Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 3/2006: Dómur frá 7. júlí 2006

Alþýðusamband Íslands f.h. Samiðnar, sambands iðnfélaga, vegna Trésmíðafélags Reykjavíkur gegn Sóleyjabyggð ehf.

Ár 2006, föstudaginn 7. júlí, er í Félagsdómi í málinu nr. 3/2006:

Alþýðusamband Íslands f.h.

Samiðnar, sambands iðnfélaga,

vegna Trésmíðafélags Reykjavíkur

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Sóleyjabyggð ehf.

(Sigurður Guðmundsson hdl.)

kveðinn upp svofelldur

dómur:

Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. júní síðastliðinn, er höfðað 13. mars 2006.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíus­dóttir og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Samiðnar, sam­bands iðnfélaga vegna Trésmiðafélags Reykjavíkur.

Stefndi er Sóleyjabyggð ehf., Blikanesi 2, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um upplýsingagjöf til samráðsnefndar ASÍ og SA um málefni útlendinga frá 7. mars 2004, með því að láta undir höfuð leggjast að láta í té afrit allra vinnuskýrslna og launaseðla erlendra starfsmanna sem hjá honum hafa starfað á árinu 2005.

Þá er þess krafist að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, með því að standa að því að greiða erlendum starfsmönnum laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga.

Enn fremur er sú krafa gerð að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938.

Loks er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

  

I

Stefnandi, Trésmiðafélag Reykjavíkur, er stéttarfélag fagmenntaðra trésmiða og félags­svæði þess er Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kjalarnes og Kjósarhreppur. Stefndi er einkahlutafélag sem hefur þann tilgang að byggja fasteignir, annast inn- og útflutning byggingarefnis til húsagerðar, kaup og sölu fasteigna og lánastarfsemi. Mál þetta lýtur að byggingu stefnda á fjölbýlishúsi við Sóleyjarrima nr. 15 – 17 í Reykjavík en við það verk hafa starfað menn frá Litháen. Telur stefnandi að um sé að ræða iðnaðarmannastörf sem Litháarnir hafi leyst af hendi enda sé einungis einum íslenskum trésmið til að dreifa sem annast hafi bygg­ingastjórn á verkstað. Að öðru leyti hafa hinir erlendu starfsmenn byggt húsið allt frá því vinnu við sökkla lauk. Fari því um störf Litháanna eftir almennum kjara­samningum Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, bæði vegna þeirra verka sem þeir leysa af hendi, en ekki síður vegna þess að þeir muni njóta réttarstöðu iðnaðarmanna í heimalandi sínu.

Stefnandi hefur um nokkurt skeið haldið uppi sérstöku eftirliti með því að gætt sé lág­markskjara þegar atvinnufyrirtæki hafa fengið til sín erlent vinnuafl til að sinna verkum í sína þágu. Hefur eftirlit stefnanda m.a. beinst að stefnda. Tilraunir stefn­anda til að fá upplýsingar úr hendi stefnda um atvinnuréttindi og launakjör þessara erlendu starfsmanna hafa borið takmarkaðan árangur. Skaut stefnandi málinu  til úrlausnar sérstakrar samráðsnefndar aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, um málefni útlendinga sem starfar samkvæmt samn­ingi aðila frá 7. mars 2004, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 1. gr. laga nr. 145/2004 um breyting á þeim lögum. Á fundi nefndarinnar 13. júlí 2005 var af hálfu stefnda lagt fram bréf þar sem áréttað var að hann hefði haft átta verka­menn í störfum hjá sér á árinu 2005 á grundvelli svonefndra þjónustusamninga við tvö nafngreind fyrirtæki í Litháen. Hafi stefndi greitt hinum erlendu fyrirtækjum 1.100 krónur fyrir hverja unna vinnustund. Hafi starfsmennirnir því engar greiðslur fengið úr hendi stefnda sem standi í þeirri trú að kjör þeirra séu í samræmi við íslenskar reglur. Þá segir þar og að stefndi greiði ekki skatta eða önnur gjöld af launum þessara einstaklinga.

Stefndi krafðist upphaflega frávísunar málsins en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 2. maí síðastliðinn.

  

II

Um aðild stefnanda að málinu vísar hann til þess að verkefni þeirra starfsmanna, sem í hlut eiga, falli undir gildissvið kjarasamnings Samiðnar, sambands iðnfélaga, við Samtök atvinnulífsins, sbr. 45. gr. laga nr. 80/1938.

Sakarefni máls þessa lúti að kjarnanum í brotum stefnda á að greiða starfsmönnum, sem hjá honum starfa, lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningi. Enn fremur að hafa brotið gegn samkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 7. mars 2004 sem feli í sér bindandi lágmarkskjör skv. 2. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938. Bæði sé um brot að ræða gegn skyldu stefnda til að upplýsa um ráðningarkjör en ekki síður um það brot hans að tryggja ekki að starfsmönnum séu greidd laun a.m.k. í samræmi við lágmarkskjör.

Stefndi teljist ótvírætt atvinnurekandi þeirra litháísku starfsmanna sem hafa starfað í hans þágu hér á landi í skilningi vinnuréttar og beri ábyrgð á réttum efndum kjarasamnings gagnvart þeim. Fari stefndi í raun með húsbóndavald gagnvart þeim. Hann fari og með verkstjórnarvald yfir þeim og þá hafi vinna þeirra verið innt af hendi á stað sem sé undir stjórn stefnda og á ábyrgð hans. Þá séu bein tengsl milli endurgjalds þess sem stefndi láti í té og vinnu starfsmannanna og greitt sé fyrir hverja vinnustund sem þeir inni af hendi. Enn fremur láti stefndi í té öll tæki og efni, sem notuð séu, auk þess sem fjöldi starfsmanna sem sinna einstökum verkefnum sé háður ákvörðunum stefnda. Jafnframt sé það á valdi stefnda að skilgreina verkefni þeirra frá degi til dags og hvaða kröfur séu gerðar til þeirra við úrlausn þeirra verkefna. Þess heldur sé svo þar sem hvorugt þeirra erlendu fyrirtækja, sem stefndi vísi til og leggi fram samninga við, starfi sem vinnumiðlanir eða svonefndar starfsmannaleigur. Að nefnd fyrirtæki séu verktakar sé ekki í samræmi við rétta málavöxtu og sýnist helst að þau hafi lánað stefnda starfsmenn gegn greiðslu tiltekinnar þóknunar. Geti slíkur „lánssamningur“ ekki leyst stefnda undan þeirri skyldu að virða íslenska kjarasamninga og þau lágmarkskjör sem samið er um í þeim, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938, gagnvart hinum „lánuðu“ starfsmönnum.

Einu gildi hvort litháísku starfsmennirnir teljist vera starfsmenn erlends fyrirtækis eða stefnda í því samhengi sem hér um ræðir. Eins sé úrlausn málsins óháð því hvort umræddir starsfsmenn kunni, vegna bráðabirgðaákvæðis laga nr. 97/2002, að vera undanþegnir almennum reglum er gilda um veitingu atvinnuleyfa. Teljist þeir starfsmenn erlends fyrirtækis gildi um starfskjör þeirra reglur laga nr. 54/2001. Í þeim lögum sé kveðið afdráttarlaust á um að laun þeirra starfsmanna, sem svo háttar til um, skuli vera a.m.k. í fullu samræmi við lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum þeim er gilda hérlendis. Geti stefndi ekki, með vísan til 7. gr. laganna, skotið sér undan ábyrgð á réttum efndum kjarasamnings og krafist sýknu vegna aðildarskorts enda ekki á forræði einstaklinga, hvorki innlendra né erlendra, að véla með slíkar efndir þegar á brot á lágmarkskjörum reynir, sbr. 7. gr. laga n. 80/1938.

Stefnda beri ótvírætt skylda til að tryggja stefnanda aðgang að þeim gögnum sem geri stefnanda kleift að fylgjast með því að rétt sé staðið að launauppgjöri gagnvart starfsmönnum þeim sem starfa í þágu stefnda samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 80/1938, sbr. einnig nefnt samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 7. mars 2004 og 2. gr. laga nr. 55/1980. Enginn trúnaðarmaður stefnanda starfi hjá stefnda og sé stefnanda því bæði rétt og skylt að gæta þeirra réttinda sem nefndum lagaheimildum sé ætlað að tryggja. Þegar trúnaðarmanni sé ekki til að dreifa verði stefnandi að leysa þau verkefni af hendi sem annars myndu hvíla á herðum trúnaðarmanns.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, gildi almennur kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar um störf litháísku starfsmannanna. Samkvæmt gr. 11.3.1 í kjarasamningi sé trúnaðarmanni heimilt að yfirfara gögn og vinnuskýrslur. Fari trúnaðarmaðurinn með þá heimild í umboði viðkomandi verkalýðsfélags. Þegar trúnaðarmanni sé ekki til að dreifa sé heimildin til að krefjast gagna hjá viðkomandi verkalýðsfélagi. Þá sé sérstaklega samið um þá heimild í samkomulaginu frá 7. mars 2004. Stefndi hafi og kannast við skyldur sínar í þessu efni með því að láta nefnd aðila vinnumarkaðarins í té gögn og upplýsingar þó svo að þau hafi reynst ófullnægjandi. Stefndi haldi fram að hann hafi greitt 1.100 kr. vegna hverrar vinnustundar, sem starfsmennirnir hafi unnið, en hins vegar látið undir höfuð leggjast að gera fullnægjandi grein fyrir vinnustundafjölda starfsmannanna.

Enda þótt miðað væri við upplýsingar stefnda blasi við að greiðslur til starfsmannanna séu í hróplegu ósamræmi við kjarasamningsbundi lágmarkskjör. Nemi greidd laun samkvæmt því 7% af þeim launum sem hinum litháísku starfsmönnum hafi borið með réttu. Séu dagpeningagreiðslur meðtaldar, sem þó eigi ekki við þar sem þær séu endurgreiðsla útlagðs kostnaðar, hafi þeir fengið greitt sem nemi liðlega 30% þeirra launa sem þeim hafi borið.

Við umrædd fjölbýlishús við Sóleyjarrima hafi engir aðrir sinnt störfum við byggingarstörf en hinir erlendu starfsmenn og einn íslenskur trésmíðameistari. Sé því augljóst að erlendu starfsmennirnir hafi sinnt iðnaðarmannastörfum og beri þeim því að fá laun sem iðnaðarmenn en stefndi hafi talið sér tækt að greiða þeim annað hvort einkar lág laun með milligöngu litháískra fyrirtækja eða, hafi hann greitt launin beint, verkamannalaun í samræmi við kauptaxta Eflingar stéttarfélags. Stefndi telji sig hafa vissu fyrir því að starfsmennirnir hafi iðnréttindi þótt stefndi hafi látið í veðri vaka að svo sé ekki. En jafnvel þótt stefndi hafi gert sig sekan um brot gegn 8. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978 með því að láta ófaglærða menn sinna iðnaðarstörfum, sé sú raunin, beri honum allt að einu að fullnægja eða tryggja að fullnægt sé áskilnaði laga nr. 80/1938 og kjarasamnings Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins um lágmarkslaun starfsmönnunum til handa.

Að mati stefnanda séu brot stefnda á kjarasamningi bæði umfangsmikil og stórfelld. Að sama skapi feli öll framganga stefnda í sér vísvitandi tilraunir til að fara á svig við íslensk lög og íslenskan rétt í ágóðaskyni fyrir stefnda, en hinum erlendu starfsmönnum til umtalsverðs fjárhagslegs tjóns. Af þeim sökum standi full rök til þess að gera stefnda sekt samkvæmt 70. gr. laga nr. 80/1938. Við ákvörðun sektarfjárhæðar beri að horfa til umfangs brota stefnda og þess að ítrekað hafi verið skorað á hann að bæta ráð sitt og rétta hlut hinna erlendu starfsmanna. Hafi stefndi látið öll slík tækifæri fram hjá sér fara og skellt skollaeyrum við nefndum áskorunum.

  

III

Af hálfu stefnda er sýknukrafa á því reist að líta beri til þess að hinir litháísku starfsmenn séu starfsmenn litháísku félaganna EPST og Darlista og þar á milli sé ráðningarsamband í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/2001. Hin erlendu félög hafi, samkvæmt íslenskri löggjöf, fullkomna heimild til að láta starfsmenn sína starfa tímabundið á Íslandi án atvinnuleyfa, sbr. lög nr. 54/2001 og bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2002. Í 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/2001 sé einmitt gert ráð fyrir að samningssamband litháísks og íslensks fyrirtækis sé með þeim hætti sem stefndi hafi lýst varðandi inntak þess samkomulags sem félagið hafi gert við hin erlendu fyrirtæki. Hin erlendu fyrirtæki hafi miðlað ófaglærðum starfsmönnum til stefnda samkvæmt sérstökum samningi og það að stefndi hafi vald til að vísa starfsmönnunum til verka breyti engu um réttarstöðu þeirra samkvæmt lögum nr. 54/2001. Mótmælt er að hin erlendu fyrirtæki starfi ekki sem vinnumiðlanir eða starfsmannaleigur. Þá er mótmælt að á stefnda hvíli skylda til að tryggja stefnanda aðgang að gögnum sem geri stefnanda kleift að fylgjast með því að rétt sé staðið að launauppgjöri hinna erlendu fyrirtækja gagnvart starfsmönnum sem starfa í þágu stefnda. Ekki sé hægt að leggja slíkar skyldur á herðar stefnda þar sem útilokað sé fyrir hann, án tilverknaðar hinna erlendu fyrirtækja, að legga slíkar upplýsingar fram. Stefnda sé unnt að tilgreina þann vinnustundafjölda, sem hinir erlendu starfsmenn hafi innt af hendi og það endurgjald sem stefndi greiði til hinna erlendu fyrirtækja vegna vinnunnar. Stefndi hafi hins vegar ekki undir höndum upplýsingar um launakjör starfsmannanna hjá hinum erlendu fyrirtækjum og geti af þeim sökum ekki lagt þær fram. Með setningu 5. gr. laga nr. 54/2001 hafi löggjafinn verið að tryggja hinum erlendu starfsmönnum réttarstöðu hér á landi gagnvart hinum erlenda vinnuveitanda. Hafi það verið ætlan löggjafans að gera notendafyrirtækið samábyrgt með hinu erlenda fyrirtæki hefði það verið tiltekið í lögunum.

Stefndi byggir á að hinir erlendu starfsmenn séu ófaglærðir byggingaverkamenn. Ættu launakjör hinna erlendu starfsmanna því samkvæmt lögum nr. 54/2001 að taka mið af kjarasamningi Eflingar - stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis við Samtök atvinnulífsins. Þar sem Efling - stéttarfélag sé ekki aðili að máli þessu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu vegna aðildarskorts sóknarmegin. Þá sé stefndi ekki vinnuveitandi hinna erlendu starfsmanna og starfsmennirnir ekki í ráðningarsambandi við stefnda. Stefndi hafi ekki greitt þeim laun og hafi ekki í vörslu sinni launasamninga eða launaseðla vegna tímabundinnar vinnu þeirra á Íslandi fyrir hin litháísku fyrirtæki. Ráðist launakjör starfsmannanna af samningum við hin erlendu félög og launauppgjör fari fram í Litháen. Sé stefndi því ekki aðili að ágreiningi sem varði launakjör þessara starfsmanna. Leiði það því einnig til sýknu vegna aðildarskorts varnarmegin.

Verði ekki fallist á sýknu vegna aðildarskorts byggir stefndi á því að hann hafi ekki haft í vörslu sinni upplýsingar um iðnréttindi hinna erlendu starfsmanna. Í samningum við hin litháísku félög hafi stefndi staðið í þeirri trú að starfsmennirnir væru ófaglærðir byggingaverkamenn. Hafi starfsmennirnir a.m.k. ekki sinnt störfum fyrir stefnda sem iðnmenntun þurfi til.

Þá er á því byggt að allt launauppgjör og skattaleg meðhöndlun á launum starfsmannanna fari fram í Litháen á vegum hinna erlendu félaga sem séu vinnuveitendur starfsmannanna. Hafi stefndi ekki fengið launaseðla starfsmannanna í hendur og hafi ekki slíkt boðvald yfir hinum erlendu félögum að honum sé kleift að leggja upplýsingarnar fram. Engu að síður hafi stefndi reynt af fremsta megni að upplýsa samráðsnefndina eins og hann hafi getað og lagt fram þær upplýsingar sem honum hafi verið fært. Í því felist hins vegar engin viðurkenning á skyldum stefnda í þeim efnum. Það stríði gegn öllum grundvallarreglum að aðili geti gerst brotlegur gegn reglum um upplýsingaskyldu sé það ekki á færi hans að leggja upplýsingarnar fram. Íslensk löggjöf tryggi stefnda ekki aðgang að launabókhaldi hinna erlendu fyrirtækja, þ.e. þeim upplýsingum sem krafist er að stefndi leggi fram. Lög nr. 54/2001 tryggi hins vegar starfsmönnunum sjálfum rétt samkvæmt 5. gr. þeirra og þá sé þar ráð fyrir því gert að veiting upplýsinga fari fram af hálfu stjórnvalda og þar til bærra stofnana samkvæmt 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu er því mótmælt að stefndi hafi brotið gegn greindu samkomulagi ASÍ og SA frá 7. mars 2004 varðandi upplýsingagjöf.

Mótmælt er að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að standa að því að greiða erlendum starfsmönnum laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga. Þá er vísað á bug að hinir erlendu starfsmenn hafi innt af hendi iðnaðarmannastörf. Einnig er mótmælt útreikningum stefnanda á mánaðarlaunum út frá upplýsingum stefnda að því er varðar vinnutímafjölda. Hafi stefndi sýnt fram á að hann hafi innt af hendi greiðslur vegna starfsmannanna til hinna erlendu vinnuveitenda sem séu langt umfram þau kjör sem þeim beri samkvæmt viðeigandi kjarasamningi og launataxta. Þá beri stefnandi sönnunarbyrði um að vinnuveitendur hinna erlendu starfsmanna hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt 3. gr. laga nr. 54/2001. Hafi stefnanda ekki tekist slík sönnun.

Með framangreindum rökum er einnig krafist sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu sektar samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938.

  

IV

Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um hver hafi verið vinnuveitandi  litháískra starfsmanna sem störfuðu fyrir stefnda á árinu 2005. Heldur stefnandi því fram að stefndi hafi verið vinnuveitandi þeirra frá upphafi og hefur stefnandi leitað eftir upplýsingum hjá stefnda um launakjör starfsmannanna. Í því skyni hefur stefndi ítrekað farið fram á að stefndi afhenti afrit allra vinnuskýrslna og launaseðla þeirra erlendu starfsmanna sem störfuðu hjá honum fyrrgreint ár. Stefndi mótmælir því að hann hafi verið vinnuveitandi starfsmannanna áður en þeir réðu sig til hans og vísar til þess að hann hafi gert starfsmannaleigusamning við litháísku fyrirtækin EPST og Darlista um viðkomandi starfsmenn og hafi hin erlendu fyrirtæki greitt starfsmönnunum laun.

Til að fá umræddar upplýsingar leitaði stefnandi aðstoðar sérstakrar samráðsnefndar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) sem starfar á grundvelli samkomlags aðila vinnumarkaðarins um útlendinga frá 7. mars 2004 um málsmeðferð í ágreiningsmálum er varða erlenda starfsmenn. Í þeim hluta samkomulagsins, sem fjallar um forsendur samningsins og sameiginleg markmið, kemur m.a. fram að EES samningurinn feli í sér að ríkisborgarar aðildarríkjanna geti farið á milli landa í atvinnuskyni án atvinnuleyfis og að fyrirtæki, sem þar hafa staðfestu, eigi einnig rétt á að veita þjónustu í öðru aðildarríki með eigin starfsmönnum án sérstaks leyfis. Þá sé meginreglan að aðrir útlendingar verði ekki ráðnir til vinnu hér á landi án atvinnuleyfis. Í þessum hluta samkomulagsins segir og að það sé sameiginlegt viðfangsefni aðila að stuðla að því að fyrirtæki, sem nýta erlent vinnuafl vegna framleiðslu sinnar eða þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi. Ef kjarasamningar eru ekki virtir grafi það undan starfsemi annarra fyrirtækja og spilli forsendum eðlilegrar samkeppni og dragi úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi. Í þeim hluta samkomulagsins, sem fjallar um meginreglur um starfskjör útlendinga, segir að með samkomulaginu vilji ASÍ og SA tryggja framkvæmd gildandi laga um starfskjör útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Þessar lagareglur sé að finna á fjórum nánar tilgreindum sviðum, þ.á m. varðandi „Laun og önnur starfskjör“ í lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda en þar sé kveðið á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör, óháð þjóðerni, fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er kjarasamningur tekur til. Þá segir í þeim hluta samkomulagsins, sem fjallar um upplýsingar um laun og önnur starfskjör erlends launafólks, að það sé hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustað að gæta þess að gerðir kjarasamningar séu haldnir gagnvart starfsfólki, sbr. 9. gr. laga nr. 80/1938, og hafi þeir á grundvelli samkomulagsins rétt á að yfirfara gögn um laun eða starfskjör þeirra erlendu starfsmanna, sem kjarasamningur tekur til og starfa hjá viðkomandi vinnuveitanda, og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra sem eru í störfum þar sem slíkra réttinda er krafist. Sé ekki trúnaðarmaður á vinnustað hafi fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og beri sömu skyldur. Fallist vinnuveitandi ekki á beiðni trúnaðarmanns um að veita honum aðgang að upplýsingum um laun og önnur starfskjör útlendinga og ekki hefur tekist að leysa þann ágreining innan fyrirtækis sé heimilt að vísa ágreiningnum til sérstakrar samráðsnefndar ASÍ og SA. Um þá nefnd er fjallað í síðasta hluta samkomulagsins.

Framangreint samkomulag ASÍ og SA hefur sama almenna gildi og kjarasamningur á almennum vinnumarkaði samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 1. gr. laga nr. 145/2004 um breyting á þeim lögum, en samkvæmt því ákvæði skulu samningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreinings-málum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 1. gr. laganna, með þeim takmörkunum sem í samningunum felast.

Tilraunir samráðsnefndarinnar til að fá framangreindar upplýsingar frá stefnda báru takmarkaðan árangur. Lauk afskiptum nefndarinnar með því að hún ritaði Vinnumálastofnun bréf 16. nóvember 2005 þar sem því var beint til stofnunarinnar að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana gagnvart starfsemi „starfsmannaleigu-fyrirtækjanna“ EPST og Darlista hér á landi til að tryggja að fyrirtækin uppfylltu skyldur sínar gagnvart starfsmönnum sínum og störfuðu í samræmi við íslenska kjarasamninga og lög. Að öðrum kosti yrði starfsemi þeirra stöðvuð og fyrirtækin látin sæta ábyrgð.

Af gögnum málsins verður ráðið að um sé að ræða átta litháíska starfsmenn sem unnið hafi í þágu stefnda. Að sögn stefnda komu fjórir starfsmenn í gegnum Bögg ehf. fljótlega eftir áramót 2004/2005. Þá hafi fjórir starfsmenn til viðbótar komið 26. apríl 2005 á vegum EPST. Samstarfi hafi verið hætt við Bögg ehf. og þeir starfsmenn, sem hafi verið á vegum fyrirtækisins, farið úr landi en komið aftur 15. maí 2005 á vegum Darlista. Starfsmennirnir hafi engra launa eða starfstengdra greiðslna notið frá stefnda heldur hafi hann greitt hinum erlendu fyrirtækjum 1.100 kr. á tímann fyrir hvern starfsmann og þau síðan greitt mönnunum laun. Þá hafi hin erlendu fyrirtæki greitt fyrir húsnæði þeirra. Stefndi hafi heldur ekki greitt skatta eða önnur gjöld af launum starfsmannanna og vísaði hann í því sambandi á þau litháísku fyrirtæki sem að framan greinir.

Fjórir af umræddum starfsmönnum, Saulius Vareika, Laimis Venclovavicius, Tomas Kunskas og Vladislovas Kisielius, gáfu skýrslu í máli þessu.

Vitnið, Saulius Vareika, kveðst hafa komið til landsins 26. apríl 2005 og starfað fyrir EPST fyrstu þrjá mánuðina eftir það og fengið laun greidd frá því fyrirtæki, 1.000 litas á mánuði en heildarmánaðargreiðslur hafi numið 5.200 litas. Þá hafi hann fengið frían bíl og húsnæði sem hann hafi lítið þurft að borga fyrir. Eftir þessa þrjá mánuði hafi hann ráðið sig til stefnda. Hann kveðst ekki vera með iðnréttindi en hann hafi hins vegar 15 ára starfsreynslu í byggingavinnu og unnið sjálfstætt í Litháen. Hann kveður EPST hafa greitt honum laun fyrst eftir að hann kom til landsins en stefndi eftir að vitnið byrjaði að vinna fyrir hann. Hafi vitnið verið að vinna við allt mögulegt hjá stefnda, flísaleggja, sparsla og setja upp hurðir.

Vitnið, Laimis Venclovavicius, kveðst hafa starfað hjá stefnda á vegum Darlista. Greiði hinn síðarnefndi honum laun og fái hann launaseðla í Litháen fyrir vinnu sína. Hann kveðst vera með iðnréttindi í því landi en hann hafi ekki fengið þau viðurkennd hérlendis. Kveðst hann fá greidd 1.000 litas á mánuði og 150 litas í dagpeninga og samtals fái hann greitt 5.200 litas á mánuði. Kvaðst vitnið vera með réttindi í Litháen í öllu sem viðkemur byggingarvinnu.

Vitnið, Tomas Kunskas, kveðst hafa byrjað að vinna hjá EPST hérlendis í apríl 2005. Hann kveður hafa verið umsamið að hann fengi 5.200 litas í laun á mánuði en hann hafi ekki fengið greitt að hluta. Vitnið kveðst hafa gengið í öll verk hjá stefnda og t.d. unnið við að flísaleggja og smíða. Kveðst hann vera með iðnréttindi sem málari, múrari og smiður í Litháen. Hann hafi aldrei kannað gildi réttindanna hérlendis en reiknað með að þau giltu hér eins og heima hjá honum. Vitnið kveður Þórarin Guðjónsson hafa sagt til verka við smíðavinnu.

Vitnið, Vladislovas Kisielius, kveðst hafa byrjað að vinna hjá EPST 12. apríl 2005. Hann hafi svo komið til Íslands og ráðið sig til stefnda. Hann kveðst vera með iðnréttindi sem flísalagningamaður, málari og smiður. Sé um að ræða rúmlega þriggja ára nám að baki réttindunum. Hann kveðst ekki hafa talið sig þurfa að leita viðurkenningar á iðnréttindum sínum. Kvað hann hafa verið tekið fram í ráðningarsamingi, bæði við EPST og stefnda, að hann hefði iðnmenntun. Er hann hafi ráðið sig til EPST hafi fyrirtækið verið að leita eftir mönnum með mikla reynslu eða menntun.

Þrír ofangreindra manna hafa staðhæft að þeir séu með iðnréttindi. Samkvæmt framburði þeirra eru þeir allir með réttindi í þremur iðngreinum. Fyrir liggur í málinu skjalleg staðfesting á iðnréttindum Vladisovas Kisielius, dagsett 10. júlí 1985, þar sem fram kemur að hann hafi smiðsréttindi (e. carpenter (builder) of third category). Þá kom, sem fyrr greinir, fram í skýrslu hans fyrir dómi að EPST hafi verið að leita eftir mönnum til starfa hérlendis sem væru með mikla reynslu eða menntun.

Samkvæmt framburði vitnisins Árna Árnasonar, sem kveðst hafa verið við vinnu sem trésmiður við umrætt fjölbýlishús á vegum Aleflis ehf. við sökklasmíði í um það bil þrjár vikur fyrri hluta ársins 2005, unnu Litháarnir m.a. að því að reisa vinnupalla, slá undir, setja skástífur og steypa milli eininga á þeim tíma sem vitnið starfaði við smíði umrædds fjölbýlishúss. Þá ber Litháum þeim, er komu fyrir dóm, saman um að þeir hafi gengið í öll störf við byggingu fjölbýlishússins í Sóleyjarrima og þar á meðal að einhverju leyti sinnt smíðavinnu.

Vætti Árna er í samræmi við framburð þeirra litháísku starfsmanna sem gáfu skýrslu fyrir dómi. Verður dregin sú ályktun af vitnisburði þessara manna að litháísku starfsmennirnir hafi sinnt ýmiss konar iðnaðarmannastörfum við byggingu umrædds fjölbýlishúss, þar á meðal störfum trésmiða.

Í skýrslu Finnbjörns Aðalvíkings Hermannssonar, formanns Samiðnar, fyrir dómi kom fram að iðnréttindi, eins og þau sem Litháarnir hafi aflað sér, séu viðurkennd hérlendis og fái viðkomandi starfsréttindi í þeim hluta iðngreinar, sem hann er lærður í, en ábyrgð á störfum þeirra sé lögð á fyrirtækin.

Hér að framan er getið þeirra breytinga á lögum nr. 55/1980 sem gerðar voru með 1. gr. laga nr. 145/2004. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 145/2004, kemur fram að svo hafi verið litið á að eftirlit með að kjarasamningar skuli haldnir sé á ábyrgð samningsaðilanna sjálfra. Þar af leiðandi hafi hvorki tíðkast að opinberir aðilar hafi viðhaft sérstakt eftirlit með því að atvinnurekendur haldi gerða kjarasamninga né hvort efni þeirra brjóti hugsanlega í bága við innlenda löggjöf. Verði það að teljast eðlilegt að aðilarnir semji jafnframt um það í frjálsum samningaviðræðum hvernig eftirliti með launum og öðrum starfskjörum launafólks skuli háttað, telji þeir sérstaka þörf á því.

Í fyrrgreindu samkomulagi ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði segir að það sé hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga á vinnustað að gæta þess að gerðir kjarasamningar séu haldnir gagnvart starfsfólki, sbr. 9. gr. laga nr. 80/1938. Sé ekki trúnaðarmaður á vinnustað hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og ber sömu skyldur. Að öðru leyti en kveðið er á um í samkomulaginu er ekki að sjá að frekari fyrirmælum sé til að dreifa um það hvernig haga beri eftirliti með því að kjarasamningar séu virtir þegar útlendingar eiga í hlut. Stefnandi, Trésmíðafélag Reykjavíkur, hafði ekki tilnefnt trúnaðarmenn á umræddu vinnusvæði stefnda samkvæmt fyrirmælum 9. gr. laga nr. 80/1938. Þegar horft er til efnis samkomulags ASÍ og SA og þeirra forsendna og þess markmiðs, sem það er reist á, verður við þær aðstæður, sem uppi eru í máli þessu, að játa viðkomandi stéttarfélagi rétt og jafnframt skyldur til að gæta þess að þeir litháísku starfsmenn, sem sinntu störfum byggingariðnaðarmanna hjá stefnda, nytu lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Samiðnar - sambands iðnfélaga fyrir hönd aðildarfélaga í málmiðnaði, byggingariðnaði og skrúðgarðyrkju hins vegar. Í skjóli þessarar samningsbundnu hagsmunagæslu hefur stefnandi lögvarða hagsmuni af því að gera þær kröfur á hendur stefnda sem hann hefur uppi í máli þessu og á jafnframt aðild að því, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn áðurnefndu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins með því að láta undir höfuð leggjast að láta í té afrit allra vinnuskýrslna og launaseðla erlendra starfsmanna sem hjá honum hafa starfað á árinu 2005.

Ekki verður séð að krafa beinlínis þess efnis að stefndi legði fram „afrit allra vinnuskýrslna“ hafi komi fram með formlegum hætti fyrr en við höfðun málsins. Undir rekstri þess lagði stefndi fram yfirlit yfir unnar vinnustundir, annars vegar vegna hópa í maí, júní og júlí 2005 þar sem „allir vinna jafnt“ og hins vegar vegna nokkurra lítháískra starfsmanna vegna tímabilsins frá júní til desember 2005. Stefnandi hefur ekki haldið því fram að þessi yfirlit séu ekki vegna allra þeirra litháísku manna er unnið hafi í þágu stefnda á umræddu tímabili. Að áliti dómsins hefur stefndi lagt fram þær vinnuskýrslur, sem krafist hefur verið, og því fullnægt ofangreindri kröfu stefnanda að því leyti. Er stefndi því sýknaður af þeirri kröfu stefnanda.

Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað verður að miða við að krafa hans um afhendingu launaseðla erlendra starfsmanna, sem hjá honum störfuðu árið 2005, taki til afhendingar launaseðla frá EPST og Darlista. Þeir litháísku starfsmenn, sem voru yfirheyrðir fyrir dómi, hafa borið að þeir hafi fengið greidd laun í Litháen frá nefndum fyrirtækjum áður en þeir réðu sig til starfa hjá stefnda. Verður því ekki talið að slíkt ráðningarsamband hafi verið milli stefnda og starfsmannanna á því tímabili, sem þeir fengu greidd laun frá litháísku fyrirtækjunum, að það sé á valdi hans að láta stefnanda í té þá launaseðla sem umrædd viðurkenningarkrafa lýtur að. Er stefndi því einnig sýknaður af þeirri kröfu stefnanda.

Í öðru lagi krefst stefnandi þess að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að standa að því að greiða erlendum starfsmönnum laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga.

Eins og rakið hefur verið verður að telja sannað að hinir litháísku starfsmenn hafi sinnt ýmiss konar iðnaðarmannastörfum við byggingu umrædds fjölbýlishúss, þ.á m. störfum trésmiða. Þá hefur verið rakið það markmið samkomulags aðila vinnumarkaðarins, um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, að stuðla að því að fyrirtæki, sem nýta erlent vinnuafl vegna framleiðslu sinnar og þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi, svo og að tryggja framkvæmd gildandi laga um starfskjör útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, þ.á m. laga nr. 55/1980. Í ljósi þessa verður að telja að stefnda hafi borið að gæta þess í samningum sínum við áðurnefnd litháísk fyrirtæki, svo og við framkvæmd þessara samninga, að starfsmenn þeirra fengju greidd laun og byggju við önnur starfskjör, eins og fyrrgreint samkomulag aðila vinnumarkaðarins segir til um, meðan þeir störfuð í þágu stefnda hér á landi. Getur stefndi ekki vikið sér undan skyldu sinni í þessu efni þótt hinir erlendu starfsmenn geti, á grundvelli 5. gr. laga nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, höfðað mál hér á landi vegna vanefnda vinnuveitanda á skyldum sínum enda verður að telja að stefndi hafi borið sjálfstæðar skyldur að þessu leyti.

Stefndi hefur staðhæft að hann hafi greitt hinum erlendu fyrirtækjum 1.100 kr. fyrir hverja klukkustund sem starfsmenn fyrirtækjanna hafa unnið fyrir hann. Stefndi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn því til staðfestingar. Að beiðni samráðsnefndar ASÍ og SA um málefni útlendinga samkvæmt samkomulaginu frá 7. mars 2004 aflaði Vinnumálastofnun upplýsinga frá vinnumálayfirvöldum í Vilnius í Litháen um hvort fyrirtækin EPST og Darlista starfi í samræmi við litháísk lög um starfsmannaleigur og fullnægi lagaskilyrðum um að þeim hafi verið heimilt að flytja verkafólk hingað til lands án dvalar- og atvinnuleyfa. Samkvæmt upplýsingum, sem Vinnumálastofnun aflaði í þessu skyni, er EPST fyritæki sem framleiðir einingahús en leigir ekki starfsmenn. Haldi fyrirtækið út teymi starfsmanna hér á landi til að setja upp hús sem hingað eru seld. Starfsmennirnir (e. workers) séu faglærðir og nær allir hafi prófskírteini í byggingariðnaði (e. certificates in construction). Fái starfsmenn greiddar 1.000 litas og einnig dagpeninga þegar þeir eru staðsettir á vettvangi. Fyrirtækið Darlista muni hafa svipaða starfsemi með höndum og EPST. Hjá því vinni fastir starfsmenn og sendi fyrirtækið teymi hingað til lands. Meginverksvið þess séu húsbyggingar og innréttingar. Starfsmennirnir séu sagðir vera faglærðir og hafi 1.000 litas í laun auk dagpeninga þegar þeir dvelja á vettvangi. Í bréfi Vinnumálastofnunar frá 9. nóvember 2005 er tekið fram að ein litháísk lita jafngildi 20,90 kr.

Samkvæmt því, sem rakið hefur verið og framburði litháísku starfsmannanna fyrir dómi, þykir nægilega sannað að mánaðarlaun starfsmanna fyrirtækjanna EPST og Darlista hafi verið 1.000 litas á mánuði þann tíma sem þeir störfuðu hér á landi í þágu stefnda. Mun það jafngilda um 20.900 kr. á mánuði. Dagpeningar, sem þeir kunna að hafa fengið greidda að auki, skipta ekki máli þegar metið er hver eiginleg mánaðarlaun þeirra hafa verið. Er því engun vafa undirorpið að laun þessi eru verulega lægri en þau lágmarkslaun sem starfsmönnunum voru tryggð samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 3. gr. laga nr. 54/2001.

Í fyrirliggjandi samningum stefnda við fyrirtækin EPST og Darlista er ekki að finna nein ákvæði um launakjör þeirra starfsmanna sem eiga að inna af hendi þau verk sem kveðið er á um í þeim. Þar er heldur ekki til að dreifa neinum ákvæðum um hvernig tryggja beri starfsmönnunum laun og önnur kjör í samræmi við íslenska kjarasamninga. Ekkert er að finna í gögnum málsins sem gefur til kynna að stefndi hafi gert ráðstafanir til að tryggja hinum litháísku starfsmönnum launakjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Með því hefur stefndi brotið alvarlega gegn þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt nefndu samkomulagi um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Samkvæmt því ber að fallast á kröfu stefnanda um að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að standa að því að greiða erlendum starfsmönnum laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga.

Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar samkvæmt heimild í 65. gr. laga nr. 80/1938 en í því ákvæði er mælt fyrir um að Félagsdómur geti dæmt aðila til að greiða m.a. sektir. Að mati dómsins felst ekki 70. gr. nefndra laga, sbr. 65. gr. þeirra, nægilega skýr refsiheimild til að gera stefnda sekt í máli þessu. Verður stefndi því sýknaður af þessari kröfu stefnanda.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

  

Dómsorð:

Stefndi, Sóleyjabyggð ehf., braut gegn 7. gr. laga nr. 80/1938, með því að standa að því að greiða erlendum starfsmönnum laun undir lágmarkskjörum kjarasamninga.

Að öðru leyti er stefndi sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Samiðnar, sambands iðnfélaga vegna Trésmíðafélags Reykjavíkur, í máli þessu.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

 

  

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira