Hoppa yfir valmynd
27. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Aðild Íslands að norrænum samningskaupum á dýrum frumlyfjum lofar góðu

Aðild Íslands að norrænum samningskaupum á dýrum frumlyfjum lofar góðu - myndStjórnarráðið

Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa boðið BlueBird Bio, markaðsleyfishafa lyfsins Zynteglo, í sameiginleg norræn samningskaup. Þetta er fyrsta lyfið sem til greina kemur að semja um á þennan hátt í samstarfi þjóðanna. Vonast er til að með aðild að norrænum samningskaupum geti Ísland náð mun hagstæðari kjörum við kaup á dýrum frumlyfjum en hingað til, aukið möguleikana á innleiðingu nýrra lyfja og betur tryggt sjúklingum sambærilega meðferð og stendur til boða sjúklingum hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Fulltrúar allra landanna taka þátt í samningsviðræðunum sem hefjast væntanlega í júní. Markmiðið er að samningsskilmálar verði eins fyrir öll löndin. Hvort lyfjameðferðin verður tekin upp og greiðsluþátttaka samþykkt verður háð ákvörðun hvers lands fyrir sig. Forsenda þess að lyf sé samþykkt á Íslandi er að það hafi verið tekið í notkun hjá öðrum Norðurlandaþjóðum auk þess sem samþykki Lyfjanefndar Landspítala og staðfesting lyfjagreiðslunefndar um greiðsluþátttöku þarf að liggja fyrir.

Grannþjóðir fá um og yfir 40% afslátt í innkaupum

Ný og kostnaðarsöm lyf eru jafnan mun dýrari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Innkaupasambönd sjúkrahúsa í Noregi og Danmörku hafa á síðustu tólf mánuðum náð samningum um kaup á lyfjum með 40% – 46% afslætti af skráðu lyfjaverði. Óhagstætt innkaupsverð veldur því að innleiðing nýrra og dýrra lyfja hér á landi getur reynst mikil áskorun, eins og oft hefur komið fram í umræðu um þessi mál.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir einstaklega ánægjulegt að sjá nú norrænt samstarf í þessum efnum verða að veruleika: „Lyfið sem um ræðir er ekki stóra málið í þessu samhengi. Það sem skiptir máli og er í raun stórfrétt er að hafa náð þessum áfanga í norrænum samningkaupum lyfja. Lyfjakostnaður er hlutfallslega mjög stór og jafnframt ört vaxandi útgjaldaliður í heilbrigðiskerfinu og þar vegur innleiðing nýrra lyfja þyngst. Árangur á þessu sviði getur því skilað miklum fjárhagslegum ávinningi til viðbótar bættri meðferð fyrir sjúklinga.“

Innkaupadeild Landspítala sér um samningskaup og útboð vegna kaupa á lyfjum fyrir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum