Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 98/2016 Úrskurður 6. janúar 2017

Mál nr. 98/2016                     Eiginnafn: Hel

 


 

Hinn 6. janúar 2017 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 98/2016 en erindið barst nefndinni 6. desember 2016.

 

Svo að Hel verði samþykkt sem nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá þurfa öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera uppfyllt.

Hel tekur íslenskri eignarfallsendingu og brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi. Það er einnig ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Samkvæmt þessu eru skilyrði 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga uppfyllt. Þar sem Hel er kvenmannsnafn samrýmist það 2. mgr. 5. gr. mannanafnalaga sem kveður á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn.

Á hinn bóginn er það svo að Hel uppfyllir ekki það viðmið 3. mgr. 5. gr. mannanafnalaga að nafn skuli ekki vera nafnbera til ama. Á grundvelli þessa amaákvæðis laganna verður því að hafna beiðni úrskurðarbeiðanda. Verða nú færð nánari rök fyrir þessari niðurstöðu.

Í fyrsta lagi ber til þess að líta að nafnið Hel er heiti á gyðju ríkis dauðra í norrænni goðafræði en einnig heiti á sjálfu dauðaríkinu. Það merkir einnig í sumum orðasamböndum dauða eða bana, t.d. bíða hel ‚deyja‘, svelta í hel ‚verða hungurmorða‘, vera á heljar þröm, heimta úr helju o.s.frv. Orðið hel er einnig hluti samsettra orða eins og helvíti og blótsyrðisins helvíti(s) sem hafa sannarlega neikvæða merkingu.

Í öðru lagi er við úrlausn þessa máls óhjákvæmilegt að líta til lögskýringargagna sem varpa ljósi á efni 3. mgr. 5. gr. mannanafnalaga en í skýringum um ákvæðið, sem fylgdu upphaflegu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1996 um mannanöfn, segir m.a.:

„Í 3. mgr. er kveðið á um að eiginnafn megi ekki vera nafnbera til ama. Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. málsl. 1 mgr. 2. gr. gildandi laga. Ekki þykir annað fært en hafa þetta ákvæði áfram í lögum. Það eru auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi, eins og t.d. Skessa, Þrjótur eða Hel.“

 

Þar sem amaákvæði frumvarpsins var síðan samþykkt óbreytt sem 3. mgr. 5. gr. gildandi mannanafnalaga, er nærtækt að álykta sem svo að vilji löggjafans hafi staðið til þess að bannað væri að gefa einstaklingi nafnið Hel. Það er ekki í verkahring mannanafnanefndar, sem stjórnsýslunefndar, að endurskoða þetta mat löggjafans.

Í þriðja lagi er ástæða til að leggja áherslu á það að amaákvæði mannanafnalaga er matskennt og verður að beita því varfærnislega. Slík beiting ákvæðisins samrýmist þeirri mannréttindavernd sem fólgin eru í grundvallarreglum um friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt liggur fyrir að úrskurðarbeiðendur eru í Ásatrúarfélaginu og hafa hagsmuni af því að gefa dóttur sinni þetta nafn. Eigi að síður verður til þess að líta að 3. mgr. 5. gr. mannanafnalaga felur í sér skorður við nafngiftum í því skyni að vernda hagsmuni væntanlegs nafnbera. Um þetta verndarandlag amaákvæðisins var m.a. fjallað um í nefndaráliti, dags. 15. júní 2015, með frávísunartillögu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum (mannanafnanefnd, ættarnöfn o.fl., 144. löggjafarþing 2014–2015, þskj. 1452 – 389. mál):

„Við meðferð málsins í nefndinni var fjallað um hvort þörf væri á að hafa eftirlit með nafngiftum, m.a. með tilliti til þess hvort nafn geti verið börnum til ama eða ekki. Fram komu sjónarmið um að nauðsynlegt væri að hafa einhvers konar eftirlit með nafngiftum barna. Almennt ætti svigrúm foreldra til að velja nöfn barna sinna að vera mikið, en þó gætu komið upp tilvik þar sem nafn gæti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfsvitund einstaklings og þá væri nauðsynlegt að hið opinbera gæti gripið inn í nafngiftina. Ljóst er þó að slík tilvik eru fá, auk þess sem ekki er auðveldlega hægt að afmarka hvenær nafn getur verið einstaklingi til ama.“

Kjarni málsins hér, hvað þennan lið röksemdarfærslunnar varðar, er að gildandi lög um mannanöfn fela í sér heimildir mannanafnanefndar til að hafna nöfnum á grundvelli þess að nafngift verði nafnbera til ama og að þessum heimildum verði eingöngu beitt í undantekningartilvikum. Að þessum skilyrðum uppfylltum má takmarka frelsi til nafngifta með tilliti til hagsmuna nafnbera. Telja verður að þessi skilyrði séu uppfyllt í málinu.

Í fjórða lagi ber þess að geta að í eldri úrskurðum sínum hefur mannanafnanefnd hafnað nöfnum á grundvelli amaákvæðisins, svo sem þegar nafninu Sataníu var hafnað. Það nafn er  líkt því sem hér er til umfjöllunar. Það horfir því til samræmis í stjórnsýsluframkvæmd að hafna því að nafnið Hel komist á mannanafnaskrá.

 

Með vísan til alls þess sem hér er komið fram, er beiðni úrskurðarbeiðenda hafnað.

 

 

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hel (kvk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira