Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 571/2017 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 571/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070046

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. júlí 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. júlí 2017, um að synja honum um dvalarleyfi vegna náms.

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi vegna náms á Íslandi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli náms með umsókn sem móttekin var hjá Útlendingastofnun þann 6. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. júlí 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til sömu stofnunar þann 12. júlí 2017 og barst kæran kærunefnd útlendingamála ásamt öðrum gögnum málsins þann 20. júlí 2017. Greinargerð kæranda barst samhliða kæru.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 þar sem fram kemur að heimilt sé að veita útlendingi sem hyggst stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt b-lið 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla. Í 15. tölul. 3. gr. laga um útlendinga er orðið nám skilgreint. Þar segir að nám, eins og það sé notað í lögunum, sé samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í 2. mgr. 12. gr. e. eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 kom fram að iðnnám gæti verið grundvöllur dvalarleyfis hér á landi en slíka heimild sé ekki að finna í núgildandi lögum um útlendinga.

Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi sé skráður í nám á […] í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Inntökuskilyrði námsins, sem lúti að undirbúningsmenntun, séu að kærandi hafi lokið grunnskólaprófi. Stúdentspróf sé almennt inntökuskilyrði í nám á háskólastigi og sé því ekki um að ræða sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar. Þar af leiðandi uppfylli hann ekki skilyrði um að vera skráður í nám á háskólastigi eða nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Var það því niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi greinir frá því í greinargerð að hann muni stunda fullt nám hér á landi. Þá greinir kærandi frá því að hann hafi lokið framhaldsskólanámi í […] og komi því ekki beint úr grunnskóla til að nema […]. Iðnmenntun hans yrði því framhaldsmenntun hvað sem líði inntökuskilyrðum í framhaldsskóla. Þá kveðst kærandi eiga fjölskyldu á Íslandi, bróður og lítinn frænda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að kæru á synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda, dags. 6. júní 2017, um dvalarleyfi vegna náms hér á landi, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Synjun Útlendingastofnunar er byggð á því að kærandi stundi ekki nám á háskólastigi eða nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í málinu liggur fyrir að kærandi er skráður í nám á haustönn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Í 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Þá segir í b-lið 2. mgr. 65. gr. að skilyrði fyrir veitingu leyfisins sé að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla.

Í 65. gr. laga um útlendinga er ekki skilgreint nánar hvað felst í hugtakinu nám samkvæmt ákvæðinu. Slíka orðskýringu er að finna í 15. tölul. 3. gr. laganna þar sem kemur fram að hugtakið merki í skilningi laganna samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fari á vinnustöðum, eða annað það nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þá kemur jafnframt fram í athugasemdum við 65. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 80/2016 að dvalarleyfi vegna náms sé veitt útlendingum sem hyggjast stunda fullt nám hér á landi og sé forsenda leyfisins sú að umsækjandi hafi fengið skólavist í viðurkenndum háskóla á Íslandi. Við mat á því hvort um fullt nám sé að ræða skuli að jafnaði miða við 30 ECTS á önn eða samsvarandi.

Kærunefnd telur að skýra beri ákvæði 65. gr. laga um útlendinga til samræmis við 15. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi laganna. Verður b-liður 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga því ekki skýrður á annan veg en að það sé skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms að útlendingur stundi fullt og samfellt nám á háskólastigi, eða annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla.

Í máli þessu liggur fyrir staðfesting frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja um að kærandi hafi fengið skólavist við skólann á […] frá ágúst 2017. […] hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til kennslu á framhaldsskólastigi, sbr. 12. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt upplýsingum frá […] eru aðgangskröfur á […] að hafa lokið námi í grunnskóla. Verður því ekki fallist á að nám kæranda í […] geti talist fullt nám á háskólastigi né annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Ekki fæst séð að undanþágur í 65. gr. eigi við í máli kæranda.

Líkt og fram hefur komið kveðst kærandi eiga ættingja hér á landi. Rétt er að leiðbeina kæranda um það að hann getur lagt inn umsókn hjá Útlendingastofnun um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga. Synji stofnunin kæranda um dvalarleyfi er sú ákvörðun kæranleg til kærunefndar útlendingamála.

Með vísan til alls framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                  Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira