Hoppa yfir valmynd
13. desember 2018 Innviðaráðuneytið

Sjö sveitarfélög taka þátt í tilraunaverkefni um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni

Kynningarfundur með tilraunasveitarfélögum á Húsavík - myndVelferðarráðuneytið

Tilraunaverkefni hafið í uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni:

Félagsmálaráðherra kynnir sjö tilraunasveitarfélög í húsnæðismálum

  • Tilraunaverkefnið getur m.a. falið í sér nýbyggingar, endurbætur á eldra íbúðarhúsnæði eða breytingar á atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.
  • Meðal fyrirmynda eru lausnir frá Noregi en stórt hlutfall sveitarfélaga þar hefur tekist á við sambærilegar áskoranir og íslensk sveitarfélög á landsbyggðinni
  • Tilraunasveitarfélögin eru hvött til samstarfs við Bríeti, nýstofnað landsbyggðarleigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs
  • Þau sjö sveitarfélög sem urðu fyrir valinu eru Snæfellsbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Norðurþing, Hörgársveit, Dalabyggð, Vesturbyggð og Seyðisfjarðarkaupstaður

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, kynnti í dag á fundi á Húsavík hvaða sjö sveitarfélög verða þau fyrstu til að taka þátt í tilraunaverkefni um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Undanfarinn áratug hefur mikil stöðnun ríkt í byggingu á nýju húsnæði á landsbyggðinni þrátt fyrir mörg ný atvinnutækifæri og mikla fjölgun íbúa á sumum stöðum. Stjórnvöld hyggjast nú reyna að rjúfa þessa stöðnun. Íbúðalánasjóður auglýsti eftir þátttakendum í verkefnið í haust og sóttu alls 33 sveitarfélög um frá öllum landshlutum. Nær öll verkefnin þóttu áhugaverð en ákveðið hefur verið að Dalabyggð, Vesturbyggð, Snæfellsbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Norðurþing, Hörgársveit og Seyðisfjarðarkaupstaður verði fyrst í röðinni.

Íbúðalánasjóður mun í kjölfarið bjóða hinum sveitarfélögunum 26 til samtals um framhald þeirra verkefna, með það fyrir augum að einnig verði hægt að ráðast í uppbyggingu hjá þeim. Mun framhald þeirra verkefna meðal annars mótast af reynslu tilraunasveitarfélaganna.

Tilraunasveitarfélögin hvött til samstarfs við Bríeti

Ráðherra greindi frá því í gær að Íbúðalánasjóður hygðist stofna opinbert leigufélag sem hefur fengið nafnið Bríet. Leigufélagið mun taka við flestum þeim fasteignum sem eru á hendi sjóðsins í dag, sem eru hátt í 300 talsins, og reka hagkvæma leiguþjónustu með sérstaka áherslu á landsbyggðina. Leigufélagið er liður í aðgerðum sem tengjast tilraunaverkefninu og eru tilraunasveitarfélögin sjö hvött til samstarfs við Bríeti en mörg þeirra reka nú þegar félagslegt leiguhúsnæði.

Markmið tilraunaverkefnisins er að leita nýrra leiða til þess að bregðast við húsnæðisvandanum sem ríkir víðsvegar á landsbyggðinni vegna óvirks íbúða- og leigumarkaðar og skorts á viðunandi íbúðarhúsnæði. Ríkisstjórnin hefur sett húsnæðimálin á oddinn og kemur m.a. fram í stjórnarsáttmála hennar að stuðla skuli að eflingu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði, óháð búsetu. Ljóst er hins vegar að við mismunandi áskoranir er að etja á ólíkum landssvæðum.

Horft sérstaklega á svæði þar sem húsnæðisskortur hamlar atvinnuuppbyggingu
Síðastliðið sumar samþykkti Alþingi stefnumótandi byggðaáætlun sem kveður á um markmið um fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar annarri uppbyggingu í sveitarfélaginu. Tilraunaverkefnið, sem nú er komið af stað, er viðbragð við vandamálum af þessum toga sem mörg sveitarfélög glíma við og leiða til þess að fólk finnur ekki húsnæði við hæfi á þeim stöðum sem það kýs að búa og sækir atvinnu í dag.

Tilraunasveitarfélögin glíma við ólík vandamál

Sérstakur starfshópur, sem í sátu fulltrúar Íbúðalánasjóðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar, fór yfir umsóknir sveitarfélaga um þátttöku í verkefninu. Valið á tilraunasveitarfélögunum tók mið af því að áskoranirnar sem þau stæðu frammi fyrir væru mismunandi og á ólíkum landsvæðum. Þannig verði til breiðara framboð lausna í húsnæðimálum sem nýst geti fleiri sveitarfélögum með sambærilegar eða svipaðar áskoranir. Tilraunaverkefnið getur m.a. falið í sér nýbyggingar, endurbætur á eldra íbúðarhúsnæði eða breytingar á atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Allt leiðir sem fela í sér fjölgun íbúða.

Meðal fyrirmynda í tilraunaverkefninu eru lausnir frá Noregi en stórt hlutfall sveitarfélaga þar hefur tekist á við sambærilegar áskoranir og íslensk sveitarfélög á landsbyggðinni, svo sem ótryggan eða staðnaðan húsnæðismarkað eða mikinn skort á íbúðarhúsnæði. Þar hefur aðgengi að sértækum úrræðum, með fjármögnunarleiðum frá Husbanken (systurstofnun Íbúðalánasjóðs) eflt búsetu á svæðum þar sem fjármálastofnanir hafa ekki sinnt lánveitingum.

Ásmundur Einar Daðason, félag- og jafnréttismálaráðherra leggur áherslu á að öruggt húsnæði er ein af grunnstoðunum í samfélaginu:„Í því felst að framboð íbúðarhúsnæðis sé í samræmi við eftirspurn. Við viljum að fólk geti búið og starfað á landinu öllu og aðgangur að viðunandi húsnæði á viðkomandi landssvæði er þar algjör lykilþáttur. Uppbygging íbúðahúsnæðis á landsbyggðinni hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, ekki frekar en á höfuðborgarsvæðinu og hefur húsnæðisskorturinn haft slæmar afleiðingar í för með sér. Dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi jafnvel staðið atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum í sveitarfélögum á landsbyggðinni. Regluleg endurnýjun húsnæðis er öllum samfélögum nauðsynleg til að þau geti þróast. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að brugðist verði við þessari stöðu. Atvinnulíf á landsbyggðinni er í góðum vexti um þessar mundir og húsnæðisskortur á ekki að standa í vegi fyrir því. Það er því þarft að bregðast við af krafti til þess að fólki standi viðunandi húsnæði til boða, hvort sem er til kaupa eða leigu“ segir ráðherra.

Meðfylgjandi eru myndir frá kynningarfundunum í Búðardal og á Húsavík. Á fyrstu myndinni frá vinstri sem tekin er á Húsavík eru: Elmar Erlendsson sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri Hörgársveit, Ađalheiđur Borgþórsdóttir bæjarstjóri Seyđisfjarđarkaupstađar og Kristján Magnússon sveitarstjóri Norđurþings

Á annarri myndinni sem tekin er á kynningarfundinum í Búðardal eru frá vinstri: Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar, Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Kristján Sturluson veitarstjóri Dalabyggðar, Elmar Erlendsson sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs og Kristján Þ. Halldórsson sérfræðingur hjá Byggðastofnun. 

 

 

  • Kynningarfundur með tilraunasveitarfélögum í Búðardal - mynd
  • Ráðherra á kynningarfundi á Húsavík - mynd
  • Frá kynningarfundinum á Húsavík - mynd
  • Frá kynningarfundinum á Húsavík - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum