Hoppa yfir valmynd
2. mars 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Mikill áhugi á norrænni ráðstefnu um geðheilbrigðismál 23. mars

Þekktir fyrirlesarar, íslenskir og erlendir, á sviði geðheilbrigðismála flytja erindi og taka þátt í vinnu- og málstofum um helstu áskoranir, strauma og stefnur sem snúa að geðheilbrigði og geðheilbrigðisþjónustu á norrænni ráðstefnu í Hörpu 23. mars næstkomandi. Þar koma einnig saman heilbrigðisráðherrar Norðurlandaþjóðanna til að ræða um þær áskoranir sem þeir telja stærstar og hvaða leiðir þeir telja færar til að takast á við þær á árangursríkan hátt.

Ráðstefnan er haldin í tilefni af formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Þema ráðstefnunnar er Collaboration and Co-Production sem endurspeglar áherslu á hvernig unnt sé að nálgast þetta mikilvæga heilbrigðismál á árangursríkan máta með virkri samvinnu. Í því ljósi var breiður hópur sérfræðinga fenginn til að deila þekkingu sinni og reynslu í fyrirlestrum og málstofum. Þar með eru taldir fulltrúar frá samtökum notenda, sérfræðingar á sviði stefnumótunar, rannsakendur og einstaklingar sem þekkja til geðheilbrigðisþjónustu af eigin reynslu. 

Ráðstefnugestir víða að úr heiminum

Ráðstefnan og efni hennar hefur ekki einungis vakið áhuga og athygli meðal Norðurlandaþjóðanna því þátttakendur sem þegar hafa skráð sig koma víða að frá fjölmörgum löndum. Þegar hafa 200 manns skráð sig til þátttöku og stefnir í að færri komist að en vilji. Hægt verður að fylgjast með ráðstefnunni og dagskrárliðum tengdum henni í beinni útsendingu á netinu. Áhersla er lögð á virka þátttöku ráðstefnugesta, hvort sem þeir eru á staðnum eða fylgjast með í streymi og verður notað app (sli.do) sem varpar spurningum og vangaveltum þeirra inn í sal.

Nánari upplýsingar um fyrirlesara, dagskrá o.fl. eru á vefsíðu ráðstefnunnar og þar er einnig skráningarform fyrir þátttöku. Óskað er eftir því að þátttakendur skrái sig, hvort sem þeir hyggjast mæta í Hörpu eða fylgjast með streymi frá ráðstefnunni. Aðgangur er ókeypis.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum