Hoppa yfir valmynd
29. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Heildarendurskoðun reglugerðar um leysa, leysibenda og IPL-tæki

Reglugerð heilbrigðisráðherra um innflutning og notkun leysa, leysibenda og IPL-tækja hefur verið endurskoðuð í heild og er nú birt til umsagnar. Ábendingar til Geislavarna ríkisins og kvartanir til embættis landlæknis sem tengjast óábyrgri notkun öflugra leysa í fegrunarskyni eru meginástæða endurskoðunarinnar.

Geislavörnum ríkisins hafa ítrekað borist ábendingar um að við fegrunaraðgerðir hafi verið beitt öflugum leysum til að meðhöndla húðbreytingar sem jafnvel geta tengst sortuæxli í húð. Þetta hafi verið gert án aðkomu læknis með viðeigandi sérmenntun. Slíkt getur seinkað greiningu sortuæxlis og haft mjög alvarlegar afleiðingar. Embætti landlæknis hafa einnig borist kvartanir þessu tengdar. Landlæknisembættinu og Geislavörnum hafa einnig borist kvartanir vegna alvarlegs húðbruna þegar öflugum leysum hefur verið beitt til að fjarlægja húðflúr.

Í meðfylgjandi drögum að endurskoðaðri reglugerð er lagt til að notkun öflugra leysa í fegrunarskyni skuli vera á ábyrgð læknis með viðeigandi sérmenntun sem starfi þar sem notkunin fer fram. Einnig er lagt til að auknar kröfur verði gerðar um þjálfun þeirra sem nota slík tæki.

Við endurskoðunina kom einnig í ljós að þörf var á frekari minni háttar breytingum á reglugerðinni, meðal annars varðandi skilgreiningar, leyfisveitingar, ábyrgð leyfishafa og öryggisreglur. Var því reglugerðin endurskoðuð í heild sinni og ákveðið að gefa út nýja reglugerð, enda öllum greinum hennar breytt.

Frestur til að skila inn umsögn er til 26. júní næstkomandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira