og góðar aðstæður á fósturheimili sínu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. sé það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns. Kærandi telji að í máli stúlkunnar verði að leitast við að stuðla að stöðugleika í lífi hennar. Kærandi telji hinn kærða úrskurð til þess fallinn að valda talsverðum óstöðugleika í lífi hennar. Í ljósi þess að fósturforeldrar tali um stúlkuna sem „rútínubarn“ sem þoli illa rót og breytingar í sínu lífi, telji kærandi sérstaklega mikilvægt að festa og stöðugleiki ríki um umgengni þeirra á milli og að umgengni verði reglulegur hluti af lífi stúlkunnar. Telji kærandi að sé umgengni aðeins höfð tvisvar á ári sé það til þess fallið að valda umtalsverðu róti í lífi stúlkunnar þegar umgengni eigi að fara fram. Eigi það ekki síst við ef umgengnin eigi að fara fram tvisvar á ári í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Telji kærandi mun betra fyrir stúlkuna að stöðugleiki og rútína ríki um umgengnina og að hún sé tíðari þannig að hún geti verið reglulegur hluti af lífi stúlkunnar. Því samræmist það mun betur stöðugleikasjónarmiðum að umgengnin sé tíðari og að stúlkan fái annað hvort að venjast því að vera á heimili kæranda eða að hann komi til D í umgengni, að minnsta kosti fyrst um sinn, til þess að ekki verði rót á lífi stúlkunnar í kringum umgengni.

Í máli þessu verði einnig að líta til meðalhófsreglu, en barnaverndarnefnd sé bundin af meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 38. gr. bvl. Í því felist að barnaverndaryfirvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skuli ekki beita íþyngjandi úrræðum lengur en nauðsynlegt sé. Kærandi telji að umgengni sem takmörkuð sé við tvö skipti á ári, í tvo tíma í senn, samræmist ekki meðalhófssjónarmiðum. Telji hann þá ákvörðun íþyngjandi í garð þeirra beggja. Kærandi telji að það hefði samræmst mun betur meðalhófsreglunni, ef reynt hefði verið að skapa meiri stöðugleika í lífi stúlkunnar með aukinni og reglulegri umgengni, áður en samband stúlkunnar við kæranda sé takmarkað svo verulega. Að mati kæranda leggi meðalhófsreglan þær skyldur á barnaverndaryfirvöld að kanna hvort það fyrirkomulag sem hann leggi til um tíðari umgengni komi sér betur fyrir stúlkuna. Það sé barnaverndaryfirvöldum í lófa lagið að heimila umgengni með þeim hætti áður en svo íþyngjandi ákvörðun sé tekin, enda hafi barnaverndarnefnd alla möguleika á að fylgjast náið með. Þar sem stúlkan sé rútínubarn sé það einmitt tíðari umgengni, sem verði reglulegri þáttur í hennar lífi, sem sé til þess fallin að valda stúlkunni minni truflunum en umgengni tvisvar á ári.

Kærandi telji að rökstuðningi í hinni kærðu ákvörðun sé verulega ábótavant. Ekki sé með nokkru móti rökstutt hvers vegna nauðsynlegt sé að umgengni fari fram undir eftirliti og verði í húsnæði á vegum barnverndar, þrátt fyrir að kærandi hafi óskað þess að umgengni fari fram á heimili hans. Rökstuðningur nefndarinnar vísi til sjónarmiða um stöðugleika og öryggi í lífi stúlkunnar en ekki sé rökstutt hvernig sú tilhögun á umgengni sem kærandi leggi til komi í veg fyrir að stúlkan geti notið stöðugleika og öryggi í lífi sínu. Þá sé ranglega tiltekið í rökstuðningi barnaverndaryfirvalda að engin tengsl séu á milli stúlkunnar og kæranda og að hann hafi ekki getað veitt henni viðunandi uppeldisaðstæður. Þegar kynmóðir hafi verið svipt forsjá stúlkunnar hafi ekki verið kannað hvort kærandi gæti veitt henni viðunandi uppeldisaðstæður þrátt fyrir að hann hafi verið edrú á þeim tíma sem stúlkunni hafi verið komið fyrir í varanlegu fóstri. Að öðru leyti sé rökstuðningur í hinum kærða úrskurði að mestu leyti almennur og vísi til almenna markmiða með varanlegu fóstri án þess að tekin sé fullnægjandi afstaða til þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi séu í málinu. Rökstuðningi sé svo verulega ábótavant að kærandi efist um að hinn kærði úrskurður hafi verið tekinn á réttmætum forsendum.

Málatilbúnaður barnaverndar byggist fyrst og fremst á almennum röksemdum um markmið með varanlegu fóstri og tilgangi umgengni. Minna beri á rökstuðningi um hvers vegna þessi tiltekna umgengni sé best til þess fallin að ná þeim markmiðum. Þetta gagnrýni kærandi og bendi á að ekki sé nóg að lögmætt markmið búi að baki hinni kærðu ákvörðun heldur þurfi sú leið sem sé valin í þessu tiltekna máli að vera sú leið sem best sé til þess fallin að ná því markmiði. Að þessu leyti telji kærandi rökstuðning ófullnægjandi og sömuleiðis að barnaverndaryfirvöld hafi brotið gegn sjónarmiðum um skyldubundið mat og meðalhóf. Kærandi telji jafnframt að hinn kærði úrskurður sé í eðli sínu íþyngjandi fyrir sig og dóttur sína þar sem kveðið sé á um verulega takmarkaða umgengni. Því fylgi auknar skyldur barnaverndaryfirvalda til þess að rannsaka og rökstyðja að sú umgengni sem ákveðin sé þjóni sannarlega hagsmunum stúlkunnar og að sama skapi af hverju rúm umgengni sé andstæð hennar hagsmunum. Á þetta skorti verulega í hinum kærða úrskurði. Í raun telji kærandi ekkert fram komið sem sýni fram á að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar eða í ósamræmi við markmið með umgengni. Sjónarmið um lengd fósturs sé aðeins einn af þeim þáttum sem líta beri til við mat á því hvernig haga skuli umgengni kynforeldris við barn í varanlegu fóstri. Ávallt verði að gera heildstætt mat á aðstæðum með tilliti til hagsmuna þess barns sem málið varði.

Þá vilji kærandi sérstaklega gera athugasemdir við eftirfarandi rökstuðning í hinum kærða úrskurði þar sem segi: „Með því að takmarka umgengni kæranda við stúlkuna eins og gert er með hinum kærða úrskurði er stefnt að því að hún fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda er fallin til að valda henni. Markmið með því er að tryggja hagsmuni stúlkurnar, öryggi hennar og þroska möguleika.“ Þessu mótmæli kærandi sem röngu, enda hafi umgengni hingað til gengið vel og ekki liggi fyrir neinar vísbendingar um að umgengni kæranda við stúlkuna sé til þess fallin að raska friði hennar eða valda henni truflunum.

Kærandi sé því ósammála að bætt forsjárhæfni og bætt staða hans í lífinu skipti engu máli við úrlausn málsins. Hann telji breytta stöðu sína til þess fallna að sýna fram á hæfni hans til þess að sinna umgengni af kostgæfni, leiða líkur að því að umgengni geti farið vel fram og að með umgengni geti stúlkan fengið að njóta góðra samvista við hann. Kærandi telji eðlilegt að litið sé til þessa við úrlausn málsins, líkt og litið væri til þess ef aðstæður hans í lífinu væru slæmar og hann enn í fíkniefnaneyslu.

Líta verði til þess að fósturforeldrar stúlkunnar hafi tekið fram að þeir telji möguleika á því að auka umgengni þegar stúlkan sé orðin eldri ef vilji hennar standi til þess. Kærandi telji að hafa verði þessa afstöðu fósturforeldra í huga við úrlausn málsins. Verði samskipti hans við stúlkuna takmörkuð svo sem hinn kærði úrskurður kveði á um, verði tengsl á milli þeirra varanlega rofin. Því muni stúlkan ekki hafa neinar forsendur til þess að vilja aukna umgengni síðar.

Kærandi telji að í málinu standi sameiginlegir hagsmunir sínir og stúlkunnar til þess að umgengni verði ákveðin rýmri. Samkvæmt því sem fram hefur komið telji kærandi málið ekki nægjanlega vel unnið til að hægt sé að taka svo íþyngjandi ákvörðun um umgengni. Blasi því við að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 9. mars 2018 er vísað til þess að samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Taka skuli mark á því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.

Hinn kærði úrskurður byggi á þeirri grundvallarforsendu að stefnt sé að því að stúlkan alist upp á núverandi fósturheimili til 18 ára aldurs. Í varanlegu fóstri sé markmið fósturs að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn væri að ræða. Stúlkan hafi aðeins verið tæplega X mánaða þegar hún hafi farið í umsjá fósturforeldra en hún sé nú orðin X ára. Áður hafi hún verið vistuð um X mánaða skeið, frá X mánaða til tæplega X mánaða aldurs, á E. Þegar svo ung börn séu vistuð á E séu foreldrar, annað eða bæði, með barninu ef mögulegt sé til þess að koma í veg fyrir að geðtengsl rofni á þessum mikilvæga og viðkvæma tíma í lífi barns. Í þessu tilviki hafi foreldrar ekki verið til staðar vegna vímuefnaneyslu. X mánuðir í lífi svo ungs barns séu langur tími og ljóst að hvorugt kynforeldra hafi verið í stakk búið til að búa stúlkunni örugg uppeldisskilyrði að þeim tíma loknum. Henni hafi því verið fundið fósturheimili þar sem fósturforeldrar hafi verið reiðubúnir til að annast hana til fullorðinsára.

Ekki sé unnt að líta fram hjá því að jafnvel þó að tengsl hafi myndast á milli feðginanna á fyrstu ævimánuðum stúlkunnar þá hafi þau tengsl rofnað þegar kærandi hafi horfið úr lífi hennar vegna vímuefnaneyslu X 2016. Afar jákvætt sé að kærandi hafi náð að gera breytingar á lífi sínu og það sé mikilvægt fyrir barnið að hann sé í ástandi til að sinna umgengni á tímabili fósturs. Við mat á umgengni í varanlegu fóstri breyti þó í sjálfu sér engu þótt kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Markmið með umgengni við kæranda í varanlegu fóstri sé ekki að styrkja tengsl eða byggja upp tengsl að nýju heldur fyrst og fremst að stúlkan þekki uppruna sinn. Stúlkan búi nú við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra og þekki þau sem einu foreldra sína, enda einungis X ára gömul. Stúlkan hafi undanfarið ár verið að byggja upp ný geðtengsl við fósturforeldra og sé stöðugleiki í lífi hennar mikilvægur fyrir áframhaldandi jákvæðan félags- og tilfinningaþroska. Þeirri tengslamyndun megi ekki raska umfram það sem nauðsyn krefji. Ekki séu áform um að vinna að því að stúlkan tilheyri fleiri fjölskyldum.

Umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna hagsmunum þeirra. Sérstaklega þurfi að tryggja að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í kæru málsins sé því meðal annars haldið fram að barnaverndaryfirvöld hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína við meðferð málsins auk þess sem þau hafi með málsmeðferð sinni afnumið það skyldubundna mat sem þeim sé skylt að framfylgja við töku ákvarðana um umgengni. Þessu hafni Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sem telji sig hafa fylgt skráðum og óskráðum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar í hinum kærða úrskurði. Umgengnin hafi samkvæmt því verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra sé ákveðin. Að því er varði rannsókn málsins beri gögn þess með sér að bæði aðstæður kæranda og stúlkunnar hafi verið kannaðar með viðhlítandi hætti.

Með því að takmarka umgengni kæranda við stúlkuna eins og gert sé með hinum kærða úrskurði sé stefnt að því að hún fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda sé fallin til að valda henni. Markmiðið með því sé að tryggja hagsmuni stúlkunnar, öryggi hennar og þroskamöguleika. Beri að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Með vísan til þess er að framan greinir, forsendna hins kærða úrskurðar, 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi krefjist Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur

 

IV.  Sjónarmið fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 25. apríl 2018 kemur fram að þau telji umgengni tvisvar á ári nóg. Stúlkan hafi komið til þeirra X mánaða og hafði þá verið skilin eftir á E í X og hálfan mánuð. Hún sé hjá þeim í varanlegu fóstri og því sé tilgangurinn með umgengni ekki að viðhalda tengslum heldur að stúlkan þekki uppruna sinn.

Stúlkan sé mikið rútínubarn og það sé mikið rót fyrir hana að þurfa að fara til Reykjavíkur oftar en í fjögur skipti, þar sem kynmóðir og kynfaðir hafi umgengni í tvö skipti á ári hvort um sig.

 

V. Sjónarmið C

Vegna ungs aldurs stúlkunnar var henni ekki skipaður talsmaður. Hún er aðeins X ára og því erfitt að fá fram afstöðu hennar til að hitta kæranda.

 

VI. Niðurstaða

C er fædd X. Hún hefur verið hjá sömu fósturforeldrum, fyrst í tímabundu fóstri frá X 2015, en í varanlegu fóstri frá X 2017.

Með hinum kærða úrskurði frá 1. febrúar 2018 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn, undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur, í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Það skilyrði var sett að kærandi væri edrú og í jafnvægi. Í úrskurðinum er byggt á því að stúlkan hafi átt áfallasama frumbernsku þar sem tengslarof við umönnunaraðila hafi átt sér stað. Hún hafi aðeins verið X mánaða þegar hún hafi farið úr forsjá kynmóður og kynfaðir hafi ekki haldið tengslum við stúlkuna þá X mánuði sem hún hafi dvalið á E, en það teljist langur tími í lífi svo ungs barns.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að stúlkan hafi frá tæplega X árs aldri verið í umsjá fósturforeldra sem hafi tekið að sér það vandasama hlutverk að skapa henni tryggar og öruggar uppeldisaðstæður til 18 ára aldurs hennar. Fósturforeldrarnir séu einu foreldrarnir sem stúlkan þekki. Kærandi hafi verið í óreglu þegar stúlkan fór í fóstur en hann hafi farið í meðferð X eftir að stúlkan hafi flust á fósturheimilið. Hann hafi ekki farið með forsjá hennar og hafi þar af leiðandi ekki verið sviptur forsjá. Samkvæmt 67. gr. a. bvl. beri að kanna grundvöll þess að forsjárlaust foreldri taki við forsjá barns í þeim tilvikum þegar forsjárhafi geti ekki sinnt barninu. Í því máli sem hér um ræði hafi kærandi ekki vitjað stúlkunnar í marga mánuði og verið í virkri vímuefnaneyslu þegar taka hafi þurft ákvörðun um vistunarstað stúlkunnar. Aðstæður hans hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki verið fær um að búa stúlkunni viðunandi uppeldisaðstæður.

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði hrundið og hann hafi umgengni við dóttur sína aðra hverja helgi á heimili sínu án eftirlits. Hann gerir þó ekki athugasemdir við það að umgengni fari fram undir eftirliti til að byrja með þar til reynsla komist á hana. Ekki séu heldur gerðar athugasemdir við að umgengni fari fram á D né að umgengni sé ákveðin með takmarkaðri hætti fyrst um sinn á meðan stúlkan aðlagist kæranda.

Kærandi telur að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð málsins. Hann álítur að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og grundvallarreglu um skyldubundið mat stjórnvalda við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana. Hann telur einnig að meðalhófsregla 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Loks telur kærandi að hin kærða ákvörðun sé andstæð hagsmunum stúlkunnar.

Varðandi rannsóknarreglu telur kærandi að ekki hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti þann möguleika að stúlkan hefði reglulegri umgengni við sig. Þá hafi ekki verið rannsakað hvaða áhrif það muni hafa á stúlkuna til lengri tíma litið að umgengni við sig sé svo lítil.

Rannsóknarreglan er lögfest í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

Áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp var staða kæranda könnuð. Fyrir liggur að hann var í virkri fíkniefnaneyslu á þeim tíma er unnið var að því að koma stúlkunni í fóstur. Frá árinu X hafði lögregla margsinnis afskipti af honum. Einnig liggur fyrir að staða kæranda er nú betri, en hann hefur verið edrú um X árs skeið og á heimili með núverandi sambýliskonu. Staða og aðstæður kæranda lágu því fyrir þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi brotið rannsóknarreglu við meðferð málsins. Að því er varðar þá málsástæðu kæranda að ekki hafi verið rannsakað hvaða áhrif það muni hafa á stúlkuna til lengri tíma litið að umgengni við kæranda sé svo lítil verður ekki séð að hún eigi við í málinu. Eðli málsins samkvæmt tekur rannsóknarskylda ekki til þess sem kann að eiga sér stað í framtíðinni heldur miðar hún að því að upplýsa um atvik og aðstæður sem liggja fyrir í málinu.

Þá telur kærandi að barnavernd hafi brotið gegn grundvallarreglunni um skyldubundið mat stjórnvalda við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana þar sem ákvörðun um umgengni við barn í varanlegu fóstri sé matskennd stjórnvaldsákvörðun. Að áliti kæranda er niðurstaða í málinu sú sama og algengt er í málum af sama toga þrátt fyrir að málsatvik í máli hans séu nokkuð sérstök, ekki síst þar sem hann hafi ekki verið sviptur forsjá stúlkunnar. Hann telur því að barnaverndaryfirvöld hafi í reynd afnumið skyldubundið mat sitt með hinni kærðu ákvörðun.

Umgengni kæranda við stúlkuna er ákveðin með hliðsjón af því að stúlkan var mjög ung þegar hún fór í fóstur. Fram að því hafði kærandi ekki sinnt henni um að minnsta kosti X mánaða skeið en á þeim tíma var hann í virkri fíkniefnaneyslu. Hafi einhvern tímann verið um að ræða tengsl þeirra á milli, rofnuðu þau er stúlkan fór til dvalar á E aðeins X mánaða gömul. Stúlkan er nú að mynda ný tengsl við fósturforeldra þar sem hún býr við stöðugleika og góðar aðstæður. Fósturforeldrarnir eru einu foreldrarnir sem hún þekkir og mikilvægt að hún fái að byggja upp tengsl við þau áfram í friði og ró. Þannig eru hagsmunir hennar betur tryggðir hvort sem litið er til lengri eða skemmri tíma. Að áliti úrskurðarnefndarinnar var samkvæmt framansögðu lagt sérstakt mat á hagsmuni og stöðu stúlkunnar áður en hin kærði úrskurður var kveðinn upp.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni kæranda við stúlkuna þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja henni stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum stúlkunnar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það sé mat starfsmanna barnaverndar að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni við kæranda sé takmörkuð. Þegar svo ungt barn fari í fóstur þjóni umgengni við kynforeldra fyrst og fremst þeim hagsmunum barns að þekkja uppruna sinn. Það geti ekki talist í samræmi við markmið varanlegs fósturs að barn viðhaldi tengslum við kynforeldri eða myndi ný tengsl við kynforeldri með umgengni.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvort stúlkan hafi raunveruleg tengsl við kæranda svo og til þess að kærandi hafði lengi átt við fíkniefnavanda að stríða er hann fór í meðferð í X 2016. Einnig ber að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda.

Eins og fram hefur komið heimsótti kærandi stúlkuna ekki á E en þangað fór hún X mánaða gömul. Kærandi kveðst hafa annast hana frá því að hún fæddist og fram á X 2016. Þó liggur fyrir hann hafi verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Móðuramma stúlkunnar kveðst hafa annast stúlkuna á sama tíma. Kærandi hefur aðeins hitt stúlkuna þrisvar sinnum frá því X 2016. Úrskurðarnefndin telur því óljóst við hvern stúlkan myndaði geðtengsl á fyrstu mánuðum ævi sinnar.

Frumgeðtengsl, sem barnið býr að alla ævi, myndast á fyrstu tveimur árum í lífi þess. Í þessu tilviki kemst stúlkan í öruggt, stöðugt umhverfi við X mánaða aldur og hefur náð að tengjast fósturforeldrum vel. Stúlkan er því fyrst og fremst tengd fósturforeldrum sínum sem hafa annast hana og er sú fjölskylda sem hún þekkir. Ekki verður séð að kærandi og stúlkan hafi sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli. Markmiðið með umgengi kæranda við stúlkuna er að stuðla að því að stúlkan þekki uppruna sinn en ekki að reyna að búa til ný tengsl við kæranda.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hafi tekið sig á. Lögvarðir hagsmunir stúlkunnar eru að hún búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Stúlkunni líður vel og ekkert bendir til að hún hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir stúlkunnar að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar. Á þessum tíma í lífi hennar eru það því ekki hagsmunir hennar að taka áhættu með því að auka umgengni eða gera tilraunir með aukna umgengni svo sem kærandi leggur til. Þá hafa fósturforeldrar lýst því yfir að þau telji umgengni tvisvar á ári nægilega.

Að því er varðar sjónarmið kæranda að ekki séu efni til að umgengni fari fram í húsnæði barnaverndar og undir eftirliti barnaverndar verður að líta til forsögu málsins, þar á meðal fyrra lífernis kæranda og sambýliskonu hans. Sömuleiðis skiptir hér máli að afar lítil tengsl hafa verið á milli kæranda og stúlkunnar. Skiptir miklu að umgengni fari þannig fram að hún sé í samræmi við hagsmuni stúlkunnar og þróist á þann hátt að stúlkan sé örugg í umgengni. Verður þetta að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tryggt með öðru móti en að umgengni fari fram á heimili hennar eða í húsnæði á vegum barnaverndar og að barnavernd hafi eftirlit með umgengni.

Kærandi gerir athugasemdir við að honum hafi ekki verið tilkynnt um að stúlkan væri komin í varanlegt fóstur né heldur hafi verið kannaður grundvöllur þess að ráðstafa stúlkunni til hans. Í málinu liggur fyrir að á þeim mánuðum er unnið var að því að koma stúlkunni í fóstur var kærandi ófær um að annast hana sökum fíkniefnaneyslu. Samkvæmt gögnum málsins reyndi barnavernd ítrekað að hafa samband við hann til að upplýsa um stöðu stúlkunnar. Það tókst ekki fyrr en X 2016 er honum var kynnt staðan en þá óskaði hann eftir því að fá forsjá stúlkunnar. Kærandi aðhafðist þó ekki í málinu fyrr en með símtali við barnavernd X 2016 þar sem hann [...] er hann var látinn vita að búið væri að úrskurða um að ráðstafa stúlkunni í varanlegt fóstur. Kærandi sótti sér loks vímuefnameðferð í X 2016 en þá var stúlkan komin til fósturforeldra. Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin ekki á þetta sjónarmið kæranda.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði verulega takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Í því felst að úrskurðarnefndin telur hvorki rök fyrir því að meðalhófsregla hafi verið brotin né að hinn kærði úrskurður sé órökstuddur.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin. Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 1. febrúar 2018 varðandi umgengni A við dóttur hans, C, er staðfestur.

 

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira