Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 213/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 213/2017

Þriðjudaginn 26. september 2017

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með bréfi 14. maí 2017 kærðu A og B, fósturforeldrar D, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar C 12. apríl 2017 vegna umgengni E, við D, en E er föðuramma stúlkunnar. Er þess krafist að hinum kærða úrskurði verði hnekkt.

I. Málsatvik og málsmeðferð

D er rúmlega X ár[a] og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar C. Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá kærendum. Hún hefur verið hjá þeim í fóstri frá því að hún var X mánaða gömul er kynmóðir hennar afsalaði sér forsjá. Kynfaðir stúlkunnar, F, hefur aldrei haft forsjá en hann nýtur umgengnisréttar þrisvar sinnum á ári í tvær stundir í senn samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar C 28. ágúst 2013. E er föðuramma stúlkunnar en hún hefur fylgt kynföður í umgengni í nokkur skipti án þess að kveðið hafi verið á um það í úrskurði um umgengni.

E óskaði eftir því við Barnaverndarnefnd C 20. febrúar 2017 að hún fengi sjálfstæðan rétt til þess að hitta stúlkuna. Úrskurðað var um málið á fundi Barnaverndarnefndar C 12. apríl 2017. Í úrskurðinum kom fram að ekki þætti tilefni til að ákvarða E sjálfstæða umgengni við barnið. Á hinn bóginn horfði nefndin til þess að hún hefði í nokkur skipti fylgt syni sínum í umgengni og verið honum þar til stuðnings. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Heimilt er að föðuramma barnsins fylgi föðurnum í umgengni, enda sé barnaverndarnefnd gert viðvart um það með hæfilegum fyrirvara.[...]“

II. Sjónarmið kærenda og kröfur

Krafa kærenda er að úrskurði Barnaverndarnefndar C varðandi umgengni E við D verði hnekkt.

Kærendur benda á að þegar barn fari í varanlegt fóstur sé gert ráð fyrir umgengni við kynforeldra, ekki sé rætt um aðra ættingja. Tilgangurinn með umgengni við kynforeldra sé ekki að mynda tilfinningaleg tengsl heldur að barnið viti hver uppruni þess sé. Ekki sé ætlunin að byggja upp sterk eða djúp tilfinningatengsl við kynforeldri, hvað þá aðra ættingja. Kærendur vísa í þessu sambandi til úrskurðar kærunefndar barnaverndarmála í máli nr. 18/2013. E hafi aldrei annast barnið á þann hátt að myndast hafi tilfinningatengsl á milli þeirra og ekki sé ástæða til þess að byggja upp slík tengsl þar sem um varanlegt fóstur sé að ræða.

E hafi komið óboðin í fyrstu umgengni kynforeldra í X 2014. Hún hafi ruðst inn og yfirtekið umgengnistímann algerlega. Í næstu umgengni hafi hún ekki komið en frá X [2015] hafi hún komið með kynföður samkvæmt ósk hans við kærendur. Eftir að kynfaðir hafi stefnt kærendum fyrir dómstóla í X 2016 hafi kærendum fundist grundvöllur brostinn fyrir því að gera honum þann greiða að móðir hans kæmi með í umgengni.

D hafi enga hagsmuni af því að umgangast E en það sé grundvöllur málsins. Allt verði að taka mið af því hvað sé best fyrir stúlkuna en ekki aðra sem komi að málinu, hvort sem viðkomandi sé ættingi eða ekki. Að auki hafi kærendur byrjað í því ferli að reyna að ættleiða D og í ljósi þess finnist þeim ekki forsvaranlegt að E fái umgengnisrétt.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C til úrskurðarnefndarinnar 7. júlí 2017 er vísað til þess að hinn kærði úrskurður sé samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Um sé að ræða úrskurð sem feli í sér þá breytingu á fyrri úrskurði um umgengni kynföður við stúlkuna að honum sé heimilt að hafa móður sína í fylgd með sér í umgengni.

Barnaverndarnefndin hafi falið kærendum umsjá stúlkunnar í X 2013 þegar hún hafi verið X mánaða gömul, eftir að kynmóðir hafi afsalað sér forsjánni til nefndarinnar. Að uppfylltum lagaskilyrðum hafi barnaverndarnefndin svo samið við kærendur um að stúlkan yrði hjá þeim í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Mál vegna umgengni kynföður við stúlkuna hafi komið til úrskurðar hjá barnaverndarnefndinni 28. ágúst 2013. Ákveðið hafi verið að hann fengi umgengni við stúlkuna þrisvar á ári í tvo tíma í senn á fósturheimilinu. Kynfaðir hafi kært úrskurðinn til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem hafi staðfest hann.

Eftir að umgengni kynföður hófst hafi móðir hans, E, jafnan verið í för með honum og tekið þátt í umgengninni. Hvorki kærendur né starfsmenn barnaverndarnefndar hafi gert athugasemd við þátttöku hennar og beri að líta svo á að um hana hafi gilt samkomulag. E hafi ekki haft sjálfstæðan rétt til umgengni og því hafi ekki beinlínis verið lagt mat á það hvort aðild hennar væri stúlkunni til hagsbóta. Þó sé augljóst að aðild E hafi á engan hátt verið talin vinna gegn markmiðum umgengninnar og hafi að minnsta kosti af hálfu barnaverndarnefndarinnar verið talin eðlileg og án minnstu óþæginda fyrir stúlkuna en kynföður til halds og trausts.

Eftir að kynfaðir hafi höfðað mál á hendur barnaverndarnefnd og kærendum til ógildingar á fóstursamningi og gert kröfu um að honum yrði falin forsjá stúlkunnar, hafi kærendur gert kröfu um að umgengnin færi í einu og öllu eftir ákvæðum úrskurðarins frá 28. ágúst 2013. Þau hafi þannig sagt upp hinu óformlega samkomulagi um að E fylgdi syni sínum í umgengnina. Þau hafi sagt að þau kærðu sig ekki um að koma til móts við óskir mæðginanna að þessu leyti eftir að kynfaðir stúlkunnar hafði stefnt þeim fyrir dóm.

Með tölvubréfi 20. febrúar 2017 hafi barnaverndarnefndinni borist tölvupóstur frá E með ósk um umgengni við sonardóttur sína. Hafi komið fram að þetta væri í samræmi við óskir kynföður en hann hafi staðfest það í símtali við starfsmann barnaverndarnefndar. Erindið hafi verið afgreitt 12. apríl 2017 með hinum kærða úrskurði.

Um rökstuðning fyrir ákvörðun barnaverndarnefndarinnar sé vísað til þess að E sé ekki talin nákomin stúlkunni og því séu ekki efni til að úrskurða henni sjálfstæða umgengni. Á hinn bóginn beri að líta svo á að sú skipan að hún sé samferða syni sínum í umgengni og viðstödd hana hafi fest sig í sessi og stúlkan vanist henni. Málshöfðun kynföður breyti þar engu um. Ekki verði fallist á að þátttaka E, eins og henni hafi verið lýst að framan, sé andstæð hag stúlkunnar og þörfum.

Barnaverndarnefnd C krefst þess að kærunni verði vísað frá og úrskurður barnaverndarnefndarinnar frá 12. apríl 2017 verði staðfestur.

IV. Afstaða D

Í ljósi ungs aldurs stúlkunnar var henni hvorki skipaður talsmaður né sjónarmiða hennar aflað.

V. Afstaða F og E

Í tölvupósti E til úrskurðarnefndarinnar 20. september 2017 lýsir hún sameiginlega fyrir sína hönd og F, föður stúlkunnar, afstöðu þeirra til málsins.

Vísað er til þess að F hafi verið með stúlkunni og G barnsmóður sinni á fæðingardeildinni í viku til 10 daga eftir fæðingu stúlkunnar vegna þess að „þetta virtist allt vera frekar erfitt“ fyrir G. F hafi skipt á stúlkunni, baðað hana og gert allt sem þurfti að gera. Hann hafi sofið á fæðingardeildinni og E hafi keyrt þangað hvert einasta kvöld með kvöldmat handa þeim báðum.

Þegar komið hafi að því að G færi af fæðingardeildinni hafi hún farið heim til föður síns en þangað hafi F og E ekki verið velkomin vegna föður G. Þau hafi stundum farið þangað þegar G hafi verið ein heima með stúlkuna, eingöngu til þess að aðstoða hana og að fylgjast með að allt væri í lagi með stúlkuna. Ekki hafi bætt úr skák að faðir G hafi verið fullur öll kvöld, tuðandi og röflandi yfir henni alls slags vitleysu. Þau E og F hafi verið mjög áhyggjufull yfir þessu ástandi. Þau hafi lítið getað gert þar sem þau hafi ekki verið velkomin nálægt heimilinu og því í ömurlegri aðstöðu. Eitt kvöldið hafi G rifist við föður sinn og hann hent henni út á götu með stúlkuna X vikna gamla. G hafi hringt í F og þau E farið að sækja hana. Um kvöldið hafi G verið með stúlkuna inni í stofu og þá sagt við E að hún ætlaði að spjalla við vinkonu sína. Hafi hún beðið E að líta eftir stúlkunni. Það næsta sem hafi gerst var að F hringdi og hafi sagt E að fulltrúi barnaverndarnefndar hefði hringt í sig og sagt að E væri búin að læsa sig og stúlkuna inni og hafi neitað að láta G hafa stúlkuna.

Þarna hafi E alls ekki vitað hvað um væri að vera. Hún hafi útskýrt fyrir F hvernig málin væru en ekkert getað gert. G hafi komið inn með aðila frá barnaverndarnefndinni, tekið stúlkuna, farið upp í bíl til vinkonu sinnar og þær hafi ekið í burtu. Þarna hafi F reynt að segja starfsmanni barnaverndarnefndar að G væri á götunni með stúlkuna og að hún væri örugg hjá þeim, en ekki með G einhvers staðar út í bæ.

Þarna hafi G tekið stúlkuna frá þeim vegna þess að hún hafi ekki mátt fá kærastann inn til E. Fulltrúi barnaverndarnefndarinnar hafi tilkynnt þeim að hér með væri afskiptum þeirra F af málinu lokið. Það hafi þau ekki viljað sætta sig við þar sem þeim hafi ekki verið sama um velferð stúlkunnar.

E hafi hringt í barnaverndarnefnd daginn eftir til að vita hvort G væri enn á götunni með stúlkuna. Þeim hafi þá verið sagt að hún væri búin að fá gistingu hjá vinkonu yfir helgina en þetta hafi gerst á fimmtudegi. Hafi þeim aftur verið tjáð að aðild þeirra að málinu væri lokið. Þau hafi neitað því og sagt að umhyggju þeirra fyrir stúlkunni yrði aldrei lokið. Síðan hafi þau setið í skugganum þangað til F hafi heyrt úti í bæ að stúlkan ætti að fara í fóstur.

Næsta sem þau viti sé að F hafi verið kallaður á fund með fulltrúa barnaverndarnefndar. E hafi farið með honum. Þar hafi honum verið tjáð að G sé að hugsa um að setja stúlkuna í fóstur og hvað honum fyndist um það. F hafi alfarið neitað því og sagt að hann vildi sjá um stúlkuna sjálfur með 100% stuðningi frá E. Starfsmaður barnaverndarnefndar hafi upplýst að G vildi alls ekki að hann fengi stúlkuna.

Stúlkan hafi farið í fóstur án samþykkis F og hann hafi fengið að sjá hana í eina klukkustund fjórum sinnum á ári. F og E hafi strax byrjað að berjast fyrir forsjá stúlkunnar og því að auka heimsóknartímann meðan á málinu stæði.

Undanfarin fjögur ár hafi verið mjög erfið en þau mæðginin séu búin að berjast fyrir mannréttindum sínum til að þau geti öll fengið að umgangast. Það eina sem þau hafi fengið út úr því sé auka klukkustund fjórum sinnum á ári. Það sé búið að stöðva E í tvígang við að koma með F í heimsóknir sem sé mjög slæmt því að F vilji hafa hana með til stuðnings. Það sé ekki þægilegt að hafa fósturforeldra og fulltrúa barnaverndarnefndar andandi ofan í hálsmálið á manni og standa einn í þessu öllu. Það sé verið að mála einhverja hryllingsmynd af E, föðurömmu stúlkunnar, en það eina sem hún vilji sé að hafa eðlilegt samband við barnabarn sitt, eða eins eðlilegt og hægt sé miðað við aðstæður. Það eina sem E og F vilji sé að komið verði fram við þau af sanngirni og með mannúðlegum hætti.

Það sé mjög skiljanlegt að F vilji stuðning E sem sé hans eigin móðir. Fósturforeldrar og barnaverndarnefnd hafi viðhaft endalaust skítkast gagnvart þeim, algjörlega af ástæðulausu. Þau hafi aldrei fengið að fara með stúlkuna út úr húsi fósturforeldra þrátt fyrir að F hafi spurt fyrir hverja einustu heimsókn í tvö ár. Svarið hafi alltaf verið „hún er of lítil“ sem sé þvaður.

Þau mæðgin hafi ítrekað í öll þessi fjögur ár reynt að fá meiri umgengni við stúlkuna og virkilega sýnt áhuga á að hafa hana í sínu lífi, eins og eigi að vera undir öllum eðlilegum kringumstæðum. Þetta sé ekkert eðlilegt mál og það eigi ekki við hér að umgengni við E þjóni ekki markmiðum fósturs. Það hafi aldrei verið vilji fyrir því, hvorki E né F, að stúlkan yrði sett í fóstur. Þau hafi aldrei fengið tækifæri til að hafa hana, hvorki E né F. Þetta mál sé af allt öðrum toga þar sem þau hafi stöðugt hafnað fósturráðstöfuninni.

Mál sé nú rekið fyrir dómstólum þar sem farið sé fram á ógildingu á ákvörðun barnaverndarnefndar og ógildingu á fóstursamningnum. Þess vegna sé ekki rétt að hindra umgengni og koma þannig í veg fyrir að þau tengist stúlkunni sama hvað stjórnvöld segi. Málið eigi eftir að fara fyrir mannréttindadómstól síðar meir.

V. Niðurstaða

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ekki sé tilefni til að úrskurða E sjálfstæða umgengni við D þar sem E teljist ekki nákomin stúlkunni í skilningi bvl., enda sé ekki vitað til þess að hún hafi annast barnið eða haft umsjón þess. Hún hafi fylgt syni sínum í umgengni í nokkur skipti, án þess að kveðið hafi verið á um það í úrskurði, og verið honum þar til stuðnings. Þar kemur einnig fram að barnaverndarnefndin telji skorta rök fyrir því að fylgd E í umgengnina sé andstæð hagsmunum barnsins. Það geti verið barninu til hagsbóta að viðhalda skipan sem komin hafi verið á að þessu leyti. Samkvæmt úrskurðarorði er E heimilt að fylgja syni sínum í umgengni, enda sé barnaverndarnefnd gert viðvart með hæfilegum fyrirvara.

Ofangreint verður að mati úrskurðarnefndarinnar ekki skilið á annan veg en þann að barnaverndarnefndin hafi í reynd úrskurðað E sameiginlegan umgengnisrétt með syni sínum F, föður stúlkunnar.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við ráðstöfun barns í fóstur skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt. Samkvæmt þessu er réttur barnsins til umgengni takmörkuð af þeim skilyrðum sem þar koma fram.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til kynforeldra sinna.

Í gögnum málsins kemur fram að stúlkan hefur verið hjá fósturforeldrunum frá því að hún var X mánaða gömul. Hún er nú rúmlega X ár[a] og hefur aldrei verið í umsjá kynforeldra sinna eða annarra líffræðilegra ættingja. Af þessum ástæðum hefur stúlkan hvorki kynnst né tengst E, enda er fósturfjölskyldan eina fjölskyldan sem hún hefur þekkt. Fram hefur komið að stúlkan muni verða áfram hjá fósturforeldrum þar til hún verður 18 ára en fósturforeldrarnir hafa tekið að sér það vandasama verkefni að ala stúlkuna upp, búa henni sem bestan hag og sjá til þess að þörfum hennar verði sinnt á þann hátt sem þjónar hagsmunum hennar. Stúlkan hefur þegar myndað sterk tilfinningatengsl við fósturforeldra en þessi tengsl eru henni nauðsynleg og afar mikilvæg. Þessari tengslamyndun má ekki raska umfram það sem nauðsynlegt er.

Varðandi umgengni E við stúlkuna er óhjákvæmilegt að líta til þess hverjir hagsmunir stúlkunnar eru og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hennar að njóta umgengni við E.

Barn tengist ekki öðrum einstaklingum tilfinningaböndum eingöngu vegna líffræðilegra erfða heldur gegnum stöðug tengsl í frumbernsku. Stúlkan hefur í þessu tilfelli ekki sjálfstæða þörf fyrir tengsl við E þar sem hún tilheyrir nú annarri fjölskyldu. Stúlkan á að sjálfsögðu rétt á að fá að vita um uppruna sinn að því marki sem hún hefur aldur og þroska til en framtíðin mun síðan skera úr um það hvort um umgengni verður þá að ræða eða ekki.

Úrskurðarnefndin telur það ekki vera til hagsbóta fyrir stúlkuna að þvinga fram umgengni E á heimili fósturforeldra og í andstöðu við þeirra vilja. Um slíkt þarf að ríkja sátt á milli aðila og umgengnin þarf að ganga átaklaust fyrir sig. Í þessu tilviki eru andstæð sjónarmið varðandi umgengni E. Þvinguð umgengni getur haft í för með sér samskiptaörðugleika sem geta haft neikvæð áhrif fyrir stúlkuna. Það getur aldrei þjónað hagsmunum barns að aðalumönnunaraðilar og ættingjar séu ósáttir og standi í deilum sín á milli. Mikilvægt er að stúlkan finni til öryggis í umgengni en það er best tryggt með því að umgengni við kynföður fari fram ótrufluð.

Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar 8. september 2017 til F, föður stúlkunnar, var þess óskað að hann upplýsti um afstöðu sína til kæruefnis. Ítrekun var send 18. september 2017. Að auki var haft samband við hann símleiðis. Sjálfstæð afstaða hans barst ekki en móðir hans, E, sendi úrskurðarnefndinni tölvupóst sem hún kvað vera frá þeim báðum. Samkvæmt þessu liggja engar upplýsingar fyrir frá F sjálfum um afstöðu hans til umgengni E.

Málatilbúnað E verður að skilja á þann veg að faðir stúlkunnar þurfi stuðning þar sem honum finnist erfitt að mæta einn í umgengni. Það liggur í hlutarins eðli að faðir á að rækja umgengni sjálfstætt og á eigin forsendum. Hafi hann ekki getu til þess þarf hann að sýna fram á að nærvera þriðja manns sé honum nauðsynleg í umgengninni en það hefur hann ekki gert.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var ekki lagður réttur grunnur að málinu við úrlausn þess hjá Barnaverndarnefnd C. Er því óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og vísa málinu til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar C frá 12. apríl 2017 er felldur úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

Lára Sverrisdóttir

Björn Jóhannesson

Guðfinna Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira