Hoppa yfir valmynd

852/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019

Úrskurður

Hinn 4. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 852/2019 í máli ÚNU 19010002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. janúar 2019, kærði A ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps um synjun beiðni um aðgang að upphæðum tilboða í öll efniskaup vegna Flóaljóss. Með erindi, dags. 29. nóvember 2018, óskaði kærandi eftir því að fá upplýsingar um efniskaup vegna ljósleiðara fyrir Flóaljós, hverjir hefðu gert tilboð í verkið og heildarupphæð hvers tilboðs fyrir sig. Kæranda var synjað um aðgang að upplýsingunum með bréfi, dags. 10. desember 2018, á þeim grundvelli að upplýsingarnar vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðkomandi aðila sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Flóahreppi með bréfi, dags. 14. janúar 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Flóahrepps, dags. 28. janúar 2019, eru veittar upplýsingar um tilboðsgjafa og heildarfjárhæð tilboða flestra þeirra. Kæranda er aftur á móti synjað um aðgang að upplýsingum um heildarfjárhæð fjögurra tilboða. Ákvörðunin er rökstudd þannig að þessir aðilar hafi aðeins gert tilboð í 1-2 efnisliði og því sé um að ræða upplýsingar um einingarverð fyrirtækjanna. Myndi veiting upplýsinganna skaða samkeppnisstöðu þeirra á markaði og þar af leiðandi stríða gegn mikilvægum fjárhags- og viðskiptahagsmunum þeirra. Því væru upplýsingarnar undanþegnar upplýsingarétti almennings með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Með bréfum, dags. 9. og 23. október 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu fyrirtækjanna til þess að veittur yrði aðgangur að upplýsingum um fjárhæð tilboðanna. Með bréfi, dags. 14. október 2019, lýsti Ísloft ehf. því yfir að fyrirtækið samþykkti ekki að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar. Í bréfinu segir að fyrirtækið hafi aðeins gert tilboð í einn efnislið og því megi reikna út einingarverð þess. Fyrirtækið líti svo á að einingarverð séu trúnaðarmál milli sín og verkkaupa í verðkönnun af þessu tagi og geri það kröfu um að samkeppnisaðilum verði ekki veittur aðgangur að einingarverðum. Með bréfi, dags. 15. október 2019, veitti Ísrör ehf. samþykki sitt fyrir því að aðgangur yrði veittur að upplýsingum um heildarfjárhæð fyrirtækisins. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2019, lýsti Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf. því yfir að fyrirtækið veitti ekki samþykki sitt fyrir afhendingu upplýsinganna. Í bréfinu kemur fram að fyrirtækið hafi gert tilboð í tvo aðskilda efnisliði í tveimur tölvupóstum. Fyrirtækið líti svo á að það hafi gert tvö sjálfstæð tilboð í tvo aðskilda efnisþætti. Fram kemur að fyrirtækið telji að það að opinbera tilboð aðila í einstaka þætti sé einstaklega óheppilegt og að það skaði samkeppni til lengri tíma litið. Það að opinbera tölur fyrirtækisins sé ekkert annað en opinbert skemmdarverk sem muni letja smærri aðila, sérstaklega innlenda framleiðendur í að taka þátt í verðkönnunum sem þessum. Það sé ekki í anda upplýsingalaga að upplýsa um einstaka þætti og bjóða þar með hættunni heim að tilboðsgjöfum verði mismunað. Það gangi jafnframt gegn samkeppnissjónarmiðum. Ekki sé réttmætt að opinbera fjárhæð tilboða fyrirtækisins sem hafi aðeins boðið í fáa efnisliði. Greining á fjárhæð tilboðsins segi til um einingarverð eins liðar sem öllum sé ljóst hver sé á meðan ekki sé hægt að framkvæma slíka greiningu á tilboðum þeirra sem bjóði í alla liði. Með því að krefja fyrirtækið um að upplýsa um tilboðsverð þá sé verið að mismuna tilboðsgjöfum í upplýsingagjöf, þ.e. tilboðsgjafar sitji ekki við sama borð við greiningu á verði. Svar barst ekki frá Durinn ehf.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að heildarfjárhæðum tilboða fjögurra fyrirtækja sem bárust sveitarfélaginu Flóahreppi vegna verðkönnunar um efniskaup til verkefnisins Flóaljóss. Beiðni kæranda er sett fram á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en sú lagagrein fjallar um aðgang almennings að upplýsingum.

Ákvörðun sveitarfélagsins um að synja beiðni kæranda er byggð á því að upplýsingarnar gefi til kynna einingarverð fyrirtækjanna á markaði og geti aðgangur að þeim skaðað samkeppnisstöðu þeirra. Þar af leiðandi sé sveitarfélaginu óheimilt að veita kæranda aðgang að þeim, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir m.a.:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Þá er enn fremur tiltekið í athugasemdunum:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Fyrir liggur að Ísrör ehf. veitti samþykki sitt fyrir því að veittur yrði aðgangur að heildarfjárhæðum tilboðs fyrirtækisins. Verður því synjun á aðgangi að þeim upplýsingum ekki byggð á 9. gr. upplýsingalaga. Ekki liggur fyrir samþykki frá öðrum fyrirtækjum um að heildarfjárhæð þeirra tilboða verði gerð opinber. Þarf því að skera úr um hvort óheimilt sé að veita almenningi aðgang að upplýsingunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin áréttar að ekki verður dregin almenn ályktun um aðgang almennings að einingarverði í tilboðum útboða eða annarra tilboðsumleitana enda verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort takmarka beri aðgang að slíkum upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga.

Í fyrri úrskurðum nefndarinnar hafa þátttakendur í útboðum og verðkönnunum verið taldir hafa átt sérstakra hagsmuna að gæta til aðgangs að tilboðum annarra tilboðsgjafa enda hafi þeir ríka hagsmuni af því að geta gengið úr skugga um hvort rétt hafi verið staðið að mati á tilboðum, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Hefur nefndin því fallist á það að aðrir tilboðsgjafar eigi rétt til aðgangs að einingarverðum annarra tilboðsgjafa, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. 836/2019 og 620/2016. Við túlkun þess að hvaða leyti ákvæði 9. gr. takmarki rétt almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að gögnum sem lúta að samningum opinberra aðila við einkafyrirtæki hefur úrskurðarnefndin einnig í ríkum mæli horft til þess hvort að í slíkum tilvikum sé um að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna.

Í því máli sem hér um ræðir liggur fyrir að kærandi var ekki á meðal tilboðsgjafa og fer því eins og áður segir um rétt hans til aðgangs að upplýsingunum eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Þá liggur einnig fyrir að tilboðum þeirra tilboðsgjafa sem gagnabeiðnin nær til var ekki tekið og opinberum hagsmunum því ekki ráðstafað á grundvelli þeirra.

Almenningur hefur hagsmuni af því að geta kynnt sér hvernig opinberir aðilar standa að verðkönnunum. Á hinn bóginn hafa tilboðsgjafar hagsmuni af því að samkeppnisaðilar fái ekki aðgang að upplýsingum um verðlagningu þeirra á vöru og þjónustu. Í ljósi þess að í máli þessu er ekki um að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna af hálfu stjórnvalda er það afstaða úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir þeirra tilboðsgjafa sem um ræðir í þessu máli af því að upplýsingar um einingarverð í tilboðum þeirra fari leynt vegi þyngra heldur en hagsmunir almennings af því að geta kynnt sér upplýsingarnar. Verður því að staðfesta ákvörðun Flóahrepps um synjun á beiðni kæranda.

Úrskurðarorð:

Flóahreppi er skylt að veita kæranda, A, aðgang að upplýsingum um heildarfjárhæð tilboðs Ísrörs ehf. vegna verðkönnunar Flóahrepps í efniskaup vegna Flóaljóss.

Að öðru leyti er hin kærða ákvörðun staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson        Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira