Hoppa yfir valmynd
8. júní 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál samþykkt á Alþingi


Þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi var samþykkt á Alþingi í gær. Í tillögunni er fjallað um alls 22 aðgerðir sem því tengjast en meginmarkmið þeirra eru að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

„Okkur þykir vænt um tungumálið og við erum stolt af því. Við ætlum að tryggja framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi. Þetta er samvinnuverkefni og við þurfum sem þjóð að leggjast öll á árar. Þetta verkefni er ekki átak heldur viðvarandi áskorun, verkefni sem við berum öll ábyrgð á: stjórnvöld, atvinnulíf og fólkið sem byggir þetta land. Þingsályktunartillagan sem samþykkt var í gær rammar inn þær aðgerðir sem mikilvægast er að ráðast í,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í greinargerð með þingsályktuninni kemur fram að mikilvægt sé að styrkja stöðu þjóðtungunnar á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjist aðgerða af hálfu stjórnvalda til að tryggja að tungumál eins og íslenska séu gjaldgeng í samskiptum sem byggjast á tölvu- og upplýsingatækni. Þá segir í greinargerðinni að framboð á afþreyingarefni á ensku hafi aukist gríðarlega á síðustu árum. Merki séu um að fleira ungt fólk velji að lesa á ensku og reglulega berist fregnir af því að börn og ungmenni velji að leika sér á ensku. Með minnkandi bóklestri sé raunveruleg hætta á því að það sem áður taldist eðlilegt ritmál fari að þykja tyrfið og torlesið.

Aðgerðirnar sem tilgreindar eru í þingsályktuninni snerta allar hliðar þjóðlífsins, þar á meðal menntun og skólastarf, menningu, tækniþróun, aðgengi, listir, nýsköpun, stefnumótun, stjórnsýslu og atvinnulíf. Nokkrum aðgerðum tillögunnar hefur þegar verið hrint í framkvæmd, þar á meðal nýjum lögum sem heimila stuðning við útgáfu bóka á íslensku, nýr barna- og unglingabókasjóður var stofnsettur í vetur og fór fyrsta úthlutun hans fram á dögunum, og fyrir þinginu liggur stjórnarfrumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira