Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þjóðfundur um framtíð skólaþjónustu

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, boðar til þjóðfundar um framtíð skólaþjónustu á Íslandi mánudaginn 6. mars kl. 9:00–16:00 í Silfurbergi í Hörpu og í streymi. Boð var sent til haghafa í síðustu viku og hafa þegar yfir 350 skráð sig til þátttöku í Hörpu. Opið er fyrir skráningar til og með 26. febrúar nk.

Tilgangur þjóðfundarins er að ræða niðurstöður samráðs um ný heildarlög um skólaþjónustu, varpa ljósi á álitamál og leita lausna í sameiningu. Erindum á þjóðfundinum verður streymt á vef Stjórnarráðsins og þau túlkuð á táknmáli bæði í sal og í streymi. Að framsögu lokinni tekur við hópvinna þar sem þátttakendur ræða ýmis álitamál varðandi skólaþjónustu og leita lausna í sameiningu. Nánari dagskrá verður tilkynnt fljótlega.

Mennta- og barnamálaráðherra kynnti í haust áform sín um að leggja fram ný heildarlög um skólaþjónustu. Haldin var ráðstefna um áformin og samráð í húsfylli á Grand Hótel Reykjavík í haust. Undanfarna mánuði hefur staðið yfir umfangsmikið samráðsferli við fjölbreyttan hóp haghafa þar sem m.a. um 300 manns tóku þátt á rafrænum samráðsfundum í desembermánuði. Niðurstöður fyrsta hluta samráðsferlisins sýna að töluverður samhljómur ríkir meðal ólíkra haghafa um áherslur og heildarsýn á skólaþjónustu á Íslandi en þó standa eftir ýmis mikilvæg  úrlausnarefni.

Þátttakendur eru hvattir til að mæta á staðinn og leggja sitt af mörkum til að móta framtíð skólaþjónustu á Íslandi í hópvinnu. Til að gefa sem flestum færi á því að taka þátt og til að svara ákalli um rafræna þátttöku þá gefst þátttakendum einnig kostur á að skrá sig í hópvinnu sem fer fram á netinu í framhaldi af erindum í streymi.

Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig.

Ath. Þau sem ætla eingöngu að fylgjast með í streymi án þess að taka þátt í hópvinnu á netinu þurfa ekki að skrá sig.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum