Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Bókaútgáfa í sókn – úrval eykst fyrir yngri lesendur

Bókaútgáfa er í sókn ef marka má skráða titla í Bókatíðindum ársins 2020. Þar kemur fram að heildarfjöldi skráðra titla, þ.e. prentaðar bækur, hljóð- og rafbækur er 861 sem er áþekkur fjöldi og í fyrra sem þó var metár í útgáfu hér á landi.

Líkt og fyrr eru töluverðar sveiflur milli ára eftir því hvers konar bækur koma út. Vísbendingar eru þó um að úrval efnis fyrir yngri lesendur haldi áfram að aukast en þegar horft er til flokka þeirra bóka (myndskreyttar bækur, skáldverk og fræðibækur fyrir börn og ungmennabækur) koma út alls 295 slíkir titlar í ár. Þar munar mest um fjölgun myndskreyttra barnabóka en þeim fjölgar um 75% milli ára.

„Þetta er jákvæð þróun og virkilega mikilvæg fyrir yngri lesendur. Þær vísbendingar sem við sjáum í fjölgun útgefinna titla í heild sinni eru einnig jákvæðar og til marks um árangur af þeirri aðgerð stjórnvalda að styðja með virkum hætti við útgáfu bóka á íslensku,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.



Athuga ber að Bókatíðindi eru ekki tæmandi yfirlit um íslenska útgáfu í heild sinni því ekki eru allar bækur skráðar þar og í þeirri tölfræði er ekki gerður greinarmunur á frum- og endurútgáfum bóka.

Endurgreiðslur vegna útgáfu hófust í fyrra og voru þá greiddar tæpar 78 milljónir kr. vegna 266 umsókna. Við skoðun á ársuppgjöri fyrsta stuðningsársins er mikilvægt að hafa í huga að aðeins hluti bókaútgáfu ársins 2019 var þá kominn fram en útgefendur hafa níu mánuði frá útgáfudegi til að sækja um endurgreiðslu og því vantar þar meginþorra bóka sem voru útgefnar eftir mitt ár 2019, þar með talið jólaútgáfuna. Það sem af er þessu ári hafa verið greiddar út rúmar 340 milljónir kr. vegna 709 verka.

Nánari upplýsingar um styrki vegna útgáfu bóka á íslensku og endurgreiðsluferlið má finna hér á vefnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum