Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

Fjölmennasti ársfundur Heimsráðs kvenleiðtoga frá upphafi

Frá fundinum í dag.  - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrði ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) í Hörpu í dag.  Sérstök umræða fór fram um aukið kynbundið ofbeldi vegna  heimsfaraldurs COVID-19 þar sem Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women var frummælandi ásamt forsætisráðherra.

Ársfundurinn, sem að þessu sinni fór fram með fjarfundarbúnaði, er fjölmennasti ársfundur Heimsráðsins frá stofnun þess 1996. 

Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women var sérstakur gestur Heimsráðsins í tilefni af 25 ára afmæli fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking 1995 þar sem samþykkt var pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna (Pekingáætlunin).

Kvenleiðtogarnir voru sammála um að sú aukning á tilkynntum ofbeldisbrotum gegn konum og börnum frá því að heimsfaraldurinn braust út undirstriki mikilvægi þess að ríkisstjórnir uppfylli að fullu ákvæði Pekingáætlunarinnar, ekki síst þau er snúa að forvörnum og upprætingu kynbundins ofbeldis.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Covid-19 faraldurinn hefur magnað upp bakslagið í kynjajafnréttismálum á heimsvísu. Það skiptir miklu máli að ríki heims uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar um að berjast gegn kynbundnu ofbeldi með öllum leiðum. Þegar við tökum ákvarðanir til að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins er nauðsynlegt að huga að jafnréttissjónarmiðum. Ekki síst ofbeldismálum, við eigum að leggja okkur fram við að fletja út kúrfu kynbundins ofbeldis á sama tíma og við fletjum út kúrfu smita.”

Ársfundur Heimsráðsins er haldinn í tengslum við Heimsþing kvenleiðtoga sem fram fer með fjarfundabúnaði frá Hörpu dagana 9. til 11. nóvember.

Heimsráð kvenleiðtoga var stofnað 1996 af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands ásamt Lauru Liswood, stjórnmálafræðingi, sem enn starfar sem framkvæmdastjóri þess. Félagar í samtökunum eru starfandi og fyrrverandi forsetar og forsætisráðherrar úr röðum kvenna, alls 79 konur frá yfir fimmtíu ríkjum. Markmið ráðsins er að hvetja konur í valdastöðum um heim allan til að láta sig jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna varða. Ráðið einsetur sér jafnframt að stuðla að góðum stjórnarháttum í því skyni að koma á jafnrétti og tryggja lýðræði.

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna
 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira