Hoppa yfir valmynd
21. desember 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka um 4,7%

Samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi hvers árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings um sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 3,7% á tólf mánaða tímabili. Í lögunum er einnig að finna nýsamþykkt bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að í upphafi árs 2019 skuli persónuafslátturinn hækka einu prósentustigi umfram vísitölu neysluverðs.
Á grundvelli þessa nemur hækkun persónuafsláttar 4,7% og verður persónuafsláttur einstaklinga 677.358 kr. fyrir árið 2019, eða 56.447 kr. á mánuði. Árlegur persónuafsláttur hækkar samkvæmt því um 30.619 kr. milli áranna 2018 og 2019, eða um 2.552 kr. á mánuði.
Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 159.174 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð samanborið við 151.978 kr. á mánuði árið 2018. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 4,7%.
Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Launþeginn byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 261.329 kr. á mánuði árið 2019, samanborið við 249.514 kr. á mánuði árið 2018.

Tekjuskattur og útsvar í staðgreiðslu

Í nýsamþykktum lögum um breytingar á tekjuskatti einstaklinga skulu þrepamörk tekjuskatts á árinu 2019 nú uppreiknuð í réttu hlutfalli við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði í staðinn fyrir breytingar á launavísitölu. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 11.125.045 kr. árstekjur, eða 927.087 kr. á mánuði fyrir árið 2019.

Skatthlutföll tekjuskatts til ríkisins eru óbreytt frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.

Meðalútsvar verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga óbreytt milli ára, þ.e. 14,44%. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið.
Staðgreiðsluhlutfall ársins 2019 í heild, þ.e. samanlagt hlutfall tekjuskatts og meðalútsvars, verður því áfram 36,94% á tekjur í neðra þrepi og 46,24% á tekjur í efra þrepi.
Útsvar til sveitarfélaga er líkt og tekjuskattur innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 72 sveitarfélögum leggja 55 á hámarksútsvar. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Tvö sveitarfélög munu hækka útsvarsprósentuna.

Tryggingagjald

Tryggingagjald lækkar um 0,25 prósentustig um áramótin. Skipting þess er sem hér segir:
2019

Almennt tryggingagjald                                       5,15%
Atvinnutryggingagjald                                         1,35%
Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota      0,05%
Markaðsgjald                                                       0,05%
Samtals til staðgreiðslu                                        6,60%

Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum. Tryggingagjaldi skal skila mánaðarlega til innheimtumanna ríkissjóðs.

Útsvarshlutfall sveitarfélaga 2018-2019

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum