Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2018 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra kynnir fyrirkomulag stjórnarskrárvinnu á kjörtímabilinu.

Fjölmenni við Arnarhól - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti í dag formönnum þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi tillögu að fyrirkomulagi stjórnarskrárvinnu á komandi kjörtímabili. Sú tillaga byggist á umræðum sem formenn flokka áttu um þessi mál á síðasta kjörtímabili og er birt hér á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Tillagan byggist á þeirri framtíðarsýn að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili. Markmiðið er að þegar þessari heildstæðu yfirferð verði lokið endurspegli íslenska stjórnarskráin sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð.

Gert er ráð fyrir því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði áfangaskipt. Allir flokkar sem sæti eigi á Alþingi vinni sameiginlega að því að fara skipulega og heildstætt yfir stjórnarskrá lýðveldisins og tillögur sem fram hafa komið á undanförnum árum með það fyrir augum að vinna að breytingartillögum sem lagðar yrðu fyrir Alþingi hverju sinni í breiðri sátt að undangengnu víðtæku samráði. Hliðsjón verður höfð af þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, sbr. t.d. þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda árin 2005-2007 og árin 2013-2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi, auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram. Vinnan verði unnin með eins opnum og gagnsæjum hætti og mögulegt er.

Meðfylgjandi er minnisblað frá forsætisráðherra til formanna allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira