Hoppa yfir valmynd

Loftslagsráð

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Skipað 25. maí 2018.

Ráðinu er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi, þ.m.t. aðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim.

Loftslagsráð skal hafa náið samstarf við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og önnur ráðuneyti og stofnanir sem vinna að loftslagsmálum og skyldum málum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun mynda samstarfshóp með ráðinu, þar sem munu vera fulltrúar frá Landgræðslu ríkisins, Skipulagsstofnun, Skógræktinni, Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands, auk annara stofnana ráðuneytisins eftir því sem ástæða er til hverju sinni. Þá skal Loftslagsráð hafa samstarf við nýstofnað ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Óskað er eftir því að Loftslagsráð taki til skoðunar þörf á öðrum samstarfshópum, s.s. á sviði atvinnulífsins, þar sem fulltrúar einstakra atvinnugreina ættu sæti. Ráðið kallar til sín fulltrúa frá atvinnulífinu, sveitarfélögum, vísindasamfélaginu, frjálsum félagasamtökum og öðrum eins og þörf er á, til að það nýtist sem best sem vettvangur umræðu og mótunar framsækinnar framtíðarsýnar.

Loftslagsráð hefur leiðbeiningar- og fræðsluhlutverk gagnvart almenningi, fyrirtækjum, stofnunum og stjórnvöldum. Þá er það hlutverk loftslagsráðs að rýna aðgerðaáætlanir stjórnvalda um mótvægisaðgerðir og aðlögun, auk áætlana um rannsóknir á afleiðingum loftslagsbreytinga og á loftslagsvænni tækni. Loftslagsráð skal gera tillögur til umhverfis- og auðlindaráðherra um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála á Íslandi fyrir 1. október 2018.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að allar helstu áætlanir stjórnvalda eigi að rýna með tilliti til loftslagsmála. Ráðið skal gera tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir lok árs 2018 um hver skuli hafa það hlutverk með höndum og hvernig það sé best gert.

Loftslagsráði er jafnframt falið að vinna greinargerð um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 og hvernig sé unnt að ná því. Gert er ráð fyrir að ráðið kynni sér áætlanir annarra ríkja sem stefna að kolefnishlutleysi, skoði forsendur og mælikvarða og komi með ábendingar um hvernig best sé að vinna að markmiðinu. Greinargerðinni skal skilað til umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir 1. mars 2019.

Önnur verkefni ráðsins mótast af hlutverki þess og möguleikum til að vinna verkefni. Loftslagsráð fær fjárframlög af fjárlögum. Lögð er áhersla á að ráðið vinni með stjórnvöldum og stofnunum sem sinna loftslagsmálum til að forðast tvíverknað, byggja brýr milli stjórnvalda og annara og tryggja að vinna ráðsins nýtist sem best.

Nánari upplýsingar um Loftslagsráð

Án tilnefningar

Halldór Þorgeirsson, formaður,
Brynhildur Davíðsdóttir, varaformaður.

Samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins
Pétur Reimarsson

Samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna
Sigurður Ingi Friðleifsson.

Samkvæmt tilnefningu íslenskra sveitarfélaga
Hrönn Hrafnsdóttir

Samkvæmt tilnefningu Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð
Jóhanna Harpa Árnadóttir

Samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands
Sigurður Eyþórsson

Samkvæmt tilnefningu háskólasamfélagsins
Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir og
Steingrímur Jónsson

Samkvæmt tilnefningu umhverfisverndarsamtaka
Árni Finnsson og
Ragnhildur Freysteinsdóttir

Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira