Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áform um samruna Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri í samráðsgátt

Háskólinn á Akureyri og Borgir, þar sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er til húsa. - mynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda áform um að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verði hluti af Háskólanum á Akureyri. Hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar starfa um 10 sérfræðingar í um 6 stöðugildum og er stofnunin með aðalskrifstofur í Borgum á Akureyri auk þess að vera með aðstöðu á Ísafirði og Flateyri.

Um er að ræða hluta af áformuðum breytingum á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins þar sem m.a. er leitast við að einfalda það til muna, efla þekkingar- og lærdómssamfélag og nýta betur þekkingu, innviði og gögn. Við greiningu á sérstöðu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar var m.a. horft til þess mats Ríkisendurskoðunar að eðlilegast væri að stofnunin heyrði beint undir Háskólann á Akureyri.

Í stefnu stjórnvalda í málefnum norðurslóða er lögð áhersla á uppbyggingu miðstöðvar norðurslóða á Akureyri. Þar fer fram ýmis starfsemi sem tengist rannsóknum, vöktun og miðlun þekkingar um norðurslóðir. Má þar m.a. nefna Norðurslóðanet Íslands, sem er samstarfsvettvangur innlendra aðila sem fjalla um norðurslóðir, tvær skrifstofur vinnuhópa Norðurskautsráðsins, The Conservation Arctic Fauna(CAFF) og Protection of the Marine Environment(PAME) og skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC), sem hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. Þessar skrifstofur eru staðsettar ásamt Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í Borgum, rannsókna- og nýsköpunarhúsi Háskólans á Akureyri. Með samruna háskólans og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar gefst tækifæri til að skoða og endurmeta samstarfsmöguleika við aðra norðurslóðaaðila á Akureyri, einkum Norðurslóðanetið.

Stefnt er að því að hin nýja rannsóknastofnun verði vettvangur rannsókna á norðurslóðum með áherslu á þverfagleg mannvísindi og starfi í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Til að samruni þessi geti átt sér stað þarf að leggja niður Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem kallar á brottfall laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997. Meðfylgjandi áformum um lagasetninguna eru því drög að frumvarpi til laga um brottfall laga nr. 81/1997.

Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna áformanna og frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 13. febrúar nk.

Samruni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum