Hoppa yfir valmynd
27. júní 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samningur undirritaður um eflingu heimagistingarvaktar

Eftirlit með heimagistingu verður mun virkara og sýnilegra með styrkingu á heimagistingarvakt Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála og Þórólfur Halldórsson sýslumaðurinn á  höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í dag samkomulag þar um.

Samningurinn kveður á um 64 milljóna króna fjárveitingu til embættisins en það fer með eftirlit með heimagistingu á öllu landinu. Er þetta gert til að  öðlast yfirsýn yfir raunverulegt umfang heimagistingar, tryggja rétt skattskil einstaklinga og að lögaðilar sem stunda gististarfsemi afli sér rekstrarleyfis og starfsemin fari þar með að þeim lögum sem um hana gilda.

Hin svokallað 90 daga regla tók gildi í ársbyrjun 2017 en í henni felst að einstaklingum er heimilt að leigja út lögheimili sín og eina aðra fasteign sem er í þeirra eigu til allt að 90 daga á hverju almanaksári án þess að lúta sömu reglum um leyfi og gjöld og gilda um atvinnurekstur. Skráning fer fram með rafrænum hætti á www.heimagisting.is

Lagt er upp með að átaksverkefnið verði til eins árs og er markmiðið að það hafi hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum í heimagistingarvakt verði fjölgað úr þremur í ellefu og koma þeir til með að framkvæma vettvangsrannsóknir í kjölfar ábendinga frá almenningi eða á grundvelli upplýsinga sem koma fram í frumkvæðiseftirliti. Þá verða í hópnum tveir lögfræðingar sem munu halda utan um stjórnsýslumeðferð og ákvarðanir um stjórnvaldssektir. Þess má geta að frá því að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók við málaflokki gististaða árið 2015 hefur umfang skammtímaleigu sjöfaldast.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála: „Það er ósanngjarnt gagnvart löglegum rekstri að menn komist upp með að spila ekki eftir reglunum. Við verðum að tryggja að allt sé uppi á borðum. Ég bind því miklar vonir við þetta samstarf við sýslumann og vænti þess að við sjáum stóraukinn fjölda skráninga heimagistingar innan skamms. Við höldum á sama tíma áfram að skoða málefni tengd gististarfsemi með öðrum ráðuneytum, skattinum og öðrum aðilum stjórnkerfisins sem hafa það sameiginlega verkefni að móta heildstæða umgjörð og eftirlit heimagistingar.“

Þórólfur Halldórsson sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu: „Ég fagna ákvörðun ráðherra um eflingu heimagistingarvaktarinnar. Ljóst er að allt of margir hafa ekki skráð þá heimagistingu sem að þeir halda úti og það er von okkar að þeir bregðist nú hratt við og skrái þær hið fyrsta enda mikilvægt allra vegna að þessi starfsemi sé uppi á borðinu.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum