Hoppa yfir valmynd
29. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Kvennamóttaka sett á fót hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Kvennamóttaka sett á fót hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins - myndStjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að ráðast í tilraunaverkefni um sérstaka móttöku fyrir konur innan heilsugæslunnar. Þetta er gert þar sem vísbendingar eru um að þörfum kvenna fyrir heilbrigðisþjónustu þegar um ræðir sértæk heilsufarsvandamál kvenna, sé ekki mætt sem skyldi. Heilsugæslan hefur fengið 60 milljóna króna viðbótarframlag vegna verkefnisins, þar af fær Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu 15 milljónir króna. Hlutverk þróunarmiðstöðvarinnar verður að tryggja þekkingaröflun á þessu sviði og koma þeim á framfæri á landsvísu.

Sem dæmi um málefni sem mikilvægt er að heilsugæslan sinni og varða konur sérstaklega eru breytingaskeið kvenna, upplýsingar um getnaðarvarnir, ráðgjöf um ofbeldi og afleiðingar þess og ýmsir sjúkdómar sem herja sérstaklega á konur, svo eitthvað sé nefnt. Vegna þessa hefur verið bent á að sérstakar móttökur fyrir konur í heilsugæslu gætu verið góð leið til að uppfylla betur þarfir þeirra fyrir þjónustu. Í því tilraunaverkefni sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í er miðað við opnun einnar kvennamóttöku innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem mönnuð verði stöðugildum heilbrigðisstarfsfólks sem hefur reynslu og þekkingu á viðfangsefninu, s.s. læknum, hjúkrunarfræðingum eða ljósmæðrum. Áhersla verður lögð á að starfsfólkið sé í stakk búið til að greina þann vanda sem um ræðir og bregðast rétt við, auk þess að hafa aðgengilegar réttar og gagnreyndar upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk, konur og allan almenning.

Undirbúningur að opnun kvennamóttöku hefst nú þegar af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum